16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (3706)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Iðnn. Nd. hefur haft til meðferðar till. til þál. um ráðstafanir til að takmarka mengun frá álbræðslunni í Straumi, eins og þar stendur. N. hefur klofnað í málinu, og sem frsm. meiri hl. vil ég gera grein fyrir afstöðu n. í máli mínu.

Frá öndverðu hafa ýmsir þeir, sem af einhverjum ástæðum eru andvígir stóriðju á Íslandi, eins og álbræðslunni í Straumsvík, lagt sig mikið fram um að ófrægja slíkan rekstur, m.a. af þeim sökum, að frá honum stafi hættuleg og banvæn eiturefni, jafnvel bæði fyrir menn og dýr, hvað þá gróður. Hefur í þeim efnum ýmsum hvatvíslegum fullyrðingum verið fram haldið, án þess að þær verði rökstuddar eða byggðar á vísindalegum niðurstöðum. Hitt hefur ekki verið neitt launungarmál, að frá því fyrst var farið að ræða um byggingu álbræðslu hér á landi, var það ljóst, að viss mengun gæti stafað af rekstri hennar, aðallega vegna uppgufunar á flúorvetni frá bræðsluofnum hennar. Má segja, að þetta sé sú eina tegund mengunar, sem orð sé á gerandi í sambandi við rekstur álbræðslunnar. Af þessum sökum hefur bæði fyrr og síðar verið lögð á það megináherzla í samningagerðum ríkisstj. við hið svissneska álfélag og á annan hátt í sambandi við rekstur álbræðslunnar, að fyllstu varúðarreglna sé gætt og ef nauðsyn krefur að koma í veg fyrir skaðleg áhrif hugsanlegrar mengunar.

Í aðalsamningi ríkisstj. við Swiss Aluminium eru eftirfarandi ákvæði, sem hér skipta máli. Í 12. gr. segir m.a.:

„ISAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“

13. gr. um reglur um öryggi, heilbrigði og hreinlæti: „Að tilskildum ákvæðum 12. gr. skal ISAL byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.“

Sá háttur var á hafður, að sett var á laggirnar sérstök mengunarnefnd með samningu eða setningu reglugerðar löngu áður en álbræðslan tók til starfa eða 7. júlí 1967. Í þessari mengunarnefnd eiga sæti tveir fulltrúar af Íslands hálfu, Pétur Sigurjónsson efnaverkfræðingur, forstjóri Rannsóknastofnunar iðnaðarins, og dr. Axel Lydersen, prófessor við Tækniháskólann í Þrándheimi, en af hálfu álbræðslunnar dr. A. Sulsberger, efnaverkfræðingur við rannsóknastofnun í Sviss, og dr. E. Besshard, efnaverkfræðingur og tæknilegur framkvæmdastjóri Íslenzka álfélagsins h/f.

Í stórum dráttum hefur nefndin hagað störfum sínum þannig: Við upphaf og lok vaxtartímabils jurtagróðurs ár hvert, þ.e. að vori og hausti, eru tekin sýnishorn á 25 stöðum. Þessi sýnishorn eru af grasi, trjálaufi, jarðvegi, vatni, lofti og beinum dýra. Þar að auki eru tekin sýnishorn af regnvatni mánaðarlega. Staðir þeir, þar sem sýnishornin eru tekin, hafa verið valdir á ákveðnum svæðum umhverfis verksmiðjuna í allt að 20 km fjarlægð. Enn fremur eru tveir athugunarstaðir í 66 og 78 km fjarlægð. Sýnishornin eru tekin samkv. alþjóðlegum reglum, og er hverju þeirra skipt í þrjá hluta, sem síðan eru efnagreindir hjá Rannsóknastofnun iðnaðarins, áðurnefndri rannsóknastofnun í Sviss og háskólanum í Þrándheimi. Þegar niðurstöður allra þessara rannsókna liggja fyrir, heldur nefndin fund, þar sem niðurstöðurnar eru bornar saman og áhrifin á umhverfið eru metin.

