09.03.1971
Sameinað þing: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (3970)

197. mál, móðurmálskennsla í barna- og gagnfræðaskólum

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að halda neina ræðu, en ég vil þakka þeim, sem talað hafa, bæði hv. 4. landsk. þm. og hv. 5. þm. Austf., fyrir góðan stuðning við þessa till., og ég vil mega vænta þess, eins og þeir, að það takist að afgreiða till. á þessu þingi, þó að hún sé ekki snemma fram komin. Ég geri ráð fyrir því, að ýmislegt hafi nú þegar verið unnið af rannsóknum af þessu tagi. Það hlýtur eiginlega að vera svo, en þeim mun skemmri tíma ætti það þá að taka að ljúka þessu verki og birta niðurstöðu, en það skiptir að sjálfsögðu miklu máli, að niðurstaða þeirrar rannsóknar, sem gerð verður, verði birt, þannig að almenningur geti haft gagn af henni.

Það er nú kannske ekki svo, eins og hv. 4. landsk. þm. gat sér til, að umr., sem fóru hér fram á Alþ. einhvern tíma fyrir nokkru síðan um málfræðistagl og fleira, hafi komið þessari till. af stað, heldur er það nú líklega fremur þannig, að ég hafi tekið þátt í þeim umr. lítils háttar, vegna þess að ég var þá með þessa till. í huga. Annars hélt hv. 4. landsk. þm. mjög fróðlega ræðu um ýmislegt í sambandi við kennslu, enda er hann sjálfur kennari og hefur verið nokkuð lengi. Ég hliðra mér hjá því að ræða um ýmislegt af því, sem hann talaði um, af því að mig skortir þar reynslu. AS vísu hef ég fengizt við kennslustörf, en það er ákaflega langt síðan það var, og um það er nú varla ástæða til þess að ræða.

Ég held, að ef við tölum um móðurmálskennslu sérstaklega, þá sé það skilyrði til þess, að sú kennsla beri árangur, eins og yfirleitt á við um alla kennslu, að hún sé lífræn. Öll kennsla þarf að vera lífræn. Og það er yfirleitt mögulegt að gera alla kennslu lífræna, ef skilyrðin eru fyrir hendi, sem til þess þarf. Meira að segja heyrði ég það á hv. þm., að það er hægt að gera setningafræði lífræna, því að hann sagði, að hún væri sannarlega af því tagi, og hann talaði mjög vel um setningafræðina sem þroskandi námsgrein. Mig minnir nú, að þegar ég var í skóla fyrir mjög löngu síðan, þá væri þetta allt haft undir sama hatti og kölluð málfræði, sem hér hefur verið talað um, þ. á m. hljóðfræðin og setningafræðin. Ég býst við, að hljóðfræðin og setningafræðin hafi í þann tíð verið talin hlutar af málfræðinni, en það er nú svo skrýtið, að þessi hluti málfræðinnar, setningafræðin, sem hv. þm. talaði um og honum þykir skemmtileg, sérstaklega skemmtilegt að kenna hana, og honum hefur líklega einnig þótt skemmtilegt að nema, það er nú sú grein málfræðinnar, sem ég hef helzt heyrt nemendur kvarta yfir og kalla „stagl“. En setningafræðikennsla mun hafa verið aukin mjög mikið a.m.k. í gagnfræðaskólunum á síðustu áratugum og mun vera miklu meiri nú en hún var í þann tíð, þegar ég þekkti til þessara skóla. En hv. þm. hefur sjálfsagt sem kennari gott lag á setningafræðinni að gera hana lífræna og hefur sjálfur verið hneigður fyrir þessa námsgrein, en aðrir kalla hana „stagl“.

Ég held, að það hafi verið vel mælt og réttilega hjá hv. þm., þegar hann var að tala um það, hvernig börnum væri kennt að lesa og að sleppt væri köflum úr lesmáli og ljóðum, þar sem væru fágæt orð. Hann var að segja frá því, og þessu hef ég nú líka tekið eftir, að þetta er gert, og það er áreiðanlega ekki stefna í rétta átt. Það á ekki að vera að búa til neitt sérstakt barnamál, ekki vera að búa til bækur á barnamáli til þess að lesa í skólum. Nemendur eiga að fá lestrarefni á málinu, eins og það er. Í fyrri daga var börnum kennt að lesa biblíuna í þýðingu Odds Gottskálkssonar og Guðbrands Þorlákssonar, og ýmsir merkir menn, rithöfundar, hafa einmitt haft orð á því, að sú lestrarkennsla hafi reynzt þeim vel og verið góð undirstaða í meðferð hins ritaða máls.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, þó að það sé alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það gæti verið skemmtilegt að rabba um þessa hluti. Ég stóð aðallega upp til þess að þakka fyrir þann stuðning, sem till. hefur hlotið.