16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3707)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Margt hefur verið rætt og ritað um náttúruvernd og mengun síðustu missirin, bæði hér á landi og annars staðar. Hin harða og tæknilega þróaða sókn mannsins í skaut móður jarðar og umhverfisins eftir lífsgæðum og betri lífskjörum hefur vissulega í för með sér hættur.

Hin þróuðu og þéttbýlu iðnaðarlönd hafa þegar orðið alvarlega fyrir barðinu á þessum vanda, og til þess eru vítin að varast þau. Við Íslendingar, sem enn búum í tiltölulega ósnortnu landi, getum lært mikið af reynslu þessara þjóða og höfum tiltölulega góða aðstöðu til þess að bregðast skynsamlega við vandanum, ekki með óhemjuskap og öfgum á hvorugan bóginn, heldur með þekkingu, vísindalegu og yfirveguðu mati í hverju tilfelli.

En það eru ekki bara hinar iðnþróuðu og fjölmennu þjóðir, sem eru í vanda. Jafnvel þótt við Íslendingar vildum hafna öllum þróuðum iðnaði og þeim lífskjörum, sem honum fylgja, og hverfa aftur að öllu leyti til hinna svo kölluðu þjóðlegu atvinnuhátta, landbúnaðar og fiskveiða, þá erum við samt enn í miklum vanda. Þjóðinni hefur fjölgað, og kröfur hennar til lífskjara hafa vaxið. Við sættum okkur ekki við lægri lífskjör en nágrannaþjóðir okkar búa við. Við vitum mætavel, að fiskstofnar okkar eru sóttir til fullra nytja og sennilega er um nokkra rányrkju að ræða. Við vitum mætavel, og það segja vísindamenn okkur einnig, að beitilönd okkar eru víða ofnýtt til skaða og uppblásturs.

Vissulega horfir þetta til landeyðingar, ef ekki er að gert. En það er ekki þar með sagt, að nauðsynlegt sé að draga stórlega úr fiskveiðum eða skera niður fé landsmanna. Viðbrögðin eiga auðvitað að vera vísindalegs eðlis: Verndun ungviðis og vísindaleg vernd og nýting fiskstofna annars vegar og ræktun beitilanda hins vegar. En jafnvel þó að brugðizt sé við þessum vanda með festu og þekkingu, hlýtur öllum að vera ljóst, að getu hinna þjóðlegu atvinnuvega til þess að standa undir vaxandi fólksfjölda og auknum kröfum um bætt lífskjör og félagslegt öryggi eru nokkur takmörk sett.

Ég held, að sú stefna, sem núv. ríkisstj. beitti sér fyrir um iðnvæðingu þjóðarinnar, hafi verið óumflýjanleg nauðsyn. Þjóðin varð að koma á fót nýrri útflutningsframleiðslu og gat ekki látið einangra sig í viðskiptum og samskiptum við aðrar þjóðir.

E.t.v. stendur mannkynið hér gagnvart nýjum vanda, — ekki bara við Íslendingar, heldur mannkynið allt. Fjölgun fólks, kröfur um aukinn hagvöxt og bætt lífskjör hljóta að auka sókn hins tæknivædda mannkyns í skaut náttúrunnar með þeim afleiðingum, sem af því kunna að hljótast, ef ekki er gætt hófs. Á hinn bóginn má vissulega hugsa sér hina gömlu heimspekikenningu að fólkið hverfi aftur til náttúrunnar, láti sér nægja þokkalega fæðu á hinum hagstæðari árstímum, en þreyi þorrann og góuna þess á milli og hafni lífskjörum vorra tíma. En þeir tímar eru liðnir og koma aldrei aftur. Vandamálin liggja nokkuð ljóst fyrir. Öfgar á báða bóga eru óþarfar og leysa ekki þann vanda, sem við er að etja. Öllum ætti að vera ljóst, að náttúruvernd og skynsamleg viðbrögð gegn mengun eru nauðsynleg, en það má ekki heldur koma í veg fyrir eðlilega og skynsamlega nýtingu náttúrugæða.

Hér hef ég dregið upp mynd af nokkrum öfgum á báða bóga, en því miður öfgum, sem þjóðin á við að stríða í dag. Allt of margir Íslendingar virðast hafa tilhneigingu til þess að kasta sér út í þessar öfgar á annan hvorn bóginn af lífi og sál. En mér er spurn: Geta þessir öfgamenn borið ábyrgð á gerðum sínum og afstöðu? Geta þeir haft nokkur áhrif á farsæla lausn þessara vandamála? Ég get að vísu vel skilið þá menn og umborið þá menn, sem af heilum hug hneigjast til annarrar hvorrar öfgastefnunnar, því að báðar hafa þær nokkuð til síns máls, ef aðeins önnur hlið vandamálsins er skoðuð. En ég á erfiðara með að skilja þá menn og verra með að umbera þá menn, sem ættu að heita ábyrgir stjórnmálamenn og kosnir eru af þjóðinni til þess að ráða fram úr vanda hennar, eins og hann er hverju sinni, en nota jafnviðkvæmt vandamál og hér er um að ræða á hinn hráskinnalegasta hátt, — menn, sem nota þessi vandamál í hreinu áróðursskyni.

