16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (3953)

162. mál, Öryggisráðstefna Evrópu

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 206 till. til þál. um öryggisráðstefnu Evrópu ásamt hv. 9. þm. Reykv. Till er svofelld:

„Alþingi lýsir yfir samþykki sínu við fram komna hugmynd um „Öryggisráðstefnu Evrópu“, er hafi tvennt að meginmarkmiði:

1. að hernaðarbandalögin tvö, NATO og Varsjárbandalagið, verði lögð niður og leyst af hólmi með sameiginlegu öryggiskerfi allra Evrópuríkja, Bandaríkjanna og Kanada,

2. að ná samkomulagi um gagnkvæman brottflutning allra erlendra herja úr löndum álfunnar, og ályktar því að skora á ríkisstj. að vinna að því innan Norðurlandaráðs, NATO og annarra alþjóðlegra samtaka og stofnana, sem Ísland er aðili að, að slík ráðstefna komist á hið fyrsta. Jafnframt felur Alþ. ríkisstj. að athuga möguleika á því, að ráðstefnan fari fram í Reykjavík, og, sé það talið kleift, bjóði Reykjavík fram sem stað til slíks ráðstefnuhalds.“

Það ætti e.t.v. að vera óþarfi að orðlengja mjög um þá tilt., sem ég hef hér greint frá. Hún ásamt með grg., sem fylgir henni, skýrir sig að miklu leyti sjálf. En þar sem með henni er hins vegar komið inn á þau mið íslenzkra stjórnvalda, sem hvað mestum og örlagaríkustum deilum hafa valdið með þjóðinni, tel ég rétt að ræða nokkru nánar ýmis þau atriði, sem aðeins er drepið á í grg.

Með mótun þeirrar utanríkisstefnu, sem upp var tekin skömmu eftir heimsstyrjöldina og leiddi til inngöngu í NATO 1949 og herverndarsamningsins 1951, var sáð frækornum ósættis, sem skipti þjóðinni í tvær andstæðar og ósættanlegar fylkingar. Í lok stríðsins hafði náðst samkomulag milli flokka verkalýðshreyfingarinnar, Sósíalistaflokksins og Alþfl., og borgarastéttarinnar undir forustu Sjálfstfl., sem leiddi til stjórnarmyndunar þessara flokka. Hvað sem menn annars vilja um þá stjórn segja, verður ekki um það deilt, að hún lagði grundvöllinn að því þjóðfélagi, sem við búum við í dag, og olli að sínu leyti a.m.k. ekki minni straumhvörfum í þjóðlífinu en minnihlutastjórn Framsfl. 1927 eða fyrsta vinstri stjórnin 1934–1937. Þetta samstarf rofnaði 1946 í fyrsta ágreiningnum, sem kom upp um utanríkismál með Keflavíkursamningnum svo nefnda. Sá ágreiningur varð alger og endanlegur nokkrum árum síðar með inngöngu í NATO og herverndarsamningnum. Enginn vafi er á því, að þetta óbrúanlega bil milli einstakra flokka hins íslenzka flokkakerfis hefur leitt til verulegs tjóns. Hvoru tveggja er þar um að kenna, annars vegar nær ofstækisfullri óvild og hræðslu Sjálfstfl. og valdamikilla aðila í Alþfl. og Framsfl. gagnvart Rússum og kommúnisma yfirleitt samfara takmarkalausu trausti á málstað Bandaríkjanna og bandamanna þeirra, sem leiddi til margvíslegrar þægðar, að ég segi ekki undirlægjuháttar, í samskiptum við þessi sömu ríki. Hins vegar glórulaus trú valdamanna Sósíalistaflokksins á sæluríkið í austri, sem gerði hann oft aðeins að bergmáli þeirra slagorða, sem þeim aðilum þótti henta að halda uppi í áróðri sínum. Eldar kalda stríðsins kyntu svo enn undir þennan örlagaríka klofning þjóðarinnar í háværar málpípur austurs og vesturs.

Tilraunir til þess að finna hér pólitískan milliveg fóru út um þúfur. Þessi klofningur hefur skipt sköpum í stjórnmálalífi Íslendinga þennan aldarfjórðung. Samstaðan milli verkalýðshreyfingar og sterkasta afls borgarastéttarinnar, Sjálfstfl., um nærri hvaða mál sem er, hefur verið útilokuð. Frekara samstarf milli verkalýðsflokkanna, Sósfl. og Alþfl., sem virtist í sjónmáli á árunum 1944–1946, varð einnig útilokað. Ágreiningurinn um utanríkismál sundraði verkalýðshreyfingunni og leiddi um sex ára skeið til samstöðu svo ólíkra afla sem Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl., sem tryggði þeim vald þann tíma í hreyfingunni með því markmiði að útiloka róttækasta fólkið þar frá eðlilegum þjóðfélagsáhrifum. Samstaða þessara tveggja fyrrnefndu hefur reyndar haldizt í verkalýðshreyfingunni fram á þennan dag, valdið þar og viðhaldið pólitískum deilum og sundrungu, sem naumast byggist á eðlilegum ágreiningi um dagleg málefni, og nú hin síðustu ár leitt til þegjandi samkomulags um viðhald „status quo“, þ.e., að hvor hinna pólitísku deilda héldi því, sem hún hafði unnið á tímum kalda stríðsins, án íhlutunar hinnar, en þetta ástand hefur valdið stöðnun í innbyrðis þróun hreyfingarinnar og dregið verulega úr þjóðfélagslegum áhrifamætti hennar.

