29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (3830)

87. mál, stjórnkerfi sjávarútvegsins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. 1. flm. þessarar till., að það er nauðsyn á því að endurskoða ríkjandi fyrirkomulag og yfirstjórn sjávarútvegsmála. Hann fylgdi þessari till. sinni nokkuð ítarlega úr hlaði og minntist á ýmsar stofnanir sjávarútvegsins, sem ég vildi einnig gera nokkuð að umræðuefni.

Ég er alveg sammála því, að hér er mikið verkefni að vinna, en því er við að bæta, að það hefur verið unnið að þessu verkefni nú undanfarna mánuði, því að hæstv. sjútvrh. skipaði þriggja manna nefnd fyrir nokkrum mánuðum til þess að vinna að þessu verkefni. Í þessari nefnd eiga sæti Jón Arnalds, ráðuneytisstjóri sjútvrn., Már Elísson fiskimálastjóri og framkvæmdastjóri fiskimálaráðs, Eggert Jónsson. Það vill svo vel til, að ég á sæti í framkvæmdanefnd fiskimálaráðs, og Eggert Jónsson, sem á sæti í þessari nefnd, hefur skýrt okkur í framkvæmdanefndinni mjög ítarlega á hverjum fundi, sem haldinn hefur verið, frá störfum þessarar nefndar og því helzta, sem þar hefur verið til umræðu. Ég spurði hann að því einmitt í gær, hvenær hann byggist við, að nefndin lyki störfum og skilaði áliti sínu. Hann sagði, að það væri stefnt að því, að hún gerði það fyrir vorið. Ég tel því, að það hafi þegar verið unnið í nokkra mánuði að framkvæmd þessarar þáltill., en það breytir ekki því, að það hafi verið hér mikið og þarft verkefni að vinna.

Hv. 1. flm. þessarar till. gat þess, að breytt hefði verið lögum um Stjórnarráð Íslands, og sjútvrn. væri nú orðið sjálfstætt rn., en með mjög fáa starfsmenn. Ég held, að það sé rétt munað hjá mér, að auk ráðh. séu nú fjórir starfsmenn í sjútvrn., sem er mikil framför frá því, sem áður var. Ég fagna því mjög, að þessi löggjöf var sett og atvinnumálarn. sem slíkt var lagt niður og höfuðatvinnuvegirnir fengu hver sitt rn. og sína starfsmenn. Þar hefur orðið á mjög góð og þörf breyting til batnaðar frá því, sem áður var. En því er líka ætlað meira. Það þarf sannarlega að skipuleggja þessi mál mun betur.

Hér er bent í grg. á ýmis atriði, sem er sjálfsagt og eðlilegt að benda á og þarfnast mjög ítarlegrar athugunar. Hv. flm. þessarar till. ræddi nokkuð um Fiskifélag Íslands og kom síðan að fiskimálaráði. Mér skildist, að hann hefði heyrt, að það væri að verulegu leyti óþarft, þó að hann vildi ekki sjálfur leggja á það dóm. Af því að mér finnst, að mér sé þetta mál að sumu leyti skylt, þá vil ég skýra nokkru nánar tilkomu þessa ráðs, en það var stofnað, eins og flm. till. gat um, með lögum frá 23. apríl 1968. Það var ekki fyrr en í ársbyrjun 1969, sem það í raun og veru tók til starfa. Þá var ráðinn starfsmaður, sem er í hálfu starfi. Þar með eru upptaldir starfsmenn þess. Það hefur verið okkur, sem sitjum í framkvæmdanefndinni, höfuðatriði að byrja hér ekki með neinu bákni, heldur að fara hægt og rólega af stað og taka mál til meðferðar í framkvæmdanefndinni og síðan í fiskimálaráði, sem við teljum, að fært sé að vinna að og koma til betri vegar og betra skipulags. Hins vegar rekst það fljótt á hagsmuni ýmissa annarra ráða eða nefnda, sem fyrir eru og telja, að á sig sé hallað, og því verður oft að fara gætilega í þessum málum.

