17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

1. mál, fjárlög 1971

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, var dálítið úrillur hér áðan yfir því, að ég skyldi leyfa mér þann óskunda að bera fram till. um bráðaðkallandi nauðsynjamál í hans kjördæmi. Ég tek þetta nú ekki illa upp fyrir honum, hann er sjálfsagt orðinn þreyttur eftir störf fjvn. og þá getum við orðið úrillir, það get ég orðið líka. Og ég afsaka það nú með því, ég veit hver þrældómur hvílir á fjvn.-mönnum, þegar svona stendur á, eins og nú. Eitt sinn í gamla daga var ég í fjvn. og hef þess vegna af þessu persónulega reynslu.

En þær hnútur, sem hann sendi til mín varðandi þetta mál, hitta mig ekki. Ég var á fundi í mínu héraði fyrstu daga þessa mánaðar. Þeim fundi var stjórnað af sýslumanni Barðastrandarsýslu og auðvitað var það hans verk að senda út öll gögn og skjöl varðandi þau mál, sem þar voru afgreidd, en eitt af þeim málum var læknamiðstöðvarmálið, og það var öllum vitanlegt, að ef það átti að fá afgreiðslu á þessu þingi, eins og heimamenn á Patreksfirði virtust leggja mjög mikið upp úr, þá varð að hafa hraðan á að koma þeim gögnum frá sér í hendur réttra valdaaðila, heilbrmrh., landlæknis og svo þm. kjördæmisins. Og ég gat ekki látið mér detta í hug annað, af því nú er 17. desember, en að þetta hefði verið gert, fór að grennslast eftir þessu núna, þegar nálgaðist miðjan mánuðinn, 14.–15. þ. m. hjá landlækni. Því miður hafði landlæknir þá sjálfur verið sjúkur um sinn, en næsti maður hans, Benedikt Tómasson læknir, hann sagði mér, að hann sæi þess hvergi merki, að þessi gögn hefðu komið. En það átti að vera nægilegt svigrúm til þess, að landlæknir væri búinn að gefa sína umsögn, væntanlega meðmæli með þessu máli.

Og um það vissi ég ekkert, hvernig málið hefði verið afgr. nú á síðustu fundum fjvn. Það gat ég ekki haft neina vitneskju um. Aðstaða okkar þm. til þess að neyta okkar þingmannsréttar við 3. umr. fjárlaga er nú slík, að við getum ekki séð, hvaða till. koma frá fjvn., fyrr en rétt í byrjun fundar. Þá fyrst förum við að setjast niður til þess að undirbúa okkar till. og þær eru ekki komnar úr prentun, þegar komið er að því að ræða þær. Þm. hafa þær ekki enn þá í höndum, þessar till. mínar, held ég. Þær eru ekki komnar úr prentun enn. Enda er að ljúka umr. um þær. Þetta er auðvitað ekki boðlegt þm. Þetta er jafnvel enn fáránlegra en það, þegar hæstv. ríkisstj. er að kasta stórkostlegum málum inn í þingið undir þinglok eða þingfrestun og fara fram á, að þau séu afgreidd án umhugsunar og umsvifalaust. Þetta eru ekki góð vinnubrögð, en mér gafst þó tóm til þess núna í byrjun fundarins að sjá það, að fjárveitingar eru teknar til læknamiðstöðvar í Borgarnesi 6 millj. kr., til Ísafjarðar, læknamiðstöðvar, 6 millj. kr. og á Egilsstöðum vegna læknamiðstöðvar 6 millj. kr. Því fannst mér einsætt, að það hlytu að vera einhver mistök þarna á eða viljaskortur, þar sem ekki væri tekin upp fjárveiting til læknamiðstöðvar á Patreksfirði, sem búið var að gera ályktun um heima í héraði og átti að vera búið að senda til heilbrmrh. og landlæknis, þannig að öll skilyrði væru fyrir hendi fyrir fjvn. til þess að afgreiða málið. Og einhver mistök hafa þarna orðið. Það er ekki hægt að tala um dugnað eða ódugnað minn í sambandi við þetta. Ég hef enga aðstöðu til þess að senda út bréf frá sýsluskrifstofunni á Patreksfirði.

Nú segir hv. þm., að það sé naumur tími. Það er vissulega naumur tími til allra skynsamlegra vinnubragða, þegar svona er að þeim staðið. En ég er nú ekki alveg að koma á þing núna í fyrsta skipti og ég veit til þess, að þegar mál hafa borið að undir 3. umr. fjárl., mál, sem ríkisstj. hefur borið fyrir brjósti, þá hefur verið haft svo mikið við að skjóta á fundi í fjvn. og taka ákvörðun um slík mál. Og þar sem þetta hefur oftar en einu sinni verið gert, þá er hægt að gera það nú, þess vegna. Nei, ég tel, að það væri æskilegt, að allt annar háttur væri hafður á um afgreiðslu fjárl. Þm. eiga vissulega rétt samkv. þingsköpum til þess að bera fram till. við mál á öllum stigum þess, þangað til umr. er lokið, og þann þingmannsrétt má ekki af okkur taka. Þá eru meir en lítil handaskol við afgreiðslu fjárl. Fram á síðustu stund á að vera frjálst að bera fram brtt. við frv., og þann rétt höfum við að sjálfsögðu notfært okkur hér eins fljótt og kostur var á. Það var ekki hægt að setjast við að semja till., fyrr en við sáum till. meiri hl. og minni hl. fjvn. Þetta var undireins gert, ráðstöfun gerð til þess að fá þær prentaðar og þær eru ekki komnar úr prentun enn, þegar við erum kannske að ljúka umr. um þær. Þetta vildi ég segja, og enn ítreka ég það, að ef nokkur möguleiki er til þess, að fjvn. geti tekið afstöðu til þessa máls, sem mjög er hliðstætt þeim málum, sem n. hefur afgreitt og gert till. um, þá mundi ég óska þess mjög eindregið, að það verði gert. Það mætti þá fresta umr., svo að fjvn. gæfist slíkt svigrúm, ekki aðeins vegna þessarar till., heldur annarra till., sem eiga fyllsta rétt á því að verða skoðaðar í n. En hér háttar svo, eins og hv. þm. Vestf. er kunnugt, að þarna er byrjað að ráðast í byggingarframkvæmdir, sem miðast við það, að þær séu áfangi í því að koma upp læknamiðstöð, og er þar, eins og ég áðan sagði, læknisbústaður á Patreksfirði í byggingu, sem samkv. l. um læknamiðstöðvar ætti að greiðast af ríkinu, og skiptir það Patrekshrepp nokkuð verulegu máli. Væri þá kannske öðrum heldur nær að berjast fyrir því að koma málunum þannig fyrir, eins og eðlilegt er, heldur en mér.