18.12.1970
Sameinað þing: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

1. mál, fjárlög 1971

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Við Vestfjarðaþm. erum einhuga um það að veita væntanlegri læknamiðstöð á Patreksfirði stuðning okkar, eins og með þarf, m. a. með fjárveitingum á fjárlögum, þegar til þess kemur. En til þess að læknamiðstöð verði stofnuð, þurfa tvö eða fleiri læknishéruð að sameinast um hana. Í Vestur-Barðastrandarsýslu eru tvö læknishéruð. Annað þeirra, Patreksfjarðarlæknishérað, hefur þegar samþykkt aðild sína að þessari læknamiðstöð. En hitt héraðið, Bíldudalslæknishérað, hefur ekki gert það. Það hefur hins vegar sett fram skilyrði fyrir samþykki sínu, en þeim skilyrðum hefur ekki verið fullnægt. Af þessum ástæðum hefur landlæknir ekki getað lagt til, að læknamiðstöðin verði stofnuð né hefur heilbrmrn. aðhafzt neitt vegna þessara ástæðna, að samstaða er ekki heima fyrir um málið. Þar sem þessi læknamiðstöð er þess vegna ekki til, þá læt ég þessa till. hlutlausa og greiði ekki atkv.