Það er alveg rétt hjá flm. till., að Fiskifélag Íslands og fiskimálaráð eru að mörgu leyti mjög skyld og fjalla að sumu leyti jafnvel um sömu verkefni. Það, sem skiptir höfuðmáli, er uppbygging Fiskifélagsins og uppbygging fiskimálaráðs. Þegar Fiskifélag Íslands var stofnað, þá var grunnur þess fiskideildirnar úti um landið, og þá voru þær mjög fjölmennar og mjög lifandi starf í fiskideildunum, og því var Fiskifélagið í mjög náinni snertingu við framleiðsluna á hverjum stað, bæði við fiskimenn og útvegsmenn og fiskverkendur. Á síðustu áratugum hefur orðið mjög mikil breyting á þessum grunni á þann veg, að það hefur verið stofnað til æ fleiri landssamtaka í hinum ýmsu sérgreinum sjávarútvegsins. Stofnað er Landssamband ísl. útvegsmanna fyrir rúmlega 30 árum. Það er stofnuð Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. skreiðarframleiðenda, Samband ísl. fiskframleiðenda og Sölusamlag skreiðarframleiðenda og ýmis önnur sölusamtök og sérhagsmunasamtök. Síðar er stofnað Sjómannasamband Íslands. Þessir aðilar sem slíkir eiga ekki aðild að fiskimálaráði. Það, sem hefur skeð, er það, að deildirnar, sem eru grundvöllurinn undir Fiskifélaginu, eru tiltölulega mjög fámennar, og félagsstarf þeirra þar af leiðandi ákaflega lítið, sorglega lítið hjá flestum, ef ekki öllum þessum deildum. En grunnurinn undir fiskimálaráði er aftur sú nýskipan, sem hefur verið tekin upp með heildarsamtökum í hinum ýmsu greinum fiskverkunar og sölu fiskafurða, heildarsamtök útvegsins, heildarsamtök sjómanna, bæði Sjómannasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands, og á þann hátt er reynt með fiskimálaráði að mynda eina stofnun, þar sem fulltrúar allra þessara aðila og jafnframt fulltrúar hinna opinberu sjóða eins og Fiskveiðasjóðs. Fiskimálasjóðs, Seðlabankans og Efnahagsstofnunar eiga sæti. Þar hafa verið rædd fjölmörg mál, sem varða sjávarútveginn, og það hefur nokkuð, verð ég að segja, þó að ekki sé liðinn lengri tími, áunnizt í þessum umr. Hins vegar skal ég fúslega segja það, þó að ég hafi verið 1. flm. að frv. um fiskimálaráð, að ég skal verða fyrstur manna til að samþykkja að leggja það niður. En það, sem ég legg höfuðáherzlu á í sambandi við endurskoðun og mótun á stefnu í sjávarútvegi, það er, að tekið verði tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa í sjávarútvegi frá því að Fiskifélag Íslands var stofnað. Ég tel, að ef grundvelli Fiskifélagsins væri breytt í svipað horf, þá ætti Fiskifélag Íslands tvímælalaust að fá að lifa fremur en fiskimálaráð, vegna þess að það er gömul stofnun, sem vel má vera við lýði. En grundvöllur Fiskifélagsins er fyrir löngu breyttur og allt of veikur fyrir það mikla og þýðingarmikla hlutverk, sem það þarf að inna af hendi fyrir íslenzkan sjávarútveg.

Í grg. fyrir þessari till. er minnzt á lánastofnanir sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóð og Fiskimálasjóð. Það er vissulega hagkvæmni í því að sameina stofnanir og sjóði, og það er talað mikið um að sameina banka. Það hefur verið talað um það í mörg ár, en þeir verða alltaf fleiri með hverju árinu, sem líður, þrátt fyrir allt þetta tal um sameiningu bankanna. En það er eitt atriði, sem þó verður að taka með í reikninginn og hefur allmikla þýðingu. Eigum við að færa valdið í hendur örfárra manna, eigum við bara að hafa einn ríkisbanka á Íslandi með þremur bankastjórum, sem hafa yfirleitt líf allra manna í hendi sér? Eða er nú ekki hyggilegra, þótt það kosti kannske eitthvað meira, að hafa þá fleiri, svo að menn hafi í önnur hús að venda, því að þeir hljóta að vera misjafnlega góðviljaðir í þeim stofnunum eins og víða annars staðar. Sömu sögu vil ég segja um það, ef færa á saman stofnlánasjóði sjávarútvegsins. Eigum við að eiga allt undir högg að sækja við eina stjórn, sömu menn, eða eigum við að hafa þetta á fleiri stöðum, á tveimur stöðum, eins og þetta er nú? Fiskveiðasjóður hefur mjög afmarkað verksvið. Hann sér um stofnlán fyrir fiskiskipastólinn, fyrir byggingar fiskiskipa og fyrir fiskverkunarstöðvar. Fiskimálasjóður veitir lítil lán til fiskverkunarstöðva, en hann hefur aftur að gera með markaðsöflun og markaðskönnun og uppfinningar og nýjungar á sviði sjávarútvegs. Nú sem stendur eru í stjórn Fiskveiðasjóðs fimm bankastjórar, og ég hygg, að þeir hafi allmiklum störfum og umfangsmiklum að gegna. Ég tel, að fyrirkomulagið, sem nú er, sé betra, að Fiskimálasjóður hafi það verkefni að styrkja þessa starfsemi. Hún er því miður engan veginn nógu rishá í okkar þjóðfélagi, en Fiskimálasjóður hefur að mínum dómi í mörg undanfarin ár og raunar allt frá stofnun hans sýnt mjög mikinn skilning á þessu sviði. Hins vegar verðum við auðvitað að gera okkur það ljóst, að við megum alltaf búast við því, að stór hluti þess fjármagns, sem varið er til tilrauna og nýjunga, fari í súginn og ekkert verði úr þeim uppfinningum, sem verið er að vinna að, en það veit enginn fyrir fram. Þetta er sennilega eitt mesta áhættuféð. En við verðum þó að lifa í þeirri trú, að alltaf komi eitthvað gott út úr því. Og ég hygg, að eftir því sem verkefnin eru afmarkaðri og minni, sjái þeir menn, sem eiga að stjórna þeim, betur út yfir þau. Ég er ekki að víkja að þessu hér, af því að flm. till. gefi neitt tilefni til þess, en ég vildi aðeins við þetta tækifæri láta það koma í ljós, að ég er þeirrar skoðunar, að þetta eigi mjög að hafa í huga við þá endurskoðun, sem verið er að vinna að.

Ég tel, að hér hafi verið hreyft mjög þörfu máli í sjálfu sér. En það er ekki vitað, og þess var ekki getið af flm. till., að honum væri kunnugt um, að þessi endurskoðun væri alllangt á veg komin. Þess vegna tel ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að fara að samþykkja hér á hv. Alþ. þessa till., því að ég tel það ekki skipta höfuðmáli, hvort að þessu vinnur þriggja manna nefnd eða fimm manna nefnd, eins og tillögumenn gera ráð fyrir.