16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (3711)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Áður en ég byrja að tala um það mál, sem hér er til umr., vil ég átelja það trúnaðarbrot, sem hefur komið fram hjá einum ræðumanni, Haraldi Henrýssyni, hér í kvöld, að lesa upp í útvarpsumr. á Alþ. um mengun till. Frjálslyndra og vinstri manna í landhelgismálinu, sem lagðar hafa verið fram í landhelgisnefnd jafnframt till. annarra flokka á grundvelli samkomulags í nefndinni milli flokkanna um það að reyna til hlítar að samræma sjónarmið, áður en till. yrðu lagðar fram eða kynntar á Alþ.

Herra forseti. Við ræðum hér um það, hvort Alþ. eigi að segja ríkisstj. fyrir verkum um, hvort tafarlaust skuli sett upp hreinsitæki í álverksmiðjunni í Straumsvík. Frá öndverðu var það ljóst, að frá álbræðslunni í Straumsvík, eins og frá öðrum álbræðslum, mundi stafa viss mengunarhætta. Þetta kom sérstaklega til umr. í sambandi við staðsetningu verksmiðjunnar. Rætt var aðallega um tvo staði, Eyjafjörð og Straumsvík. Ljóst var, að ef álbræðslan yrði staðsett við Eyjafjörð, gat ekki verið um annað að ræða en að hafa frá byrjun sem fullkomnust hreinsitæki í slíkri verksmiðju. Þar hefði hún verið staðsett í landbúnaðarhéraði, þar sem vindáttin er mjög á einn veg, hafgola a.m.k. verulega ríkjandi. Athugaðar voru vindáttir í Straumsvík eftir upplýsingum frá Veðurstofunni, sem gáfu það til kynna, að ríkjandi vindátt á þessum stað væri til hafs, og að öðru leyti var staðsetningin á opnu svæði, en ekki í lokuðum fjalladal eða firði, þar sem hættan er önnur og meiri. Af þessum sökum varð það að samkomulagi að byggja verksmiðjuna frá öndverðu með þeim hætti, að hægt væri að setja á hana hreinsitæki, en þó án þess að það væri gjört, þar til vísindalegar rannsóknir lægju fyrir og með þeirri niðurstöðu, að þess væri þörf.

Í nál. meiri hl. iðnn. er lagt til að vísa málinu til ríkisstj. með þeim rökum, að af hennar hálfu og annarra stjórnvalda hafi verið gætt fyllstu varúðar og verið sé að vinna að því að fá úr því skorið frá vísindalegu sjónarmiði, hvort þess sé þörf, að í þessa verksmiðju séu sett upp hreinsitæki. Ég hef hugboð um, að þess sé þörf, þegar verksmiðjan stækkar og byrjar með auknum afköstum, næstum tvöföldum, 1972. Hitt er svo annað mál, að kröfur mínar fyrir hönd ríkisstj. Íslands um nauðsyn hreinsitækja verð ég að byggja á niðurstöðum vísindalegra rannsókna.

Ég hef lagt áherzlu á, að ekki þurfi að kvíða skorti sérfræðilegra athugana í þessu máli og vísindalegrar niðurstöðu. Í fyrsta lagi var sett á laggirnar sérstök rannsóknarnefnd, sem við getum kallað flúornefnd, með fulltrúum frá báðum aðilum. Það er rangt hjá Lúðvík Jósefssyni hér áðan, þegar hann segir, að þessi nefnd sé á vegum álbræðslunnar, hún á tvo fulltrúa í nefndinni, ríkisstj. tvo, einn Íslending og Norðmann, sem ég valdi að góðra manna ráði sem einn færasta sérfræðing í Noregi með mikla reynslu að baki í þeim efnum. Það er líka rangt hjá Lúðvík Jósefssyni, að líffræðingar hér hafi sannað, að flúorskýrslan væri marklaus. Líffræðingar gerðu athugasemdir við flúorskýrsluna á þeim grundvelli, að það væru í henni rangar tilvitnanir í fræðirit, og það hefur síðan verið leiðrétt, og þeir töldu óvarlegt að miða við skaðleysismörk þau, sem nefndin getur um. En þessir líffræðingar þurftu að leiðrétta missagnir blaða um það, að skýrslan væri fölsuð. Þetta sé ég ástæðu til að taka fram. Líffræðingarnir lögðu til, að í sambandi við þessar rannsóknir yrðu kvaddir til líffræðingar, svo sem hefur verið gert, eins og ég síðar kem að.

Ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, að við ekkert iðjuver á Íslandi hafi fyrir fram verið gerðar þvílíkar ráðstafanir og við álbræðsluna í Straumsvík. Í nál. meiri hl. er gerð grein fyrir þeim varúðarráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, og á hvern hátt það er á valdi okkar sjálfra að krefjast frekari varúðarráðstafana og aðgerða. Eins hefur þess verið mjög skilmerkilega getið í ræðu hv. 7. þm. Reykv., Péturs Sigurðssonar, sem er frsm. meiri hl. n. En menn geta spurt: Hvers vegna að eiga nokkuð á hættu? Og því ekki að krefjast, að hreinsitæki séu sett upp þegar í stað, eins og till. er orðuð? Í fyrsta lagi eigum við ekkert á hættu, því að það er að staðaldri fylgzt með þessum hlutum, eins og nákvæmlega er gerð grein fyrir í grg. þeirrar nefndar, sem um þessi mál fjallar, flúornefndarinnar, sem ég hef svo nefnt. Sé hætta á ferðum eða fram komin alvarleg áhrif mengunar, þá er það okkar að taka í taumana og segja: Hingað og ekki lengra. Hér þarf endurbóta við. Hreinsun á útblæstri frá álbræðslunni. — En þetta liggur fyrir, segja menn. Grasafræðingur tók sýni af nokkrum trjám, þau voru alls þrjú, þessi sýni. Því hefur verið lýst, hvernig flúornefndin starfar á allt öðrum grundvelli, þar sem tekin eru á hinum mismunandi tímum og mismunandi stöðum fjölmörg sýni, svo að tugum skiptir og mánaðarlega, t.d. af regnvatni, en hér voru tekin þrjú sýni, og þess vegna á nú að hlaupa upp til handa og fóta og láta í veðri vaka, að lamaður trjágróður á s.l. sumri sé allur álbræðslunni að kenna. Það er vitað um gjörvallt land, að trjágróður og gróður yfirleitt var með lélegasta móti af miklum kulda og meiri kulda en við höfum átt að venjast um langa tíð. Og hvað segja svo þessar þrjár niðurstöður af stökum sýnishornum þessa meinta vísindamanns? Jú, visst flúormagn í þeim. En hvaða ályktanir er í raun og veru hægt af slíku að draga? Og það er enn ósvarað þeirri spurningu, hvað veldur því, að í ýmsum sýnum, sem flúornefndin tók ári áður en álbræðslan byrjaði að starfa, er meira flúormagn en mældist hjá grasafræðingnum, meira flúormagn en árið eftir að hún tók til starfa. Á þessu er þörf að fá frekari skýringu. Hinu hefur svo grasafræðingurinn leynt fyrir blöðum og fjölmiðlum, að fjórða sýnið frá honum var sent til Noregs og fékkst um það sú umsögn, að skemmdir stöfuðu af sitkagrenilús.

Ég hef nú hér með höndum skýrslu um nýjar rannsóknir frá SYNTEF-rannsóknarstofnuninni við háskólann í Þrándheimi. Um er að ræða 22 sýni, þar sem borið er saman flúormagnið í greni frá 1969, áður en álbræðslan tók til starfa, því að hún tók ekki til starfa fyrr en um mánaðamótin sept. og okt., og 1970, eftir að hún var búin að starfa í heilt ár, og það vill svo til, að í öllum þessum sýnum, 22 að tölu, er flúormagnið meira árið áður en álbræðslan tók til starfa en árið eftir að hún tók til starfa. Sýnin eru á þessa leið: Það er í venjulegri furu 1969 30.3 mg í kg, vanalegri furu 1970 11.3, það er sama sýnið, mg í kg. Sitkagreni 1969 17.2, en 1970 7.1 mg í kg. Í nálum bergfuru 1969 5.2 mg, áður en verksmiðjan byrjar, en 1970, eftir að verksmiðjan byrjar, =0.6 mg 3 kg af flúor. Sitkagreni 19696.6, sama 19701.7. 1969 sitkagreni 3.9, sama 1970 0.3. Venjuleg fura 1969 6.9 mg í kg af flúor, en 1970 1.7. Bergfura 1969 5 mg í kg, en 1970 0.6. Bergfura 1969 11.1 mg í kg, 1970 3 mg í kg. Sitkagreni 1969 12.9 og í sama 1970 7.8. Í bergfuru 1969 19.8 mg í kg af flúor, en í sama 1970 4.7. Sitkagreni 1969 19.4 og í sitkagreni 1970 22.6. Það síðasta, sem ég las, er eina sýnið, sem er með örlítið meira flúor, eftir að verksmiðjan er búin að starfa í eitt ár.