Háskalegast af öllu fyrir íslenzka stjórnmálaþróun var þó það, að með almennri viðurkenningu á þessum tvenns konar viðhorfum til utanríkismála sem stjórnmálalegum vatnaskilum, sem leiddi til samstöðu svokallaðra lýðræðisflokka annars vegar, en gerði hins vegar róttækasta hluta þjóðarinnar að pólitískum paríum, sem útiloka yrði frá áhrifum, tókst Sjálfstfl. sem stærsta flokki lýðræðisflokkanna að koma sér upp eins konar pólitískri eilífðarvél, sem tryggði honum völd, á hverju sem gekk. Valkostir þjóðarinnar hafa raunar ekki verið aðrir en þeir að ákveða, hvort Alþfl. eða Framsfl. ættu að þjóna Sjálfstfl. til borðs og sængur. Frá þessu er aðeins ein undantekning, vinstri stjórnin 1956–1959. Sú undantekning sannar í rauninni aðeins regluna.

Árin á undan höfðu friðarhorfur verið betri en áður um skeið. Alþfl. og Framsfl. höfðu þá talið, að þau skilyrði væru að skapast, sem gerðu dvöl hers og þátttöku í hernaðarbandalagi ónauðsynlega, og stóðu að till. í þessa átt hér á hv. Alþ. Hitt hjálpaði einnig til, að með stofnun Alþb. höfðu hin þjóðfélagslega róttæku öfl Sósfl. um sinn a.m.k. fengið annan og hugnanlegri svip en undir einhlítri forustu gamalkunnra og gamalreyndra Sovétdýrkenda. Grundvöllur vinstri stjórnarinnar var því byggður á afstöðunni til utanríkismála, eins og allra annarra ríkisstj. hér eftir stríð. Úr þeim grundvelli molnaði verulega við atburðina í Ungverjalandi strax um haustið 1956. Við borð lá, að stjórnin klofnaði vegna landhelgismálsins. Þótt hún svo að lokum sundraðist vegna afstöðu til efnahagsmála, má telja, að það hafi fremur verið valinn ásteytingarsteinn en að ágreiningurinn hafi verið óbrúanlegur á því sviði.

Landhelgismálið er glöggt dæmi þess, hve skaðvænleg áhrif þessi óbrúanlegi ágreiningur um utanríkismál hefur haft á brýnustu hagsmunamál þjóðarinnar. Um ekkert mál er nauðsyn algerrar samstöðu allrar þjóðarinnar brýnni en útfærslu landhelginnar til alls landgrunnsins. Landhelgismálið var líka mesta afrek vinstri stjórnarinnar, en þeim árangri, sem náðist, tókst að spilla með því að draga málefni NATO inn í það og gera þá tortryggilega, sem í eldinum stóðu, með því að leiða að því getum, að þeim væri efst í huga að spilla vestrænni samvinnu og ganga erinda Sovétríkjanna. Svo vill til, að einmitt nú er þetta mál aftur í brennidepli og brýn nauðsyn á falslausri og einlægri samvinnu allra flokka og allrar þjóðarinnar um framgang þess, og eykur það enn á gildi þess máls, sem hér er verið að ræða.

Hér hef ég rætt nokkuð um afleiðingar þessa djúpstæða ágreinings um utanríkismálin á stjórnmálin innanlands. Ég tel þær hafa verið örlagaríkar, valdið ágreiningi og deilum, sem innlend málefni gáfu ekkert rökrétt tilefni til, verið bein og óbein orsök að sundrungu verkalýðshreyfingarinnar, verkalýðsflokkanna og vinstri manna almennt, dregið verulega úr áhrifum þeirra afla, sem helzt hefðu átt að orka breytingum á gerð og þróun samfélagsins, á svipaða lund og orðið hefur með nálægum þjóðum og okkur skyldustum. Þannig má vafalaust skrifa vandamál stjórnmálanna hér s.l. þrjá áratugi, dýrtíðar- og verðbólguvandann, með nokkrum hætti á reikning þessarar óeðlilegu flokkaskipunar á grundvelli utanríkismála.

Nú vil ég víkja nokkrum orðum að efnislegu innihaldi þeirra deilna, sem átt hafa sér stað um þessi mál.

Ég vil taka það fram hér strax í upphafi, að ég og þau stjórnmálasamtök, sem ég tilheyri, tel í alla staði eðlilegt vegna aldalangrar menningarlegrar og viðskiptalegrar hefðar svo og landfræðilegrar legu Íslands og tengsla við umhverfi sitt, að við eigum sem allra nánust og bezt samskipti við þær þjóðir, sem venja er að kalla vestrænar þjóðir. Við teljum hins vegar óeðlilegt og ónáttúrlegt, að 200 þús. manna þjóð, sem aldrei hefur borið vopn, sé aðili að hernaðarbandalagi stórvelda, þar sem hún getur aldrei orðið þátttakandi í neinum þeim ákvörðunum, sem þó geta varðað tilveru hennar sem þjóðar, þar sem þær verða ávallt teknar af hinum hernaðarlega sérfróðu. Á sama hátt er það óviðunandi niðurlæging svo fámennri þjóð að búa við fjölmennt erlent herlið um áratuga skeið. Það hefur því ævinlega verið mín stefna og er stefna þeirra samtaka, sem ég er hér fulltrúi fyrir, að við losnum undan þessum skuldbindingum svo fljótt sem auðið er.

