09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (3893)

117. mál, klak- og eldisstöð fyrir lax og silung

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það vill nú svo til, að ég á sæti í allshn., og ef málinu verður vísað þangað, þá mun ég sjá til þess, að n. fái fregnir af því, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur sagt um þetta mál. Ég geri ekki ráð fyrir, að það komi upp neinn metingur milli okkar Norðlendinga um það, hvar laxeldisstöð á Norðurlandi eigi að vera, og mála sannast er það, að þó að hér sé nefnd aðeins ein eldisstöð, þá eru engin takmörk á því í lögunum. Ef það þætti hentara að koma upp tveim stöðvum á Norðurlandi, annarri á austanverðu Norðurlandi og hinni á vestanverðu Norðurlandi, þá heimila lögin það, því að það er gert ráð fyrir einni stöð eða fleiri.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að í þáltill., sem samþ. var hinn 29. apríl 1966, var talað um stöð á Norðurlandi, en þó sérstaklega vikið að austursvæðinu, þ.e. Laxársvæðinu, vegna þess að þeir, sem þá fluttu till., munu hafa álitið, að einkanlega mundi verða um þennan landshluta að ræða. En till. fjallaði um athugun á Norðurlandi, till. frá 1966. Hins vegar hefur það gerzt í málinu síðan, að bráðabirgðaathugun, sem gerð var af veiðimálastjóra og mig minnir af einum verkfræðingi, liggur fyrir. Bráðabirgðaathugun liggur fyrir, og þessa bráðabirgðaathugun eða skýrslu um hana hafði hv. 1. flm. till. í höndum, og ég hef einnig séð hana. Á því, sem þar kemur fram, er þessi till. byggð, um að gera ráð fyrir, að stöðin verði í Þingeyjarsýslum. Ég hef fyrir mitt leyti myndað mér skoðun á því, á hvaða stað í Þingeyjarsýslum þessi stöð ætti að vera, eftir að hafa rætt við veiðimálastjóra um þessi mál og eftir öðrum gögnum, en sé ekki ástæðu til þess að ræða nánar um það hér. En í þessum hluta Norðurlands, á austanverðu Norðurlandi, eru, eins og ég sagði, hvorki meira né minna en 28 ár, sem talið er, að megi rækta lax í, og helmingurinn af þessum ám eru þegar laxveiðiár. Fleira skal ég svo ekki um þetta segja. Ég vil aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna svæðið, sem um er að ræða, hefur verið nefnt í þessari till., sem hér liggur fyrir, en eins og ég sagði, skal ég sjá um það, að n. verði kunnugt um ræðu hv. þm., sem hér talaði áðan.