17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

1. mál, fjárlög 1971

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af einni brtt., sem við flytjum hér þm. Alþb. varðandi hækkun á bótum lífeyristrygginga almannatrygginganna. En það er 4. till. á þskj. 272. Í till. er ein prentvilla, eins og hún kemur fyrir á þessu þskj. Þar er gert ráð fyrir í till., að bætur lífeyristrygginga almannatrygginga verði hækkaðar frá því sem nú er um 33% og það áætlað, að nemi 175 millj. kr. En síðast í till. er gert ráð fyrir 210 millj. kr., sem er röng tala, en þar á að koma 175 millj. kr. og verður væntanlega leiðrétt í uppprentun.

Ég hafði við 2. umr. fjárlagafrv. rætt sérstaklega þessa till. okkar, sem gerir ráð fyrir allverulegri hækkun á fyrst og fremst örorku- og ellilaunum og öðrum skyldum bótum almannatrygginganna, en þá fluttum við till. um það, að þessar bætur yrðu hækkaðar um 40%. Sú till. náði ekki fram að ganga og við höfum því flutt till. um sama efni, en nokkru lægri nú en í hið fyrra skiptið, þar sem við gerum ráð fyrir, að þessar bætur hækki um 33%. Ég þarf ekki að bæta hér mörgum orðum við það, sem ég sagði um þetta mál almennt séð hér við 2. umr. málsins. Ég tel, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða og með hliðsjón af því, sem nú er almennt að gerast hér í launamálum í landinu, tel ég, að það sé í rauninni ekki sæmandi af Alþingi að ganga svo frá fjárlagafrv. að þessu sinni, að ekki sé gert ráð fyrir a. m. k. þeirri hækkun, sem felst í till., til þessara lægst launuðu aðila í þjóðfélaginu.

Ég ítreka svo aðeins það, sem ég sagði um málið hér áður, og vænti þess nú, að þessi till. fáist samþykkt.