08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3779)

64. mál, Útflutningsráð

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Norðurl. v., Ólafur Jóhannesson, flytjum hér till. til þál. um útflutningsráð. En till. er svo hljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til laga um útflutningsráð, er hafi það hlutverk að efla íslenzka útflutningsstarfsemi og annast um útflutnings- og markaðsmál í samvinnu við utanrrn. og viðskrn. Útflutningsráð verði sjálfstæð stofnun, skipað fulltrúum helztu samtaka íslenzkra útflytjenda og atvinnuvega. Viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar verði að hluta starfsmenn útflutningsráðs.“

Við teljum eðlilegt að taka þetta mál upp hér á hv. Alþ. í formi þál., þar sem gert er ráð fyrir því, að aðild að útflutningsráði eigi ýmsir aðilar og þess vegna eðlilegt, að nokkur undirbúningur fari fram um samningu lagafrv. um málið. Einn af þeim aðilum, sem gert var ráð fyrir í þáltill. að eigi aðild að ráðinu, er sjálft ríkisvaldið og þess vegna eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hafi forustu um að láta undirbúa frv. um málið. Fyrir nokkuð löngu síðan mun hafa verið samþ. hér á hv. Alþ. þáltill. frá Jóni Skaftasyni, hv. 2. þm. Reykn., á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga í samráði við fulltrúa atvinnuveganna, á hvern hátt megi efla markaðsrannsóknir og markaðsleit í þágu atvinnuvega þjóðarinnar, og verði niðurstöður þessara athugana lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Þetta mun hafa verið samþ. á Alþ. árið 1966. Ég hygg, að það hafi verið sett nefnd í þetta mál, en mér er ekki kunnugt um og ég dreg það í efa, að sú nefnd hafi skilað áliti enn sem komið er. Það eru ýmsir aðilar, sem hafa unnið merkt starf á vettvangi útflutnings- og markaðsmála, og má þar nefna marga; í sjávarútvegi t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga, SÍF og ýmsa fleiri; í landbúnaði Samband ísl. samvinnufélaga og fleiri. Þá hefur verið starfandi um tveggja ára skeið sérstök útflutningsskrifstofa fyrir iðnaðinn, og mun hún hafa unnið talsvert mikið og merkilegt undirbúningsstarf á sviði iðnaðarins, og vörusýninganefnd hefur haft nokkra starfsemi og fleira mætti eflaust nefna í þessu sambandi.

Það fer ekki á milli mála, að undirstaða íslenzks efnahagslífs er útflutningurinn. Afkoma Íslendinga, efnahagsleg, hvílir á útflutningsatvinnuvegunum að mjög verulegu leyti eins og kunnugt er og útflutningsstarfseminni. Á síðasta ári, árið 1969, munu hafa verið fluttar út vörur fyrir 9.5 milljarða ísl. kr. og sýnir það í raun og veru gleggst, hvílík verðmæti um er að ræða. Hlutur sjávarútvegsins er náttúrlega langstærstur í þessum efnum. En það er höfuðnauðsyn fyrir okkur Íslendinga að efla útflutninginn og útflutningsstarfsemina. Á því hvílir í raun og veru framtíðin í efnahagsmálum. Nýlega höfum við gerzt aðilar að Fríverzlunarbandalagi Evrópu. Það kemur til með að opnast og hefur opnazt markaður, nýr markaður að nokkru leyti fyrir okkar útflutningsafurðir, en þessi markaður er líka á vissan hátt hættulegur fyrir okkar atvinnulíf að því leyti til, að hann er mjög háþróaður. Þar er rekin mjög öflug og skipulögð framleiðslustarfsemi, sem kemur til með að keppa við okkar unga og tiltölulega lítt þróaða atvinnulíf. Það, sem e.t.v. mætti drepa á í sambandi við þessar hugleiðingar, það er nauðsynin á því fyrir Íslendinga að efla og byggja upp atvinnufyrirtæki þjóðarinnar. Án þess að ræða nokkuð nánar um það mikla deilumál, hverjir eigi að vera eigendur atvinnutækjanna þá er eitt ljóst, og það er það, áð uppbygging atvinnufyrirtækjanna hlýtur að vera stórkostlegt framtíðarmál fyrir þjóðina, sem allir ættu að gefa gaum að og alls ekki gera of lítið úr.