Stjórnarandstaðan og ekki sízt flm. þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., hv. þm. Magnús Kjartansson, hefur frá upphafi verið andvígur þeirri stefnu ríkisstj. að byggja hér upp stóriðju til útflutnings og hefur allt á hornum sér í því sambandi. Má í því sambandi minna á andstöðu hans gegn kísilgúriðjunni og hvernig hann reyndi að gera veður út af tæknilegum byrjunarörðugleikum, sem hún átti við að stríða, af því að unnið var úr hráefni, sem ekki var áður fengin reynsla af. Svipaðan hug hafði hann til Búrfellsvirkjunar, sem átti að vera óvirkjandi vegna íshættu. Álverksmiðjan var þó á allan hátt mestur þyrnir í augum hans. Víst má telja, að engin þessara mannvirkja væru til og engin vandamál þeim samfara, ef farið hefði verið að ráðum hans. Öll þessi mannvirki hafa þó reynzt þjóðinni hin þörfustu, bygging þeirra veitt þúsundum manna atvinnu á erfiðleikaárunum, þegar útflutningsverðmæti þjóðarinnar lækkuðu um 45% vegna aflabrests og verðfalls. Og nú eru þessi fyrirtæki farin að skila þjóðinni verulegum útflutningsverðmætum. Talið er, að útflutningsverðmæti iðnaðarins hafi vaxið um 160% á árinu 1970. Stærsta þáttinn í þessari aukningu eiga auðvitað álverksmiðjan og kísilgúrverksmiðjan. Þó eru þær hvergi nærri komnar í full afköst. En fleira kom til. Margvíslegur smærri iðnaður jók útflutning sinn, m.a. vegna EFTA-aðildar, en stjórnarandstaðan var líka andvíg EFTA-aðild. Hún er ekki tímabær, ekkert liggur á, sagði Framsókn. Alþb. var beinlínis andvígt EFTA-aðild og- vildi stefna útflutningsframleiðslu þjóðarinnar í viðskiptalega einangrun.

Það er sjálfsagt mannlegt og eðlilegt, að óábyrg stjórnarandstaða heimti allt handa öllum stéttum þjóðfélagsins, jafnt atvinnurekendum sem launþegum, heimti sérstæð fríðindi öllum til handa og félagslegar umbætur á öllum sviðum og spili hæstu nótur óskhyggju. En þegar sama stjórnarandstaða þvælist fyrir eða er beinlínis andvíg allri nýrri sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar og stjórnarvalda, berst gegn eða þvælist fyrir öllum áformum um nýtingu mestu auðæfa landsins, nýtingu þeirrar vatnsorku, sem við höfum yfir að ráða og innan skamms fær erfiðan keppinaut í kjarnorkunni, berst gegn og þvælist fyrir öllum nýjum áformum til að afla fjár til þess að mæta óskum þjóðarinnar um félagslegar framfarir, þá vantar mig samhengið í hlutina, og ég hygg, að slíkan tvískinnung leyfi sér engin stjórnarandstaða annars staðar. Þjóðin verður sjálf að taka í taumana og gefa þm. sínum nýtt veganesti í næstu kosningum.

Öllum var ljóst, að álverksmiðju fylgir nokkur mengunarhætta, aðallega vegna flúorvetnis. En ástæða er til að ætla, að staðsetning verksmiðjunnar og veðrátta í Straumsvík séu hagstæðar hvað þetta snertir. Eigi að síður hafa stjórnarvöld frá upphafi gert sér ljóst, að hafa verði gát á þessu og gera verði ráðstafanir, ef mengunin nálgast skaðsemismörk. Með tilliti til þess var verksmiðjan hönnuð og byggð með þeim hætti, að auðvelt væri að koma fyrir hreinsunartækjum, ef reynslan sýndi, að slíkt væri nauðsynlegt. Enn fremur var nefnd sérfróðra manna falið að fylgjast með breytingum á flúormagni í nágrenni verksmiðjunnar á kerfisbundinn hátt. Samkv. skýrslu þessarar nefndar eru sýnishorn tekin tvisvar á ári á 25 stöðum af ýmsum gróðri, heyi, jarðvegi, lofti og vatni og efnagreind af þremur óháðum rannsóknastofnunum. Hafa niðurstöður þeirra verið mjög líkar. Samkv. niðurstöðum nefndarinnar er flúormagnið á þessum stöðum verulega fyrir neðan þau magngildismörk, sem þekkt er að valdi sjáanlegum skemmdum á trjám og gaddi í nautgripum, sem fóðraðir eru á algengan hátt. Talið er, að annar venjulegur kvikfénaður þoli meira flúormagn en nautgripir. Eigi að síður er full ástæða til þess að gæta allrar varkárni í þessu máli. Það kunna að vera fleiri þættir en mengunin ein, sem ákveða viðnámsþrótt íslenzks gróðurs og dýralífs gegn slíkri mengun, eða m.ö.o. það kunna að vera aðrir þættir í náttúrunni, sem ákveða skaðsemismörkin á Íslandi en í öðrum löndum, hagstæðari eða óhagstæðari. Þetta þótti iðnrn. rétt að athuga nánar, og með tilliti til þess fól það framkvæmdanefnd rannsóknaráðs að skipa nefnd sjö sérfræðinga til þess að gera till. um það, hver séu eðlileg mörk þess flúormagns, sem leyfilegt mundi teljast við íslenzkar aðstæður.

