17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

1. mál, fjárlög 1971

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það gleður mig nú eins og aðra þm. að heyra, að hv. fjvn. hefur gert bragarbót nokkra að því er varðar fjárveitingu til þess að jafna aðstöðumun námsfólks í dreifbýli. En það sýnir, að það hefur verið skotið á fundi í fjvn. til þess að afgreiða mál núna á meðan á þingfundi stóð og virðist þá vera sannað mál, að þetta er mögulegt.

Varðandi svo það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan um læknamiðstöðvarmálið á Patreksfirði, þá hef ég ekki borið fram nokkrar minnstu ásakanir í garð Vestf.-þm. fyrir að hafa ekki sinnt málinu, sízt af öllu eftir að þeir hafa upplýst, að svo slælega hefur verið eftir málinu fylgt heiman úr héraði, að þeim hefur aðeins sumum borizt bréfið um þetta nú, 14 dögum eftir að samþykkt er gerð heima í héraði um að fylgja málinu fram og 10 dögum eftir að almennur héraðsfundur um heilbrigðismál hefur gert samþykkt um að leggja málið einmitt í hendur réttra yfirvalda til að fá á því afgreiðslu á þessu þingi. En þetta upplýsist fyrst nú í umr. Ég gat ekki látið mér detta í hug, að svona slælega væri að málinu staðið um að koma gögnum um málið í hendur réttra manna. En nú er það upplýst og komin skýring á því, hvers vegna till. eru um einar þrjár aðrar læknamiðstöðvar, en þessi ekki tekin með þrátt fyrir það, þó að Vestf.-þm. væru í fjvn. Þeim hafa ekki verið send gögnin, 14 dögum eftir að samþykkt er gerð á Patreksfirði og einum 10 dögum eftir að samþykkt er gerð á almennum héraðsfundi allrar Vestur-Barðastrandarsýslu um heilbrigðismál. En þrátt fyrir það, þó að það sé nú upplýst, að svona hafi verið sofið á málinu, þá leggur það enga skyldu mér á herðar um að sofa með þeim hinum.