05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (3932)

151. mál, viðgerðaþjónusta sjónvarps

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það er oft talað um það, þegar mál koma fyrir hér á Alþ., að þau séu sérstaklega dreifbýlismál. Slík mál eru mörg af eðlilegum ástæðum, því að dreifbýlið býr óneitanlega við skarðan hlut á mörgum sviðum. Það mál, sem hér liggur fyrir, er eitt slíkt, eitt dreifbýlismálið, þessi þáltill. um viðgerðaþjónustu sjónvarps, sem er á þá leið, að Alþ. álykti að skora á menntmrh. að hlutast til um, að sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins skipuleggi viðgerðaþjónustu úti um landsbyggðina.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það, að af u.þ.b. 40 þús. sjónvarpsviðtækjum, sem nú eru í notkun hér á landi, eru um 19 þús. í notkun í Reykjavík sjálfri og u.þ.b. 5 þús. í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðahreppi og Seltjarnarnesi, eða því svæði, sem átt mun vera við, þegar talað er um Stór-Reykjavík. En á landinu öllu eru starfandi u.þ.b. 75 útvarpsvirkjar, þ.e. menn, sem eru til þess lærðir að gera við sjónvarpsviðtæki og hafa til þess leyfi, 75 útvarpsvirkjar og 25 sveinar, samtals um 100 manns. Þar að auki er svo 31 útvarpsvirkjanemi, en af þeim eru aðeins tveir utan Reykjavíkur.

Af þeim tölum, sem ég nefndi áðan, er ljóst, að tæplega 50% sjónvarpstækjanna eru notuð hér í Reykjavík, en í Reykjavík starfa 80–85% allra útvarpsvirkjanna eða þeirra manna, sem kunna til sjónvarpsviðgerða. Útvarpsvirkjar eru starfandi annars staðar á landinu eins og hér segir: Það er einn á Ísafirði, einn í Neskaupstað, í Vestmannaeyjum sennilega tveir, í Ólafsfirði einn, á Akureyri fimm, á Húsavík einn, í Keflavík einn, á Selfossi einn eða tveir, á Akranesi einn og í Kópavogi líklega sjö talsins, en flestir þeirra munu að vísu eiga búsetu í Reykjavík.

Af þessu verður ljóst, að aðstaða dreifbýlisins eða landsbyggðarinnar hvað þessa hluti snertir er mjög erfið. Maður gæti tekið sem dæmi um þetta, að á öllu svæðinu vestan frá Ísafirði og suður á Akranes er ekki starfandi einn einasti útvarpsvirki, þannig að t.d. ef sjónvarpsviðtæki bilar, við skulum segja vestast á Snæfellsnesi, þá er það ekki skemmri vegalengd en hátt í 200 km að senda tækið til viðgerðar á Akranes. Nú mun þessi eini útvarpsvirki á Akranesi, sem kann til þessara verka, eflaust hafa nóg að gera við að gera við tæki heimamanna þar, svoleiðis að að öllum líkindum verður að senda tækið hátt í 300 km vegalengd, alla leið til Reykjavíkur. Af þessu hlýzt eflaust fyrir utan kostnaðinn hnjask ýmiss konar — vegir í Vesturlandskjördæmi eru, þó að skömm sé frá að segja, ekki alltaf sérlega góðir, og það má því e.t.v. gera ráð fyrir, að svo langur flutningur orsaki meiri bilanir en þær, sem eru í tækinu, þegar það er sent af stað.

Á það er bent í grg., að ein leiðin til að bæta úr þessu væri sú, að sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins sæi til þess, að sérstakur bíll væri í ferðum um landið með nauðsynleg tæki til þess að gera við sjónvarpsviðtæki og þá að sjálfsögðu menn, sem kunna til þessara verka. Einnig að sjálfsagt sé að taka upp aftur námskeiðahald, sem efnt var til skömmu eftir að sjónvarpið tók til starfa. Þessi námskeið féllu niður, námskeið fyrir útvarpsvirkja í sjónvarpsviðgerðum. Og einnig virðist sjálfsagt, að sjónvarpið sjái fólki fyrir aðgengilegum leiðbeiningum til þess að gera við minni háttar bilanir. Umboðsmenn sjónvarpstækja munu nú að vísu dreifa einhverjum slíkum upplýsingaritum, þannig að flestir eiga að geta gert við minni háttar bilanir, t.d. þær, sem algengastar eru, að lampi bilar eða eitthvað slíkt. En eins og ég hef sýnt hér fram á, er aðstaða dreifbýlisins þannig, að ef um meiri háttar bilanir er að ræða, þá er ekki um annað að ræða fyrir þá, sem eiga biluð sjónvarpstæki, en að senda þau oft og tíðum langar leiðir.

Það liggur í augum uppi, að eftir því sem sjónvarpið starfar lengur og sjónvarpsviðtækin eldast, þá verður meiri þörf fyrir sjónvarpsviðgerðir og þess vegna meiri þörf fyrir þá þjónustu, sem hér er lagt til, að dreifbýlinu verði veitt.

Ég vænti þess, að þetta dreifbýlismál fái vinsamlegar undirtektir hér á hinu háa Alþingi.

Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.