25.11.1970
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í D-deild Alþingistíðinda. (4050)

100. mál, rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hér er lagt til, að Nd. Alþ. skipi rannsóknarnefnd í samræmi við ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar. Henni eru ætluð tvö verkefni samkv. till. Í fyrsta lagi að rannsaka aðdraganda verðstöðvunar þeirrar, sem kom til framkvæmda 1. nóv., þ.e. verðlagsþróunina, sem leiddi til þessarar svo kölluðu verðstöðvunar nú í haust, og í annan stað á rannsóknin sérstaklega að beinast að þróun verðlagsmála, eftir að hæstv. forsrh. boðaði það í sjónvarpi með 18 daga fyrirvara, að verðstöðvunaraðgerðir væru væntanlegar. Þessi till. hefur greinilega vakið allmikla athygli og raunar nú þegar haft áhrif hér innan þingsalanna. Nú fyrir nokkrum dögum dreifðu t.a.m. nokkrir þm. Framsfl. till. frá sér um skipan rannsóknarnefndar, sem átti að hafa fyrra verkefnið, sem ég minntist á hér. Nú er það að vísu algengt, að hv. framsóknarmenn fái ágætar hugmyndir frá okkur Alþb.- mönnum, en þetta skeður þó skjótar heldur en við erum vanir, og ég segi þetta ekki til þess að amast við þessu, þvert á móti. Ég tel ekki, að við Alþb.-menn þurfum að vera neitt sínkir á hugmyndir okkar eins og sumir virðast nú vera, þvert á móti teljum við það vera til marks um það, að hugmyndir okkar eigi hljómgrunn, þegar þær fá stuðning á þennan hátt.

Síðara atriði þessarar rannsóknar. athugunin á því, hvað gerðist eftir að hæstv. forsrh. boðaði verðstöðvun í sjónvarpi með alllöngum fyrirvara, virðist hafa komið æði illa við stjórnarflokkana, hæstv. ráðh. og málgögn þeirra. Þessir aðilar hafa aftur og aftur kveinkað sér undan till., þeirra á meðal hæstv. forsrh., sem gerði till. sérstaklega að umtalsefni, þegar hann mælti fyrir frv. ríkisstj. um nýjar aðgerðir í efnahagsmálum, þessi árvissu bjargráð, sem aldrei bjarga þó neinu. Hæstv. forsrh. andmælti þó fyrst og fremst forminu á till. og taldi óeðlilegt að flytja till. um skipan rannsóknarnefndar. Vitnaði hann m.a. í 13. gr. laga um landsdóm, sem svo hljóðar:

„Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðh. skal gerð með þál. í Sþ., og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þál., enda sé sókn málsins bundin við þau.“

Og síðan hélt hæstv. forsrh. áfram á þessa leið:

„Hér er skýrt ákveðið og engin tvímæli. Ef þessir herrar, sem flytja umgetna þáltill. í Nd., telja mig sekan sem ráðh. vegna ummæla í sjónvarpi, þá eiga þeir lögum samkv. að flytja þál. um málshöfðun í Sþ. og tiltaka kæruatriðin nákvæmlega. Yrði þá tekin afstaða til slíkrar till. um ákæru á þinglegan hátt. Að öðrum kosti tel ég ekki mark á þessum hv. þm. takandi í slíku máli.“

Hæstv. forsrh. heldur því sem sé fram, að við flm. hefðum lögum samkv., eins og hann orðaði það, átt að flytja þetta mál á allt annan hátt. Málatilbúnaður okkar sé í eðli sínu lögbrot og því ekki mark á honum takandi. Nú er hæstv. forsrh. að vísu margfalt löglærðari maður heldur en ég, en samt virðist þekking hans á þeim lögum, sem fjalla um störf ráðh., vera farin að fyrnast æði mikið, og hefði þó mátt vænta þess, að hæstv. ráðh. hefði litið á þau lög, eftir að hann tók að sér verkstjórn í stjórnarráðinu.

