10.10.1970
Sameinað þing: 1. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Myndun nýs ráðuneytis

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í morgun var haldinn fundur í ríkisráði og þar borin upp svofelld till.:

„Samkvæmt forsetaúrskurði frá 10. júlí s. l. var mér falið að gegna störfum forsætisráðherra. Jafnframt hef ég áfram farið með iðnaðarráðuneytið og dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur nýlega einróma gert samþykkt um, að mér verði falið að taka við skipun í embætti forsætisráðherra og að Auði Auðuns alþm. verði jafnframt falið að taka við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra af mér. Leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja til, að ég verði skipaður forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands og að Auður Auðuns verði skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Íslands. Í trausti þess, að fallizt verði á tillöguna leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja fyrir yður, herra forseti, til undirskriftar skipunarbréf handa mér til þess að verða forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands og skipunarbréf handa Auði Auðuns til að vera dóms- og kirkjumálaráðherra Íslands.

Í forsætisráðuneytinu 10. október 1970.

Allra virðingarfyllst,

Jóhann Hafstein.

Guðmundur Benediktsson.“

Á þessa till. hefur forseti Íslands ritað:

„Fellst á tillöguna.

Reykjavík, 10. október 1970.

Kristján Eldjárn.“

Í samræmi við það hefur forsetinn undirritað skipunarbréf handa mér til þess að vera forsrh. í ríkisstjórn Íslands og skipunarbréf handa Auði Auðuns til að vera dóms- og kirkjumálaráðh. í ríkisstjórn Íslands.

Þá var þar borin upp önnur till. til forseta Íslands um skiptingu starfa ráðherra:

„Þar sem þér, herra forseti, hafið fallizt á að skipa mig forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands og Auði Auðuns dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Íslands leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja til, að gefinn verði út nýr úrskurður um skipting starfa ráðherra.

Í trausti þess, að fallizt verði á tillöguna, leyfi ég mér allra virðingarfyllst að leggja fyrir yður, herra forseti, til undirskriftar úrskurð um skipting starfa ráðherra.

Í forsætisráðuneytinu 10. október 1970.

Allra virðingarfyllst,

Jóhann Hafstein.

Guðmundur Benediktsson.“

Á þessa till. hefur forseti Íslands einnig ritað:

„Fellst á tillöguna.

Reykjavík, 10. október 1970.

Kristján Eldjárn.“

Jafnframt undirritaði hann forsetaúrskurð um skiptingu starfa ráðherra og hljóðar hann svo:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til 15. gr. stjórnarskrárinnar, laga nr. 73 1969, um Stjórnarráð Íslands, og reglugerðar samkvæmt þeim frá 31. des. 1969, er störfum þannig skipt með ráðherrum:

Jóhann Hafstein fer með forsætisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið.

Auður Auðuns fer með dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

Eggert G. Þorsteinsson fer með sjávarútvegsráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Emil Jónsson fer með utanríkisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið.

Gylfi Þ. Gíslason fer með menntamálaráðuneytið og viðskiptaráðuneytið.

Ingólfur Jónsson fer með landbúnaðarráðuneytið og samgönguráðuneytið.

Magnús Jónsson fer með fjármálaráðuneytið og Hagstofu Íslands.

Með úrskurði þessum falla úr gildi eldri ákvæði um skipting starfa ráðherra.

Gert í Reykjavík, Í0. október 1970.

Kristján Eldjárn.

Jóhann Hafstein.“

Herra forseti. Minnzt hefur verið sviplegs andláts forsrh. Bjarna Benediktssonar, er hann lézt í brunanum á Þingvöllum örlaganóttina 10. júlí ásamt eiginkonu sinni, frú Sigríði Björnsdóttur, og barnungum dóttursyni. Að morgni þess dags kom ríkisstjórn Íslands saman til fundar og ákvað að leggja til við forseta Íslands, að mér yrði falin meðferð forsætisráðuneytisins fyrst um sinn, og var samdægurs staðfest sú skipan. Innan ríkisstj. þótti ekki rétt, að við svo búið stæði áfram, eftir að Alþ. kæmi saman. Varð því að ráði, að ég myndaði formlega nýtt ráðuneyti. Það hefur nú verið gert með þeim hætti, sem ég hef nú skýrt frá.

Ég leyfi mér sérstaklega að bjóða velkominn til starfa hinn nýja dóms- og kirkjumálaráðherra, frú Auði Auðuns, en það er sögulegur atburður, er kona sezt í fyrsta sinn í ráðherrastól á Alþ.

Ég þakka forseta Íslands árnaðaróskir í garð hins nýja ráðuneytis og ríkisstjórnarinnar í heild.

Til þess að firra misskilningi vil ég taka fram, að hér er raunar ekki um myndun nýrrar ríkisstjórnar að ræða, heldur framhald þess stjórnarsamstarfs milli Sjálfstfl. og Alþfl., sem hófst með myndun ríkisstj. Ólafs Thors hinn 20. nóv. að afloknum alþingiskosningum haustið 1959 og fram hélt við myndun ráðuneytis Bjarna Benediktssonar hinn 14. nóv. 1963, er Ólafur Thors hafði beðizt lausnar sem forsrh. af heilsufarsástæðum. Engu að síður eru þetta mikilvæg stjórnmálaleg tímamót, er við eigum á bak að sjá einum mikilhæfasta forustumanni íslenzkra stjórnmálamanna um langan aldur, er gegnt hafði ráðherraembætti um tvo áratugi og verið í fararbroddi.

Herra forseti. Ég mun við fyrstu hentugleika gera hv. Alþ. grein fyrir þeim helztu viðfangsefnum, sem ríkisstjórnin hefur nú til úrlausnar og stefnir að í flutningi frv. til 1. á þessu þingi.