03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3731)

36. mál, úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu og uppsögn varnarsamnings

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vil segja af þessu tilefni. Ræða hv. flm., hv. 4. landsk. þm., snerist að verulegu leyti um það að skipta þm. í tvo hópa. Það voru gamlir menn og ungir menn. Hann minnti á, að þeir yngri væru nærri flm. í skoðunum í þessu máli, en hinir gömlu á móti. Og hann minnti sérstaklega á samþykktir ungra manna, ungra framsóknarmanna, ungra jafnaðarmanna, jafnvel fleiri, að þeir hefðu gert góðar samþykktir um það, að það bæri að vísa hernum úr landi. Ég vil ekki sætta mig við þessa skiptingu hjá hv. þm. Ég er nefnilega elzti þm. á þingi og búinn að vera það nokkur ár, og ég get undir eins í dag greitt atkv. með því, að hernum sé vísað úr landi, og þessarar skoðunar hef ég verið alla tíð síðan herinn kom til landsins. Ég mótmæli því algerlega þessari flokkun hjá hv. þm.

Um till. að öðru leyti ætla ég ekki að ræða að þessu sinni, enda tel ég mig ekki þurfa þess. Ég býst við, að þm. yfirleitt viti mínar skoðanir í þessu máli. En ég efast mjög um það, að allir ungir menn í flokkunum séu sömu skoðunar og hann og ég, hvað snertir hersetu á Íslandi. Því miður er ég hræddur um, að allmikill hluti ungra manna sé rétt eins og sumir hinna eldri og sætti sig vel við hersetuna, jafnvel áframhaldandi um ófyrirsjáanlegan tíma. Ég stóð upp til þess eins að ítreka þessa skoðun mína og minna hv. þm. á, að hann flokki ekki menn í unga og gamla í þessu máli.