Þetta er m.a. rannsóknarefni fyrir þá vísindamenn, sem hafa tjáð sig um þessi mál, og ég verð að segja það, að það var rétt og satt sagt hjá Haraldi Henrýssyni, þegar hann talaði um fullyrðingar Ingólfs Davíðssonar, þó að hins vegar Þórarinn Þórarinsson hafi sagt hér áðan, að hann væri færasti grasafræðingurinn eða náttúrufræðingurinn, sem Ísland hefði átt. Ég skal ekki dæma um það, ég þekki ekki manninn, en mér finnst hins vegar, að þegar vísindamenn eru á ferðinni, þá eigi þeir að fara nokkuð öðruvísi að en sá ágæti maður hefur gert, að telja fullsannaða hluti með þessum þremur sýnum, sem tekin hafa verið, og láta svo þar við sitja.

En alþm. er ætlað að dansa eftir öðrum nótum en vísindalegum og sérfræðilegum. Það er hin pólitíska mengun hugarfarsins, sem hér á að ráða. Þegar flm. þessarar till. hafa orðið þess áskynja og vita, að stóriðjan á Íslandi fellur almenningi í geð og almenningur skilur, að hér er verið að vinna að þjóðarheill, þá skal reynt að koma á stóriðjuna klámhöggi með einum eða öðrum hætti, og skiptir þá ekki máli, hvað vísindi og sérfræði segja.

Það er rangt hjá Þórarni Þórarinssyni, þegar hann segir hér áðan, að það sé of langur tími að bíða eftir vísindalegum niðurstöðum og rannsóknum. Sá tími, sem nú er, vetrartíminn, felur ekki í sér neina hættu fyrir gróður, og hins vegar er það ljóst, eins og fram hefur komið, að hvorki í jarðvegi né vatni hefur verið nokkuð veruleg aukning á flúormagni, og þess vegna höfum við tíma fyrir okkur, og stækkun álbræðslunnar, sem minnzt hefur verið hér á, kemur ekki til greina fyrr en á árinu 1972.

Bæði Þórarinn Þórarinsson og Magnús Kjartansson töluðu um það hér, að þetta væri eina álbræðslan í heiminum án hreinsitækja, og Magnús Kjartansson innti sérstaklega eftir því, að menn tjáðu sig um það. Sé svo, þá verð ég að biðja menn að hafa það í huga, að ég þekki enga álbræðslu, — það getur vel verið, að hún sé til, — minni álbræðslu í heiminum heldur en þessa, sem nú starfar hér. Þær eru yfirleitt mörgum sinnum stærri, þær álbræðslur, sem ég þekki til í Evrópu, og þær, sem maður hefur sagnir af í Bandaríkjunum eða Ameríku. Og þegar talað er um það, að þar séu hreinsitæki, en ekki hér, þá er það m.a. vegna þeirrar reynslu, sem þar hefur fengizt. Sérstaklega er þetta áberandi í Noregi, þar sem álbræðslur eru byggðar í djúpum fjalladölum eða innfjörðum, eins og í Þórsnesi, að þar er hættan stórkostlega mikil og þar hafa verið sett upp hreinsitæki í álbræðsluna. Þetta er rétt. En hér er staðsetningin allt önnur og rétt að hafa það í huga ekki síður en önnur atriði, þegar borin er saman þessi álbræðsla við aðrar álbræðslur.

Ég bið ekki um annað fremur en rannsakað sé til hlítar, hvað rétt sé að gera og hver hættan kunni að vera. Ég hef lagt til við framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins, að hún skipi sérstaka nefnd til að rannsaka, hver mundu vera hættumörk flúormagns í gróðri hérlendis, bæði vegna búpenings, sem á honum er fóðraður síðar, og einnig vegna trjágróðursins sjálfs. Þessi nefnd er nú þegar tekin til starfa. Auk þess hef ég fengið skýrslur amerískra vísindamanna um áætluð skaðleysismörk flúormagns í Sviss, en ríkisstj. Sviss hafði fengið þessa vísindamenn til að kanna þetta mál sérstaklega þar. Ef íslenzka sérfræðinganefndin, sem skipuð er að minni ósk, og framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins óska þess að fá þessa amerísku vísindamenn sér til aðstoðar, er ég reiðubúinn til að stuðla að því, að af hálfu ríkissjóðs verði lagt fé af mörkum, til þess að svo megi verða. Í fyrri viku voru hér sérfræðingar á þessu sviði að minni tilhlutan eftir viðræður milli mín og dr. Pauls Müllers, sem er einn af framkvæmdastjórum álversins, en jafnframt einn af stjórnarmeðlimum ISALs. Áttu þeir viðræður við íslenzka sérfræðinga og íslenzku nefndina, sem hefur það verkefni að ákvarða skaðleysismörk flúormagns hér á landi. Af minni hálfu skal ekkert látið undir höfuð leggjast, til þess að þessi nefnd fái hina beztu aðstöðu, sem hún óskar, í sambandi við athuganir sínar til þess að komast að réttri niðurstöðu.