Deilurnar hafa einkum snúizt um þessi atriði: Í fyrsta lagi höfum við andstæðingar núv. utanríkisstefnu frá upphafi haldið því fram, að árás Rússa væri á engan hátt svo yfirvofandi, að okkur væri nauðsyn á vernd NATO.

Í öðru lagi höfum við haldið því fram, að á tímum öflugra langdrægra eldflauga, sem skotið geta vetnissprengjum heimsálfa á milli, hafi hernaðarlegt mikilvægi Íslands orðið næsta lítið, a.m.k. fyrir Bandaríkin. Öðru máli kann að gegna fyrir Sovétríkin, ef hér væri beint vinveitt stjórn, sem léði þeim hernaðaraðstöðu, sem gæti opnað þeim Atlantshafið og gert Ísland eins og skammbyssu, sem beint væri að Bandaríkjunum. En eygir nokkur möguleika á slíkri þróun íslenzkra stjórnmála, að hætta sé á þess háttar stjórn?

Í þriðja lagi, að framþróun á sviði ratsjártækni og notkun gervitungla hafi gert hernaðargildi Íslands lítið á þessu sviði, þ.e. á sviði viðvörunarkerfis, eins og uppgjöf stöðvanna á Langanesi og í Aðalvík ber raunar ljósan vott um. Þá höfum við haldið því fram, að aðild að hernaðarbandalagi og dvöl erlends herliðs hér verki öfugt við yfirlýstan tilgang sinn, bjóði hættunni heim, geri okkur að óhjákvæmilegu skotmarki, færi svo, að ófriður brytist út.

Hins vegar standa svo þeir, sem trúa staðfastlega á útbreiðslukerfi heimskommúnismans, að NATO sé eini raunverulegi varnarveggurinn gegn því, að stríðsvél Sovétríkjanna brjóti undir sig öll lönd veraldar, og okkur beri í verki að sýna samstöðu okkar með vestrænum þjóðum með þátttöku í NATO og leggja fram okkar skerf til varnar þessum hluta heimsins með því að lána hluta af landi okkar undir herstöð vinveittra þjóða.

En er NATO þá það skjól og hlíf lýðræðislegu þjóðskipulagi, sem áköfustu aðdáendur þess og hugmyndafræðilegir fylgjendur vilja vera láta? Í meiri hluta þátttökuríkjanna hefur tilvist þess sennilega ekki haft veruleg innri áhrif. En í sameiginlegum ákvörðunum þessara ríkja yfirskyggja hernaðarlegir hagsmunir eðlileg pólitísk sjónarmið. Þannig hefur NATO , þrátt fyrir orðagjálfur um lýðræði í stofnskrá þess, orðið til þess að vefa miðaldaeinræðisríki eins og Portúgal, sem þar að auki stundar einstæða nýlendukúgun í löndum sínum í Afríku, sem mynztur inn í vef vestrænna lýðræðisþjóða. Stuðningur þessara þjóða við afturhaldsstjórn Portúgals hefur gert henni kleift að hefta í fæðingunni sérhverja viðleitni til að lyfta þjóðinni úr hyldýpi eymdar og réttindaleysis, sem hún hefur búið við um aldir. Sama er að segja um Spán. Hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna hafa leitt til opinberrar viðurkenningar og stuðnings við fasistastjórn Francos, ýtt undir straum erlends fjármagns inn í landið og fest með því stjórnina í sessi og auðveldað henni að halda þorra þjóðarinnar á lægsta stigi lífskjara og mannréttinda, sem þekkist í Evrópu. Líku máli gegnir um Tyrkland, og hvað sem segja má um ásakanir um beinan stuðning NATO og bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, við valdatöku hershöfðingjanna í Grikklandi, leiddu hernaðarsjónarmið Bandaríkin fljótlega til opinberrar viðurkenningar á stjórn þeirra. Í kjölfarið kom innflutningur bandarísks og evrópsks fjármagns, sem verulega hefur styrkt stjórn þeirra í sessi.

En lítum svo aðeins á málið frá sjónarmiði ríkjanna hinum megin tjaldsins. Ef við lítum á það frá sjónarmiði ríkjanna hinum megin tjaldsins, þá er Varsjárbandalagið skilgetið afkvæmi NATO. Í skjóli þess gátu Sovétríkin hlutazt til um innanríkismál Ungverjalands 1956 og Tékkóslóvakíu 1968, komið í veg fyrir, að stjórnarfar þessara ríkja þróaðist í samræmi við innri aðstæður, og hneppt þessi ríki á ný í harðstjórnarfjötra, sem mótast af miðaldaviðhorfi ríkisvaldsins á 19. öld, en hafa aldrei átt við utan Rússlands og hvergi á seinni hluta 20. aldarinnar. Þannig hefur spegilmynd NATO, Varsjárbandalagið, sömu áhrif á þróunina austan tjaldsins og NATO hefur í mörgum tilfellum fyrir vestan, þótt með óbeinni hætti sé. Það hefur háskaleg áhrif, ekki aðeins á heimsfriðinn, heldur sérstaklega háskaleg áhrif á tímum gagngerra þjóðfélagsbreytinga og byltinga, eins og þeim, sem við lifum á, ef þjóðfélög fá ekki að þróast í samræmi við innri þarfir og lögmál, en verða að taka upp og viðhalda þjóðfélagskerfi, sem þeim er algerlega framandi og á sér engar rætur í eigin jarðvegi. Þetta virðast Bandaríkin nú loksins vera að læra, er þau viðurkenna rétt Chilebúa til að velja sér stjórnarform og þróunarleiðir. Þau grípa nú ekki til hernaðaríhlutunar þar eins og þau áður gerðu á Kúbu, St. Domingo og í Guatemala. En NATO er hemill á rás þróunarinnar í Vestur-Evrópu og óbeint í Austur-Evrópu líka með því að gefa Sovétríkjunum nauðsynlega átyllu fyrir Varsjárbandalaginu. Það er því öllum fyrir beztu, hverja trú sem menn hafa haft í þessum samtökum í fortíðinni, að báðum sé þeim nú hrint fyrir ætternisstapa samtímis. Ætti sú skoðun varla að valda ágreiningi hér úti á Íslandi á því herrans ári 1970.