Það, sem flestar þjóðir kappkosta í raun og veru, er að efla og stækka atvinnufyrirtækin og taka í þjónustu þeirra nýja tækni, vísindi og nýja kunnáttu á öllum sviðum. Fer mikið fyrir skipulagningu af ýmsu tagi í þessum efnum, bæði innan fyrirtækjanna sjálfra og einnig í sambandi við atvinnuuppbyggingu til þess að skapa skilyrði fyrir hagstæðari þróun í þessum málum. Þessi till., sem við flytjum hér, er í raun og veru um það, að hafizt verði handa um skipulagningu og samræmingu á útflutnings- og markaðsmálum þjóðarinnar, og það hafa verið gerðar samræmdar aðgerðir í þessum málum. Það mætti segja, að hægt væri að gera greinarmun á tveimur stefnum í þessu efni. Önnur stefnan er sú, að hver atvinnugrein fyrir sig setji upp sérstaka stofnun, sem fjallar um útflutnings- og markaðsmál. Í því sambandi má geta þess, að það hafa verið lögð fyrir hv. Alþ. frv. til laga, og það mun liggja eitt frv. af þessu tagi fyrir Alþ. nú, frv. til laga um útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Á Alþ. 1967 var lagt fram frv. til laga um fiskimálaráð, sem gerði ráð fyrir því, að fiskimálaráð skyldi vera ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og markaðsmálum og hafa þar með höndum mikil verkefni. Þá kom fram frv. hér á þinginu 1965–1966 um Stéttarsamband bænda, samningsrétt þess o.fl. Flm. var hv. þm. Hannibal Valdimarsson. Þar var gert ráð fyrir sérstöku útflutningsráði landbúnaðarins. Það eru því ýmsir þeirrar skoðunar, að það geti komið til greina að velja þá stefnu í þessum málum að greina þetta niður eftir atvinnugreinum og hafa sérstaka starfsemi á vegum sjávarútvegsins, landbúnaðarins og iðnaðarins. Hin stefnan er sú að reyna að samræma og skipuleggja starfsemi allra útflutningsgreina með tilliti til þess að veita þeim kröftum, sem þessar atvinnugreinar hafa yfir að ráða, í einn og sama farveg og byggt á þeirri hugsun, að starfsemi af því tagi gefi betri árangur heldur en að greina þetta niður, sem sagt að sameina kraftana og okkar takmörkuðu getu í stað þess að greina þetta niður í margar kvíslar.

Í okkar nágrannalöndum hefur verið komið á fót sérstökum útflutningsráðum til þess m.a. að greiða fyrir framleiðendum með sölu á framleiðsluvörum sínum á erlendum mörkuðum. Ég hef sérstaklega kynnt mér, hvernig þessum málum er háttað í Noregi, með því að athuga löggjöf, sem Norðmenn hafa samþ. um útflutningsráð Noregs. Í styrjaldarlokin, þegar Norðmenn hófu endurreisnina, var komið á skipulagðri samvinnu milli útflutningsatvinnuveganna annars vegar og yfirvalda hins vegar, svo og milli hinna ýmsu útflytjenda innbyrðis. Var þetta gert með stofnun sérstaks útflutningsráðs árið 1945. Árið 1956 og aftur 1959 var norska útflutningsráðið endurskipulagt. Þá var lögfestur tekjustofn til handa ráðinu, sem svarar til 3/4%o af öllum norskum útflutningi nema skipum. Staða ráðsins sem sjálfstæðrar stofnunar var og styrkt. Það má geta þess, að útgjöldin vegna rekstrar norska útflutningsráðsins námu árið 1967 um 7.8 millj. norskra króna eða milli 90 og 100 millj. íslenzkra króna.

Ráðið er þannig skipað, að meiri hl. meðlima þess eru fulltrúar frá sérstökum samtökum. Sérstaklega er tekið mikið tillit til þýðingarmestu útflutningsaðila. Þá eiga viðskiptabankar þar fulltrúa svo og verzlunarflotinn norski. Landssamband norskra iðnaðarmanna, sýningarsamtökin norsku, samtök sjávarútvegsins, fulltrúar frá utanrrn., fjmrn. og viðskrn. eiga einnig fulltrúa í ráðinu. Utanrrn. ákvarðar fjölda meðlima þess eftir að hafa lagt það mál fyrir stjórn ráðsins. Hins vegar tilnefna hinar ýmsu stofnanir, sem fulltrúa eiga í ráðinu, fulltrúa sína. Ríkisstj. tilnefnir þó formann ráðsins, og alls eru um 43 meðlimir í norska útflutningsráðinu. Það heldur reglulega fundi tvisvar á ári og velur sér þar stjórn og framkvæmdastjóra.

