29.10.1970
Neðri deild: 8. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessar umr., enda er ég samþykkur því frv., sem hér liggur fyrir, tel sjálfsagt að fallast þá ósk, sem farið er þar fram á.

Ég geri mér það ljóst af þeim fréttum, sem ég hef haft af þessum málum, að þeir samningar, sem hér er um að ræða, eru mjög veigamiklir og að því mér skilst að sumu leyti ítarlegri en fyrri samningar um þessi mál, vegna þess að nú mun vera til athugunar að breyta að einhverju leyti grundvellinum frá því, sem áður var. En í sambandi við þann samanburð, sem hér hefur verið gerður á launakjörum opinberra starfsmanna og annarra stétta, þá finnst mér rétt að vekja athygli á því, að þó að opinberir starfsmenn hafi fengið 15% kaupuppbót í sumar í samræmi við þær grunnkaupshækkanir, sem aðrar stéttir fengu þá, þá hefur þessum málum verið þannig háttað á undanförnum árum, að þegar aðrar stéttir hafa fengið nokkrar kauphækkanir, þá hafa opinberir starfsmenn ekki fengið þær, og á þann hátt hafa þeir dregizt aftur úr. Mér finnst ekki óeðlilegt, að við þá samningagerð, sem fer fram á milli opinberra starfsmanna og hæstv. ríkisstj., verði tillit tekið til þessa atriðis. Annars verð ég nú að segja það, þó að ég beri nú takmarkað traust til ríkisstj., að þá held ég, að menn þurfi ekki að óttast það, að hún gangi of langt í kauphækkunum, hvað þessa samninga snertir.