29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3833)

87. mál, stjórnkerfi sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Nú er það upplýst af hv. 1. flm. þessarar till., að meginefni hennar sé það að fá fjölgað um tvo menn í nefndinni og, eins og hann segir, annar sé frá sjálfum útveginum og hinn frá fiskiðnaðinum. Það er meginefni till. og sú höfuðbreyting, sem hann vill gera á þessari núverandi skipan mála. Dettur nokkrum hv. alþm. í hug, að slík nefnd sem þessi geti starfað án þess að hafa samband við alla þætti sjávarútvegsins og án þess að leita samráðs og till. frá þeim? Nefndin sjálf hefur skýrt frá því, að hún hafi unnið á þeim grundvelli. Hér er fyrst og fremst um að ræða vinnunefnd. Erfiðleikar eru hins vegar á því að fara að velja, úr hvaða þætti útvegsins ætti að taka mann í nefndina, úr hvaða þætti fiskiðnaðarins ætti að taka mann í nefndina. Eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vestf. hér á undan, þá eru um eða yfir 20 aðilar hjá fiskimálaráði, og ef rétturinn réði, þá ætti að ræða þessi mál þar, sem allir aðilarnir væru saman komnir, en vandinn, sem er ráðh. á höndum eða rn. í því efni að velja tvo menn úr þessum hópi til þess að bæta við þessa vinnunefnd, vinnunefnd embættismanna, hann er slíkur, að þar verður erfitt úr að skera. Ég fullvissa hv. þm. og þingheim um það, að nefndin mun, eins og hún hefur þegar gert í sínu níu mánaða starfi, hafa samband við alla þá þætti, sem snerta íslenzkan sjávarútveg.

Þetta er þó aðeins önnur hliðin á starfi nefndarinnar. Hin er að samræma gildandi lög og reglugerðir, sem um alla þessa þætti gilda og hafa verið sett á mismunandi tímum við mismunandi aðstæður, eins og ávallt vill verða í okkar þjóðfélagi, og eru sum ákvæðin orðin 80–90 ára gömul. Það er þessi endurnýjun, sem sú breyting á stjórnarráðinu, sem Alþ. ákvað, að tæki gildi um s.l. áramót, gerir mögulega.

Ég sé ekki þá nauðsyn, sem hv. þm. lagði svo mikla áherzlu á, að fjölga í nefndinni. Við vitum flestir af okkar félagsmálareynslu, að stórar nefndir eru þungar og erfiðar í vöfum. Hér eru þrír embættismenn, sem enginn efast um, að séu vel inni í embættisstarfshlið þessara mála, og þeir munu áreiðanlega ekki skila sínu áliti án þess að hafa náið og fullkomið samstarf og samvinnu við alla þætti sjávarútvegsmálanna. Þess vegna sannfærðist ég ekki, þrátt fyrir ítrekanir hv. 1. flm. þessarar till., um nauðsyn till., þar sem unnið mun verða að málinu nákvæmlega eins og hv. þm. óskar eftir, þ.e. að haft verði samráð og samstarf við alla þá aðila, sem þessi mál snerta.