23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (3904)

123. mál, sjóvinnuskóli á Siglufirði

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v., Ólafi Jóhannessyni, leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál. um sjóvinnuskóla eða sjóvinnunámskeið á Siglufirði, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að vinna að því í samráði við bæjarstjórn Siglufjarðar að koma á fót sjóvinnuskóla eða sjóvinnunámskeiðum á Siglufirði.“

Áður en ég ræði þessa þáltill. sérstaklega, vil ég með nokkrum orðum minnast á ástand og horfur í atvinnu- og efnahagsmálum Siglufjarðar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að s.l. áratug hefur svo að segja engin síld veiðzt og verið flutt til Siglufjarðar, og árið 1970 var að því leyti sögulegt, að það var fyrsta árið á þessari öld, sem engin síld barst á land á þennan stað, sem áður var stærsti síldarverksmiðjubær í Evrópu. Við getum hugsað okkur áhrifin, sem slíkt ástand hefur á eitt byggðarlag, sem byggir afkomu sína fyrst og fremst á síldveiðunum. Hvað mundi ske í Vestmannaeyjum, ef þar hefði ekki veiðzt fiskur og ekki borizt á land fiskur í heilan áratug? Og hvað mundi ske á Suðurlandi, ef þar væri stöðugur heybrestur og þar sprytti ekki gras í áratug? Þetta er eitthvað svipað og það, sem hefur gerzt á Siglufirði. En þó að svona hafi til tekizt og þrátt fyrir það að fjórar síldarverksmiðjur hafi verið lokaðar þar árum saman, þá hefur þó það fólk, sem þarna býr, snúið bökum saman og leitazt við að byggja upp atvinnulífið í þessum bæ. Ég vil í því sambandi minna á, að Siglfirðingar keyptu fyrsta tilbúna skuttogarann, sem var keyptur hingað til landsins og heitir nú Dagný. Siglfirðingar létu smíða fyrsta skuttogarann, sem kom til Íslands, skuttogarann Siglfirðing. Þeir hafa nýlega keypt togskipið Sigurð Bjarnason, sem nú heitir Hafnarnes. Og gerður hefur verið samningur um kaup á nýjum skuttogara, sem smíða á í skipasmíðastöðinni Stálvík. Ég minni á útgerð togarans Hafliða, sem hefur haft geysilega þýðingu fyrir atvinnulífið á Siglufirði allt frá því að hann var keyptur.

Ég rifja þetta hérna upp, þar sem ég er að tala um málefni, sem varðar Siglufjörð, vegna þess að ég hef stundum heyrt það á mönnum, að þeim finnst Siglfirðingar vera framtakslitlir í atvinnumálum og vilji gera mestar kröfur til annarra. En þeim fullyrðingum vísa ég algerlega á bug. Fiskiskipaflotinn hefur aukizt, og þeir vilja auka hann. Auðvitað hefur aðstoð þess opinbera komið til, þeirra gata hefur verið greidd af hálfu ríkisvaldsins eins og annarra. Á Siglufirði er síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins. Hún hefur því miður ekki haft hráefni sem skyldi, og hún hefur staðið auð mánuðum saman, vegna þess að við höfum ekki haft síld til þess að leggja niður og selja dýrar úr landi en hún er seld í tunnum. Þetta hefur skeð á sama tíma sem tugir þúsunda tunna hafa verið seldar úr landi. Þarna er eitthvað að. É,g hef áður minnzt á þetta hér á Alþ., og ég endurtek það, að hér er eitthvað að. Það þarf líka í sambandi við rækju- og hörpudiskaveiðar að leita að nýjum miðum fyrir Norðurlandi með það fyrir augum, að þessi fiskur veiðist til þess að skapa frekari vinnu í verksmiðjunni. Tunnuverksmiðjan er nú gangandi, en þar er heldur ekki rétt á málum haldið. Það þyrfti að framleiða eingöngu í þeirri verksmiðju tunnur, sem notaðar eru á Íslandi, og þá mundu fást ódýrari tunnur en nú er, þar sem tunnusmíði er dreift á milli fleiri verksmiðja. Í verksmiðjum utan Siglufjarðar, sú stærsta er á Akureyri, eru framleiddar dýrari tunnur en á Siglufirði. Verði þessum málum kippt í lag og fiskiskipastóllinn stækkaður, þá mun birta í atvinnumálum Siglfirðinga, og það færi vel. Í þessum bæ er næg raforka, og Siglufjörður er einn af þeim fáu kaupstöðum, sem á sjálfur sitt orkuver, og er það bænum til stórra hagsbóta. Þar eru tveir skólar fyrir utan barnaskólann, tveir framhaldsskólar, gagnfræðaskólinn, sem nýtur mikils trausts, og iðnskólinn, sem nýtur vaxandi vinsælda og hefur starfað þar að ég hygg um fjóra áratugi.

Till. okkar Ólafs Jóhannessonar er um það að skora á ríkisstj. að vinna að því í samráði við bæjarstjórnina að koma á sjóvinnuskóla eða sjóvinnunámskeiðum á Siglufirði. Það fer vel á því, að slíkum skóla eða námskeiðum væri valinn staður á þessum stað, því að þarna hafa löngum átt heima góðir sjómenn. Afkoma Siglufjarðar hefur byggzt á sjávarafla og vinnslu hans, eins og ég hef áður tekið fram í þessari stuttu ræðu minni, og síldveiðin var, eins og við vitum allir, sem hér erum, lengi vel aðaluppistaðan í atvinnulífi Siglfirðinga, en síldarleysi hefur orðið fáum stöðum meiri hnekkir en Siglufirði.

Sjómennskan er ein af meginstoðum íslenzks atvinnulífs. Það er því þjóðfélagsleg nauðsyn að búa vel að þeim, sem sjómennsku stunda. Þeir, sem við hana fást, þurfa og að kunna vel til verka, og það er því mikilvægt, að þeir eigi kost á starfsmenntun og verkþjálfun. Þá starfskunnáttu og reynslu fá ungmenni auðvitað fyrst og fremst á sjónum og undir handleiðslu reyndra sjómanna. Það er þó vafalaust hægt að kenna ungmennum ýmis vinnubrögð, er að sjómennsku lúta, í skóla eða á námskeiðum. Það er einmitt þörf á því að taka upp skipulega þjálfun sjómannsefna með einum eða öðrum hætti, og með því að koma á fót sjóvinnunámskeiðum eða sjóvinnuskóla mætti eflaust vekja áhuga ungra manna á þessari atvinnugrein, en þess er einnig mikil þörf.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þessa till., en óska eftir, að umr. verði frestað og henni verði vísað til allshn.