16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (3954)

162. mál, Öryggisráðstefna Evrópu

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á tveimur undanförnum þingum hef ég flutt nokkra skýrslu um gang utanríkismála á næsta ári á undan. Þessa skýrslu hafði ég hugsað mér að flytja enn á þessu þingi, áður en þinginu lýkur, og mun þá að sjálfsögðu víkja að þeim málum ýmsum, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur hér minnzt á, en það gefur jafnframt tilefni til þess, að ég mun ekki á þessu stigi taka upp almennar umr. um utanríkismál, sem hann gaf nú annars tilefni til, að upp hefðu verið teknar, en ég mun geyma mér það þangað til síðar.

En um þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég aðeins segja nokkur orð. Hugmyndin um öryggisráðstefnu Evrópu hefur nú verið til umr. í fullkominni alvöru að ég ætla í tvö ár eða hátt í tvö ár. Það hefur verið talað um fjögur vandamál í sambandi við þessa ráðstefnu. Það er í fyrsta lagi, hverjir skuli vera þátttakendur. Í öðru lagi, hvar hún skuli haldin. Í þriðja lagi, hvert eigi að vera umræðuefni þessarar ráðstefnu, og í fjórða lagi tímasetningin. Um fyrstu tvö atriðin má segja, að sé fullkomin samstaða nú þegar. Það kom fram strax í upphafi ósk um það, að auk Evrópulandanna yrði Kanada og Bandaríkjunum boðið að vera einnig þátttakendur, og inn á það mun nú vera gengið af öllum, að Kanadamenn og Bandaríkjamenn verði ásamt Evrópuríkjunum þátttakendur í þessari ráðstefnu. Í öðru lagi hafa Finnar boðizt til, að ráðstefnan verði haldin í Helsinki, og hafa unnið mikið að undirbúningi ráðstefnunnar, bæði þar í heimalandinu og á ýmsum vettvangi annars staðar. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan, að hingað kom fulltrúi finnska utanrrn., ambassador Enckell, til þess að ræða við Íslendinga um þeirra þátttöku, og hann mun hafa ferðazt til flestra þeirra landa, sem þátt munu koma til með að taka í ráðstefnunni, og rætt við þá um ýmislegt, sem ráðstefnuna snertir. Ég tel, að Reykjavík komi því í þessu sambandi ekki til greina, þar sem það er ákveðið af flestöllum aðilunum, að ráðstefnan verði haldin í Helsinki.

Svo eru tvö hin atriðin, sem hafa verið til umr., þ.e. hvaða umræðuefni eigi að taka fyrir á ráðstefnunni og hvenær eigi að halda hana. Upphaflega, þegar byrjað var að ræða um þessa ráðstefnu, þá var því haldið fram, að það ættu ekki að vera mjög mörg mál þarna til umr., því að annars mundu aðalatriðin drukkna í málaflóði, eins og tíðkast stundum á þessum alþjóðaráðstefnum. Talað var um, að það mundi vera mjög viðeigandi, að löndin kæmu sér saman um einhvers konar „ekki árásar“ samband eða samstarf og kannske eitthvað fleira í sambandi við það. Í umr. á ráðherrafundum NATO hefur oftar en einu sinni verið rætt um þessa væntanlegu öryggisráðstefnu Evrópu, og þar var mjög snemma minnzt á það, að það yrði gert að skilyrði fyrir þátttöku NATO-landanna í ráðstefnunni, að samkomulag yrði um samdrátt heraflans hjá báðum aðilum, bæði hjá NATO og hjá Varsjárbandalaginu, gagnkvæman samdrátt og jafnmikinn á herafla bandalaganna. Um þetta náðist ekki samkomulag, þannig að ég geri ekki ráð fyrir því, að það geti orðið umræðuefni eða markmið, eins og stendur í till., að hernaðarbandalögin tvö, NATO og Varsjárbandalagið, verði lögð niður eða leyst af hólmi með sameiginlegu öryggiskerfi allra Evrópuríkja, svo einfalt er þetta ekki. Það verða menn að skilja, að um þetta, ef til þessa kæmi, þyrfti miklu lengri aðdraganda. Ég tel þess vegna, að fyrri liður till. sé ekki framkvæmanlegur, þótt hann kannske væri æskilegur, ég skal ekkert segja um það. Ég skal ekki fara að segja neitt um það, hvað réttlætir tilveru NATO eða Varsjárbandalagsins eða hvort þau hafi gert nokkuð gott síðan þau komu til, en á það vil ég benda, að síðan NATO var stofnað fyrir rúmum 20 árum, fyrir 21 ári, þá hefur verið friður í Evrópu, og það eru til menn, og það margir menn, sem þakka NATO það, að friður skuli enn vera hér á þessum mesta vígvelli veraldarinnar, friður og ró í Evrópu, samtímis því sem styrjaldir hafa geisað annars staðar.