Hitt skal ég svo viðurkenna, að mér hafa aldrei þótt aðrir valkostir fyllilega raunsæir eða algerlega sannfærandi. Enda þótt herinn færi brott og við segðum okkur einhliða úr NATO, breytti það engu um hernaðarjafnvægið í heiminum, og einhliða afturhvarf til hlutleysisyfirlýsingarinnar frá 1918 gæfi okkur varla frekara öryggi, ef til ófriðar drægi. Þá væri að vísu ekki hægt að stimpla okkur óvini í upphafi styrjaldar, en ef einhver ófriðaraðilinn sæi sig styrkja hernaðaraðstöðu sína með töku eða eyðingu landsins, mundu engar yfirlýsingar hindra hann í því. Það sannar reynslan frá síðustu heimsstyrjöld margfaldlega. Athygli mín og ýmissa samherja minna hefur því í vaxandi mæli beinzt að því á síðari tímum, hvort með einhverjum hætti væri hægt að nema brott sjálfa orsökina fyrir dvöl herliðs hér og þátttöku í hernaðarbandalagi og þá hvort Ísland gæti með einhverjum hætti orðið virkur þátttakandi í eða jafnvel flýtt fyrir þeirri þróun, að það ástand komist á, sem allir teldu uppfylla þá opinberu meginstefnu allra flokka, að hér sé ekki her á friðartímum, því að hvað sem ágreiningnum meðal okkar líður, hafa ekki heyrzt raddir um, að dvöl erlends herliðs hér sé eðlileg. Einlægustu stuðningsmenn hennar hafa aldrei talið hana meira en illa nauðsyn. Við höfum því gaumgæfilega fylgzt með þróun hugmyndarinnar um öryggisráðstefnu Evrópu, frá því að hún kom fyrst fram, og smám saman sannfærzt um, að þar var um raunsæjan möguleika að ræða til að gerbreyta ástandinu í Evrópu. Ísland gæti þar kvatt sér hljóðs á sjálfstæðan hátt með realpólitík í utanríkismálum, sem grundvallaðist á hagsmunum þess sjálfs sem ríkis og væri um leið sameiginlegt hagsmunamál í flestum smærri og miðlungsstórum ríkjum álfunnar. Þarna væri leið til að losna úr sjálfheldu hernaðarblakkanna, hætta að vera einungis peð í refskák stórveldanna. Þetta gæfi þeim tækifæri til að þróa þjóðskipulag sitt í samræmi við innri þarfir og lögmál, en ekki geðþótta stórveldanna.

Enda þótt kalda stríðið sé fyrir alllöngu undir lok liðið, hafa leifar af hugsunarhætti þess tímabils lifað góðu lífi fram á þennan dag. Og það er ekki fyrr en á þessu ári, að stórstígar breytingar hafa orðið til viðurkenningar á staðreyndum í Evrópu. Á ég þar einkum við hina nýju austurpólitík Willy Brandts og vestur-þýzku stjórnarinnar, sem segja má, að með samkomulagi sínu við Sovétríkin og Pólland, fyrirhuguðu samkomulagi við Tékkóslóvakíu og vaxandi og vinsamlegri samskiptum beggja þýzku ríkjanna sé loks að viðurkenna í formi það, sem varð raunveruleg og endanleg niðurstaða seinni heimsstyrjaldarinnar. Ástæða er til þess að ætla, að þetta gerbreyti andrúmsloftinu í Evrópu og gefi rökstuddar vonir um, að ráðstefna sem þessi um öryggismál Evrópu beri jákvæðan árangur. Enn fremur má benda á, að með ágreiningi og nær algerum vinslitum Sovétríkjanna og Kína hafa þeir fyrrnefndu orðið að beina miklum hluta herafla síns að kínversku landamærunum, og nauðsyn þeirra á tryggingu landamæranna í vestri með öðrum hætti en hernaðarlegum hefur vaxið, auk þess sem ótti Rússa við hernaðarlega umkringingu hefur fengið byr undir báða vængi og ætti að leiða til sáttfúsari afstöðu í málefnum Evrópu en lengi hefur verið.

