16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (3709)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Haraldur Henrýsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Staðreyndir um mengun og viðurkenning á gildi umhverfisverndar hafa opnað augu manna fyrir því, að við uppbyggingu atvinnuvega og stofnun atvinnufyrirtækja verður þjóðfélagið að gæta mun fleiri atriða en áður var. Við getum ekki með góðri samvizku sett dæmið upp á þann einfalda hátt gróðahyggjunnar að spyrja um afrakstur og framleiðsluverðmæti ein saman. Við hljótum einnig að spyrja um áhrif rekstrarins á umhverfi sitt, landið, gróður þess, andrúmsloftið, vatn og sjó og ekki sízt mannlífið sjálft. Það á öllum að vera ljóst, að staðsetning fyrirtækja er ekki einkamál fárra, þeirra sem þau eiga, heldur mál þjóðfélagsins í heild. Við leggjum mikla áherzlu á heilsugæzlu og kostum miklu fé til að koma í veg fyrir og vinna bug á hinum ýmsu sjúkdómum. Rekinn er áróður fyrir aukinni heilsugæzlu einstaklinga, t.d. með aukinni hreyfingu, bent á skaðleg áhrif áfengis og tóbaks og ýmissa fæðutegunda. Þetta lýtur allt að einstaklingum, þannig að hver og einn geti með eigin breytni valdið allnokkru um það, hvort sjúkdómurinn nær til hans eða ekki. Öðru máli gegnir um mengun frá atvinnurekstri. Við hana fær enginn einstaklingur ráðið og stendur uppi varnarlaus. Þess vegna hljótum við í framtíðinni að leggja aukna áherzlu á þennan þátt heilsugæzlu. Við getum ekki leyft neinum, hvort sem það er opinber aðili eða einstaklingur, að hefja þann rekstur, sem líklegur er til að gefa frá sér heilsuspillandi mengun, annaðhvort beint gegnum andrúmsloftið eða óbeint með spillingu vatns eða lands, og ekki er unnt að fyrirbyggja þegar í upphafi. Við mótun atvinnulífsins verðum við einnig að hyggja til framtíðarinnar. Við verðum að skapa skilyrði fyrir heilbrigðu framtíðarlífi í landinu. Við getum ekki viðurkennt þau sjónarmið, sem mæla gildið aðeins eftir stundargróða, en gleyma þeirri áhættu, sem framtíðin ber í skauti sér í formi spillts og mengaðs umhverfis.

Við umr. um uppbyggingu atvinnuvega okkar íslendinga hafa sjónarmið gróðahyggjunnar verið mjög á oddinum í málflutningi ráðandi manna. Í áróðri þeirra hefur meginþunganum verið beint að stóriðju ýmiss konar, sem byggðist á úrvinnslu aðfluttra hráefna. Glæstar myndir hafa verið dregnar upp af iðjuverum og verksmiðjum, sem rísa skyldu upp og leysa til frambúðar vandamál efnahags- og atvinnulífs. Þetta segi ég ekki vegna þess, að ég vilji almennt hafna stóriðju. Þvert á móti hljótum við í framtíðinni að íhuga gaumgæfilega möguleika hennar á ýmsum sviðum.

Þegar ég finn að framangreindum áróðri, er það vegna þess einkum og sér í lagi, að hann mótaðist, eins og hann var fram settur, af vantrú þeirra, sem hann hafa flutt, á möguleikum okkar sjálfra til að efla atvinnuvegi okkar með nýtingu okkar eigin hráefna. Á sama tíma og öflugur áróður var fluttur fyrir stóriðju, var fluttur áróður gegn gildi sjávarútvegs, og framkvæmd sjávarútvegsmála hefur glöggt borið vitni um vantrú valdhafanna á möguleikum hans og vangetu til að fást við þau verkefni, sem hann skapar. Því hefur verið haldið mjög á lofti, að sjávarútvegurinn væri svo stopull, að á hann væri ekki treystandi, og bent á þær sveiflur, sem átt hafa sér stað í efnahagslífinu að undanförnu, því til stuðnings. Það er vissulega rétt, að afli er mismunandi eftir árum og árstíðum, og ekki mótmæli ég því, að grundvöllur atvinnulífsins verði breikkaður. Að því hljótum við að vinna. En sjávarútvegurinn er ekki eins stopull og haldið er fram, sé rétt á málum haldið, sökum þess, hve fjölþættur hann er. Aflatregðu og verðfall á einu sviði er unnt að bæta upp með aukinni áherzlu á aðra þætti útvegsins.

