03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (3720)

5. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Staðgreiðslukerfi opinberra gjalda er búið að vera nokkuð lengi á dagskrá, en það var tekið upp á vegum fjmrn. á árinu 1966 og þá á þann hátt, að það var samin um það mjög ítarleg skýrsla, aflað upplýsinga um kerfið og framkvæmd þess í ýmsum þeim löndum, þar sem það hafði verið innleitt, til þess að draga upp heildarmynd af þeim viðfangsefnum, sem yrði við að fást, og jafnframt reynt að skýra það, hvaða vandamál, kostir og gallar, fylgdu þessu kerfi miðað við okkar aðstæður hér. Skýrsla um þetta efni var þá lögð fyrir hið háa Alþingi jafnhliða því, sem lögð var fram þáltill., þar sem lagt var til, að ríkisstj. yrði falið að halda áfram athugun málsins og undirbúa löggjöf um staðgreiðslukerfi skatta hér. Sú breyting var gerð á þeirri till. hér á hinu háa Alþingi, að þingið kaus fremur, að það yrði kosin í þetta mál mþn., og var svo gert og málið þar af leiðandi um sinn úr höndum rn., en mþn. vann að athugun þess og skilaði síðan mjög ítarlegri grg. um málið, þar sem gerð var í senn grein fyrir þeim vandamálum, sem hér væri við að fást, og jafnframt voru dregnar upp höfuðtillögurnar, sem nefndin taldi sig geta mælt með varðandi formið á staðgreiðslukerfi, ef það yrði innleitt hér á landi. Nefndin var í rauninni sammála um, að það væri rétt að innleiða staðgreiðslukerfið. Það var þó að vísu nokkur ágreiningur um einstök atriði málsins, en það voru ekki aðalatriðin. Eftir að þessi skýrsla lá fyrir, taldi ég enn rétt, að málið kæmi til kasta Alþ., og grundvallarástæðurnar fyrir því voru þær, að það kom fram í þessari grg. mþn., að málið var miklum mun umfangsmeira og margþættara en ég hygg, að margir hv. þm. hafi gert sér grein fyrir. Og sérstaklega taldi ég nauðsynlegt, að það kæmi til kasta þingsins, svo að hægt væri að fá um það stefnumörkun, hvaða leið skyldi velja í sambandi við væntanlega löggjöf um staðgreiðslukerfið.

Þar er í rauninni um tvær meginleiðir að ræða. Annars vegar þá að laga staðgreiðslukerfið sjálft í meginefnum eftir því skattkerfi, sem við nú búum við. Og það má segja, að till. mþn. beinist að því, að það verði gert. Það er gert ráð fyrir, að kerfið nái til allmikils fjölda opinberra gjalda, en um leið bent á annmarkana, sem af þessu leiða. Það er ljóst, að ef þessi leið verður valin, þá verður hún flókin og kostnaðarsöm og mundi ekki nema að takmörkuðu leyti vinna upp þá kosti eða ná þeim kostum, sem staðgreiðslukerfið gæti haft, ef hægt væri að hafa það einfaldara. Hitt gæti komið til álita, og það er a.m.k. atriði, sem ég tel vert, að Alþ. íhugi sem stefnumörkun í málinu, áður en ríkisstj. verði falið að halda áfram undirbúningi að löggjöf, hvort ekki væri rétt að kanna það, hvort hugsanlegt væri að aðlaga skattkerfi okkar staðgreiðslukerfinu á þann hátt, að staðgreiðslukerfið gæti sem bezt notið sín. Það mundi kosta mjög veigamiklar breytingar á skattkerfi okkar, en ég held, að það sé a.m.k. ómaksins vert að íhuga það rækilega, hvort ekki sé fært að gera þær breytingar, ef menn vilja fá fram þann vinning, sem staðgreiðslukerfið hefur í för með sér, því að sannleikur málsins er sá, að ég efast um, að staðgreiðslukerfið, miðað við það að breyta ekki nema tiltölulega litlu af okkar núverandi skattalöggjöf, hafi í för með sér þá kosti, sem menn hafa gert sér í hugarlund, að það hefði, a.m.k. miðað við þá annmarka, sem það hefur í för með sér í stórkostlega aukinni fyrirhöfn og tilkostnaði. Till. um þetta efni var ekki afgreidd endanlega hér á Alþ. í fyrra, og hygg ég, að ástæðan hafi verið sú, að menn vildu í rauninni gjarnan íhuga þetta mál betur og töldu, að skýrsla sú, sem lögð var fram af mþn. og var hið skilmerkilegasta og ágætasta plagg, hefði leitt í ljós, að málið væri ekki eins einfalt og menn hefðu kannske fyrr álitið. Hygg ég, að þetta hafi verið meginorsök þess, að sú hv. n., sem fékk till. til meðferðar, skilaði ekki endanlegri álitsgerð um hana, áður en þingi lauk.

Skoðun mín í þessu efni er óbreytt að því leyti, að ég tel nauðsynlegt, að áður en farið er að leggja í mikla vinnu við stefnumörkun í þessu efni, fáist viljayfirlýsing Alþ. um það, hvora leiðina þingið telur rétt að fara í þessu efni, sem ég hef hér vikið að. Og ég hef því lagt til, að Alþ. lýsi yfir vilja sinum í þessu efni og felst það í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir og er efnislega óbreytt frá því, er hún var flutt á síðasta þingi, þó að orðalagi hennar sé nokkuð vikið til. En ég tel það mjög æskilegt, að Alþ. taki nú málið til endanlegrar afgreiðslu, og er þá að sjálfsögðu skylt í framhaldi af því að undirbúa málið. Verði það ofan á að fara þá leið, sem mþn. leggur til, er þegar til mikill efniviður í þetta varðandi löggjöfina. Verði hins vegar ofan á að taka málið nýjum tökum með einhverjum hætti, þarf að skoða ýmis atriði þess frá grunni, og getur það tekið lengri tíma. Það er rétt, að það komi fram.

Ég held, herra forseti, að ég hafi þá gert nokkurn veginn grein fyrir því, hvaða meginsjónarmið eru þess valdandi, að ekki er haldið áfram með málið, heldur óskað eftir viljayfirlýsingu Alþ. um það að nýju, og vona ég, að mér hafi tekizt að gera hv. þm. skiljanlegt, hvað fyrir mér vakir í því efni. Ég legg til, að till. verði vísað til hv. fjvn.