03.12.1970
Sameinað þing: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (3804)

77. mál, flugvöllur í Siglufirði

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um framhaldsframkvæmdir við flugvöllinn í Siglufirði, og er till. svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að flugmálastjórnin láti ljúka hið fyrsta gerð flugvallar í Siglufirði.“

Ég skal ekki draga þingfundinn með langri ræðu. Ég vil aðeins minna á nokkur atriði varðandi þetta mál og rekja sögu þess. Fyrir 10 árum hófst flugvallargerð í Siglufirði, og var þá aðeins hafður í huga lítill flugvöllur, sem notaður væri fyrir litlar flugvélar og þá aðallega sjúkraflugvélar í neyðartilfellum. Nokkru eftir að framkvæmdir þessar hófust, vaknaði almennur áhugi í Siglufirði fyrir því, að fram færi athugun á því, með hvaða hætti flugsamgöngur yrðu bezt tryggðar við Siglufjörð. Var þá samþ. hér á Alþ. eða nokkru síðar þáltill. þar að lútandi. Tæknileg rannsókn fór fram af hálfu flugmálastjórnarinnar í þessu máli, og í ljós kom, að unnt væri að byggja í Siglufirði 1300 m langan flugvöll og 50 m breiðan, en framkvæmdir hafa gengið mjög hægt við að fullgera þennan völl. Bygging þessa vallar, sem ég kalla stærri vallar, hófst árið 1962, en það hefur aðeins verið byggð 650 m löng braut. Það er nú áhugi fyrir því í Siglufirði, að þessi flugvöllur verði fullgerður hið fyrsta, og er því till. á þskj. 79 borin hér fram.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, það liggur mjög klárt fyrir, en legg til, að afgreiðslu málsins verði frestað og málinu vísað til nefndar. Ég vildi beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann kannaði, hvort atkvgr. gæti ekki farið fram hér á þingfundinum um það að vísa þessu til n., og kanna, hvað margir þm, eru í húsinu, en að því yrði ekki frestað til næsta fundar.