Menn tala mjög um ítarlegar og kostnaðarsamar rannsóknir til undirbúnings stóriðjufyrirtækjum. Slík vinnubrögð þarf einnig að viðhafa um uppbyggingu fiskveiða og fiskiðnaðar. Þar þarf að gera áætlanir fram í tímann, byggðar á rannsóknum og athugunum sérfróðra manna. Eitt brýnasta verkefni efnahagsmála okkar í dag er einmitt að gera heildarúttekt á auðlindum hafsins umhverfis landið og þeim skipakosti, sem við eigum og þurfum að eiga, til að grundvöllurinn verði sem traustastur og breiðastur. Við þurfum að gera áætlanir um nýtingu veiðitækni og vinnsluaðferða, sem mestan árangur gefa og bezt eru lagaðar að þörfum markaðanna. Með slíkum vinnubrögðum getum við bæði stóraukið afköst fiskiðnaðarins og margfaldað verðmæti framleiðslunnar. Samtök frjálslyndra og vinstri manna telja slíka stefnubreytingu höfuðnauðsyn. Þau telja, að hér hafi til óbætanlegs tjóns ríkt handahófsvinnubrögð af hálfu ríkisvalds, lánastofnana og forráðamanna fyrirtækja, þar sem oft ráða sérhagsmunir og hreppapólitík, sem stangast á við þjóðarhagsmuni. Sú leið að nýta fyrst möguleika sjávarútvegsins og efla hann sem undirstöðuatvinnugrein hefur þann stóra kost m.a., að hún útheimtir ekki stríð við landið að neinu leyti. Hún gerir okkur bezt kleift að haga nýtingu auðlindanna okkur til varanlegrar velferðar.

Það er ljóst, að þjóðfélag nútímans krefst heildarstjórnar og tillits til heildarinnar í enn ríkari mæli en fyrr. Þetta á m.a. rætur að rekja til þeirrar mengunarhættu, sem að steðjar vegna nútímaframleiðsluhátta og tækni og varðar allt þjóðfélagið. Þetta þýðir, að gróðahyggja fárra má ekki vera ráðandi afl í þjóðfélaginu. Það er sérlega mikilvægt og tími til kominn, að við Íslendingar gerum okkur þessi sannindi ljós, ekki sízt í samhengi við vandamál mengunar og umhverfisverndar. Við höfum búið við stjórnarfar og stjórnarstefnu, sem hefur mótazt fyrst og fremst af sjónarmiðum gróðahyggju, og því hefur efnahagslif okkar verið háð duttlungum og atvinnuuppbygging verið handahófskennd. Sú gróðahyggja hefur yfirleitt ekki spurt um þarfir heildarinnar fyrr en um seinan. Dæmið frá Straumsvík er einkennandi. Það var vitað mál, að álverksmiðjur skemma umhverfi sitt að meira eða minna leyti, sé ekkert gert til varnar. En það er dýrt að setja upp hreinsitæki. Við skulum bíða þar til skemmdirnar segja til sín. Það er ekki spurt um það, hvað slíkar aðferðir kunni að kosta þjóðina, og engu virðist fórnandi til að koma í veg fyrir, að nokkrar skemmdir verði. Slíkt er eðli og vinnubrögð gróðahyggjunnar, og því verður seint breytt. Eina vörnin gegn slíkum sjónarmiðum er að vinna sigur á því stjórnmálaafli, sem hefur gróðahyggjuna að leiðarljósi undir kjörorðinu: „Frjálst einkaframtak“. Þetta stjórnmálaafl í formi Sjálfstfl. hefur um langt árabil verið ráðandi afl um mótun þjóðfélags okkar með þeim árangri, sem við blasir í efnahagsmálum. Hið stjórnmálalega afl andstæðra sjónarmiða í þjóðfélaginu hefur hins vegar verið dreift og sundrað, og þar hefur ekki náðst sú samstaða, sem gæti verið grundvöllur sameiginlegs viðnáms gegn Sjálfstfl. og stefnu hans. Þvert á móti hafa flokkar vinstri manna skipzt á um að vinna með Sjálfstfl. og þannig stuðlað að nær óslitnum valdaferli hans undanfarna þrjá áratugi.

