29.10.1970
Neðri deild: 8. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér urðu það nokkur vonbrigði, að hæstv. ráðh. skyldi ekki telja sér fært að heita því, að greint yrði frá þessum málum hér, áður en ráðizt yrði í þær efnahagsráðstafanir, sem allir vita, að nú eru fram undan.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi hér sjálfur, að það yrði að afgreiða þetta mál svo tímanlega, að hægt yrði að breyta fjárlögum í samræmi við það. Það tekur ærið langan tíma að breyta fjárlögum, eins og allir vita, ef það á að vinna að því af einhverri skynsemi, þannig að það, sem ég er að fara fram á hér, er enginn raunverulegur tímafrestur, heldur aðeins, að það sé höfð eðlileg röð á hlutunum.

Ef menn ætla að ná einhverjum tökum hér á efnahagsþróuninni á Íslandi, þá verður að leysa málin í samhengi, ekki hvern þátt einangraðan út af fyrir sig. Það er algjörlega fráleitt að ætlast til þess, að Alþ. fari að fjalla um svokallaðar efnahagsráðstafanir, sem mér skilst, að muni eiga að fela í sér raunverulega skerðingu á vísitölukerfinu frá því í vor, án þess að vita um það, um hvað verður samið á þessu veigamikla sviði. Og ég held, að það væri ákaflega vel fært fyrir ríkisstj. að heita þessu, og vilji hún ekki gera það, þá hljóta það að vera einhverjar annarlegar hvatir, sem þar eru að baki.