Iðnrn. mun hafa borizt fyrsta skýrsla flúornefndarinnar, sem svo hefur verið nefnd, ásamt bréfi, dags. 7. sept. 1969, en þar var nánar gerð grein fyrir, hvernig hagað mundi töku sýnishorna, en um þessar mundir hóf bræðslan starfsemi sína. Var það ákveðið í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, að flúornefndin héldi áfram starfsemi sinni, en rn. samþykkti einnig, að dr. Páll A. Pálsson yfirdýralæknir annaðist töku beinasýnishorna, en um þau var sérstaklega fjallað í einni grein hins framangreinda samnings.

Þegar flutt var á Alþ. till. til þál., sem hér er um fjallað, hafði ekki enn borizt skýrsla flúornefndarinnar, sú fyrsta eftir að verksmiðjan hafði hafið starfsemi sína. Hins vegar hafði það gerzt, að grasafræðingur hafði tekið þrjú sýnishorn af trjám og greint dagblöðum frá því, að við efnagreiningu hefði reynzt meira flúormagn en eðlilegt væri í þessum sýnishornum. Í grg. þáltill. segir, að þessi frásögn grasafræðingsins hafi vakið mikla athygli. Hins vegar hafi svo við brugðið, að iðnrn. og forstöðumaður Rannsóknastofnunar iðnaðarins, Pétur Sigurjónsson, hafi lagt á það mikið kapp að reyna að gera rannsóknir og niðurstöður grasafræðingsins tortryggilegar. Þessar fullyrðingar í grg. eru staðlausir stafir, sem í sjálfu sér er ekki merkilegt, þegar horft er á, hverjir flm. þáltill. eru. Í frásögnum blaða var engin grg. um það, með hverjum hætti grasafræðingurinn hefði staðið að sýnitökum sínum. En þrjú sýni út af fyrir sig eru að sjálfsögðu enginn grundvöllur vísindalegrar niðurstöðu.

Það, sem iðnrn. gerði, var að skrifa Rannsóknastofnun landbúnaðarins, þar sem þessi embættismaður starfar, og óska eftir grg. um rannsóknir hans og niðurstöður og hvernig að þeim hefði verið staðið. Þessi grg. barst rn., en hún er aðeins örfáar línur, sem frá því greina, að hin þrjú sýni hafi verið tekin samkv. tilmælum héraðslæknisins í Hafnarfirði, og enn fremur, að grasafræðingurinn hafi skoðað fjölmarga garða í Hafnarfirði í júlí og þó aðallega í ágúst og fundið víða greinileg merki sviðnunar í laufi trjánna. Flúormagnið er tilgreint, eins og frá hafði verið skýrt í blöðum, 19–50 hlutar af milljón. Í grg. þáltill., sem hér er til umr., segir:

„Til samanburðar má geta þess, að venjulega hafa aðeins mælzt 5–10 hlutar af milljón flúors í trjátegundum hér á landi.“

Þegar skýrsla flúornefndarinnar barst og iðnrn. fékk hana til meðferðar, kemur m.a. í ljós, að í mörgum sýnum trjátegunda, sem tekin voru, áður en álbræðslan hóf starfsemi sína, er miklu meira flúormagn en flm. þessarar till. tilgreina. Má þar t.d. tilgreina, að flúormagn í reyni í Hellisgerði, í sýni, sem tekið var í sept. 1969, reyndist 27.6 hlutar af milljón, en hins vegar á sama stað 10.6 hlutar af milljón í sept. 1970, eftir að álbræðslan hafði starfað í tæplega ár. Í Hellisgerði í birki í sept. 1969 27.9 hlutar af milljón, en á sama stað 17.8 hlutar af milljón flúors í sept. 1970, eftir að álbræðslan er farin að starfa. Í birki á Vífilsstöðum 18.6 hlutar af milljón í sept. 1969, en 15.4 hlutar af milljón í sept. 1970. Í Fossvogi í birki 21.2 hlutar af milljón í júní 1969 og 16 hlutar af milljón í sept. 1969, en 18.3 hlutar af milljón í sept. 1970. Og hér í Reykjavík í Tjarnargarðinum reyndist flúormagnið í birki 36.5 hlutar af milljón í júní 1969 og 30.9 hlutar af milljón í sept. 1969, en rúmir 22 hlutar af milljón í sept. 1970, þegar álbræðslan er búin að starfa í eitt ár. Það gæti m.a. verið verkefni vísindamanna að skilgreina fyrir þm. og öðrum, í hverju liggur þetta meira flúormagn í gróðri á sama stað ári áður en verksmiðjan hóf starfsemi sína en ári eftir að hún tók til starfa. Grasafræðingurinn, sem flm. þessarar þáltill. vitna til, gæti e.t.v. gefið skýringar á slíku.