Stjórnin er kosin til eins árs í senn. Fjórir fulltrúar eru valdir frá iðnaðarframleiðslunni og iðnaðarmönnum, þrír frá fiskútflutningnum og tveir frá útflutningsverzluninni. Þrír eru síðan valdir án þess að vera fulltrúar neinnar sérstakrar atvinnugreinar, og formaður ráðsins er einnig í stjórninni ásamt fulltrúa frá utanrrn. Alls eru því 14 fulltrúar í stjórn. Þessi stjórn heldur 4–6 reglulega fundi á hverju ári. Formaður útflutningsráðsins, fulltrúi utanrrn. og framkvæmdastjóri ráðsins ásamt fjórum meðlimum þess, kosnum af stjórninni, mynda framkvæmdastjórn, sem heldur fundi 6–8 sinnum á ári. Formaður útflutningsráðs er einnig formaður framkvæmdastjórnar. Hina daglegu framkvæmdastjórn annast fastir starfsmenn undir stjórn framkvæmdastjóra ráðsins.

Aðalskrifstofurnar eru í Osló og vinna þar um 85 manns í þremur deildum. Í fyrsta lagi er stjórnsýsludeild, í öðru lagi upplýsingadeild og í þriðja lagi sérstök markaðsdeild. Stjórnsýsludeildin sér um skrifstofuhald og almennan rekstur ráðsins. Upplýsingadeildin hefur tvíþætt hlutverk. Í fyrsta lagi að upplýsa norska útflytjendur um ástand og þróun erlendis, sem getur haft þýðingu fyrir söluaukningu á útflutningsvörum, og í annan stað að kynna útlendingum, útlendum viðskiptavinum, möguleika á hvers konar útflutningi frá Noregi og ekki sízt hvenær hann geti átt sér stað. Markaðsdeildin ræður starfsmenn, sem eiga að vera sérfræðingar á hinum mismunandi mörkuðum og einnig reyndir á þeim sviðum, sem þeir fjalla sérstaklega um. Þessir starfsmenn eru til reiðu fyrir alla, sem leita ráðlegginga hjá ráðinu um útflutning.

Á þýðingarmestu mörkuðum hefur útflutningsráðið eigin sendimenn, t.d. í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Niðurlöndum, Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. Þeir vinna í nánum tengslum við utanríkisþjónustuna. Þar sem diplomatar vinna að markaðsrannsóknum og verzlunarmálum, eru störf þeirra unnin á ábyrgð útflutningsráðsins og þeir senda skýrslur sínar þangað. Á þetta jafnt við um sendiráðin, aðalræðismannsskrifstofur, ræðismenn o.fl. Hefur fulltrúum utanríkisþjónustunnar verið beitt í vaxandi mæli á þessum vettvangi. En þessir aðilar geta í krafti stöðu sinnar og kunnugleika í þeim löndum, þar sem þeir starfa, aðstoðað norska útflytjendur á ýmsa máta.

Norskir iðnrekendur og verzlunarsambandið hafa stofnað sérstakan skóla, sem heitir útflutningsskóli Noregs og heldur námskeið um þessi málefni. Verkefni skólans er fyrst og fremst að sérhæfa unga menn, sem hafa nokkra reynslu fyrir, í útflutningsmálunum og iðnaði eða verzlun. Einnig eru haldin sérstök námskeið fyrir framkvæmdastjóra fyrirtækja. Í Osló er sérstök bygging fyrir iðnaðinn og verzlunina. Þar eru stöðugar sýningar á norskum vörum á vegum sérstakrar stofnunar, sem útflutningsráðið og samband norskra iðnrekenda eiga. Þá fer einnig fram kynningarstarfsemi í þessu húsi á norskum matvörum á vegum stofnunar, sem heitir Norsk matsentrum eða Norska matvælamiðstöðin. Útflutningsráðið er aðili að þessari stofnun. Útflutningsráðið hefur svo með höndum margþætta starfsemi, t.d. upplýsingastarfsemi og mikla útgáfustarfsemi bæði heima og erlendis. Það stuðlar að þátttöku í vörusýningum í samráði við norsku sýningarsamtökin og aflar sjónvarpsefnis bæði fyrir norska sjónvarpið og einnig fyrir erlendar sjónvarpsstöðvar, sem er liður í þessari útbreiðslustarfsemi. Það skipuleggur ferðir blaðamanna til Noregs og fræðir þá um þessi málefni með fyrirlestrahaldi, kvikmyndasýningum og ferðalögum, og margt fleira mætti segja um útbreiðslu- og kynningarstarfsemi norska útflutningsráðsins.

