24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (3787)

68. mál, iðnþróunaráætlun

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Þegar á dagskrá var hér í fyrra till. um aðild Íslands að EFTA, fluttu framsóknarmenn till. um frestun á afgreiðslu þess máls, m.a. með tilliti til þess, að ekki lægi fyrir iðnþróunaráætlun, sem gerði ráð fyrir þeim breytingum, sem aðildin mundi hafa í för með sér. Raunar var þetta ekki ný hugsun af hálfu framsóknarmanna, því að því hafði nokkuð oft verið hreyft á undanförnum áratug af þeirra hálfu, að gera þyrfti slíka áætlun. Aðildin að EFTA markaði að sjálfsögðu tímamót í þessu efni, og var í því sambandi eðlilegt að líta bæði aftur á bak og skoða, hvar við stæðum nú í þessum efnum, og eins fram á við og gera áætlanir um, hvernig við snerumst við hinum nýju viðhorfum í sambandi við uppbyggingu nýrra atvinnugreina á sviði iðnaðar og þróun hinna eldri. Þessi nýju skilyrði, sem EFTA-aðildin hafði í för með sér, voru einkum fólgin í því að opna iðnaðarvarningi landsmanna stóran markað, en jafnframt hvarf að sjálfsögðu sú vernd, sem innlendi iðnaðurinn hafði á heimamarkaðinum. Menn voru þá að sjálfsögðu misjafnlega bjartsýnir á það, hvernig takast mundi til, og mér er nú nær að halda, að hinir bjartsýnustu kunni að hafa orðið fyrir einhverjum vonbrigðum. Stóri 200 millj. manna markaðurinn hefur ekki staðið með útbreiddan faðminn fyrir íslenzkum iðnaðarvörum, heldur er hér tvímælalaust um mjög erfitt viðfangsefni að ræða að koma íslenzkum iðnaðarvörum á erlendan markað, og virðist sú reynsla, sem þegar er fengin, þótt stutt sé og kannske of stutt til þess að draga af henni almennar ályktanir, nokkuð styðja þá skoðun.

Eftir þrjú ár tekur sú vernd, sem iðnaðurinn hefur á innlendum markaði, enn að skerðast, og það verður að gera allt, sem unnt er, til þess að búa iðnaðinn undir þá þolraun, sem hann þá stendur frammi fyrir. Það er að okkar dómi, flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir á þskj. 70, nauðsynlegast að skilgreina markmið okkar með iðnaðaruppbyggingunni, ákveða hvert skuli stefnt og varða leiðina að því marki. Í hv. Ed. höfum við nokkrir framsóknarmenn flutt frv. um atvinnumálastofnun, sem gerir ráð fyrir, að komið verði á fót stofnun, sem vinni að áætlanagerð á sviði atvinnumála, og það verkefni, sem hér er lagt til í þessari till., að unnið sé, mundi að sjálfsögðu falla undir verksvið þeirrar stofnunar, ef hún væri komin á fót. En það er hún nú ekki, og jafnvel þó að frv. okkar fengi fljóta afgreiðslu, þá hefur okkur þótt eðlilegt að taka þetta mál út úr og leggja til, að því yrði sérstaklega sinnt nú þegar, þar sem við teljum, að það þoli ekki langa bið.