Iðnn. Nd. hefur haft til athugunar þáltill., sem hér er til umr., og hún sendi till. til umsagnar framkvæmdanefndar rannsóknaráðs. Framkvæmdanefnd segir í umsögn sinni til iðnn., að nefndin hafi þegar verið skipuð og eigi sæti í henni Baldur Johnsen læknir, Eyþór Einarsson grasafræðingur, Guðmundur Pétursson læknir, Runólfur Þórðarson verkfræðingur, Sigmundur Guðbjarnason prófessor, Sturla Friðriksson erfðafræðingur og Þorkell Jóhannesson prófessor.

Um það, hvort nauðsynlegt sé að mæla svo fyrir, að tafarlaust verði komið upp fullkomnum hreinsitækjum í álbræðslunni í Straumsvík eins og þáltill. gerði ráð fyrir, segir framkvæmdanefnd rannsóknaráðsins orðrétt, með leyfi forseta:

„Með tilliti til þess, sem hér hefur verið rakið, getur framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins að sjálfsögðu ekkert dæmt um það, hvort nauðsynlegt sé að setja upp hreinsitæki við álbræðsluna í Straumsvík, fyrr en niðurstöður ofangreindrar nefndar liggja fyrir.“

Þetta var umsögn framkvæmdanefndar rannsóknaráðs. Niðurstaða hennar er sem sagt sú, að á þessu stigi málsins sé ekki hægt að kveða upp úrskurð um það, hvort nauðsynlegt sé að setja upp hreinsunartæki í álbræðsluna við Straumsvík.

Búrfellsvirkjunin og álbræðslan eru mikil mannvirki á íslenzkan mælikvarða. Öllum er ljóst, að hin stóra virkjun, sem nærri þrefaldar vatnsvirkjun þjóðarinnar, var ekki framkvæmanleg, nema hægt væri að nýta orkuna fljótlega, og var varla um að ræða annað en orkufreka efnaiðju. Þess var enginn kostur að velja aðra framkvæmdina, en hafna hinni. Þeir, sem börðust gegn álverksmiðjunni, börðust í raun og veru einnig gegn Búrfellsvirkjuninni.

Þetta voru mikil, djörf og vandasöm áform, sem byggja varð á miklum undirbúningi, vandasamri áætlunargerð og flóknum og erfiðum samningum, m.a. við útlendinga. Ekki stóð á úrtölum. Alið var á tortryggni og minnimáttarkennd íslenzkra aðila í þessum samskiptum. Reynslan virðist þó ætla að sýna, að vel hafi verið til samninganna vandað og fyrir flestu séð.

Í 12. gr. samningsins eru ákvæði, sem skylda ÍSAL til fullrar ábyrgðar á hverju því tjóni, sem hlýzt af gastegundum og reyk frá álbræðslunni á tilteknu svæði í næsta nágrenni hennar, svo og eignum eða öðrum hagsmunum manna. Í sömu gr. eru ákvæði, sem skylda ISAL til að gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Þá eru þar enn fremur ákvæði um, að ISAL skuli reglulega framkvæma athuganir með því að taka með vissu millibili sýnishorn af gróðri, efnum og eignum á fyrir fram ákveðnum athugunarstöðum í samvinnu við hlutaðeigandi rannsóknastofnun ríkisstj. að því er varðar möguleg áhrif af gastegundum eða reyk frá bræðslunni.

Í 13. gr. er ISAL gert að byggja, útbúa og reka bræðsluna í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.

