03.12.1970
Sameinað þing: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (3771)

56. mál, leit að bræðslufiski

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þessi till. til þál. er um, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta efla skipulega leit og rannsóknir ásamt veiðarfæra- og veiðitilraunum í því skyni að auka veiðar á bræðslufiski og gera þær veiðar fjölþættari. Athugunum að þessu leyti verði einkum beint að loðnu, kolmunna, spærlingi og sandsíli. Við eigum mjög mikið af ágætum síldarverksmiðjum, sem eru reistar á ströndinni víðs vegar. dreifðar mjög um landið. Við eigum í raun og veru heilt kerfi síldarverksmiðja, sem reistar hafa verið smátt og smátt á mörgum áratugum. Þessar verksmiðjur hafa malað þjóðinni mikið gull, en nú hafa síldarstofnarnir því miður eyðzt, minna er um síldina en var um langa hríð, og því hefur ekki verið hægt að notfæra sér þessar verksmiðjur til síldarbræðslu. En þá er spurningin: Er ekki hægt að gera ný átök í því að afla hráefnis af öðru tagi í þessi mikilfenglegu iðjuver, því að hér er sannast að segja um stór iðjuver að ræða, sem slæmt er að þurfa að láta liggja ónotuð og óarðbær. Þessi þáltill. fjallar um, að gerðar verði auknar ráðstafanir til þess að leita að þeim fiskum, sem vel gætu verið fallnir til hráefnis í slíkar bræðslur, og efldar verði tilraunir til þess að veiða þessa fiska, þannig að af því mætti leiða almenna útgerð á þessa nýju fiskistofna og upp rynni nýtt athafnatímabil fyrir þessi mikilfenglegu tæki á landi, sem sé síldarbræðslurnar.

Auðvitað er talsvert gert í þessu skyni, og nokkuð hefur því verið sinnt að leita að loðnu og fylgjast með loðnu og hjálpa til þess, að hún gæti orðið veidd til bræðslu. En samt sem áður finnst okkur flm., að meira mætti að gera í þessu efni, og í því sambandi leyfi ég mér að vísa í grein, sem kom í Ægi, riti Fiskifélags Íslands, 3. hefti 1969, eftir Jakob Jakobsson fiskifræðing, sem nefnist „Bræðslufiskur“. Í þessari grein kemur mjög greinilega fram, að fiskifræðingurinn telur líklegt, að hægt mundi vera að stunda loðnuveiði miklu lengur en gert hefur verið og ná betri árangri, ef enn meira væri í það lagt að leita að þessum fiski og fylgjast með honum. Ég fer ekki út í einstök atriði í þessu sambandi, sé ekki ástæðu til þess, því að ég geri ráð fyrir því, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, muni fá færustu sérfræðinga til þess að ræða við sig um málið og einnig forráðamenn sjávarútvegsins. En á það legg ég hina mestu áherzlu, að hv. n., sem fær málið til meðferðar, kveðji ekki aðeins forráðamenn Hafrannsóknastofnunarinnar á sinn fund, sem er mjög þýðingarmikið, heldur einnig fulltrúa frá samtökum sjómanna í landinu og útvegsmanna, því að það er þetta fólk ásamt fiskifræðingum, sem veit bezt um, hvaða möguleikar raunverulega eru hér fyrir hendi. Það þarf að leggja saman reynslu og þekkingu þessara manna og fiskifræðinganna, til þess að mynd fáist af því, hvernig ástatt er og hvað hægt muni vera að gera.