Nú hefur það verið stefna NATO á þeim fundum, sem ég hef sótt seinast, að skilyrði fyrir því, að til þessarar ráðstefnu komi, sé, að það náist samkomulag um lausn Þýzkalandsvandamálsins. Þýzkalandsvandamálið hefur verið erfiðasta viðfangsefnið í Evrópu fyrr og síðar og er það raunar enn í dag, og NATO-samtökin telja það þýðingarlítið að fara að ræða öryggismál Evrópu, án þess að einhverjir möguleikar liggi fyrir um lausn Þýzkalandsvandamálsins.

Annað atriði þessarar till. fyrir utan að leysa upp varnarbandalögin tvö, NATO og Varsjárbandalagið, er, að samkomulagi verði náð um gagnkvæman brottflutning allra erlendra herja úr löndum álfunnar. Þetta er sjálfsagt æskilegt og gott, en ég segi, eins og ég sagði áður, að þetta er ekki eins einfalt og það lítur út á blaðinu. Ég tel, að það sé ákaflega erfitt að ná samkomulagi um brottflutning allra erlendra herja úr löndum álfunnar, þannig að ég hef enga trú á því, að þessi till., sem hér er flutt, þjóni þeim tilgangi, sem henni er ætlað að þjóna, að ná samkomulagi um eða verða til þess, að samkomulag náist um þetta þing um öryggismál Evrópu. Það er unnið að því enn í dag og verður væntanlega á næstunni reynt að styðja að því, að þessi öryggisráðstefna verði haldin og að hún geti með einhverjum hætti - ég segi ekki með hverjum, því að það er mér ekki ljóst heldur — orðið til þess, að öryggismál Evrópu verði styrkt og þau nái að verða til friðarvarðveizlu í álfunni, eins og til var stofnað í upphafi. Þessi viðleitni heldur áfram undir forustu Finnlands, þannig að ég held, að það sé alveg tómt mál að nefna Reykjavík í því sambandi, eins og ég sagði áðan. Það er þegar búið að veita þeim fáu atriðum samþykki, sem búið er að koma sér saman um í sambandi við þessa ráðstefnu, að hún skuli haldin í Helsingfors og að nokkru leyti a.m.k. undir forustu Finnlands. Ég stóð nú bara upp til þess að benda á þessi atriði í sambandi við till. á þskj. 206, sem hv. flm., hv. 4. þm. Norðurl. e., hefur nú flutt grg. fyrir. Hins vegar skal ég endurtaka það, að ég vonast til þess að geta svarað ýmsum atriðum í ræðu hv. þm., þegar utanríkismálin almennt koma hér til umr., sem ekki verður langt að bíða. Ég býst við, að ég geti útbýtt fyrir fram skýrslu eða vélrituðu plaggi frá utanrrn. fljótlega. Það er verið að semja það núna og er e.t.v. þegar samið, og ég geri ráð fyrir, að það geti orðið um helgina, öðru hvoru megin við helgina.