17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

1. mál, fjárlög 1971

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram á þessum afgreiðslumáta á fjárl. Það er mjög óþægilegt og nánast óviðunandi að fá ekki till. fjvn. fyrr en um leið og umr. byrjar og þurfa þá á engum tíma að setja sig inn í það, hvernig hún skilar af sér og gera sínar brtt. Þetta er alveg óviðunandi. Og það er auðvitað óþægilegt líka að tala fyrir skriflegum brtt., sem ekki hefur gefizt tími til að prenta. Það væri þó út af fyrir sig, en hitt finnst mér öllu verra.

En ég vil ásamt með þremur öðrum þm. úr Austurlandskjördæmi, Lúðvík Jósefssyni, Tómasi Árnasyni og Páli Þorsteinssyni, leyfa mér að flytja hér tvær brtt., sem báðar eru skriflegar. Hin fyrri er við 4. gr. 1 02 999 38 og er um dagheimili, byggingarstyrkir. Í sundurliðun (sbr. brtt. 268, 17) bætist nýr liður og samtala breytist samkv. því: 8. Eskifjörður 75 þús. kr.

Hin síðari er við 4. gr. líka, 1 08 381 03 bygging sjúkrahúsa o. fl. Í sundurliðun bætist við nýr liður á eftir a. 14, og samtala breytist samkv. því: Vopnafjörður, sjúkraskýli, 2 millj. kr.

Ég vil fara örfáum orðum um þessar brtt. Um fjárveitinguna til dagheimilis á Eskifirði vil ég aðeins geta þess, að Eskfirðingar hafa byggt myndarlegt dagheimili og okkur þykir eðlilegt, að þeir njóti nokkurs byggingarstyrks og leggjum því til, að það verði tekin upp 75 þús. kr. fjárveiting á viðkomandi lið fjárl. sem byggingarstyrkur til þessa dvalarheimilis.

Varðandi framlagið til sjúkraskýlisins á Vopnafirði vil ég fyrst geta þess, að heima fyrir hefur farið fram mikill undirbúningur vegna þessa máls. Það hafa verið gerðar áætlanir, byggingin teiknuð o. s. frv., heildarkostnaður áætlaður um 10 millj. kr., þar af í bygginguna sjálfa eitthvað um 6–7 millj. Heima fyrir hefur einnig farið fram annar undirbúningur og ekki þýðingarminni á þessu máli, þ. e. fjársöfnun. Ýmis félög og einstaklingar hafa lagt fram mjög verulegar fjárupphæðir í því skyni að standa straum af heimaframlagi til þessara framkvæmda, og heimamenn telja sig hafa handbærar um 2 millj. kr. til þessara hluta á næsta ári, ýmist sem framlög einstaklinga og félaga ellegar á annan hátt. Og það er eindreginn áhugi fyrir því heima á Vopnafirði að byrja þessar framkvæmdir nú í vor.

Í l. um sjúkrahús o. fl. er gert ráð fyrir því, að ríkið borgi 2/3 af byggingum af þessu tagi og heimaaðilinn um 1/3. Ég harma það, að hvorki ríkisstj.fjvn. hefur tekið upp í frv. eða till. n. framlag til þessa máls. Við leggjum til, að veittar verði 2 millj. kr. og viljum jafnframt láta það koma fram, að með hliðsjón af heimafé, sem talið er að tiltækt verði um 2 millj. kr., og með hliðsjón af hlutföllunum, þá sýnist þetta ekki óeðlilega frekt í sakirnar farið. Ég vil að lokum minna á aðstöðu þessa héraðs, Vopnafjarðar, að því er varðar heilbrigðisþjónustuna. Þar háttar þannig til hvað samgöngur snertir, að austur eða suður á bóginn er nánast um ekkert samband að ræða að vetrinum, vegir bæði yfir Hellisheiði og Möðrudalsöræfi eru lokaðir löngum stundum, svo að það er útilokað að hafa nokkurt samband á þann veg um heilbrigðisþjónustu. Til norðurs er hins vegar haldið opnu eftir því, sem hægt er, en t. d. til Þórshafnar er yfir tvær heiðar að fara, og það hefur verið mjög strjált, sem læknir hefur setið á Þórshöfn,svo að þangað er ekki hjálp að sækja. Það liggur þess vegna alveg í augum uppi, að um alla næstu framtíð er það alveg óhjákvæmilegt, að héraðslæknir sitji á Vopnafirði. Það hafa öðru hverju verið miklir örðugleikar á því að ráða lækni til þessa héraðs, þó að nú sé það vel setið, og bygging sjúkraskýlis þýðir vitanlega stórbætta aðstöðu á staðnum og stóreykur þá um leið líkur fyrir því, að læknir fáist á þennan stað. Með hliðsjón af þessu og eins því, hversu vel er róið á það borðið, þar sem heimamenn halda um hlummana, þá vil ég mega vænta þess, að hv. þm. skoði vel hug sinn hvað þessa till. varðar. — Ég vil afhenda hæstv. forseta till. skriflega.