16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (3955)

162. mál, Öryggisráðstefna Evrópu

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég verð nú að játa, að eftir því að dæma, sem maður hefur heyrt í lausafréttum eða föstum af afstöðu hæstv. ríkisstj., þá hélt ég, að e.t.v. væri afstaða hennar til þessarar till. jákvæðari en ég get fullyrt eftir að hafa hlustað á þessa stuttu ræðu hæstv. utanrrh. En e.t.v. er of snemmt að dæma um það og réttara, að það komi betur í ljós, þegar hann flytur skýrslu sína um utanríkísmál hér núna bráðlega. Ég ætla þess vegna að geyma mér að mestu að leggja dóm á það, hver raunveruleg afstaða hæstv. ríkisstj. er í þessu máli, en allt, sem maður hefur heyrt hingað til um það, er það, að sú afstaða hafi í meginatriðum verið jákvæð.

Það, sem hann fann að þessari till., var, að hún væri óraunhæf, hún stefndi að of háu marki, sem væri út af fyrir sig ágætt. en hún væri bara ekki eins auðveld í framkvæmd og að skrifa hana á pappírinn. Vissulega get ég tekið undir það, að hér sé ekki um einföld mál að ræða, enda býst hvorki ég né neinir aðrir við því, að þau leysist á svipstundu á nokkurra daga fundi, þó að honum væri komið á með þessum ríkjum. Hér er auðvitað um mál að ræða, sem hljóta að takast í áföngum. Hann nefndi t.d., að samdráttur herafla væri eitt af skilyrðunum, sem hefði verið sett af NATO hálfu fyrir ráðstefnunni. Vissulega getur það verið spor í áttina, en aðalatriðið er vissulega, hvaða mark er sett sem framtíðarmarkmið. Óraunsærri er nú mín till. ekki en það, að hún byggir á þegar framkomnum till., sem mörg ríki í Evrópu standa að, og hefur hún a.m.k. verið studd í meginatriðum af svo kölluðum bræðraflokkum Alþfl., sósialdemókrataflokkum, m.a. á Norðurlöndum. Ég veit ekki betur t.d. en að það sé yfirlýst stefna danska sósíaldemókrataflokksins og sennilega fleiri sósíaldemókrataflokka í Vestur-Evrópu, að komið verði upp sameiginlegu öryggiskerfi fyrir Evrópu alla báðum megin járntjaldsins.

Ég verð að játa, að ég verð að bíða með það að leggja fullkominn dóm á það, hversu jákvæðar undirtektir hæstv. ráðh. eru og hver afstaða ríkisstj. er í raun og veru. Ég sannast að segja þóttist nokkuð viss um hana, þegar ég samdi mína ræðu, en ég er eftir ræðu hæstv. ráðh. ekki orðinn jafnviss um, hver stefna hennar sé í raun og veru.

Um önnur minni háttar atriði, sem hann kom inn á. ætla ég ekki að fjölyrða. Ég játa það, að ég tel ólíklegt, að slík ráðstefna geti farið fram í Reykjavík. Hins vegar var það niðurstaða okkar flm. að setja þetta í till., því að við töldum, að bærist slíkt boð frá okkur, ef það væri talið frambærilegt af tæknilegum ástæðum, væri það undirstrikun á afstöðu okkar og mundi vekja meiri athygli á þeirri afstöðu, sem við hefðum í þessu máli. Það vegur kannske ekki þungt, hvað smáþjóð eins og Íslendingar segja, og e.t.v. er það svo, að það sé ekki annað að gera en að vitna, eins og hæstv. ráðh. gerði, í hernaðarfræðingana í NATO eða þá einhverja aðra. sem eru gagnstæðrar skoðunar, en mitt álit er samt, að Íslendingar verði að hafa þá reisn í sínum utanríkismálum, að þeir geti haft ákveðna stefnu og sett hana fram sem sína ákveðnu skoðun, þó að það falli ekki algerlega í kramið hjá foringjunum í NATO eða forustumönnum einhverra stórvelda. Við hljótum að geta sett okkar stefnumark í utanríkismálum alveg eins og aðrir og haft sama rétt til þess í samfélagi þjóðanna að beita okkur fyrir því. Ég held, að það sé eitt af grundvallaratriðum fyrir okkur, að við höfum fastmótaða utanríkisstefnu, sem sé til þess fallin að vekja virðingu í samfélagi þjóðanna. Það er ekki aðeins metnaðarmál, heldur beint hagsmunamál. Þess vegna læt ég ekki hrekja mig frá neinu orðalagi í minni till. á þeirri forsendu einni, að NATO hafi gert þetta að skilyrði, að NATO hafi gert hitt að skilyrði. Við hljótum að geta haft okkar skoðun á því, hvernig slík ráðstefna eigi að vera og hvernig þessum málum eigi að vera fyrir komið í framtíðinni.

Það kann svo að vera deiluefni, sem getur þá beðið betri tíma, þangað til hér verða almennar umr. um utanríkismál, hvort þessi till. er til ills eða hvort hún, ef hún yrði samþykkt, yrði frekar til að vinna því máli gagn, sem hún fjallar um. Ég ætla ekki að taka upp neinar þrætur núna við hæstv. ráðh. um það efni, en ég er sannfærður um það, að virðing Íslendinga sem sjálfstæðrar smáþjóðar mundi vaxa af því, en ekki minnka, að gera ákveðna samþykkt um þetta mál, eins og hér er um að ræða.