02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (3884)

115. mál, dreifing framkvæmdavalds

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir mitt leyti taka vel þessari till. og öðrum, sem fram koma hér á hinu háa Alþingi með það fyrir augum að reyna að breyta þeirri þróun, sem stefnir í þá átt, að Ísland verði einhvers konar borgríki hér í höfuðstaðnum, þar sem meginhluti þjóðarinnar safnist saman. Það hafa á ýmsum tímum í seinni tíð verið fluttar till. af ýmsu tagi í þessa átt. Mér finnst satt að segja, að þeir, sem áhuga hafa í þessum efnum og vilja beita sér fyrir eflingu raunverulegrar landsbyggðar, eigi að reyna að sameina sjónarmið sín og deila ekki innbyrðis um þessa hluti. Ég hygg, að möguleikarnir til þess að koma einhverju fram í þessum efnum hljóti að vera vaxandi, a.m.k. ef dæma skal eftir ýmsu, sem fram kemur opinberlega um þessi mál.

Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt þáv. hv. þm. Karli Kristjánssyni till. um skiptingu landsins í fylki með sjálfsstjórn í sérmálum. Ég minnist þess einnig, að fyrir æði löngu var sett á stofn samkv. þál. svo kölluð staðsetningarnefnd ríkisstofnana, sem hafði það verkefni að gera till. um flutning ýmissa ríkisstofnana frá höfuðstaðnum. Og sú nefnd skilaði á sínum tíma till. um þetta efni. Ein af þeim till., sem fluttar hafa verið í þessa átt, er frv., sem við flytjum nokkrir þm. á þessu þingi og hefur reyndar verið flutt áður, um verkfræðiráðunauta ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir því, að í þjónustu ríkisins verði nokkrir verkfróðir menn, sem starfi í hinum einstöku landshlutum. Mig minnir, að það sé gerð till. um, að þeir séu sex talsins. Og svo er þessi till., sem hv. 4. þm. Austf. flytur um dreifingu framkvæmdavalds og eflingu og sjálfsstjórn héraðanna. Þó að ekki sé á annað minnt heldur en þennan tillöguflutning, sem ég hef nú nefnt, á undanförnum þingum og nú, þá er það auðsætt, að áhugi er hjá mörgum hér á þinginu fyrir þessu máli. En það, sem á vantar, er það, að þeir, sem áhuga hafa í þessum efnum, sameini krafta sína um það að reyna að koma einhverju fram.

Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að það, sem þurfi að stefna að, sé skipting landsins í fylki eða umdæmi með einhverja sjálfsstjórn í sérmálum, það sé það, sem þurfi að stefna að. Og að því miðaði sú till., er ég nefndi áðan og ég flutti ásamt Karli Kristjánssyni á sínum tíma. Að því er líka vikið í till. þeirri um endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem ég hef leyft mér að flytja á þessu þingi. Eitt atriði, sem þar er sérstaklega vikið að, er einmitt þetta, um skiptingu landsins í fylki eða umdæmi. Þessi till. hefur að vísu fengið misjafnar undirtektir hér og þar, en ég geri ráð fyrir því, að með stofnun hinna nýju fjórðungssambanda eða sambanda sveitarfélaga sé í rauninni með frjálsum samtökum að fara af stað þróun í þessa átt, og það held ég, að sé það, sem þarf að stefna að. Fyrirmynd okkar, sem höfum gert slíka till. um skiptingu landsins í fylki, eru auðvitað fjórðungarnir fornu. En margt er orðið breytt í landinu. Ég býst ekki við, að það henti nú að skipta landinu aðeins í fjögur umdæmi, þau yrðu að vera eitthvað fleiri, og þess vegna höfum við líka tekið upp nýtt nafn á þessum umdæmum. En á meðan við erum að vinna að þessu máli, og ég hef ekki gert mér vonir um, að það muni ganga fram í skyndi eða á mjög stuttum tíma, þá þurfa menn að einbeita sér að því að vinna að þessari sömu þróun á annan hátt með því að flytja ýmsar starfsstöðvar ríkisins eða deildir þeirra burt úr höfuðborginni og fá þeim stað annars staðar á landinu. Að því hygg ég, að þessi till. miði, sem hv. 4. þm. Austf. hefur flutt hér, og að því miðar frv., sem ég nefndi áðan, um verkfræðiráðunauta ríkisins. Ég lít á slíkar till. og slíkar ráðstafanir sem millibilsástand eða millibilsráðstafanir, sem síðar mundu styðja að því, að hugmyndin um skiptingu landsins í fylki gæti gengið fram og auðveldara yrði að koma henni á, þegar þar að kæmi, því að þá væru þessar deildir í ríkiskerfinu til í hinum einstöku landshlutum. Þetta vildi ég láta koma fram hér við þessa umr., og ég held, að það sé óþarft, að þeir, sem eru því fylgjandi, að þjóðfélagið grípi inn í hina blindu þróun og stuðli að raunverulegri landsbyggð, séu að deila sín á milli um það, hvaða till. sé bezt, sem að þessu miðar, heldur eigi menn, eins og ég sagði áðan, að reyna að sameinast um að stuðla að þeirri þróun, sem gæti leitt það af sér í lokin, að þetta takmark næðist, sem ég álít, að við eigum að stefna að, sem sé skipting landsins í þessi stóru umdæmi eða fylki með takmarkaða sjálfsstjórn í þeim málum, sem þau varða. Það er auðvitað, að ef umdæmi eða fylki eða sambönd sveitarfélaga eða hvað sem það nú kallast, fjórðungssambönd, taka að sér eitthvað af þeim verkefnum á sínu sviði, sem ríkið innir af hendi nú, þá eiga þau líka að fá til sinna nota tilsvarandi fjármuni eða tilsvarandi hluta af því fé, sem ríkið nú fær í hendur til starfsemi sinnar.