08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í D-deild Alþingistíðinda. (3781)

64. mál, Útflutningsráð

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég upplýsa það mjög greiðlega, að það er ekki hugsunin með flutningi þessarar þáltill., að þessi stofnun verði annað en fyrirgreiðslustofnun og til aðstoðar þeim aðilum, sem eru í framleiðslunni eða í tengslum við framleiðsluna eða í verzluninni, eða öðrum þeim aðilum, sem starfa að útflutningsmálum. Það er e.t.v. ekki nægilega skýrt orðalagið á þáltill. að þessu leyti, en það, sem fyrir okkur vakir, er fyrst og fremst þetta: að það verði fyrirgreiðslustofnun, er verði til aðstoðar þeim aðilum, sem ég nefndi. En við leggjum á það ríka áherzlu, að þessi stofnun verði sjálfstæð stofnun, sem atvinnugreinarnar, verzlunin og e.t.v. fleiri aðilar, eiga aðild að og stjórna í raun og veru. Og eins og ég tók fram hér áður í minni framsöguræðu, þá teljum við skynsamlegra að haga málum á þann veg í stað þess, að þessi stofnun heyrði undir ríkisvaldið, t.d. viðskrn. eða utanrrn., þó að þessar stofnanir kæmu til með að hafa veruleg afskipti af þeim störfum, sem unnin verða á vegum útflutningsráðsins. Þannig get ég svarað þessu greiðlega á þá leið, að það vakir ekki fyrir okkur, að þessi stofnun breyti á neinn hátt stöðu þessara aðila, sem hv. 3. þm. Sunnl. gat um hér áðan.