Útflytjendur snúa sér til ráðsins til að fá greitt úr ýmiss konar vanda varðandi útflutningsmálin. Talsvert þýðingarmikill þáttur í starfsemi útflutningsráðsins er að skapa sambönd milli útflytjenda og erlendra kaupenda og er það gert með ýmsum hætti.

Þá eru markaðsupplýsingar mjög þýðingarmikill þáttur í starfsemi útflutningsráðsins, þar sem einstök fyrirtæki geta snúið sér til þess og fengið þar beztu fáanlegar upplýsingar í sambandi við möguleika á sölu þeirrar framleiðslu, sem viðkomandi fyrirtæki framleiðir. Margt fleira mætti auðvitað segja um starfsemi norska útflutningsráðsins. Ég hef orðið dálítið langorður um það, hvernig það er skipað og hvernig Norðmenn haga þessum málum hjá sér. Ég geri mér auðvitað vel ljóst, að við Íslendingar mundum að sjálfsögðu ekki setja upp svo stóra stofnun sem Norðmenn hafa gert. Það liggur í hlutarins eðli. Eigi að síður getum við sitthvað af þessari starfsemi Norðmanna lært, og þess vegna vildi ég skýra frá skipun og starfsemi norska útflutningsráðsins í sambandi við þessa þáltill. um útflutningsráð.

Að dómi okkar flm. er hér um að ræða þýðingarmikið og tímabært málefni. Mjög er áríðandi að örva og efla útflutningsverzlun þjóðarinnar og finna markaði fyrir vaxandi útflutningsframleiðslu, sérstaklega í sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði. Með tilkomu markaðsbandalaga og aðildar okkar að EFTA vex nauðsyn á að tengja á lífrænan hátt framleiðslustarfsemi atvinnuveganna við erlenda markaði í þeim tilgangi að greiða fyrir sölu á framleiðsluvörum okkar. Ætla verður, að erfiðleikum sé bundið fyrir einstök fyrirtæki að standa fyrir markaðskönnun á erlendri grund. Hér þarf til að koma samstillt átak ríkisvaldsins og íslenzkra atvinnuvega.

Útflutningsráð færi fyrst og fremst með útflutningsog markaðsmál í samvinnu við utanrrn. og viðskrn. og þyrfti á skipulegan hátt að vinna að því að afla markaða erlendis fyrir íslenzkar framleiðsluvörur. Útflutningsráð þyrfti að vera upplýsinga- og kynningarmiðstöð fyrir útflytjendur og atvinnuvegina. Það væri útflytjendum til ráðuneytis um verzlun og viðskipti milli landa. Þá þyrfti útflutningsráð að hafa forgöngu um framleiðslu nýrra vörutegunda, sem ætla mætti, að markaður væri fyrir eða möguleikar á að skapa nýjan markað fyrir. En höfuðatriðið er að byggja á því að framleiða vörur aðeins fyrir markaði, sem fáanlegir eru, en ekki eins og stundum hefur viljað brenna við að framleiða vöruna og reyna svo að afla henni markaðar, eftir að hún hefur verið framleidd. Markaðsathuganir hafa farið fram hjá ýmsum aðilum. Þar er fyrst að nefna utanrrn., því að sendiráðin munu hafa haft með höndum einhverja takmarkaða markaðsathugun. Það leiðir af sjálfu sér, að starfslið sendiráða er ekki svo fjölmennt, að það geti sinnt þessari mjög svo nauðsynlegu starfsemi nema að mjög óverulegu leyti, því að á þessum sviðum þurfa í raun og veru að starfa sérfróðir menn, menn með sérþekkingu á vörum, framleiðsluvörum og verzlun o.fl., til þess að við höfum möguleika á því að keppa við aðrar þjóðir á þessum sviðum. Viðskrn. hefur aðstoðað utanrrn. við gerð viðskiptasamninga við önnur ríki, og þar er starfandi sérstök útflutningsdeild, sem hefur með höndum leyfisveitingar til útflutnings. Undir það heyrir alþjóðleg efnahagssamvinna, og það hefur fylgzt með þróun markaðsbandalaga og hefur haft með höndum upplýsingasöfnun um erlenda markaði almennt. Það er fjarri mér að vilja gera á neinn hátt lítið úr viðleitni þeirra aðila, sem hér hafa verið nefndir, og fleiri aðila í sambandi við markaðsmálin og markaðsathuganir, en ég hygg, að það sé nú samdóma álit flestra, ekki sízt þeirra, sem starfa í atvinnurekstrinum, að það sé nauðsynlegt að taka miklu fastar á í þessum málum og gera stærri átök í markaðsmálunum.

