25.11.1970
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (4051)

100. mál, rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þeirrar till., sem hér er til umr., hv. 6. þm. Reykv., gerði að umræðuefni hér í ræðu sinni áðan þau orð, sem ég viðhafði sem framsögumaður meirihlutaálits fjhn. um frv. það, sem fyrir skömmu var fjallað um hér í hv. deild og nú er orðið að lögum, frv. til laga um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis. Við 1. umr. þessa máls var mjög drepið á þessa till., sem hér er til umr., svo og í málflutningi stjórnarandstæðinga, því sama haldið fram og hv. 6. þm. Reykv. gerði hér áðan og fram kemur í grg. fyrir þeirri till., sem hér er til umr. Hv. þm. var fjarstaddur úr deildinni vegna starfa annars staðar og gat þess vegna ekki tekið þátt í þeim umr., sem hér fóru fram, en hann hefur auðsýnilega kynnt sér þær umr., sem hér fóru fram, og það mátti heyra af máli hans hér áðan, að það, sem ég þá sagði, hafði farið töluvert í taugarnar á þessum hv. þm. Ég skil það líka mætavel, en nauðsynlegt er að taka eftir þeim málatilbúnaði, sem hér er á ferðinni. Mér þykir rétt við þessa umr. að endurtaka þó nokkuð af því, sem ég þá sagði, og gera grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem ég álít liggja til grundvallar þessari till., og jafnframt hvernig málatilbúnaðurinn er af hendi hv. Alþb.-manna.

Það var ákaflega fagurlega mælt hjá hv. I. flm. hér áðan, þegar hann sagði, að till. væri ákaflega hlutlaus, orðalagið óhlutdrægt. Ef einhver skyldi nú hafa flett upp í grg. till., þá held ég, að sá hinn sami komist að niðurstöðu um það, að flutningur till. sé ekki óhlutdrægur, enda þótt orðalag till. sé haft þannig, eins og hv. 6. þm. Reykv. vildi vera láta. Í grg. er haldið fram fullyrðingum, sem ég mun koma að síðar. Eins og ég sagði í ræðu minni við 2. umr. áðurnefnds frv., þá sást og sést af vinnubrögðunum, af grg. og allri háttseminni, hvað hér stóð til, en það hefur verið afsannað af þeim embættismönnum, sem gerst þekkja til þessara mála.

Þegar Alþ. kom saman nú í haust, var öllum ljóst, að það mundi fjalla um vandamál í efnahagslífinu, ekki aðeins möguleika heldur fyrirsjáanlegt kapphlaup á milli kaupgjalds og verðlags. Það hlaut því að verða fyrsta verkefni þingsins að fjalla um þær ráðstafanir, sem ríkisstj. taldi rétt að gera til þess að freista þess, að þeim vágesti, sem var fyrir dyrum, yrði bægt frá og sú launahækkun, sem launþegar fengu á s.l. vori, gæti orðið þeim að gagni. Eitt af þeim úrræðum, sem um var rætt manna á meðal hér, var verðstöðvun. Þær umr., sem fóru fram, voru ekki aðeins í sjónvarpi, heldur og manna á meðal, e.t.v. vegna þess, að í nágrannalöndum okkar var við efnahagsvanda að glíma og þar höfðu viðbrögðin verið þau sömu, að reynt var að fyrirbyggja þær afleiðingar, sem fram kynnu að koma, með því að grípa til verðstöðvunar. Það er þess vegna, sem hæstv. forsrh. er spurður þessarar spurningar í sjónvarpi 13. okt., eins og segir í grg. með þáltill.: En hvað með verðstöðvun? Hann ræðir þar verðstöðvun, eins og hér kemur fram, enda málið í umr. manna á meðal og eitt þeirra atriði, sem gripið hafði verið til á næstu vikum á undan í nágrannalöndum okkar til þess að reyna að koma í veg fyrir áframhaldandi dýrtíð þar. Þegar hv. þm. Alþb. horfa á sjónvarpið þetta kvöld og hlýða á viðræður þeirra sjónvarpsmanna og forsrh., þá kemur þeim augsýnilega það í hug, sem hv. 6. þm. Reykv. las hér áðan upp úr Morgunblaðinu og ég sagði við 2. umr. frv. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, og þá kemur þeim í hug að flytja frv., að vekja athygli á málinu eins og mögulegt er til þess að koma því fram, sem svo grg. með þessari þáltill. segir, að fram hafi komið. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr grg., grg. með þáltill., hvernig flm. álitu, að komið væri þann 6. nóv., þegar till. er útbýtt hér á Alþ. Þar segir:

„Þessi frásögn [þ.e. í sambandi við verðstöðvunina] vakti að vonum mjög mikla athygli og þá ekki sízt hjá ýmsum kaupsýslumönnum, þjónustufyrirtækjum og öðrum atvinnurekendum, sem töldu verðstöðvun andstæða hagsmunum sínum. Enda létu viðbrögð þessara aðila ekki á sér standa. Næstu daga og vikur, eftir að forsrh. hafði boðað verðstöðvun síðar, magnaðist verðbólguþróunin stórlega. Ýmsir kaupsýslumenn hækkuðu verðlag á varningi sínum þegar næstu dagana á eftir, og var starfsfólk verzlana víða önnum kafið fram á nætur að breyta verðmerkingum; yfir verðlagsnefnd rigndi umsóknum um leyfi til að hækka varning, sem háður var verðlagsákvæðum. Hélt þessi þróun áfram að magnast allt þar til loks var birt tilkynning um verðstöðvun 1. nóv.“

Hér kemur greinilega fram af hálfu flm., til hvers frv.-flutningur þeirra hér á Alþ. 15. nóv. var. Hv. 6. þm. Reykv. vildi af ummælum mínum ráða, að það væri hægt að koma af stað skriðu verðhækkana. Það var akkúrat það, sem ég sagði. Það var ætlun þessara manna að koma af stað skriðu verðhækkana, enda segja þeir sjálfir í grg. með frv., sem ég las upp úr áðan, að skriða verðhækkana hefði átt sér stað. Og til þess var leikurinn gerður. Síðan skyldi sett rannsóknarnefnd til þess að skoða málið, og samkv. því, sem segir í grg., þá gæti niðurstaða þeirrar nefndar að þeirra dómi ekki orðið önnur en sú, að hér hefði átt sér stað skriða verðhækkana vegna ummæla forsrh. Þá væri að þeirra dómi sjálfsagt komin ástæða til þess að draga hæstv. forsrh. til ábyrgðar fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.

Það er ósköp auðvelt að koma hér í ræðustólinn og ræða óhlutdrægt um efni málsins og segja sögu af ráðh. frá Bretlandi, sem einhvern tíma hafði gert eitthvað, og láta líta þannig út, að það, sem hér sé verið að gera, sé ekkert annað en óhlutdræg athugun á máli, sem sjálfsagt verði með þeirri niðurstöðu, að ekkert komi út úr því, þess vegna sé nú samþykkt þessarar till. mjög eðlileg og sjálfsögð.

Ég gat þess áðan, að viðbrögð stjórnarandstöðunnar þetta kvöld voru mjög snögg og þeir drógu, eins og ég gat um í nefndri ræðu áðan, fram lagasafnið og endurprentuðu hér um bil sama frv. og ríkisstj. lagði fram á Alþ. 1966 um verðstöðvun. Hér síðustu daga hafa farið fram umr. um höfundarétt, en það er rétt svona til gamans fyrir hv. þm. að geta þess, að þegar þetta frv. var lagt fyrir Alþ. og afgr., þá gat ekki einn einasti þm. Alþb. samþykkt frv. En þetta sýnir, að það er rangt, sem hér hefur verið haldið fram bæði af hv. 4. þm. Austf. í umr. um frv. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis og af hv. 6. þm. Reykv. áðan, að verðstöðvun hafi verið fyrir löngu ákveðin, löngu fyrir þingbyrjun, og þá sjálfsagt verið búið að athuga, með hvaða hætti verðstöðvunin ætti að fara fram og vinna að frv., sem ætti svo að leggja fyrir Alþ. þegar það kæmi saman. Það frv., sem hér hefur verið flutt, sýnir, að þessi vinnubrögð voru ekki hugsuð og hafa aldrei verið hugsuð hjá Alþb.-mönnum, hér var aðeins um eitt atriði að ræða. Það skyldi notfæra sér umræðurnar í sjónvarpinu og reyna að villa um fyrir mönnum í sambandi við það. Þegar svo frv. er flutt, þá er málgagn þeirra Alþb.-manna næstu daga með frásagnir af þessu mjög merkilega frv, þeirra, og daginn eftir að því er útbýtt, þá er dregið fram úr skúffum stærsta fyrirsagnarletur, sem þar er til, menn hafa nefnt það heimsstyrjaldarfyrirsagnaletur, og skýrt er frá því, að frv. um verðstöðvun hafi verið flutt á Alþ. af Alþb.-mönnum. Daginn þar á eftir er svo leiðarinn, sem lesinn er í útvarpi, um verðstöðvun, um væntanlega verðstöðvun. Örfáum dögum síðar, þegar málið er tekið til umr., þá er því slegið upp. Hvað skyldi nú allt þetta þýða, og hvað skyldi það nú raunverulega hafa verið, sem fyrir þessum mönnum vakti? Jú, það, sem fyrir þeim vakti, var það, sem ég las hér upp áðan úr grg. með till., það var, að hér yrði komið á skriðu verðhækkana og síðan ætti að draga hæstv. forsrh. fyrir landsdóm sem höfund þeirra og hann skyldi gerður ábyrgur fyrir þessum verðhækkunum. Það var virkilega verið að hengja bakara fyrir smið þar. Það væri kannske hægt að koma í veg fyrir það að hengja bakara fyrir smið.