Vil ég nú víkja nokkrum orðum nánar að hugmyndinni um öryggisráðstefnu Evrópu. Í svipuðu formi og hún er nú var hún fyrst sett fram af Adam Rapatsky, þá utanrrh. Póllands, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í des. 1964. Næsta skref var stigið með svo kallaðri Búkarest-yfirlýsingu Varsjárbandalagsins í júlí 1966. Enda þótt sú yfirlýsing liti á köflum út sem venjulegt sovézkt áróðursplagg fullt af venjulegum beinfrosnum kaldastríðsslagorðum um haturs-, hefndar- og hernaðaröfl, sem sífellt ógnuðu hinum friðelskandi sósíalísku þjóðum, voru einnig sett fram eftirtalin atriði sem umræðugrundvöllur um öryggisráðstefnu:

1. Þróun samskipta í anda góðra granna, eins og það heitir á þeirra máli, er byggðu á grundvallarforsendum sjálfstæðis og þjóðlegs fullveldis, íhlutunarleysi um innri mál og gagnkvæmum hag og friðsamlegri sambúð ríkja ólíkra samfélagsforma. Þróun efnahagstengsla og samvinna á sviði vísinda, tækni, menningar og lista í þeim tilgangi að skapa efnislegan grundvöll evrópsks öryggis og fordæming allrar mismununar og þvingana í samskiptum ríkja Evrópu.

2. Algert afnám hernaðarbandalaga. Yfirlýsingin ítrekaði fúsleika Varsjárbandalagsins til að taka höndum saman um samtímis upplausn, eins og það er nefnt, Varsjár- og NATO-bandalaganna, en varaði jafnframt við því, að svo lengi sem NATO héldi áfram tilvist sinni, væru Varsjárbandalagsríkin staðráðin í að styrkja mátt sinn og varnaraðstöðu.

3. Að koma á í nokkrum áföngum til að draga úr spennu heimkvaðningu allra erlendra herja af landssvæðum annarra ríkja, gagnkvæmri fækkun í herjum þýzku ríkjanna beggja, kjarnorkuvopnalausum beltum og banni við umferð og dvöl flugvéla og skipa, er bæru kjarnorkuvopn.

4. Viðurkenning á öllum þáverandi landamærum, þ. á m. Oder-Neisse landamærunum og markalínunni milli þýzku ríkjanna, sem endanlegra og órjúfanlegra.

5. Samþykkt um, að þýzkur friðarsáttmáli skyldi byggður á ofangreindum forsendum.

6. Vestur-Þýzkalandi yrði bannaður aðgangur að eða stjórn á kjarnorkuvopnum í hvers konar formi. Þremur síðast töldu atriðunum virðast Varsjárbandalagsríkin raunar vera að ná með tvíhliða samningum sínum við Vestur-Þýzkaland að undanförnu, en þó má búast við, að þau óski eftir að fá önnur Vestur-Evrópuríki til að undirgangast þær skuldbindingar líka til frekara öryggis. Enn fremur var í þessari Búkaresttillögu hvatt til þess, að evrópsk öryggisráðstefna léti frá sér fara yfirlýsingu um samstarf að viðhaldi og styrkingu evrópsks öryggis í samræmi við þessar tillögur, en gaf í skyn, að dagskrá ráðstefnunnar skyldi vera opin tillögum frá hvaða ríki sem væri. Enda þótt yfirlýsingin útilokaði ekki sérstaklega nokkurt ríki frá þátttöku í ráðstefnunni, var því þar haldið fram, að ríki Evrópu séu fær um að leysa vandamál sín innbyrðis án íhlutunar utan frá, jafnframt því sem svo var kveðið að orði, að þjóðirnar láti sér ekki á sama standa, hvaða pólitíska stefnu þetta eða hitt ríkið kýs sér, í samræmi við hagsmuni friðar og öryggis eða andstæðar þessum hagsmunum. Þessi atriði vöktu grunsemdir um, að Bandaríkin yrðu í bezta falli óvelkominn þátttakandi og að Vestur-Þýzkaland gæti búizt við að verða að standa í hlutverki hins ákærða á ráðstefnunni. En síðari þróun hefur þó gert hvort tveggja þessara atriða úrelt. Vestur-Þýzkaland gegnir ekki lengur því hlutverki syndahafurs, sem áður tíðkaðist, og viðbrögð Vestur-Evrópuríkja við útilokun Bandaríkjanna reyndust ekki þau, að henni væri haldið til streitu. Ég tel rétt að skjóta því hér inn í, að það er ekki aðeins sjálfsagt, að Bandaríkin og Kanada taki þátt í slíkri ráðstefnu sem meðlimir í varnarkerfi Vestur-Evrópu frá upphafi, heldur er það lífsnauðsynlegt hagsmunum okkar Íslendinga, að Bandaríkin taki þátt í henni, ef hún á að leiða til brottflutnings erlends hers héðan af landi. Kemur þar hvort tveggja til, að hinn svo nefndi varnarsamningur frá 1951 er formlega milli Íslands og Bandaríkjanna, og svo hitt, að trygging fyrir öryggi Íslands í evrópsku öryggiskerfi yrði lítils virði, nema Bandaríkin væru þar einnig aðili að.