Miðað við það, sem hér hefur verið rakið, verður ekki séð annað en íslenzk stjórnvöld hafi frá upphafi gætt fyllstu varfærni og fyrirhyggju í þessu efni og hafi alla þætti þessa vandamáls fullkomlega í hendi sinni. Þau gerðu sér frá upphafi grein fyrir því, að um nokkra, en viðráðanlega mengunarhættu kynni að vera að ræða. Samningarnir voru við það miðaðir. Fylgzt hefur verið vísindalega með breytingum í umhverfi bræðslunnar, en niðurstöður þeirra rannsókna gefa ekki tilefni til að ætla, að um mengunarmagn sé að ræða, sem valdi skaða. Ráðstafanir verða gerðar til nánari ákvörðunar á skaðsemismörkum miðað við íslenzkar aðstæður. Með því er að sjálfsögðu að því stefnt að taka af allan vafa og gera viðeigandi ráðstafanir um hreinsun, ef nauðsynlegt reynist.

Með tilliti til þessa taldi meiri hl. iðnn. rétt að vísa málinu til ríkisstj., enda er hér um málatilbúnað að ræða og vandséð, að hin stærri og þýðingarmeiri mál þjóðarinnar liggi flm. till. mjög þungt á hjarta, þegar hann óskaði eftir útvarpsumr. um þessa till. sína.

En ég skal, áður en ég lýk máli mínu, reyna að hughreysta hv. þm. Magnús Kjartansson, sem fæddur er, að ég ætla, í Hafnarfirði. Hafnfirðingar hafa látið fylgjast með flúormagni í drykkjarvatni sínu í Kaldárbotnum síðan á árinu 1967. Flúormagnið í drykkjarvatni þar hefur reynzt 0.05 partar af hverjum millj. pörtum vatns og hefur reynzt algerlega óbreytt þrátt fyrir tilkomu álverksmiðjunnar. Þetta er 20 sinnum minna magn en æskilegt er talið, að sé í drykkjarvatni til varnar tannskemmdum. Á sama tíma eru Vestmanneyingar að bæta einum heilum parti flúors í hverja millj. parta drykkjarvatns síns, eða m.ö.o.: Vestmanneyingar eru með ærnum kostnaði að bæta 20 sinnum meira magni af flúor í sitt drykkjarvatn en er í opnu vatnsbóli Hafnfirðinga við Kaldárbotna. Þessar upplýsingar hef ég fengið staðfestar hjá bæjarverkfræðingnum í Hafnarfirði og bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum.

Maðurinn hefur yfir að ráða fleiri og stórvirkari tækjum til nýtingar náttúruauðæfa en nokkru sinni fyrr. Eru tæki þessi notuð við námuvinnslu og mannvirkjagerð, ekki sízt stærri vatnsvirkjanir, sem höfðu verið lítt framkvæmanlegar fyrir einum eða tveimur áratugum. Það er manninum vafalaust of mikil freisting að velja hinar hagkvæmari leiðir frá efnahagslegu sjónarmiði við lausn tæknilegra viðfangsefna og skeyta minna um umhverfi sitt, og getur oft verið um mikla skammsýni að ræða. Hér hefur náttúruverndarsjónarmiðið miklu og þörfu hlutverki að gegna. En ekki má heldur ganga út í öfgar. Reyna verður að sætta þessi sjónarmið og samhæfa markmiðin, og má oft ná ótrúlega góðum árangri, ef menn leggja sig fram um farsæla lausn málsins. Sem dæmi um þetta skal ég að lokum geta þess, að í Westfalen í Þýzkalandi eru mikil landsvæði með miklum brúnkolalögum. Er þar um opinn námurekstur að ræða og notaðar einhverjar stórvirkustu beltiskranagröfur, sem þekkjast. Ef ég man rétt, kostar ein slík grafa um 40 millj. marka eða um 1000 millj. (1 milljarð) ísl. kr. Umturnun landsins á stórum svæðum, þar sem unnið er hverju sinni með þessum miklu tækjum, er með ólíkindum. En þeim er gert skylt að koma öllu í samt eða betra lag aftur með nýrri ræktun, þar sem ræktun hefur verið, og oftast með nýju og fegurra umhverfi. Stundum eru bændabýli jöfnuð við jörðu og bændurnir flytjast burt meðan brúnkolaforði í landareigninni er nýttur, en flytjast aftur á landareign sína á nýtt býli og nýræktaða jörð að 1–2 árum liðnum og oft með talsvert breyttu og endurbættu umhverfi. Ég nefni þetta sem dæmi um það, að hin stórvirku atvinnutæki, sem oft eru notuð einhliða til umturnunar á umhverfinu, má líka nota til endurbóta á því. En slíkar lausnir á vandamáli fást auðvitað ekki, nema báðir aðilar gangi heils hugar til samvinnu og samhæfingar markmiða, tengi saman sjónarmiðin um betri lífskjör og náttúruvernd.