Eftir að flúornefndin skilaði skýrslu sinni, dags. 30. okt. 1970, sem iðnn. hefur haft til meðferðar, kom í ljós, að mistök varðandi tilvitnanir í fræðirit höfðu átt sér stað. Að tilhlutan iðnrh. var nefndin kvödd saman til fundar að nýju, og hefur hún nú leiðrétt þessi mistök og auk þess gert tilvitnanir sínar í fræðirit og heimildir fyllri en áður.

Niðurstöður nefndarinnar eru m.a. eftirfarandi: Heildarmynd sú, sem fæst úr skránum og línuritunum, leiðir í ljós, að flúormagn er verulega neðan þeirra magngildismarka, sem þekkt er að orsaki sjáanlegar skemmdir á trjágróðri og flúorveiki í nautgripum, sem fóðraðir eru á algengan hátt. Hæsta stakt gildi í heyi, 31.9 hlutar af milljón, mældist að Vífilsstöðum í sept. 1970. Hæsta stakt gildi í laufi 1970 var 22.9 hlutar af milljón í birki í Reykjavík, lægra en í Hafnarfirði, í birki er enn fremur um að ræða lægra mark en var í júní 1969. Hæsta stakt gildi í barri í sama mánuði var 5.8 hlutar af milljón í greni í Hellisgerði í Hafnarfirði. Enn fremur segir: Heildaryfirlit það, sem fæst af töflunum og línuritunum, leiðir í ljós, að flúormagnið er verulega fyrir neðan þau magngildismörk, sem þekkt er að valdi sjáanlegum skemmdum á trjám og gaddi í nautgripum, sem fóðraðir eru á algengan hátt. Þetta á einnig við um einstaka staði. — Um skaðleysismörk flúorinnihalds segir í nál.: Rit þau, sem til er vitnað hér á eftir, eru frá 1960 og síðar. Misræmi milli ritanna, einkum hinna eldri, kann að stafa frá mismunandi efnagreiningaraðferðum við ákvörðun flúorinnihalds, en þær hafa verið bættar að mun á síðari árum. Áhrif flúors, sem þekkt eru úr fræðiritum og af reynslu, eru háð samsetningu flúorefnanna.

Því hefur verið haldið fram af ýmsum, að skaðleysismörk vegna flúormagns kynnu að vera minni eða lægri hér á landi en annars staðar. Af þessum sökum ritaði iðnn. framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins þann 3. febr. eftirfarandi bréf, sem síðan var greint frá í fréttatilkynningu:

„Þar sem enn hafa ekki verið ákveðin nein skaðleysismörk vegna mengunar almennt hérlendis og þá heldur ekki vegna flúoráhrifa, æskir rn. þess, að Rannsóknaráð ríkisins skipi vel hæfa og sérfróða menn til þess að rannsaka, hvernig eðlilegt teldist að ákveða mörk flúoráhrifa. Rn. mun af sinni hálfu tilnefna mann í nefndina.“

Enn fremur segir í bréfinu:

„Þótt greind hafi verið erlend skaðleysismörk í skýrslu nefndarinnar, er því ekki haldið fram í skýrslunni, að þau gildi hérlendis. Hins vegar ber nauðsyn til, að rannsókn fari nú fram í þessu efni. Fyrir því er framangreind beiðni fram komin.“