Lítil hreyfing komst þó á þessi mál næstu árin. Að vísu lagði Breshnev enn áherzlu á þýðingu þeirra í ræðu á ráðstefnu kommúnistaflokka í Tékkóslóvakíu 1967, sérstaklega með tilliti til þeirra tækifæra, sem opnuðust, þegar upphaflegur gildistími NATO-samningsins rynni út. Sá tími leið þó hjá, án þess að nokkuð væri aðhafzt til þess að nýta þau tækifæri, enda höfðu nú Varsjárbandalagsríkin, önnur en Rúmenía, öðrum hnöppum að hneppa, þar sem var innrás og hernám Tékkóslóvakíu, sem einmitt var lítt samræmanleg hinum þýðingarmeiri greinum Búkarest-yfirlýsingarinnar frá 1966. En í marz 1969 áréttuðu leiðtogar Varsjárbandalagsins enn Búkarest-yfirlýsinguna á ráðstefnu í Búdapest og nú í mun sáttfúsari og meira sannfærandi tón en áður, og vakti yfirlýsingin því óvenjulega athygli á Vesturlöndum. Þótt þessi nýja áskorun, sem gefin var út rétt fyrir 20 ára afmælishátíð NATO í Washington, innihéldi almenna fordæmingu á öflum, sem reyna að viðhalda skiptingu meginlands vors með stefnu síaukinnar spennu, eins og þar sagði, voru nú engir þorparar nefndir með nafni, en athyglisverðari var þó ítrekun Búdapest-áskorunarinnar á þeirri grein Búkarest-yfirlýsingarinnar, sem krafðist heimkvaðningar allra erlendra herja úr löndum Evrópu, þrátt fyrir það, sem gerzt hafði. Næsta áskorun Varsjárbandalagsríkjanna kom frá Prag 31. okt. 1969 og lét í ljósi von um, að evrópsk öryggisráðstefna gæti komið saman í Helsinki á fyrri hluta árs 1970. En finnska stjórnin hafði þá boðið Helsinki sem aðsetur slíkrar ráðstefnu.

Þessi mál voru ítarlega rædd á ráðstefnu NATO í des. 1969, og kom þar fram óvenjulegur áhugi á málinu hjá flestum fulltrúum öðrum en frá Bandaríkjunum og föstu starfsliði bandalagsins, að ekki sé talað um hernaðarforingjana. Síðan hafa farið fram ýmsar viðræður milli einstakra ríkja, og hafa t.d. Frakkar nú nýlega lýst sig samþykka hugmyndinni, þar sem Ítalir hins vegar töldu, að af henni gæti ekki orðið í næstu framtíð vegna ónógs undirbúnings. Nú fyrir skömmu hafa Finnar sent 35 ríkjum formlegt boð til slíkrar ráðstefnu og vafalaust þar á meðal Íslandi. Þannig standa málin nú. Að sjálfsögðu geta ýmis atriði, svo sem svo kallaðar Salt-viðræður Rússa og Bandaríkjamanna um takmörkun árásarvopna, einkum eldflauga með kjarnaoddi, og e.t.v. viðræður fjórveldanna um Berlín, haft veruleg áhrif á, hvort slík ráðstefna kemst á laggirnar eða ekki. En ástæðulaust er að bíða með að taka afstöðu, þar til öll slík vafaatriði eru til lykta leidd, svo brýnt hagsmunamál sem slík öryggisráðstefna virðist geta orðið Íslandi, heldur ber að hefjast þegar handa við að undirbúa jarðveginn, hvetja aðra til jákvæðra viðhorfa gagnvart henni.

Einu sinni var spurt: Getur nokkuð gott komið frá Nazaret? Og nú munu sjálfsagt ýmsir spyrja: Getur nokkuð gott komið frá Sovétríkjunum? Er hægt að treysta nokkru þeirra orði, er þetta ekki allt þáttur í skuggalegum áformum þeirra um heimsyfirráð, tilraun til að draga úr árvekni lýðræðisríkjanna og gleypa þau síðan? Ekki get ég gefið neina tryggingu fyrir, að svo sé ekki, en ég vil biðja hv. alþm. að líta með mér á nokkrar staðreyndir og ályktanir, sem af þeim má draga, og sjá til, hvort þeir komist ekki að sömu niðurstöðu og ég, að ástæða sé til nokkurrar bjartsýni. Sú hugmynd, sem að baki þeirri skoðun liggur, að þessi tillaga sé ekki annað en einn liður í heimsyfirráðaáætlun Sovétríkjanna, hlýtur að byggjast á þeirri grundvallarforsendu, að í Varsjárbandalaginu ríki aðeins einn vilji og eitt vald, þ.e. Kremlarherranna, og gera þar ráð fyrir, að önnur meðlimaríki eigi einskis annars úrkosti en að styðja hvert það frumkvæði, sem Moskvu þóknast að taka í utanríkismálum, að þau geti ekki sett fram nein eigin markmið og þess vegna skipti hagsmunir þeirra og óskir varðandi evrópskt öryggiskerfi litlu máli. Sú hugmynd kann að hafa átt rétt á sér á tímum kalda stríðsins, en allt bendir til, að hún eigi engan rétt á sér lengur. Til þess hefur verið allt of augljóst síðustu ár, að Sovétríkin hafa hvað eftir annað átt í erfiðleikum með að knýja fram vilja sinn gagnvart öðrum þátttakendum COMECON og Varsjárbandalagsins í öðrum málum. Af þessu leiðir, að menn verða að álykta svo, að stjórnir Austur-Evrópuríkjanna hafi almennt tilhneigingu til að meta stefnu og áform Sovétríkjanna fyrst og fremst frá sjónarhóli sinna eigin hagsmuna. Þau gætu því litið á stefnu Varsjárbandalagsins varðandi evrópskt öryggiskerfi sem tæki, sem gæti, þegar til lengdar léti, orðið þeirra eigin markmiðum til framdráttar, markmiðum, sem gætu í mörgu tilliti verið verulega frábrugðin markmiðum Sovétríkjanna og reyndar hinna aðildarríkjanna innbyrðis. Þannig geta óskir sumra þessara ríkja beinzt fyrst og fremst að vernd og tryggingu gegn erlendum yfirráðum og þá ekki sízt gegn yfirráðum Sovétríkjanna sjálfra. T.d. eru Júgóslavía, Albanía og Rúmenía í opinni andstöðu við Sovétríkin á þessu sviði, þar sem hins vegar Austur-Þýzkaland, sem hefur óvissa og óákveðna alþjóðlega stöðu, og Pólland og Tékkóslóvakía, sem fengu veruleg landssvæði eftir styrjöldina, sem byggð hafa verið Þjóðverjum, og því telja vesturlandamæri sín ótrygg, hafa talið sér hentara að fórna öðrum hagsmunum sínum og sjálfstæðri afstöðu fyrir tryggingu Sovétríkjanna og vernd þeirra hvað þetta snertir. Þá njóta þessar ríkisstjórnir ákaflega mismunandi hylli og stuðnings almennings í löndum sínum og leggja því mismunandi mikið upp úr stuðningi sovézks hervalds, allt frá þeim, sem líta á það sem einu leiðina til að haldast við völd, og til þeirra, sem sjá í því stöðuga ógnun við sjálfa sig og þjóðlega hagsmuni landa sinna. Enn ber að nefna það, að flestar þessar þjóðir sæju sér hag í að vera í minna mæli efnahagslega háðar Sovétríkjunum, eiga fleiri kosta völ, bæði um markaði, hráefnisöflun og kaup á framleiðslutækjum. Allt bendir til þess, að Moskva hafi á síðustu árum orðið að taka verulegt tillit til þessara mismunandi hagsmuna og að yfirlýsingar þær og till., sem Varsjárbandalagið hefur látið frá sér fara hin síðari ár varðandi evrópskt öryggiskerfi, séu málamiðlanir, sem innihaldi m.a. ýmis sjónarmið þessara ríkja, sem ekki eru í samræmi við langtímamarkmið Sovétríkjanna.