Ég get getið þess líka í þessu sambandi, að það er ráðgert að bæta í flúornefndina tveim líffræðingum frá hvorum aðila, ríkisstj. og ISAL, en um það hafa komið fram tilmæli, m.a. frá íslenzku líffræðingunum.

Ég óska þess ekki að berjast við vindmyllur eins og Don Quixote. Ég vil, að staðreyndir málsins séu leiddar í ljós og ákvarðanir teknar, þegar þær liggja fyrir.

Framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins hefur sagt í bréfi til iðnn. Alþ. um þetta mál, að að sjálfsögðu geti hún ekki tekið ákvörðun um það, hvort nauðsyn sé að setja upp hreinsitæki í álbræðsluna í Straumsvík, fyrr en niðurstöður rannsókna liggja fyrir. Eru þm. það meiri menn, að þeir séu þess umkomnir að taka ákvörðun, áður en niðurstöður rannsókna liggja fyrir?

Ef tilgangurinn væri annar en sá að þyrla upp moldviðri um þetta mál, mundu að sjálfsögðu allir þm. greiða því atkvæði, að þessari till. væri vísað til ríkisstj., sem hefur málið til meðferðar og hefur látið gæta fyllstu varúðar og vill, að svo sé gert, og mun ekkert láta undir höfuð leggjast, að svo sé gert.

Ég vísa algerlega til föðurhúsanna öllum getsökum um það, að ríkisstj. hafi ekki verið fyllilega á verði og þeir menn, sem fyrir hennar hönd hafa starfað til að gæta fyllstu varúðar. En á hitt er að líta, að mengun getur verið margs konar. Sagt var um aldamótin af einu skáldi okkar:

„Öllum hafís verri er hjartans ís,

er heltekur skyldunnar þor.

Ef hann grípur þjóð, þá er glötunin vís,

þá gagnar ei sól né vor.“

Við tilhugsunina um þessar ljóðlínur vil ég segja, að allri mengun verri er hin pólitíska mengun hugarfarsins, sem hefur þann eina tilgang að eitra andrúmsloft þjóðarinnar, að eitra hugarfarið þannig, að það sé ekki þess umkomið að kveða upp skynsemisdóma um hluti. Þegar þessi mengun heltekur hugarfarið, gagnar ei sól né vor.

Magnús Kjartansson sagði hér í umr. áðan, að öllu hefði verið fórnað vegna gróðahagsmuna erlendra, og aðrir hafa sagt eitthvað svipað. Engu hefur verið fórnað, en mikið áunnizt við byggingu álbræðslunnar hér á Íslandi. Ég hirði ekki að öðru leyti að elta ólar við hina væmnu rómantík efnishyggjupostulans Magnúsar Kjartanssonar, og reyndar hefði Lúðvík Jósefsson gjarnan mátt spara sér væmnar fullyrðingar sínar um Laxárvirkjun, sem hann sýnilega þekkir lítið eða ekkert til. Hann sagði á þessa leið: Þegar kemur að Laxárvirkjun, bögglast allt fyrir ráðherrunum og ekkert fæst að gert. — Ég hef nú í heilt ár lagt mig í framkróka um að reyna að ná samkomulagi og sættum milli deiluaðila í þessu máli, og sú virkjun, sem núna er verið að vinna að, er sú virkjun, sá virkjunaráfangi, sá áfangi, sem bændurnir á Laxársvæðinu, Búnaðarsamband Þingeyinga óskaði eftir, að ráðizt yrði í, og sýslunefnd Suður-Þingeyinga óskaði einnig eftir, að ráðizt yrði í. Hitt er svo rétt, að báðir aðilar voru á móti því, að ráðizt yrði í Gljúfurversvirkjun, en strax á vorinu 1970 voru áformin um Gljúfurversvirkjun, þ.e. vatnaflutningar í Þingeyjarsýslu, lögð á hilluna.