Það hefur á undanförnum árum mikið verið um það rætt, hverjar tegundir iðnaðar við munum þurfa að byggja upp í okkar landi, og margir hafa lagt mikla áherzlu á það, að svo kölluð stóriðja eða orkufrekur iðnaður gæti orðið meginuppistaða þeirrar uppbyggingar. Við, sem þessa till. flytjum, erum ekki þeirrar skoðunar. Við lítum svo á, að sá iðnaður, sem þar er um að ræða, henti ekki íslenzku þjóðinni nema að mjög takmörkuðu leyti. Þar kemur fyrst og fremst til greina, að stofnkostnaður við slíkan iðnað er ákaflega mikill. Í þeirri grein, sem við þekkjum helzt enn þá, sem er álbræðsla, reynist stofnkostnaður á hvern starfsmann vera um 15 millj. kr., og í mörgum öðrum greinum er þessi tala svipuð, jafnvei hærri í ýmsum, og skal ég neita mér um það hér að telja það frekar upp. En í einni af þeim greinum, sem talað hefur verið mjög um hér á sviði orkufreks iðnaðar, sem er framleiðsla þungs vatns, er gert ráð fyrir stofnkostnaði á hvern starfsmann, sem nemur 58 millj. kr., og er það nú hæsta tala af þessu tagi, sem heyrzt hefur nefnd. En ef miðað væri við það, sem um er að ræða í áliðnaði, 15 millj. á hvern starfsmann, þá er það ljóst, að ef ætti að hugsa sér t.d., að sá iðnaður gæti tekið við þó ekki væri nema 10 þús. starfsmönnum, þá væri um að ræða stofnkostnað upp á 150 milljarða kr., sem er miklu hærri upphæð en nokkur von er til, að við Íslendingar getum lagt til. Þó að við fengjum það fjármagn annars staðar frá, þá væri það ljóst, að með þeim hætti væri fjárhagslegu sjálfstæði atvinnulífs okkar og þar með pólitísku sjálfstæði þjóðarinnar stefnt í tvísýnu. Það er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt, að einhver orkufrekur iðnaður geti verið þáttur í íslenzku atvinnulífi. Það er ekki óeðlilegt hjá þjóð, sem hefur í landi sínu svo miklar orkulindir sem við höfum, og þess vegna höfum við í till. þessari gert ráð fyrir því, að það væri þáttur í þeirri áætlunargerð, sem hún fjallar um, að gert væri yfirlit yfir þá möguleika á þessu sviði, sem fyrir hendi eru. Það er ljóst, að þeir möguleikar eru á margan hátt í margs konar samhengi hver við annan, einn kostur, sem tekinn kynni að verða, útilokar annan eða það þarf að taka tillit til annarra möguleika í sambandi við hann, og af því leiðir að okkar dómi, að mjög nauðsynlegt er, að heildaryfirlit yfir þessa kosti liggi fyrir og hlutirnir séu skoðaðir í samhengi hver við annan. Við erum þeirrar skoðunar, að þjóð, sem hefur yfir litlu fjármagni að ráða, hljóti að byggja atvinnuuppbygginguna á þeim þáttum, þar sem fyrst og fremst er tekið tillit til þess vinnuafls, sem þjóðin hefur yfir að ráða, frekar en að miða við fjármagn, sem þjóðin hefur ekki og þyrfti að fá annars staðar.

En hvaða svið eru það þá, sem athyglin ætti að beinast að? Þau eru auðvitað mörg, og vil ég þar til fyrst nefna iðnað, sem byggir á innlendum hráefnum og innlendum undirstöðuatvinnuvegum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Það var fyrir rúmum fjórum árum, að samþ. var hér á Alþ. þál., sem gerði ráð fyrir því, að ríkisstj. skipaði nefnd til þess að gera ítarlegar athuganir á því, á hvern hátt yrði bezt unnið að því að koma á aukinni fjölbreytni í framleiðslu sjávarafurða og bæta nýtingu sjávaraflans með því að efla þær iðngreinar, sem vinna úr honum vörur, sem skapa sem mest útflutningsverðmæti. Þessi nefnd var skipuð fyrir meira en fjórum árum, og tveimur árum síðar skilaði hún mjög merku áliti. Í þessari nefnd voru þrír ágætir sérfræðingar. Sigurður Pétursson gerlafræðingur var formaður nefndarinnar, og með honum í nefndinni voru verkfræðingarnir Hjalti Einarsson og Gísli Hermannsson. Það álit, sem þeir lögðu fram, er mjög merkilegt og felur í sér margvíslegar ábendingar og till., og hefði verið fróðlegt, ef hæstv. ráðh., sem um þær hafa fjallað, væru hér staddir, svo að hægt væri að fá upplýsingar frá þeim um það, hvað gert hefði verið til þess að hrinda þessum till. í framkvæmd, en því miður er mér nær að halda, að það muni ekki hafa verið eins mikið og æskilegt hefði verið.

Það er enn fremur oft talað um iðnaðarmöguleika, sem byggðust á afurðum landbúnaðarins. Á því sviði hefur töluvert mikið verið unnið á undanförnum árum og áratugum. Nú á s.l. ári hafa t.d. verið reistar verksmiðjur til þess að vinna meiri hlutann af öllum gærum, sem til verða í íslenzkum landbúnaði, og er þess að vænta og vona, að þó að sú uppbygging hafi komið mjög skyndilega og orðið mjög stórfelld á einu ári, þá muni þarna samt hafa verið rétt að farið og þetta muni bera þann árangur, sem til var ætlazt. En þó er það þannig, að markaðir fyrir sútaðar, íslenzkar gærur eru nær eingöngu í einu landi og eru það enn þá, þrátt fyrir aðild okkar að EFTA, og það er land, sem er utan þess bandalags, nefnilega Bandaríkin, sem hafa keypt um 85% af öllum unnum gærum, sem fluttar hafa verið út úr landinu.

