10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (3751)

42. mál, upplýsingaskylda stjórnvalda

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um það, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. til laga um skyldu stjórnvalda og ríkisstofnana til að skýra opinberlega frá störfum sínum og ákvörðunum og að veita þeim, sem þess óska, aðgang að reikningum og skjölum, sem almenning varða. Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi, að til þess að almenningur geti dæmt um gerðir stjórnvalda og ríkisstofnana, þá þarf hann að eiga þess kost að geta fengið sem áreiðanlegastar upplýsingar um starfsemi þeirra og ákvarðanir. Nú skortir mjög á, að svo sé. Það hvílir mikil leynd yfir starfsemi flestra þessara aðila, og reikningum þeirra og skjölum er oftast haldið lokuðum, þannig að almenningur fær ekki aðgang að þeim. Þessi leynd dregur að sjálfsögðu úr því aðhaldi, sem þegnarnir gætu veitt og eiga að veita, og gerir það erfitt fyrir þá að dæma um athafnir stjórnvalda og ríkisstofnana, eins og þeir eiga að gera og ber að gera sem kjósendum. Í mörgum löndum hefur verið stefnt að því á undanförnum árum að auðvelda borgurunum að geta fylgzt með starfsemi opinberra stofnana og stjórnvalda, m.a. með því að gera almenningi kleift að kynna sér skjöl og reikninga og skilríki þessara stofnana eða þá með því að þær gefa út sérstakar skýrslur um starfsemi sína, þar sem veittar eru greinargóðar upplýsingar um það efni. Í ýmsum löndum hafa að undanförnu verið sett lög um rétt almennings til þess að eiga aðgang að skjölum og reikningum opinberra stofnana og stjórnvalda, þannig hefur slík löggjöf verið sett á þessu ári bæði í Noregi og Danmörku, og getum við að sjálfsögðu ýmislegt af því lært, hvernig þeirri löggjöf er háttað. Slíka löggjöf vantar enn hér á landi, og því er lagt til í þessari till., að ríkisstj. vinni að undirbúningi hennar fyrir næsta þing.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.