Ef við tökum einstök dæmi um þetta, getum við byrjað á Rúmeníu. Enda þótt þar ríki enn stalíniskt stjórnarfar, hefur ríkisstjórnin tekið upp ákveðna þjóðernisstefnu og öðlast þannig víðtækan stuðning almennings. Með því móti hefur Rúmeníu tekizt að taka upp tiltölulega sjálfstæða stefnu gagnvart Sovétríkjunum og rær að því öllum árum að tryggja þessa stöðu sína. Þannig er talið, að þau atriði Búkarest-yfirlýsingarinnar, er varða frumreglur um sjálfstæði, íhlutunarleysi um innri málefni annarra ríkja og fordæmingu pólitískra og efnahagslegra þvingana, hafi verið sett inn að kröfu Rúmeníu. Þar að auki eru önnur atriði yfirlýsingarinnar talin bera enn ákveðnara rúmenskt vörumerki, einkum ákvæðin um samtímis upphafningu NATO og Varsjárbandalagsins og um heimkvaðningu erlendra herja, sem sérstaklega voru nefnd af Ceausescu forsætisráðherra í ræðu 5. maí 1966, tveimur mánuðum fyrir Búkarest-ráðstefnuna. Varla leikur vafi á því, að það er að kröfu Rúmeníu, að þessi atriði hafa verið látin standa í síðari áskorun ríkjanna, þrátt fyrir framkomu Breshnev-kenningarinnar í millitíðinni.

Ef við lítum svo næst á skilning Ungverjalands á evrópsku öryggiskerfi, liggur beinast við að vitna í ræðu sem Janos Peter utanríkisráðherra hélt á 9. þingi kommúnistaflokksins 1. des. 1966, en þar sagði hann m.a.:

Öryggiskerfi Evrópu mun hafa í för með sér aukna samvinnu grannríkja og gaumgæfilega athugun, skref fyrir skref, á flóknum vandamálum, er valda spennu. Smám saman gæti samvinna tekizt milli hópa, og af því gæti svo leitt lífræna þróun, heildaröryggiskerfi evrópskra landa með frábrugðið stjórnarfar. Á Balkanskaga gæti orðið um að ræða samvinnu milli Rúmeníu, Júgóslavíu, Búlgaríu, Albaníu, Grikklands og Tyrklands um lausn aðkallandi vandamála. Í Mið-Evrópu eru sérstakir möguleikar á samvinnu Tékkóslóvakíu, Júgóslavíu, Ungverjalands og Austurríkis, og Dónárdalurinn gæti gefið ýmsa möguleika á samvinnu allt frá Vestur-þýzka sambandslýðveldinu til Sovétríkjanna.“

Þannig eru langtímamarkmið Ungverja varðandi evrópskt öryggiskerfi byggð á svæðabandalögum, róttækt fráhvarf frá veruleika dagsins í dag, þar sem tvær blokkir, hugmyndafræðilega einlitar, standa hvor andspænis annarri gráar fyrir járnum, svo að yfir allra höfðum hangir Demoklesarsverð gagnkvæms jafnvægis í tortímingarmætti.