Á sviði ullariðnaðarins eru nú orðnar í landinu verksmiðjur, sem eru færar um að vinna nær alla ull, sem hér fellur til. Og af þessu má sjá það, að ef eingöngu væri í þessum greinum miðað við innlendu hráefnin, þá eru vaxtarmöguleikar þessara greina nær tæmdir í bili, en því segi ég þetta, að ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á því, að þessi iðnaður á að mínu viti að geta orðið grundvöllur, sem byggt yrði á áfram með þeim hætti að flytja hráefni inn til viðbótar innlendu hráefnunum. Það er alveg ljóst, að íblöndun margvíslegra annarra tegunda ullar og trefjaefna í íslenzku ullina mundi gera hana hæfari til miklu fleiri nota heldur en nú er, en enn þá mun heldur lítið hafa verið gert af því að kanna þá möguleika til hlítar. Enn fremur er eðlilegt að gera ráð fyrir því, að þær verksmiðjur, sem byggðar hafa verið upp til þess að vinna úr íslenzkum gærum og íslenzkum skinnum, geti einnig unnið úr innfluttum húðum af ýmsu tagi, en það er alkunna, að erlendar verksmiðjur af þessu tagi flytja hráefni sín frá ýmsum löndum víðs vegar um heim til vinnslu. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að byggja iðnað upp hér á landi, jafnvel ekki iðnað, sem ætlaði sér aðallega að selja vörur sínar á erlendum markaði, á grundvelli erlendra hráefna. Þetta er gert á fjölmörgum sviðum víða annars staðar og raunar einnig hér. Ýmsar greinar, sem menn gera sér vonir um hér, að geti orðið frambúðaratvinnugreinar hér á landi, eru einmitt þannig upp byggðar. Það má nefna þar t.d. skipasmíðaiðnaðinn og ýmsa málmsmíði og margvíslegt fleira.

Ég skal nú ekki hafa þessa upptalningu mjög langa, heldur reyna að takmarka mál mitt nokkuð. Fyrst hæstv. forseti var svo vinsamlegur að lofa mér að koma hér fram fyrir ýmsa aðra, þá skal ég ekki misnota þann velvilja með því að halda hér mjög langa framsöguræðu fyrir þessari till., en ég vil þó leggja á það megináherzlu, að það er skoðun okkar flm., að það þurfi að fara fram ítarleg og skipuleg rannsókn á þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru og sem til umr. hafa verið, og þær niðurstöður verði svo að setja upp í áætlun, sem við ynnum eftir á komandi tímum.

Það er einnig í þessari ályktunartillögu gert ráð fyrir því, að athugaðar séu og metnar þær aðgerðir af hálfu löggjafans og stjórnvalda, sem til greina koma til þess að efla iðnþróunina og til þess að stýra henni eftir þeim stefnum, sem hagkvæmastar teljast samkv. því mati, sem áætlunin og undirbúningsstarfið að henni hefur falið í sér. Og þá skuli jafnframt hafa hliðsjón af því, hverjum aðferðum aðrar þjóðir hafa beitt í þessu skyni og hvernig þær hafa reynzt. Það kemur að sjálfsögðu margt til greina í þessu sambandi. Það er ekki aðeins spurningin um það, hvernig fjárveitingavaldi og lánaveitingavaldi í landinu yrði beitt til þess að stýra þróuninni. Það kemur einnig margt fleira til greina, s.s. skattapólitíkin og sérstakar skattaívilnanir, sem í ýmsum löndum hafa verið notaðar í þessu skyni. Það er atvinnufræðsla og margt fleira, sem þarna kemur til athugunar.

Á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur í maímánuði s.l. flutti Kristján Friðriksson iðnrekandi, sem er varafulltrúi framsóknarmanna í borgarstjórn, till., sem hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Borgarstjórn ákveður að beita sér fyrir, að hafin verði skipuleg leit að nýjum verkefnum á sviði iðnaðar. Verði leit þessi framkvæmd í samvinnu við samtök iðnaðarins í borginni og aðra þá aðila, sem ástæða þykir til að hafa samvinnu við um þetta verkefni.“

Þessari till. var vel tekið í borgarstjórn Reykjavíkur, og eftir nokkrar umr. þar var samþ. till., sem gekk í þessa stefnu, þótt með nokkuð öðru orðalagi væri. Það frumkvæði, sem tekið hefur verið í borgarstjórn Reykjavíkur með þessum hætti, er mjög lofsvert, og æskilegt væri, að fleiri sveitarstjórnir könnuðu möguleikana hver í sínu umdæmi, en ljóst er, að forusta öll um þessi mál, ekki bara samræming, heldur forusta og frumkvæði um þessi mál á að koma frá ríkisvaldinu, og samkv. þeim skilningi er þessi till., sem hér liggur fyrir, flutt.

Ég ætla ekki, herra forseti, að orðlengja miklu meira um þessa till. Ég vænti þess, að hv. alþm. hafi skilning á þeim viðhorfum, sem þar koma fram. Ég tók eftir því, að í stefnuræðunni, sem hæstv. forsrh. flutti hér í upphafi þings, var þess getið, að vísu aðeins í einni setningu, að í rn. hans væru í undirbúningi áætlanir um áframhaldandi iðnþróun í landinu, en frá því var ekkert frekar skýrt, hvað þar væri átt við, og töldum við flm. því tímabært að flytja ítarlegri till. um þetta efni, ekki sízt vegna þess, að það var í eðlilegu framhaldi af fyrri afstöðu okkar í þessum málum. Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.