Í lögum um ráðherraábyrgð, sem eru forsenda laga um landsdóm, er í 14. gr. fjallað um málshöfðunarfresti og fyrningarákvæði, og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú samþykkir Alþingi áður en málshöfðunarfrestur er liðinn að kjósa rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðh., og getur Alþ. þá jafnan samþykkt málshöfðun innan árs frá kosningu rannsóknarnefndarinnar.“

Hér gerir löggjafinn ráð fyrir því sem eðlilegum aðdraganda, að skipuð sé rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, ef talin er ástæða til þess að rannsaka störf ráðh., og samkv. stjórnarskránni eru slíkar rannsóknarnefndir bundnar við þd. Við flm. höfum því ekki brotið nein lagaform, heldur fylgt þeim út í yztu æsar. En raunar skiptir efnið ævinlega meira máli en formið. Ég hefði talið það yfirborðsleg vinnubrögð að flytja till. um að höfða nú þegar mál gegn hæstv. ráðh., en fyrir hinu eru full rök, að rannsakað verði til hlítar, hvað hlotizt hafi af þeirri ráðabreytni hæstv. ráðh. að tilkynna í sjónvarpi með hálfrar þriðju viku fyrirvara um mjög afdrifaríka efnahagsákvörðun, sem hefur veruleg áhrif á afkomu ýmissa þjóðfélagshópa, ekki sízt ýmissa atvinnurekenda og kaupsýslumanna. Slík aðvörun fyrir fram er svo furðulegt fyrirbæri, að ég tel, að Alþ. eigi ekki að láta það fram hjá sér fara athugunarlaust.

Ég vil vekja athygli á því, að orðalagið á till. okkar er algerlega óhlutdrægt. Þar er farið fram á það eitt, að rannsókn verði framkvæmd, en síðan verði niðurstöðurnar notaðar til þess að meta það, hvort rök séu til þess að kæra hæstv. forsrh. fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð. Hér er sem sé farið fram á fullkomlega málefnaleg vinnubrögð. Einnig er lagt til, að rannsóknin verði framkvæmd af fimm innandeildarþm., sem kosnir verði hlutfallskosningu. Stjórnarflokkunum er sem sé boðið upp á að hafa meiri hl. í rannsóknarnefndinni. Ef hæstv. forsrh. er jafnsannfærður um málstað sinn og hann vill vera láta, þá hafði hann ekki neina ástæðu til þess að bregðast við slíkri till. af yfirlæti, eins og hann gerði hér í þinginu, heldur hefði hann átt að fagna henni. En raunar tel ég það ekki skipta máli, hvernig hæstv. forsrh. bregzt við till. eins og þessari. Hver svo sem viðbrögð hans eru, tel ég það vera skyldu Alþ. að láta kjósa rannsóknarnefndir samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar í hvert skipti, sem fram á það er farið með fullum rökum. Slík starfsemi þn. er mjög algeng í þingræðisríkjum umhverfis okkur, og hún beinist langoftast að athöfnum ráðh. og embættismanna, sem þjóðþingin telja sig þurfa að fá betri vitneskju um. Þar er litið á slíka rannsóknarstarfsemi sem sjálfsagða skyldu þjóðþinga, en ekki neina óvirðingu við þá, sem rannsóknin beinist að. Í því að hefja slíka rannsókn er enginn áfellisdómur fólginn. Hann getur einungis falizt í niðurstöðu rannsóknarinnar. Þeir einir óttast slíka rannsókn, sem ekki hafa hreint mél í pokanum.

Þannig er þegar ærin vitneskja fólgin í hinum vanstilltu viðbrögðum stjórnarliðsins í sambandi við þessa till., og ýmsir skoðanabræður hæstv. forsrh. hafa haft uppi ummæli í þessu sambandi, sem eru ekki síður athyglisverð. Þannig vék frsm. meiri hl. fjhn. þessarar d., hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, að þessari till., þegar hann mælti fyrir nál. stjórnarsinna um frv. til l. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að tilfæra ummæli hans, eins og þau voru rakin í Morgunblaðinu 13. nóv. s.l:

„Matthías sagði, að reynt hefði verið að gera forsrh. tortryggilegan vegna ummæla hans í sjónvarpi og flutt hefði verið till. um, að kannað yrði, hvort grundvöllur væri fyrir því að stefna honum fyrir landsdóm og fá hann dæmdan fyrir brot á ráðherraábyrgð. Kvaðst Matthías vilja vekja athygli á þessari málsmeðferð; hún væri með eindæmum. Það hefði verið að kvöldi 13. okt., sem umræddu sjónvarpsviðtali var útvarpað, en 11/2 sólarhring síðar hefði verið útbýtt í þinginu frv. til I. um verðstöðvun, sem Alþb.-menn fluttu. Þeir höfðu því haft snör handtök, gripið til Alþingistíðinda og flett upp verðstöðvunarfrv., er lagt var fram á Alþ. 1966, tekið úr því nokkrar greinar og samið frv. sitt eftir þeim. Með þessu frv. hefði augsýnilega verið tilgangurinn að hagnýta sér þau ummæli, sem forsrh. viðhafði í sjónvarpsviðtalinu, og hefði flutningur till. um skipun rannsóknarnefndarinnar verið síðasti þáttur þeirrar sviðsetningar. Með frv., sem lagt var fram 15. okt., hefði verið ætlunin að koma af stað skriðu verðhækkana í landinu og reyna síðan að kenna forsrh. um það, sem þá hefði gerzt.“

Hér er það sem sé játað afdráttarlaust, að vitneskja um væntanlega verðstöðvun hefði getað komið af stað skriðu verðhækkana í landinu. Hins vegar reynir þessi hv. þm. að koma ábyrgðinni á okkur Alþb.-menn. Hann virðist telja, að tillöguflutningur okkar veki meiri athygli og sé tekinn alvarlegar en skýlausar yfirlýsingar hæstv. forsrh. Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um hinn barnalega reyfara hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesen. Ákvörðunin um að leggja fram frv. um verðstöðvun var tekin af þm. Alþb., áður en þing kom saman, og í frv. voru ákvæði um, að verðstöðvun skyldi gilda frá þeim tíma, sem frv. var lagt fram. Í því var þannig ekki fólgin aðvörun til eins eða neins. En það fróðlega er, að hv. þm. skuli hafa talið nauðsynlegt að búa til þessa sögu, að hann skuli viðurkenna á svona skýlausan hátt, að fyrirframvitneskja um verðstöðvun geti komið af stað skriðu verðhækkana í landinu, eins og hann orðaði það. Að vísu taldi hv, þm. í áframhaldinu, að skriðan hefði ekki hlaupið, en um það atriði er ég á öðru máli. Till. um rannsóknarnefnd hefur m.a. þann tilgang að fá sannreynt, hvor okkar hefur á réttu að standa. Ég er reiðubúinn til að leggja mitt matundir dóm rannsóknarnefndar, og ég vænti, að hv. þm. sé það sömuleiðis.

Mig langar til að minnast á enn eitt dæmi um mat stjórnarliðsins sjálfs. Eftir að hæstv. forsrh. var búinn að auglýsa væntanlega verðstöðvun í sjónvarpinu, voru þau vinnubrögð að sjálfsögðu gagnrýnd opinberlega og tengd við verðhækkanir, sem dundu yfir þegar næstu daga á eftir. Svo fór að lokum, að hæstv. ríkisstj. notfærði sér heimild í lögum og lét tilkynna verðstöðvun frá og með 1. nóv., en það var viku áður en frv. hæstv. ríkisstj. var lagt fram hér á þingi. Um ástæðurnar fyrir þeirri ráðabreytni komst hæstv. viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, svo að orði í viðtali við Alþýðublaðið 2. nóv., með leyfi hæstv. forseta:

„Í síðustu viku var fjallað ítarlega um málið allt í ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar á Alþ. Í þessari viku mun ríkisstj. birta heildartillögur sínar. Það var því sjálfsögð ráðstöfun, að hún skyldi beita sér fyrir því, að engar verðhækkanir ættu sér nú stað. Að öðrum kosti hefðu ýmsir aðilar getað reynt að nota tímann fram til heildarráðstafananna til þess að hækka verð og hagnast á því.“

