09.03.1971
Sameinað þing: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (3938)

152. mál, fiskverð á Íslandi og Noregi

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 190 höfum við fjórir hv. þm. úr Framsfl. leyft okkur að flytja þáltill., sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka í samráði við fulltrúa fiskseljenda og fiskkaupenda, í hverju mismunurinn á fiskverði hér og í Noregi liggur. Skal rannsókn þessi m.a. beinast að:

a) samanburði á aðstöðu íslenzks fiskiðnaðar við hinn norska, að því er tekur til opinberra álaga, ríkisstyrkja, tækniþróunar, lánakjara og lánsmöguleika, markaðsaðstöðu o.fl.,

b) mati á gæðum vinnsluhráefnis íslenzks og norsks fiskiðnaðar.“

Eins og sést af lestri þeirrar grg., er fylgir þessari þáltill., þá er hún flutt fyrir s.l. áramót, þó að hún komi ekki til umr. fyrr en nú, og því er ýmislegt af upplýsingum, sem þar er að finna, úrelt orðið. M.a. vil ég geta þess, að síðan þessi till. var flutt, þá hefur um s.l. áramót orðið hækkun á fiskverði, sem nemur allt að 25%. Þessa vil ég geta til frekari upplýsinga. En ástæðan til þess, að við flm. þessarar till. höfum flutt hana, er sú, að á mörgum undanförnum árum hafa orðið hér á landi mjög miklar umr. og harðvítugar deilur, sem stundum hafa leitt til stöðvunar fiskiflotans, út af fiskverðinu. Mikillar tortryggni hefur gætt meðal sjómanna, fyrst og fremst út af því, að fiskverðið hér væri hvergi sambærilegt við fiskverð t.d. í Noregi og hjá öðrum fiskveiðiþjóðum, sem seldu afurðir sínar á svipaða markaði og við gerum. Af þessu hefur eðlilega leitt talsverða óánægju meðal sjómanna, því að það er staðreynd, að kaup þeirra er fyrst og fremst miðað við það skiptaverð, sem er ákveðið á hverjum tíma. Í till. eru tekin dæmi um fiskverðið í Noregi og á Íslandi, og skal ég ekki tefja tíma hv. Sþ. með því að fara að lesa þau dæmi upp, heldur aðeins benda á þau. En samkv. þeim dæmum, sem þar eru nefnd, þá virðist vera mikill munur á skiptaverði í Noregi og á Íslandi, þ.e. að skiptaverðið í Noregi sé allt að því helmingi hærra og jafnvel enn þá hærra en helmingsmun nemi. Þegar maður lítur nánar ofan í þessi mál, þá sér maður það, að á þessu er að finna ýmsar skýringar. Það hefur nefnilega verið að gerast á nokkuð löngum tíma, að með ákvörðunum, sem teknar hafa verið hér á hv. Alþ., hefur svo og svo stór hluti af því fiskverði, sem fiskkaupendur verða að greiða, verið látinn renna til annarra þarfa en hlutar sjómannsins. Alþ. hefur gengið svo langt á þessari braut, að það skekkir mjög verulega þann grundvöll, sem hægt er að finna til þess að bera saman fiskverðið hér og í Noregi, svo að óyggjandi sé. Í grg. okkar flm. er m.a. getið um það lágmarksfiskverð, er gilti á Íslandi fyrir síðustu áramót, skiptaverðið á nokkrum helztu fisktegundum í okkar útgerð. Þar er m.a. talað um þorsk, slægðan með haus, yfir 57 cm, að skiptaverðið á honum sé 7.70 kr., en til viðbótar því verði verða fiskkaupendur — vegna lagasetningar hér á Alþ. m.a. — að greiða eftirtaldar fjárhæðir: Svo kallað stofnfjársjóðsgjald, sem nam þá um 77 aurum á hvert keypt fiskkíló. Hlutdeild í útgerðarkostnaði skipanna, sem nam um 85 aurum á hvert keypt fiskkíló. Útflutningsgjald, er nam 75 aurum á hvert keypt fiskkíló. Verðjöfnunarsjóðsgjald, er nam um 50 aurum á hvert fiskkíló. Auk þess er að finna ákvæði um það frá verðlagsráði, að sé fiskur lagður niður í kassa úti á miðunum og ísaður, þá beri að greiða fyrir þann fisk 33 aurum meira fyrir hvert kíló en skiptaverðið segir til um. Ef allir þessir póstar eru lagðir saman, þá sést, að fyrir áramótin varð að greiða fyrir hvert kg af þorski, slægðum með haus, sem var stærri en 57 cm, 10.90 kr. á hvert kg. En eins og ég gat um áðan, þá ganga aðeins af þessu um 7.70 kr. til sjómanna, til fiskimanna þeirra, er þessa fisks afla. Um 3.20 kr. ganga í ýmsa sjóði eða er ráðstafað til ýmissa sérstakra þarfa, sem ákveðnar hafa verið hér á hv. Alþ., en koma sjómönnum ekki til góða í hærra skiptaverði.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, þyrfti að hækka skiptaverðið um 13% til þess að ná sambærilegu skiptaverði á þorski hér á Íslandi og gilti í Noregi fyrir áramótin. Og þá er einungis miðað við það verð, sem greitt er í Noregi án ríkisuppbóta, en þær ríkisuppbætur ganga líka til sjómannanna, sem fisksins afla og lagður er upp í Noregi. Staðreynd er það, að um fiskverðið hefur verið mjög mikið deilt mörg undanfarin ár, og sýnist greinilega sitt hverjum um réttmæti þeirra ákvarðana, sem verðlagsráðið tekur á hverjum tíma.

Ég er ekki í vafa um það, að það þjónar jákvæðum og mikilvægum hagsmunum í þessu landi að útrýma þeirri tortryggni, sem er ríkjandi mjög víða í hópum sjómanna, um að fiskverðið hér sé óeðlilega lágt og lægra en verð sambærilegs fisks í Noregi. Þess vegna er þessi till. flutt. Það er engan veginn vandalítið að bera þetta verð saman á sambærilegum grundvelli m.a. af þeim ástæðum, sem ég vék hér að, hvað okkar verðútreikningar eru flóknir og hvað mikið af fiskverðinu gengur til annarra hluta en til þess að greiða kaupið til sjómannanna. Þó eru þessi vandræði á engan hátt það stórfengleg, að ekki sé möguleiki á að framkvæma þessa rannsókn. Og ég held, að það ætti að vanda til hennar, og það má verja til þess talsverðum fjármunum og nokkrum tíma. Niðurstöður hennar ætti að birta, og þær á að rökstyðja, þannig að sé sá grunur margra sjómanna, sem uppi er um það, að þeir fái of lágt fyrir fiskinn, ekki á rökum reistur, þá verði honum hnekkt með þessari rannsókn.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að eyða tíma Sþ. við að fara öllu nánar út í þetta. Ég legg til, að umr. um þáltill. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.