Það er alveg rangt, sem fram kom hjá Haraldi Henrýssyni hér, að upphaflega hafi verið ráðgert að byggja álbræðsluna þannig, að ekki væri hægt að setja í hana hreinsitæki. Ég veit ekki, hvaðan þessi hv. þm. hefur þennan fróðleik. Þetta eru staðlausir stafir. Hann sagði, að það hefði verið gert ráð fyrir að setja upp hreinsitæki samkvæmt kröfum Alfreðs Gíslasonar læknis, og vitnaði í ræðu frá 3. maí 1966. Ég undirritaði samningana með því byggingarlagi, sem á álbræðslunni er, og með þeim hætti, að hægt sé að setja upp í hana hreinsitæki, 28. marz 1966. En hann gerði hins vegar Alfreð Gíslasyni engan greiða, þessi hv. þm., með því að lesa hér upp mestu öfgarnar úr ræðu hans hér á þingi á sínum tíma, sem voru sannarlega ekki þess eðlis, að læknir ætti að láta hafa þær eftir sér, þegar m.a. var verið að reyna að láta í það skína, að hér væri svo mikil eitrunarhætta á ferðinni, að fólk mundi detta steindautt á götunum í Hafnarfirði og Reykjavík. Og það kom reyndar fram í því, sem þessi hv. þm. las. Hins vegar hef ég það eftir beztu sérfræðingum, sem á þessu sviði starfa, Norðmönnum, að þeim sé ekki kunnugt um það, þeir viti ekkert dæmi um það, að mönnum hafi orðið meint af að lifa í nágrenni álverksmiðju, og þó voru þessar álverksmiðjur ekki með hreinsitæki fyrr en allra síðustu árin sumar hverjar.

Ég vil svo leyfa mér að lokum að taka saman nokkur atriði, sem mér finnst öðrum fremur athyglisverð:

1) Vitnað hefur verið til athugasemda um skýrslu flúornefndar, sem 37 líffræðingar sendu fimm ráðuneytum á þessu ári. Leiðrétt hefur verið það, sem leiðrétta þurfti vegna athugasemda þessara 37 ágætu manna. En má ég spyrja: Af hverju gerði ekki einhver einn þessara manna þessar athugasemdir upp á eigin ábyrgð án undirskriftasmölunar? Ef svo hefði verið gert, þá var þegar unnt að leiðrétta það, sem leiðrétta þurfti, og algerlega án nokkurs úlfaþyts í blöðunum.

2) Ég hef ekki miðað mál mitt við nein ákveðin skaðleysismörk flúormagns hér á landi, hvorki varðandi gróður né fóður. Vitneskja um slík mörk liggur ekki fyrir, en málið í athugun hjá nefnd, sem að tilhlutan iðnrn. hefur verið sett á laggirnar að tilhlutan Rannsóknaráðs ríkisins.

3) Eftir víðtækar rannsóknir flúornefndar svo kallaðrar eru niðurstöður samkvæmt skýrslum hennar m.a. eftirfarandi: Heildarmynd sú, sem fæst úr skrám og línuritum, leiðir í ljós, að flúormagn er verulega neðan þeirra magngildismarka, sem þekkt er, að orsaki sjáanlegar skemmdir á trjágróðri og flúorveiki í nautgripum, sem fóðraðir eru á algengan hátt. Í bréfi formannsins, prófessors Finns Roll-Hansens, sem er skógræktarstjóri Norðmanna eða stendur fyrir deildinni, sem fjallar sérstaklega um skaða á skógum eða skemmdir þar, dagsettu 11. jan. 1971, til framkvæmdastjóra Rannsóknastofnunar iðnaðarins, Péturs Sigurjónssonar, segir eftirfarandi um skýrslu flúornefndarinnar: „Som helhet er rapporten oversigtig, resultaterne ser betryggende ut med hensyn til skade pá vegetation.“ Í þessu felst, að þessi reyndi maður á því sviði, sem við erum að tala um, telur, að niðurstöður rannsóknanna séu þannig, að óþarft sé að óttast í bili. Hann bendir á, að 11/2 árs rannsóknir séu of stuttur tími og það þurfi þess vegna að fá fleiri niðurstöður og taka sér meiri tíma til þess að ganga úr skugga um, hvort þörf sé t.d. á hreinsitæki eða ekki.

