23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3915)

130. mál, flugstöð á Vestmannaeyjaflugvelli

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að segja hér örfá orð, áður en þessi till. fer til n., og þó ekki síður út af þeim upplýsingum, sem fram komu í ræðu hv. 3. þm. Sunnl. hér áðan. Þriðji tölul. í tillgr. felur það í sér, að endurskipulagðar verði ferðir Skipaútgerðar ríkisins, þannig að komið verði á daglegum skipsferðum milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Ég tel í sjálfu sér mjög eðlilegt, að þessar óskir séu settar fram, og það er ekki óréttmætt, að litið sé á samgöngumál Vestmannaeyja með fullkomnum velvilja og víðsýni, þannig að þeirra aðstaða sé gerð eins góð í þessu efni og kostur er á. En þrátt fyrir þetta mega hv. þm. ekki gleyma því, að Skipaútgerð ríkisins er ríkisfyrirtæki, sem á að gegna því hlutverki að veita allri þjóðinni þjónustu á þessu sviði, eftir því sem að skipakostur fyrirtækisins leyfir og tök eru á.

Ég held, að það sé mála sannast, að þegar ráðizt var í kaup á Herjólfi og ákveðið hér á hv. Alþ., að það skip yrði ríkiseign og rekið af Skipaútgerðinni, þá hafi það sjónarmið verið ráðandi, að Skipaútgerðin ætti með þeim skipastól, sem henni væri fenginn í hendur, að leysa svo vel úr þörfum allra landsmanna sem nokkur kostur væri á og að áætlunum skipanna yrði að haga með þetta fyrir augum. Þetta held ég, að hafi legið til grundvallar því, þegar ákveðið var með samþykkt Alþ. og mig minnir í sambandi við fjárlög, að Herjólfur yrði ríkiseign og rekinn af Skipaútgerðinni. Nú hefur þessu verið háttað þannig, að Herjólfur hefur farið ferðir til Hornafjarðar eigi sjaldnar en á hálfs mánaðar fresti og stundum jafnvel ofurlítið oftar. Með þessu hefur Herjólfur bætt mjög úr þörfinni í sambandi við flutninga til og frá Hornafirði, en þetta hefur þó haft enn víðtækari áhrif gagnvart Austurlandi öllu, vegna þess að með því að láta Herjólf þjóna Hornafirði að þessu leyti, þá hefur rýmkazt til fyrir höfnunum austur á fjörðunum með það að geta notað betur en ella skipsrúm annarra skipa útgerðarinnar. Nú er það svo, að þó að Austfirðir hafi mjög góðar hafnir, þá er það allt of takmörkuð þjónusta, sem Austfirðir hafa notið á sviði samgöngumálanna. Þeir eru innilokaðir mikinn hluta ársins og geta ekki notað landsamgöngur, vegna þess að þjóðleiðin norður um land lokast svo snemma á haustin og opnast ekki fyrr en komið er fram á sumar, og um landleiðina hér sunnan jökla er það að segja, að þar hafa verið stórvötn til tafar. Það er nú smám saman verið að vinna bug á þeim farartálma, en þó er eftir að opna leiðina um Skeiðarársand, svo að enn þá lokar þessi þröskuldur leið Austfirðinga með landflutninga hér sunnan jökla. Það er því enn þá full ástæða til þess að líta á þetta mál sem eina heild, og þó að Vestmanneyingar séu alls góðs maklegir og það þurfi vissulega að líta til þeirra hagsmuna, þá má það ekki gerast á þann hátt að draga úr þeirri þjónustu, sem aðrir hafa notið og mega alls ekki missa.

Nú kom það fram hjá hv. 3. þm. Sunnl., að það stæðu yfir viðræður við samgrn. um þessar mundir á þeim grundvelli, að Herjólfur yrði á þessu ári tekinn eingöngu til ferða milli Vestmannaeyja og lands, ýmist Vestmannaeyja og Þorlákshafnar eða Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Það kom enn fremur fram, að skipuð hefði verið þriggja manna nefnd 11. þ.m., að mér skildist, til þess að semja áætlun um ferðir Herjólfs. Ég leyfi mér nú að minna á í þessu sambandi, að Skipaútgerð ríkisins er ríkisfyrirtæki. Þessu ríkisfyrirtæki veitir forstöðu forstjóri, og honum til aðstoðar og fulltingis hefur verið sett þriggja manna stjórnarnefnd við þetta ríkisfyrirtæki á nokkuð háum launum. Ég hefði nú ætlað, að það væri hlutverk þessara yfirmanna ríkisfyrirtækisins að gera úr garði áætlanir fyrir ríkisskipið Herjólf, eins og önnur ríkisskip, en nú koma fram þær upplýsingar, að það sé búið að setja á fót sérstaka nefnd til þess að annast þennan þátt starfseminnar. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á þessu, þetta eru nýjar upplýsingar og talsvert eftirtektarverðar að mínum dómi. Það kom einnig fram, að till. þessarar nefndar séu þær, að Herjólfur fari til Hornafjarðar eina ferð á hálfum mánuði á tímabilinu til 30. apríl n.k., ef þörf krefur, en frá mánaðamótum apríl–maí og fram til 30. sept. er fyrirhugað samkv. því, sem fram hefur komið, að Herjólfur gegni eingöngu þjónustu milli Vestmannaeyja og lands. Út af þessu vil ég enn taka fram það, sem ég vék að í upphafi máls míns, að það verður að skoða þessi mál öll í einni heild. Það er ekki rétt stefnt að bæta aðstöðu Vestmanneyinga á þessu sviði með því einu að draga úr nauðsynlegri og óhjákvæmilegri þjónustu við aðra landsmenn. Það verður heldur að finna einhver önnur ráð til þess að bæta hlut Vestmanneyinga, og ég vil láta það sjónarmið koma hér fram, að það þurfi að koma meiri reynsla á það, hverjar þarfir Hornafjarðar og Austfirðinga verði, eftir að nýja strandferðaskipið verður tekið til nota, og að ferðum Herjólfs verði ekki breytt í þá stefnu, sem upptýst hefur verið, að fyrirhugað sé, fyrr en nokkur reynsla er fengin um það, hvort hin tvö nýju strandferðaskip geta annað því að veita Austfirðingum þá þjónustu, sem þeir þurfa á að halda. Ég vil því vænta þess, að þessi mál verði nú skoðuð í þessu ljósi og ekki undinn bráður bugur að því að gera breytingar á ferðum Herjólfs, fyrr en nokkur fyllri reynsla er fengin af ferðum hinna tveggja nýju strandferðaskipa heldur en vænta má, að verði fyrir hendi um mánaðamótin apríl–maí, hvað sem síðar kann að koma í ljós.