09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í D-deild Alþingistíðinda. (3898)

118. mál, hagnýting fiskimiðanna umhverfis landið

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Við höfum, 10 þm., leyft okkur á þskj. 127 að flytja till. til þál. um undirbúning heildarlöggjafar um hagnýtingu fiskimiðanna umhverfis Ísland. Tillgr. sjálf er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd til þess að undirbúa setningu heildarlöggjafar um hagnýtingu fiskimiðanna Umhverfis landið. Skulu fimm nm. kosnir hlutbundinni kosningu í Sþ., en Hafrannsóknastofnunin tilnefna tvo nm., Landssamband ísl. útvegsmanna einn nm. og samtök sjómanna einn nm. Nefndin skal hraða störfum eftir föngum, og greiðist kostnaður við störf hennar úr ríkissjóði.“

Þessi þáltill. hefur tvívegis áður verið flutt óbreytt frá því, sem hún er, og hef ég þannig sem 1. flm. talað fyrir henni tvisvar. Ég tel því óþarft að fara um hana nú mörgum orðum, en vísa til grg. um rökstuðning fyrir henni. Aðaltilgangurinn með tillöguflutningnum er sá, að fá settar hér innanlands reglur, er miði að því að nýta fiskimiðin eins heppilega fyrir landsfólkið og kostur er og þá að sjálfsögðu að gæta þess í leiðinni að ganga ekki of nærri stofnum helztu nytjafiska. Ég vil vekja athygli á því, sem segir í niðurlagi grg. þeirrar, er fylgir þessari þáltill., þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reglur, er miðuðust við hámarksarðsemi veiðanna, án þess að ganga of nærri fiskistofnunum og þá að sjálfsögðu ungfiskinum fyrst og fremst, mundu einnig duga okkur vel í baráttunni fyrir rýmri fiskveiðilandhelgi, sem okkur er lífsnauðsyn að fá fram sem fyrst.“

Einmitt vegna þess, að nú er um fátt meira talað af stórum málum hér í landi voru en einmitt landhelgismálið, nauðsyn nýrra átaka og aðgerða í því, þá vil ég undirstrika, að að áliti okkar flm. mundi skipulagning veiðisvæðanna og ákvörðun friðunarsvæða innan fiskveiðilandhelginnar geta verið okkur verulega mikið hjálpartæki í þeim málflutningi okkar gagnvart öðrum þjóðum, sem við hljótum að verða að hafa uppi í baráttunni fyrir útvíkkun fiskveiðilandhelginnar, sem stendur nú væntanlega fyrir dyrum. Skal ég ekki fara nánar út í það, því að ég hef ásamt fleirum flutt till. til þál. um fiskveiðilandhelgina við landið og mun e.t.v., þegar ég ræði hana, koma lítillega inn á þetta.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.