Þarna segir sjálfur viðskrh., að það hefði verið sjálfsögð ráðstöfun að framkvæma verðstöðvun, áður en frv. var lagt fram, til þess að ýmsir aðilar gætu ekki notað tímann til þess að hækka verð og hagnast á því. En þessi sjálfsagða ráðstöfun, sem hæstv. viðskrh., einn aðalleiðtogi ríkisstj., talar um, kom ekki fyrr en 18 dögum eftir að hæstv. forsrh. hafði auglýst það í sjónvarpi, að verðstöðvun væri væntanleg eftir nokkrar vikur. Hinir ýmsu aðilar, sem hæstv. viðskrh. talaði um, höfðu fengið ærin tilefni til þess að hækka verð og hagnast á því. Sá hæstv. ráðh., sem taldi það sjálfsagða ráðstöfun að koma í veg fyrir slíka þróun, hlýtur að vera sammála því, að skipuð verði rannsóknarnefnd til þess að kanna afleiðingarnar af þveröfugri ráðabreytni hæstv. forsrh. Þannig hafa fulltrúar stjórnarflokkanna sjálfra þegar viðurkennt, að till. þessi er flutt af ærnu tilefni. Og ég vil vænta þess, að viðbrögð þeirra við till. verði í samræmi við það. Hins vegar væri afar fróðlegt að fá nú þegar við I. umr. um þetta mál skýringu á því frá hæstv. forsrh., hvers vegna hann auglýsti hina væntanlegu verðstöðvun með 18 daga fyrirvara. Voru þetta mistök hjá hæstv. ráðh., hugsunarleysi, eða var þetta gert að yfirlögðu ráði í samræmi við stefnu hæstv. ríkisstj.?

Sú hugmynd, að verðstöðvunin hafi verið boðuð fyrir fram af yfirlögðu ráði, er ekki eins fjarstæðukennd og sumir kunna að ætla. Þegar samið hafði verið í vor um kauphækkun, sem var í fullu samræmi við aukningu framleiðslutekna hjá þjóðarbúinu, hefði ríkisstj. borið að grípa þegar til verðstöðvunaraðgerða, reyna að koma í veg fyrir það, eins og kostur var, að kauphækkunum yrði velt út í verðlagið. Slíkar ráðstafanir hefðu orðið í fullu samræmi við stefnu þá, sem hæstv. ríkisstj. hét að framkvæma, þegar hún hóf hina svo kölluðu viðreisnarstefnu sína 1960. Í bókinni Viðreisn segir svo á bls. 23 um viðbrögð ríkisstj. við slíkum vandamálum, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er það einnig ætlun ríkisstj. að leyfa engar verðhækkanir á innlendum vörum og þjónustu vegna launahækkana. Með þessu móti getur því aðeins skapazt grundvöllur fyrir launahækkunum, að um sé að ræða aukningu framleiðslutekna, sem launþeginn njóti góðs af fyrir sitt leyti í hækkuðu kaupi. Það er líka aðeins með þessu móti, sem launahækkanir geta orðið launþegum til raunverulegra hagsbóta.“

Þetta var afar skýr stefna. Atvinnurekendur verða sjálfir að standa við þær kauphækkanir, sem þeir semja um. Þeir munu ekki fá að velta kauphækkunum af sér út í verðlagið. En eftir kjarasamningana í vor braut hæstv. ríkisstj. ekki aðeins í bága við þessa stefnu, eins og hún hefur oft gert áður, heldur tók hún upp þveröfuga stefnu vitandi vits og af ráðnum hug. Allir þeir, sem gátu velt af sér kauphækkunum út í verðlagið, fengu að gera það, jafnt einkaaðilar sem opinberir aðilar. Fulltrúi ríkisstj. í verðlagsnefnd var önnum kafinn fund eftir fund að samþykkja með fulltrúum atvinnurekenda og kaupsýslumanna allar óskir um verðhækkanir. Listi um þessa skriðu hefur verið birtur opinberlega, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að lesa hann upp hér. Hins vegar skortir að sjálfsögðu lista yfir þær vörur og þá þjónustu, sem hækkar, án þess að verðlagsnefnd hafi um það fjallað. Svo hömlulaus var þessi verðbólguskriða, að á aðeins fjórum mánuðum hækkaði almennt verðlag, meðalverð í landinu um því sem næst 12%. Það jafngildir því, að almennt verðlag í landinu hafi hækkað um 2-3000 millj. kr. miðað við ársneyzlu. Hér er sannarlega um að ræða efnahagsaðgerðir, sem hafa haft hin víðtækustu áhrif á afkomu manna og hagsmunahópa. Hæstv. ríkisstj. beygði sig ekki aðeins fyrir kröfum atvinnurekenda og kaupsýslumanna um hækkanir, hún hafði sjálf forustu um þessa verðbólguþróun. Í grg. með frv. til I. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis segir svo um afskipti ríkisstj. af þessum málum, með leyfi hæstv. forseta:

