26.01.1971
Sameinað þing: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (3812)

82. mál, skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, er fjallað um breytta tilhögun á skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum. Þar er sem sé gert ráð fyrir, að lagt verði fyrir Alþ. frv. til laga, sem breyti núverandi umdæmaskipan þannig, að dóms- og lögreglumál svæðisins sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar falli undir eða um þau verði fjallað hjá einu embætti, þ.e. í Keflavík. Það mundu þá væntanlega verða Vatnsleysustrandar-, Grindavíkur- og Njarðvíkurhreppur, austan og sunnan Keflavíkur, og Gerða-, Miðnes- og Hafnahreppur, vestan og sunnan Keflavíkur, sem þarna yrði um að ræða. Ég sé ekki, að grg. beri með sér, að hve miklu leyti liggja fyrir óskir eða álit íbúanna í þessum hreppum. Hv. flm. lét þess raunar getið áðan í sinni framsöguræðu, að honum væri kunnugt um, að áhugi væri fyrir þessu. En sú hv. þingnefnd, sem fær till. til meðferðar, mun að sjálfsögðu kynna sér ítarlega viðhorf fólksins, sem býr á þessu svæði.

Dómaskipunin í landinu hefur verið nokkuð til umr. á undanförnum árum, og eins og hv. þm. minnast, þá lagði þáv. dómsmrh. árið 1966 fyrir Alþ. skýrslu um athugun, sem hafði farið fram á meðferð dómsmála við dómaraembætti landsins á árunum 1961 til 1965. Jafnframt skipaði ráðh. nefnd, sem átti og á að fjalla um endurskoðun á dómaskipun og starfstilhögun dómstólanna. Þessi nefnd skyldi taka við af nefnd, sem félmrh. hafði skipað til endurskoðunar á lagaákvæðum um sveitarstjórnaumdæmi í landinu. Voru uppi hugmyndir um, að til greina gæti komið veruleg stækkun umdæmanna frá núverandi fyrirkomulagi. Athugun hefur þó leitt í ljós ýmis tormerki og meiri tormerki á verulegum breytingum í þessum efnum en ætlað hafði verið. Það eru því líklega ekki horfur á því, að alveg á næstunni a.m.k. komi til meiri háttar breyting á umdæmisskipan sveitarstjórnaumdæmanna, og það munu ekki enn vera uppi neinar mótaðar skoðanir um stækkun lögsagnarumdæma að því er varðar meðferð dómsmála og ekki heldur sundurgreiningu þeirra embætta, sem fyrir eru. En hitt er annað mál, að að sjálfsögðu getur alltaf komið til athugunar og hagkvæmnisástæður mælt með því, að á einstökum stöðum á landinu yrðu slíkar breytingar yfirvegaðar.

Samkv. gildandi lögum er aðeins í tveimur tilfellum vikið frá hinni almennu skipan og þá samkv. sérlögum. Það er annars vegar lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, sem hv. flm. till. minntist á áðan, en það byggist á þeim sérstöku aðstæðum, sem varnarstöðin skapar þar. Í hinu tilfellinu er um að ræða lögreglustjóraembættið í Bolungarvík, sem er nú eitt eftir af þess kyns lögreglustjóraumdæmum, sem ekki eru jafnframt almenn lögsagnarumdæmi. En eins og menn minnast, þá háttaði hér áður fyrr svo til um Akranes, Keflavík, Neskaupstað og ólafsfjörð um árabil, en það var áður en þessir staðir fengu kaupstaðarréttindi og urðu lögsagnarumdæmi og aðgreind sveitarstjórnarumdæmi þar með.

Mér er það ekki alveg ljóst og varð það ekki ljóst af lestri þáltill. eða grg., hvort fyrir flm. vakir alger skipting sýslumannsembættisins í Hafnarfirði, þ.e. í Gullbringu- og Kjósarsýslu, eða hvort hún er takmörkuð við það, sem orðanna hljóðan gefur tilefni til að halda, að það séu eingöngu dóms- og lögreglumál, sem þarna eigi að taka frá því embætti og flytja til Keflavíkurembættisins. Þó skildi ég í öðru orðinu hv. flm. svo áðan í hans framsöguræðu, að ætla mætti, að fyrir honum hefði vakað alger skipting embættisins, því að ef eingöngu væri um að ræða dóms- og lögreglumál, þá væru eigi að síður eftir hjá sýslumannsembættinu öll þau umboðsstörf, sem sýslumenn hafa á hendi. Mér koma nú einnig til hugar hreppstjórarnir, sem heyra undir sýslumenn, hvernig með skuli fara, ef það eru eingöngu lögreglustjórnar- og dómsmál, sem ættu að falla til Keflavíkur, þá mundu hreppstjórarnir eftir sem áður heyra undir sýslumanninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það verða sjálfsagt fleiri atriði, sem mjög hljóta að koma til athugunar í þessu sambandi, ef framkvæma ætti þá skiptingu, sem till. fjallar um. Það er, eins og ég áður sagði, sjálfsagt fyllsta tilefni til þess að kanna viðhorf íbúanna á Suðurnesjum, í þeim hreppum, sem þessi breyting mundi ná til, og alveg sjálfsagt að hyggja vel að bættri þjónustu af hálfu almannavaldsins við þéttbýlið, sem stöðugt vex á utanverðu Reykjanesi, en leita þá líklega fyrst og fremst til sveitarstjórnanna um þeirra viðhorf til þeirra atriða, sem þáltill. fjallar um.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins benda á þessi atriði, sem ég held, að hljóti að koma til álita í sambandi við afgreiðslu málsins, og einnig að vekja athygli á þeim atriðum, sem kynnu að vera nokkuð óljós, bæði hvað fyrir flm. vakir og einnig hvernig skipa ætti málum, ef til framkvæmda á þáltill. kæmi.