Samtök frjálslyndra og vinstri manna telja það höfuðmarkmið sitt að snúa þessari þróun við. Í stefnuyfirlýsingu samtakanna segir svo m.a.:

„Samtökin telja það mál mála, að sem fyrst takist að sameina alla íslenzka jafnaðarmenn og samvinnumenn í einum sterkum og vaxandi stjórnmálaflokki, sem reynzt geti hæfur til að taka forustu fyrir sóknaröflum þjóðfélagsins.“

Tilvist samtakanna hefur orðið til þess, að hreyfing hefur komizt á þessi mál, og mun áfram verða barizt til að ná settu marki. Í þeirri baráttu hefur nú verið náð mikilvægum árangri, sem birtist í sameiginlegri yfirlýsingu framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og Sambands ungra framsóknarmanna. Birting þessarar yfirlýsingar hlýtur að teljast tímamótaviðburður í sögu íslenzkrar vinstri hreyfingar. Þessir aðilar settust á rökstóla fyrir nokkru og hafa nú komizt að sameiginlegri niðurstöðu um markmið og leiðir íslenzkrar vinstri hreyfingar. Segir svo m.a. í hinni sameiginlegu yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmdastjórnir SUF og SF álíta, að nú þegar verði að hefjast handa um að stofna öflugan stjórnmálaflokk með sameiginlegu átaki Framsfl., Alþfl. og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og annarra þeirra, sem aðhyllast lýðræðissinnaða jafnaðarstefnu og samvinnustefnu. Markmið þess flokks verði að skapa“ — síðan koma 14 atriði, og mun ég lesa hér upp nokkur:

„Þjóðfélag, þar sem jöfnuður og mannleg samhjálp sitja í öndvegi.

Þjóðfélag, sem tryggir sókn þjóðarinnar til æ fullkomnara og virkara lýðræðis, aukinnar menningar og andlegs sem líkamlegs heilbrigðis allra þegna þjóðfélagsins.

Þjóðfélag, þar sem allir hafa jafnan rétt til menntunar og jafna möguleika til að njóta allra menningarlegra gæða, sem þjóðfélagið skapar.

Þjóðfélag, sem styður að heilbrigðu lífsgæðamati og setur manngildið í öndvegi, en hafnar því gildismati fjármagns og peningavalds, sem þjóðfélag þeirra afla skapar.

Þjóðfélag, sem stöðugt sækir fram til aukinnar velmegunar með skynsamlegri stjórnun og áætlunum um, hversu íslenzkar auðlindir verði nýttar af mestri fyrirhyggju og atvinnulíf, sem á þeim byggir, verði þróað án þess að vera að neinu marki byggt upp á fjárfestingu útlendinga.

Þjóðfélag, sem missir aldrei sjónar á verndun fegurðar og sérkenna íslenzkrar náttúru og rétti allra landsmanna til að njóta þeirra, en hafnar skyndigróða, sem síðar gæti spillt verðmætum, sem ekki verða til fjár metin.

Þjóðfélag jafnaðar, sem stefnir að útrýmingu hvers konar misréttis milli stétta og milli þegnanna eftir búsetu, en viðurkennir í reynd þjóðfélagslegt mikilvægi allra starfsgreina og jafnar því efnaleg met á milli þeirra.

Þjóðfélag, þar sem samfélagið í heild mótar meginstefnuna, en einstaklingarnir njóta ákvörðunarfrelsis að þeim mörkum, að þjóðarheildin bíði ekki tjón af.

Þjóðfélag, sem setur metnað sinn í að verja, skapa og vernda sjálfstæða íslenzka menningu og menningararfleifð, en rækir jafnframt hið mikilvæga hlutverk smáþjóðarinnar á alþjóðavettvangi og tekur heils hugar þátt í hverju því alþjóðlegu samstarfi, sem stefnir að lausn þeirra miklu vandamála allra þjóða að tryggja frið í heiminum og brúa gjána, sem nú skilur ríkar þjóðir og snauðar.

Það er skoðun framkvæmdastjórna SUF og SF, að þjóðfélagsþróunin hafi á seinni árum fjarlægzt þau markmið, sem að framan greinir. Samfélagsskipunin markast nú af auknu misrétti þegnanna, efnalegu, menningarlegu og félagslegu, lítt heftu peningavaldi, skorti á virku lýðræði á nær öllum þjóðlífssviðum, skoðanamyndun, sem fjármálavaldið ræður að miklu, vaxandi áhrifum erlends auðmagns og klíku- og smáhópavaldi á stjórnmálasviðinu. Þessa uggvænlegu stjórnmálaþróun má að hluta rekja til sundrungar íslenzkra vinstri afla, sem fært hefur Sjálfstfl. víðtækustu völdin í íslenzkum stjórnmálum. Úrelt aðgreining lýðræðissinnaðra jafnaðarmanna og samvinnumanna hefur lamað umbótaþrótt þjóðarinnar og dregið úr krafti þeirra fjöldahreyfinga verkalýðshreyfingar og samvinnuhreyfingar, sem bezt eiga að duga almenningi í hinni víðtæku lífskjarabaráttu. Núverandi flokkakerfi hefur þannig í reynd verkað sem hindrun á framkvæmd þeirra þjóðfélagsumbóta, sem helgaðar eru af hugsjónum jafnaðar og samvinnu, frelsis og lýðræðis.