„Hækkanirnar hafa dreifzt mjög almennt á allar tegundir vöru og þjónustu og tiltölulega jafnt, eftir því sem tilefni hafa gefizt til. Hafa hlutaðeigandi yfirvöld fylgzt rækilega með verðlagsaðlöguninni með stuðningi sundurliðaðra vísitöluyfirlita og áætlana og unnið að samræmdu mati hækkunartilefna.“

Hér heitir óðaverðbólgan verðlagsaðlögun. Og sagt er, að ríkisstj. hafi gert áætlanir um verðbólguþróunina og unnið að framkvæmd þeirrar áætlunar. Áætlun hæstv. ríkisstj. var raunar svo rúm, að kaupsýslumenn hafa ekki fyllt út í hana. Hæstv. fjmrh. greindi frá því hér á þingi ekki alls fyrir löngu, að verðbólguþróunin hefði orðið hálfu stigi hægari en hæstv. ríkisstj. reiknaði með í þessum áætlunum, sem hún lét gera og vann að því að framkvæma, að því er hún sjálf hefur sagt. Í grg. fyrir þessu frv. er enn fremur komizt svo að orði:

„Hefur jafnframt verið unnið að því að ljúka þeirri verðlagsaðlögun, sem óhjákvæmileg reyndist, meðan athuganir hafa farið fram til undirbúnings almennum aðgerðum til verðstöðvunar.“

Það þurfti að ljúka verðlagsaðlöguninni. Það þurfti að hækka verðið. Samkvæmt þessum ummælum var það keppikefli fyrir hæstv. ríkisstj , að allir sem vildu hækka, fengju tækifæri til þess, áður en verðstöðvunin kæmi. Verðstöðvunin mátti ekki koma fyrr en allir væru búnir að ljúka sér af. Einmitt þess vegna væri ákaflega fróðlegt að heyra, hvort það var e.t.v. þetta, sem vakti fyrir hæstv. forsrh., þegar hann boðaði verðstöðvunina með 18 daga fyrirvara í sjónvarpinu. Var hann að framkvæma þá stefnu ríkisstj., að allir fengju tækifæri til að ljúka verðlagsaðlöguninni, eins og það heitir á tungutaki viðreisnarhagfræðinga? Öll er þessi þróun með sönnum ólíkindum. Hún er afar skýrt dæmi um vísvitandi verðbólgustefnu og raunar afar óþjóðholla stefnu núv. hæstv. ríkisstj. Ég vil minna menn á, að ríkisstj. fara með mikil völd. Þær taka oft ákvarðanir, sem raska högum manna og stétta mjög verulega. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar, þá skiptir mjög miklu máli, að menn viti ekki um þær fyrir fram. Því að ef menn vita um þær, er hægt að búa sig undir þær og jafnvel hagnast á þeim af þeim, sem sízt skyldi. Því þykir það hvarvetna sjálfsögð skylda að láta slíkar ákvarðanir fara leynt, þar til þær komast í framkvæmd. Hvergi á þessi regla meiri rétt á sér en á Íslandi, vegna þess að hér eru stökk og kollsteypur, óðaverðbólga og gengislækkanir algengari en í nokkru öðru þjóðfélagi með svipaðan efnahag. Vitneskja fyrir fram um slíkar stökkbreytingar er afar mikilvæg fyrir fésýslumenn. Hún gerir þeim kleift að taka ákvarðanir í samræmi við þær aðgerðir, sem fyrirhugaðar eru, og hagnast stórlega á kostnað annarra. Það getur vissulega oft verið erfitt að komast hjá því að draga réttar ályktanir um fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. En það er samt alger eðlismunur á slíkum spádómum og formlegri tilkynningu í útvarpi. Mér er spurn, hvar lendum við, ef þessi aðferð hæstv. forsrh. verður tekin upp? Er það e.t.v. ætlun hæstv. ríkisstj., ef svo ólíklega skyldi vilja til, að hún héldi völdum eftir næstu kosningar, að tilkynna mestu gengislækkun sína í sjónvarpi nokkrum vikum áður en hún verður framkvæmd?