Næst vil ég fara aðeins örfáum orðum um kolmunnann, sem er áreiðanlega mjög þýðingarmikill fiskur, ef rétt er með farið. Ég vil í því sambandi gefa mönnum þær upplýsingar, sem ég hef fengið frá framúrskarandi fiskiskipstjórum, sem fylgjast með því, hvað gerist í þessum efnum, að rússnesk veiðiskip hafa stundað kolmunnaveiðar ár eftir ár hér austur af landinu og þau hafa brætt þennan fisk um borð í verksmiðjuskipunum og einnig fryst talsvert og flutt hann þannig heim með sér líklega til bræðslu heima fyrir. Norðmenn hafa einnig veitt æði mikið af kolmunna. En það eina, sem hér hefur verið gert í þessum kolmunnamálum, er það, að Árna Friðrikssyni hefur verið falið að skima eftir kolmunna um leið og hann hefur átt að annast síldarleit, en það er líka það eina, sem gert hefur verið. Í þessum leiðöngrum t.d. í maí 1970, hefur Árni Friðriksson fundið æði margar stórar torfur af kolmunna austur af landinu, en síðan ekki söguna meir. Það hafa sem sé engin fiskiskip verið þá við hendina til þess að fylgja eftir þessari vitneskju. Íslendingar hafa sem sé enn sem komið er ekki lagt sig eftir kolmunnaveiðum, og segja má, að þær yrðu að vera tilraunaveiðar hér hjá okkur, því að þær hafa ekki verið stundaðar. Sú eina kolmunnaveiði, sem hér hefur átt sér stað, er sú, sem orðið hefur óviljandi, þegar menn hafa fengið kolmunna í staðinn fyrir síld. En þess er ekki að vænta, að einstakir útvegsmenn geti lagt í leiðangra til kolmunnaveiða. Þess vegna þarf það opinbera að eiga hlut að því, að gert verði út á kolmunnaveiðar í tilraunaskyni og að þeir tilraunaleiðangrar verði settir í samband við kolmunnaleitina. Það er ekki nóg að leita að fiskinum og finna kannske talsvert af honum. Tilraunaskipið getur ekki veitt að neinu ráði. Aðrir verða að taka við og framkvæma veiðarnar, og það er ekki líklegt, að einstakir útgerðarmenn telji sig hafa bolmagn til þess að byrja á slíkum veiðum. Þess vegna er það okkar skoðun, að það þurfi að styrkja tilraunaleiðangra til kolmunnaveiða, og mér er kunnugt um, að það er gífurlegur áhugi meðal sjómanna og útvegsmanna einmitt fyrir þessu og þá ekki síður hjá þeim, sem eiga hér síldarbræðslur. M.a. hefur þetta komið til tals í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, að það sé kominn tími til þess, að hið opinbera eigi hlutdeild í slíkum leiðangri. Það er engin ástæða til að halda, að við getum ekki veitt kolmunna með góðum árangri hér austur af landinu eins og Rússar og Norðmenn. Við eigum standandi á ströndinni öflugar, góðar síldarverksmiðjur, sem hafa ekkert að gera, en kolmunnann úti fyrir, án þess að honum sé sinnt. En það kemst ekki skriður á þetta nema það sé bæði leitað og veitt í tilraunaskyni á vegum þess opinbera, t.d. í samvinnu við síldarverksmiðjurnar.

Ég skal svo ekki ræða um einstaka fiska meira. Ég nefni þessar fisktegundir. Það er raunar einnig athyglisvert í sambandi við þessar hugsanlegu kolmunnaveiðar, að það hefur ekki fengizt hér verðlagður kolmunni. Þó hafa ýmsir haft áhuga fyrir því, að hér fengist sett verð á kolmunna, ef menn vildu fara á stúfana og veiða hann til bræðslnanna, en það hefur ekki fengizt. Það hefur ríkt í þessu alger doði. En þetta þyrfti að breytast og ætti að ganga í það að gera kolmunnanum skil. Það þarf sem sé að okkar dómi að auka leitina að loðnunni og rannsóknir á henni, auka kolmunnaleitina og gera út leiðangra til þess að koma af stað kolmunnaveiðunum. Það er máske minna vert um spærlinginn og sandsílið. Ég þori ekki um það að segja. Þeim málum hefur verið nokkuð sinnt, en ég sé. ekki ástæðu til þess að ræða um þær fisktegundir sérstaklega, en það er sjálfsagt að taka það með að sinna því vel, að skyggnast eftir þeim og gera sér grein fyrir því, á hvern hátt þær gætu orðið nýttar.

Það er svo annað mál, að ég er alveg sannfærður um, að þessir litlu fiskar, svo sem loðna, kolmunni, spærlingur og sandsíli, geta ekki aðeins orðið bræðsluhráefni, þótt þeir séu nú hér nefndir í sambandi við bræðslur og bræðslu, heldur er það augljóst mál, að þegar eftirspurn eykst eftir fiskmeti í heiminum, sem eykst nú gífurlega eins og við sjáum, þá verða þessir fiskar mjög eftirsóttir til matar. Og það er nú þegar farið að notfæra sér loðnu mjög verulega til matar. Því skyldi ekki vera hægt að leggja niður og matbúa með margvíslegu móti þessa smáfiska eins og marga aðra smáfiska, svo sem sardínur o.fl. Það er ákaflega þýðingarmikið mál að notfæra sér þá möguleika, sem þarna eru fyrir hendi. En í því þarf alveg vafalaust talsverða opinbera forustu, og það viljum við reyna að sýna fram á og fá viðurkennt í framkvæmdinni, og við það er þessi þáltill.-flutningur miðaður.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.