4) Trjárækt getur brugðizt til beggja vona hér á landi, og þurfa hvorki skordýr né mengun að koma til í því sambandi. Má m.a. vísa til bréfs frá áðurnefndum Finn Roll-Hansen prófessor til Péturs Sigurjónssonar forstöðumanns Rannsóknastofnunar iðnaðarins frá 6. okt. 1967. Í því segir hann, að rekja megi skemmdir á nokkrum sýnum, sem rannsóknanefndin sendi honum af visnandi furu frá Heiðmörk og Vífilsstaðahlíð, til orsaka veðurfars, en ekki skordýra. Fjölmörg önnur slík dæmi eru kunn.

5) Flúormengun í vissum tegundum af trjám hefur reynzt meiri, áður en álbræðslan tók til starfa en ári eftir að hún hóf starfsemi sína. Á þetta sérstaklega við t.d. um sýni úr Hljómskálagarðinum í Rvík, þar sem flúormagn í birki reyndist 36.5 mg í kg í júní 1969, 39 mg í kg í sept. 1969, en 22.9 mg í kg í sept. 1970, eftir að álbræðslan hafði starfað í eitt ár. Fjölmörg önnur dæmi eru til um þetta, sem ég hef áður vitnað til.

6) Flúor í ýmsum samböndum er algengur í náttúrunni, enda fimmtánda algengasta frumefnið í jarðskorpunni. Flúor er algengur í beinum fiska og manna og getur verið gagnlegur í drykkjarvatni til að minnka tannskemmdir. Einungis ef flúormagnið fer yfir viss mörk, getur hann reynzt skaðlegur, og þess vegna er verið að vinna að öllum þessum rannsóknum, hvort flúormagnið er fyrir ofan tiltekin mörk eða ekki.

7) Á ráðstefnu um mengun, sem haldin var í Rvík 27.–28. febr. s.l. á vegum Landverndar og fleiri aðila, kom m.a. fram hjá Flosa H. Sigurðssyni veðurfræðingi eftirfarandi: Veðurfræðilegar rannsóknir hafa sýnt, að vindur stendur af áliðjuverinu á Hafnarfjörð og Reykjavík aðeins 1/5 hluta af árinu að jafnaði. Þegar vindur stendur á Reykjavíkursvæðið, er hann venjulega mjög hvass útsynningur og uppstreymi mikið, þynning verður því mjög mikil.

8) Samkvæmt samningi ISALs er skylt að greiða bætur fyrir það tjón, sem hugsanlega kann að orsakast af mengun frá álbræðslunni. Segja má því, að það hefur enginn hag af því að spara stofnkostnað og rekstrarkostnað í hreinsitækjum, en borga í þess stað stórar fjárfúlgur í skaðabætur, ef um raunverulegt tjón væri að ræða. Leiða má athygli að því, að frestun á að setja upp hreinsitæki, meðan tjón er ekki fyrir hendi, gæti leitt til þess, að hreinsitæki yrðu fullkomnari en ella, þegar þau verða sett upp, þar sem sífellt er unnið að rannsóknum og tilraunum á þessu sviði og mikil þróun hefur einmitt átt sér stað á þessum vettvangi upp á síðkastið.

Að lokum vil ég segja þetta: Einskis ber að láta ófreistað, til þess að iðnþróun á Íslandi, í hvers konar mynd sem hún birtist, verði eigi skaðvaldur á öðru sviði. Þess er nú gætt í miklu ríkara mæli en áður annars staðar í hinum siðmenntaða heimi. Við Íslendingar þurfum að setja okkar eigin lög og reglur í þessu sambandi, því að til þess eru vítin að varast þau. Það er nú unnið að því að semja frv. til l. almennt um varnir gegn mengun, sem svo fljótt sem verða má verður lagt fyrir Alþ. Ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ., er nú situr, frv. til I. um náttúruvernd, og ætlazt er til, að það verði afgr. sem lög, áður en þingi lýkur. Í landhelgisnefnd, sem skipuð er fulltrúum allra þingflokka, hefur verið sérstaklega rætt um sérstaka mengunarlögsögu á hafinu til að verja auðlindir þess skaðlegum áhrifum mengunar. Í þessum málum ætti ekki að vera ágreiningur milli alþm. Hér ber að stefna að einu marki. Okkur ber að samræma iðnþróun til hagsbóta fyrir almenning vörnum gegn skaðlegum áhrifum mengunar og heilbrigðri náttúruvernd. — Góða nótt.