Hvað Pólland og Austur-Þýzkaland snertir, þá hafa þau þangað til mjög nýlega haft sameiginlega afstöðu varðandi öryggismál sín. Bæði hafa litið sömu augum mögulega ógnun við landfræðilegt öryggi sitt af hálfu Vestur-Þýzkalands. Allt fram að sigri sósíaldemókrata í fyrra var það yfirlýst stefna Bonn-stjórnarinnar, að hún væri fulltrúi allrar þýzku þjóðarinnar, og gerði hún tilkall til allra landssvæða, sem verið höfðu innan landamæra þýzka ríkisins 1939. Til að þægja Bonnstjórninni í þessu efni hafa flestar vestrænar ríkisstjórnir neitað Þýzka alþýðulýðveldinu um diplómatíska viðurkenningu. Þetta gerði það að verkum, að stjórnir Póllands og Austur-Þýzkalands hafa verið reiðubúnar til að fórna öllu til að hafa Sovétríkin að bakhjarli til tryggingar tilveru sinni og landamærum. Þessi ríki kröfðust þess lengi vel, að engin Austur-Evrópuríki tækju upp neins konar tengsl við Bonn, nema Austur-Þýzkaland hlyti áður fulla viðurkenningu sem sjálfstætt ríki og Oder-Neisse landamærin væru viðurkennd. Þessi samstaða riðlaðist þó smám saman. Loks tók Pólland einnig upp tvíhliða viðræður, sem nú hafa leitt til viðurkenningar núverandi landamæra, og varð þá stjórn Austur-Þýzkalands að snúa við blaðinu og leita einnig samkomulags við Bonn án fyrirframtryggingar um opinbera viðurkenningu. Hvaða áhrif þetta kann að hafa á viðhorf þessara ríkja í framtíðinni, er enn of snemmt að fullyrða um.

Ég tel mig hafa sýnt fram á það hér á undan, að hvað sem líður varnargildi NATO á liðnum tíma, þá sé það nú orðið þrándur í götu friðsamlegri þróun. Það er óbein máttarstoð afturhaldsstjórna í ýmsum ríkjum Vestur-Evrópu, það er hornsteinn tilveru Varsjárbandalagsins, sem heldur þjóðum Austur-Evrópu í spennitreyju framandi stjórnarfars, sem engar eðlilegar rætur á í löndunum sjálfum. NATO verkar því nú öfugt við meintan tilgang sinn. Það ver okkur ekki gegn ógnuninni frá austri, það viðheldur henni. Þróunin krefst þess, að heimsstyrjöldin síðari verði formlega enduð, og Bonn-stjórnin hefur undanfarið verið að leggja grundvöll að því, að svo megi verða, að hernaðarbandalög kalda stríðsins verði leyst upp og löndin beggja megin núverandi járntjalds fái frjálsar hendur um pólitíska uppbyggingu sína.

Við lifum á tímum örra framfara og tæknilegra breytinga, sem krefjast samsvörunar í stjórnkerfinu. Steinrunnar kreddur verða að víkja fyrir viðleitni þjóðfélaganna til að fá frjálsa framrás til margvíslegra tilrauna með ný stjórnarform. Það var heiminum vafalaust óbætanlegur skaði, að svo fór sem fór í Tékkóslóvakíu, en það gefur nýjar vonir, eins og ég áður sagði, að Bandaríkin virðast ætla að láta tilraunir fólksins í Chile óáreittar. Það ber þess vott, að Vesturveldin séu nú að verða reiðubúin til þess að skoða þessi mál í nokkuð nýju ljósi.

Vík ég þá að síðustu aðeins til Íslands. Ég hef hér að framan lýst, hversu skaðvænleg áhrif ég tel að hafi haft á þróun okkar þjóðmála sá djúpstæði klofningur, sem orðið hefur um þessi mál, og þær endalausu umræður, sem átt hafa sér stað, án þess að breyta nokkrum sköpuðum hlut. En er nú mjög líklegt, að við hernámsandstæðingar sjáum draum okkar um brottför hersins rætast með öðrum hætti en að þetta sé leyst á slíkri sameiginlegri öryggisráðstefnu allra ríkja? Ég sé ekki raunsæja möguleika til þess. Þetta vandamál er brot af vandamáli allrar Evrópu og verður naumast héðan af leyst nema sem angi af því. Er líklegt, að við losnum öðruvísi úr NATO en með þeim hætti, að það sé lagt niður eða breytt í eitthvert annað form? Ekki sé ég heldur mikil líkindi til þess. Þá kemur spurningin um það, hvort víð getum ekki sameinazt um að vinna að lausn málsins með þeim hætti, sem hér er lagt til, enda þótt það kynni að taka nokkurn tíma. Við NATO-sinna vil ég segja þetta: Getið þið ekki fallizt á það með okkur að vinna að því að afnema undirrót meinsins og orsökina fyrir hinni illu nauðsyn, sem þið kallið, hersetunni? Getum við þá ekki gert þetta að sameiginlegu markmiði þjóðarinnar og neytt allra ráða, sem við kunnum að hafa tiltæk, á alþjóðavettvangi til þess að skapa möguleika á lausn málsins með þessum hætti, þ.e., að öryggisráðstefna Evrópu verði kölluð sem fyrst saman og þá helzt hér í Reykjavík, ef ekki reynast á því óyfirstíganlegir tæknilegir annmarkar, sem vel má vera, að séu fyrir hendi? Á meðan ættum við svo að einbeita orku okkar að löngu tímabærum umbótum og verkefnum, sem kalla á okkur hér innanlands, svo sem lausn verðbólguvandans og landhelgismálsins, án þess að annað spili þar inn í en málavextir og staðreyndir málanna sjálfra.

Að svo mæltu, herra forseti, legg ég til, að umr. verði nú frestað og till. vísað til hv. utanrmn.