Við leggjum til, að útflutningsráð verði sjálfstæð stofnun, skipuð fulltrúum helztu samtaka íslenzkra útflytjenda og atvinnuvega, og ef hagkvæmt þætti, gætu utanrrn. og viðskrn. einnig átt fulltrúa í útflutningsráði. Ég tel, að það komi mjög til greina að sameina viðskrn. og utanrrn., að leggja viðskrn. undir utanrrn. Þá yrði hæstv. viðskrh. — hann er ekki viðstaddur — þá yrði hans starfssvið miklu minna en það er nú, en ýmsir eru þeirrar skoðunar, að það sé óþarfi að hafa þessa starfsemi í tveimur rn., heldur kæmi mjög til greina í sambandi við stofnun á sérstöku útflutningsráði að leggja viðskrn. undir utanrrn. En það mætti hugsa sér — og það hafa komið fram raddir um það, — ef sérstakt útflutningsráð yrði stofnað, að það heyrði t.d. undir viðskrn. Við erum hins vegar á þeirri skoðun, að það sé æskilegast, að þessi stofnun sé sjálfstæð stofnun og í sem lífrænustu sambandi við atvinnuvegina og mjög undir stjórn þeirra, til þess að slík stofnun hafi meiri þrýsting og meiri áhuga á að vinna að þessum málefnum, því að það ætti að vera tryggður áhugi atvinnuveganna eða fulltrúa frá atvinnuvegunum á starfi stofnunarinnar, ef hún er starfrækt á þeirra vegum að miklu leyti og undir þeirra stjórn, en auðvitað í samráði við sjálft ríkisvaldið. Starfsmenn útflutningsráðs erlendis þyrftu ekki allir að vera fastir opinberir starfsmenn og þeir yrðu að hafa trausta þekkingu á þörfum atvinnulífsins, verzlun og viðskiptum, en njóta jafnframt aðstoðar og fyrirgreiðslu utanríkisþjónustunnar. Æskilegast væri, að viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar verði að hluta starfsmenn útflutningsráðs og ráðnir til starfa í samráði við eða eftir tilnefningu ráðsins. Lagt mun hafa verið fyrir hv. Alþ. í fyrra frv. til l. um utanríkisþjónustu Íslands. Ég hygg, að það hafi nú ekki komið fram enn þá á þessu þingi, en þar hygg ég, að sé gert ráð fyrir því, að ráðnir verði sérstakir viðskiptafulltrúar í utanríkisþjónustuna, og það er með hliðsjón af því, sem við gerum þetta að umtalsefni hér í grg. fyrir till.

Við höfum ekki gert till. um, hverjir eða hvernig afla skuli fjár til að greiða kostnað af störfum útflutningsráðs. En ég vil benda á, hvernig Norðmenn fara að. Þeir fara þannig að, að þeir leggja vægt gjald á útflutningsvörur, sem er svo m.a. notað til þess að standa straum af kostnaði við rekstur ráðsins. Þó er þetta atriði, sem auðvitað er hægt að haga á ýmsa vegu og ekki óeðlilegt kannske, að ríkisvaldið, ef það á einhverja aðild að ráðinu, tæki sérstaklega þátt í þessum kostnaði.

Það væri e.t.v. ástæða til þess að spyrja um það, hve rík þörf væri á stofnun sérstaks útflutningsráðs. Ég vil geta þess í því sambandi, að kanadískir sérfræðingar í markaðsmálum rannsökuðu nýlega möguleika íslenzka niðursuðuiðnaðarins og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að kerfið og skipulagið vantaði hjá okkur að miklu leyti, svo og kunnáttu á eðli markaðsleitar. Þó að þeir hafi ekki lagt neitt sérstakt til í þessum efnum, þá hafa þeir þó komið auga á það, að æskilegt er, að þessi málefni og þessi starfsemi verði samræmd og styrkt mun meira en verið hefur fram til þessa. Það er skortur á upplýsingamiðstöð fyrir íslenzka framleiðendur, og það má vísa til þeirrar reynslu, sem Norðmenn hafa haft af starfsemi útflutningsráðs, en ég hygg, að hún sé mjög jákvæð, og auk þess leyfi ég mér að vísa í það, sem ég hef áður sagt hér um þessi efni.

Ég vildi svo leyfa mér að óska þess, herra forseti, að þáltill. þessari verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.