Mál eins og þessi eru talin afar alvarleg í ríkjum, sem búa við sterka þingræðis- og lýðræðishefð. Mig langar til að minna á dæmi, sem hlaut heimsfrægð á sínum tíma. Í nóv. 1947 var fjmrh. Breta, Hugh Dalton, á leiðinni í þinghúsið til að leggja fram fjárlagafrv., en í því voru meiri háttar efnahagsráðstafanir, skattar og álögur. sem áttu að stöðva verðbólguþróun. Í anddyri þinghússins hitti hæstv. ráðh. blaðamann, sem spurði hann um efni frv. Og ráðh. skýrði honum frá nokkrum meiri háttar efnisatriðum. Síðan liðu nokkrir klukkutímar. þar til ráðh. lagði frv. sitt formlega fyrir á brezka þinginu. með þeim afleiðingum, að málgagn blaðamannsins, dagblaðið Star, kom út og var selt á götunum með fréttum um fjárlagafrv., áður en það hafði verið lagt fram í þinginu. Þetta var gagnrýnt í ræðum á þingi. Og Hugh Dalton viðurkenndi mjög hreinskilnislega, að hann hefði gert sig sekan um trúnaðarbrot, og hann bað þingið afsökunar. Þessari hreinskilnu afsökunarbeiðni var vel tekið. en engu að síður skrifaði leiðtogi Íhaldsflokksins brezka, Winston Churchill, Dalton bréf og tilkynnti honum, að hann mundi leggja til á þingi, að skipuð yrði rannsóknarnefnd til þess að kanna, hver áhrif þessi ótímabæra frásögn fjármálaráðherrans hefði haft. Þá skrifaði Hugh Dalton Attlee forsrh. bréf og bauðst til þess að segja af sér störfum, og Attlee forsrh. tók því boði og skipaði nýjan fjármálaráðherra. Enda þótt ráðherrann segði af sér, þá var rannsóknin engu að síður framkvæmd með einróma samþykki brezka þingsins, þ. á m. Hugh Daltons. Þessi rannsóknarnefnd kannaði síðan grunsemdir um, að þessi vitneskja um fjárlögin hefði haft áhrif á kauphallarviðskipti og komst að þeirri niðurstöðu, að svo hefði ekki orðið. En þrátt fyrir það, að talið væri sannað, að ekkert alvarlegt hefði hlotizt af lausmælgi Hugh Daltons, fékk hann ekki ráðherrastarf sitt aftur. Þessi atburður er til marks um það, hversu strangar kröfur eru gerðar til ráðh. og opinberra embættismanna í löndum eins og Bretlandi, og ég er þeirrar skoðunar. að slíkar kröfur séu nauðsynlegar í hverju heilbrigðu þjóðfélagi.

Við skulum minnast þess, að þótt um sé að ræða meiri hl. og minni hl. á þingi og oft harðan ágreining milli stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga, þá eru ráðherrar einnig ráðherrar þjóðarinnar allrar. Þeim eru falin mikilvæg ábyrgðarstörf, sem varða þjóðina í heild. Þetta ber ráðherrum ævinlega að muna í öllum athöfnum sínum og forðast sérstaklega, hvort sem það er af gáleysi eða ásetningi, að unni sé að misnota vald þeirra eða vitneskju af forréttindahópum í þjóðfélaginu.

Ég er þeirrar skoðunar, að ýmsir geri nú minni kröfur til sjálfra sín hér á landi en nauðsynlegt er og hafi sú lausung verið að ágerast á síðustu árum. Till. sú, sem hér er flutt, felur ekki aðeins í sér kröfu um eðlilega og raunar óhjákvæmilega rannsókn, heldur er henni einnig ætlað að leggja áherzlu á nauðsyn aukins aðhalds og sjálfsvirðingar hjá opinberum sýslunarmönnum.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. þessari verði, þegar þessum áfanga umr. er lokið, vísað til hv. fjhn. Ég hygg, að það væri eðlilegt, af því að hún hefur fjallað um þessi mál.