Þessi nefnd, sem á að kanna, hver muni vera skaðleysismörk flúoráhrifa hér á landi, hefur nú verið skipuð, og eiga í henni sæti Baldur Johnsen læknir, Eyþór Einarsson grasafræðingur, Runólfur Þórðarson verkfræðingur, Sigmundur Guðbjarnason prófessor og dr. Þorkell Jóhannesson prófessor, en dr. Páll A. Pálsson yfirdýralæknir baðst undan því að taka sæti í nefndinni af persónulegum ástæðum. En í hans stað hefur verið skipaður Guðmundur Pétursson læknir. Síðan hefur dr. Sturla Friðriksson erfðafræðingur af hálfu iðnrn. verið skipaður í nefndina. Þá hefur iðnrh. hlutazt til um að fá til landsins erlenda sérfræðinga á þessu sviði til að eiga viðræður við þessa nefnd og til þess að sérfræðingarnir og vísindamennirnir geti skipzt á skoðunum og þar með auðveldað starf nefndarinnar, og eru þeir nú nýfarnir héðan af landi. Enn fremur hefur iðnrn. aflað skýrslu, sem þrír amerískir vísindamenn sömdu að tilhlutan svissnesku ríkisstj. til álitsgerðar um skaðsemismörk flúormagns í Sviss, og mun mengunarnefndin geta átt aðgang að þessum skýrslum.

Þá er rétt að geta þess, að iðnn. sendi framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins þáltill. til umsagnar, og barst umsögn framkvæmdanefndarinnar með bréfi, dags. 4. marz 1971, og fylgir það nál. okkar, sem skipum meiri hl. iðnn., sem fylgiskjal. Sérstaklega vil ég vísa til niðurlags í bréfi framkvæmdanefndar Rannsóknaráðs ríkisins, þar sem segir:

„Með tilliti til þess, sem hét hefur verið rakið (og þar er vísað til skipunar þeirrar nefndar, sem áður er greint frá, til að rannsaka skaðleysismörkin), getur framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins að sjálfsögðu ekki dæmt um það, hvort nauðsynlegt er að setja upp hreinsunartæki við álbræðsluna í Straumsvík, fyrr en niðurstöður ofangreindrar nefndar liggja fyrir.“

Undir bréf þetta ritar Steingrímur Hermannsson fyrir hönd framkvæmdanefndar Rannsóknaráðs, en hann situr nú á Alþ. sem varaþm. Framsfl.

Herra forseti. Að fenginni reynslu annarra þjóða væri fráleitt að koma hér á stóriðju án þess að taka tillit til hugsanlegrar mengunar og gera ráðstafanir til að fyrirbyggja hana, ef þörf krefur. Hitt er jafnfráleitt að hafna nýjum atvinnugreinum, aukningu þjóðartekna og lífskjarabót til almennings, sem þeim geta fylgt, vegna þess að erlendis hafi mengun fylgt slíkri iðju, sérstaklega þó þar, sem ekkert hefur verið gert til að fyrirbyggja hana.

Með vísun til alls þess, sem hér hefur verið sagt, verður ekki umdeilt, að frá öndverðu hefur gætt mikillar varúðar af hálfu íslenzkra stjórnvalda í samningsgerð um álbræðsluna og varðandi rannsóknir og athuganir á hugsanlega skaðlegum áhrifum flúormengunar, eftir að rekstur hennar hófst. Niðurstöður rannsókna hafa ekki enn leitt í ljós, að nauðsyn beri til þess án tafar að krefjast þess, að sett séu upp hreinsitæki í verksmiðjunni, en hins vegar hefur iðnrh. lýst því yfir oftar en einu sinni á Alþ., að sú krafa verði gerð, ef niðurstöður vísindalegra rannsókna bendi til, að þess sé þörf. Samkvæmt aðalsamningnum milli ríkisstj. og svissneska álfélagsins er ótvíræð skylda ISALs til þess að setja upp hreinsitæki í álbræðslunni, ef slíkar aðstæður reynast vera fyrir hendi á grundvelli sérfræðilegra rannsókna. Framhaldsrannsókn mun að sjálfsögðu gefa fyllri upplýsingar til ákvörðunar á þessu sviði.

Meiri hl. iðnn. hv. Nd. telur, að fyllsta öryggis hafi verið gætt af hálfu fyrirsvarsmanna íslenzkra stjórnvalda á þessu sviði og því sé engin ástæða til þess að ætla, að látið verði undir höfuð leggjast að setja upp fullkomin hreinsitæki í álbræðslunni að kröfu íslenzkra stjórnvalda, ef öryggisástæður krefjast. Þess vegna leggur meiri hl. iðnn. til, að þáltill. á þskj. 16, um ráðstafanir til að takmarka mengun frá álbræðslunni í Straumi, sé vísað til ríkisstj.