Það er brýnasta stjórnmálaverkefni samtímans að tengja saman í eina heild alla flokka og samtök lýðræðissinnaðra jafnaðarmanna og samvinnumanna. Hinn nýi flokkur, sem samstundis yrði stærsta og sterkasta stjórnmálaafl þjóðarinnar, mundi í nánu samstarfi við verkalýðshreyfingu og samvinnuhreyfingu hrinda í framkvæmd þeim þjóðfélagsmarkmiðum, sem fyrr eru greind. Hann mundi hefja stjórnmálastarf á hærra svið, varðveita sjálfstæði þjóðarinnar, skapa henni það samfélag, sem meiri hluti hennar vill í reynd og þráir. Jafnhliða slíkri stjórnmálalegri nýskipan verður að efla og endurskipuleggja mikilvægustu hagsmunasamtök fólksins í landinu, samvinnuhreyfingu og verkalýðshreyfingu. Samræma verður markmið og verkefni hins nýja flokks og þessara tveggja fjöldahreyfinga og þannig ryðja úr vegi hindrunum fyrir því, að náið samstarf þeirra geti orðið að veruleika. Samvinnuhreyfingin verður að slíta tengsl sín við samtök fjármálavaldsins og taka upp sjálfstæða og jákvæða stefnu í kjara- og hagsmunamálum verkafólks og annarra launþega. Á sama tíma auðveldi verkalýðshreyfingin samvinnuhreyfingunni slíka stefnubreytingu með því að hafa aðra aðstöðu og beita öðrum aðgerðum í hinni almennu kjarabaráttu gagnvart samvinnuhreyfingunni. Enn fremur beiti forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sér fyrir því, að félagsmenn hennar taki öflugri þátt í samvinnustarfinu.“

Lýkur hér tilvitnun í þessa yfirlýsingu. Að þessum markmiðum munu þessi samtök, bæði sameiginlega og sitt í hvoru lagi, keppa á næstu mánuðum og árum. Verði þau markmið að raunveruleika, sem sett eru fram í þessari yfirlýsingu, höfum við skapað okkur þjóðfélag, sem er andstætt vinnubrögðum gróðahyggjunnar, þjóðfélag, sem metur manngildið og lífsgildið meir en efnalegan stundargróða. Slíkt þjóðfélag hefði aldrei leyft álverksmiðju í Straumsvík án allra tiltækra ráða til hindrunar mengun.

En það er ekki einungis mengun láðs, lofts og lagar, sem þetta nýja þjóðfélag mundi vinna gegn, það er einnig sú mengun stjórnmála, efnahags- og atvinnulífs, sem hér ríkir og leiðir okkur sífellt lengra út í kviksyndi verðbólgu og stjórnleysis. Það er sökum skilnings á þessu, að sífellt fleiri hyggjast nú taka höndum saman um myndun þess stjórnmálaafls, sem geti blásið nýju, fersku lofti um þá sali, þar sem nú sitja ráðvilltir og hugsjónalausir foringjar. Það er ljóst, og það sjá sífellt fleiri, að einskis er að vænta í þessum efnum af hinum fjórum gömlu stjórnmálaflokkum. Haldi þeir velli, mun allt sitja í sama farinu um stjórnarfar og Sjálfstfl. mun áfram móta stefnuna. Eina von Íslendinga um breytta ríkisstj., eina von þeirra um, að bundinn verði endir á þá óstjórn og vanstjórn, sem verið hafa höfuðeinkenni stjórnarfarsins síðustu 12 árin, er sú, að Samtök frjálslyndra og vinstri manna komi inn að kosningum loknum sem nýtt stjórnmálaafl, sem ráði úrslitum um breytta stjórnarstefnu og um leið um aukið samstarf og sameiningu vinstri aflanna.

En hér er verk aðeins hafið og síður en svo, að nokkru lokatakmarki sé náð. Þá fyrst má vænta algerra umskipta fyrir íslenzkar vinnustéttir og líta björtum augum til framtíðarinnar, er tekizt hefur að sameina alla lýðræðisjafnaðarmenn og samvinnumenn í einum sterkum og öflugum flokki, sem er okkar lokamark. Við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna munum nota allt það afl, sem okkur kann að verða veitt í næstu kosningum, til þess að hafa forustu um þá sameiningu vinstri aflanna, sem allt veltur nú á að takist, ekki einhvern tíma í blámóðu framtíðarinnar, heldur í allra nánustu framtíð.

Góðir hlustendur. Tökum höndum saman um að gera næstu kosningar til Alþingis að tímamótum sameiningar allra lýðræðissinnaðra vinstri afla með þjóðinni. — Góða nótt.