Þegar svo komið er að síðari hluta þessarar sviðsetningar, þá er flutt till. á þskj. 105 um það, að aðdragandinn að verðstöðvuninni skyldi rannsakaður með tilliti til þess, hvort ráðh. skyldi dreginn til ábyrgðar fyrir landsdóm. En þá vill svo til, að fjhn. þessarar hv. d. fékk til sín á fund, þegar áðurnefnt frv. var til umr. og athugunar, þá menn, sem gerst þekkja þessi mál, verðlagsstjórann og formann verðlagsnefndar. Ummæla verðlagsstjórans er getið á þskj. 134, í nál. meiri hl. fjhn. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna ummæla við I. umr. þessa máls, þar sem því var haldið fram, að miklar og óeðlilegar verðhækkanir hefðu átt sér stað næstu daga og vikur, áður en frv. þetta var lagt fram, gaf verðlagsstjóri þær upplýsingar á fundi nefndanna, að við athuganir verðlagsskrifstofunnar síðustu daga hefði ekki orðið vart neinna dæma um óeðlilega verðlagsþróun á þeim tíma.“

Hann var sérstaklega spurður að því verðlagsstjórinn, hvort hér hefði verið um að ræða nokkuð óeðlilegt, einfaldlega vegna þess, að hv. Alþb.-menn hafa haldið því fram, að nótt eftir nótt frá 13. okt. og fram til 6. nóv. — þeim varð ekki svefnsamt þá, þeim ágætu mönnum — hafi hér í verzlunum verið fólk að vinna að því að hækka vöruverð, hækka verð á vörunni með óeðlilegum hætti. Þessi starfsmaður, verðlagsstjórinn, hefur raunverulega svarað með því, sem hann sagði á fundi nefndanna. Það hefur ekki verið vefengt hér í þessari hv. d., að það sé rétt með farið á þskj. 134 eftir verðlagsstjóranum, en hitt sögðu raunar fulltrúar minni hl. í fjhn., að þeir hefðu skilið þetta eitthvað örlítið öðruvísi en meiri hl. Ég skal ekki deila um það, en þetta var sagt þarna, og það getur hver, sem lesið getur, skilið, hvað þessi orð þýða.

Ég taldi rétt nú við þennan fyrri hluta umr. að vekja athygli á þessum vinnubrögðum og láta koma í ljós þá skoðun mína, að mér finnst hér farið þannig að, að það sé ekki til þess að vekja traust á því, að Alþ. skipi nefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Hv. þm. sagði, að það væri skylda Alþ. Það er auðvitað skylda Alþ., ef Alþ. metur aðstæðurnar þannig. En þegar þetta ákvæði er notað eða á að notast eða menn óska eftir því að nota það í þeim tilgangi, sem flm. þessarar till. ætla að gera, þá hljóta þeir menn, sem taka eiga afstöðu til málsins, að skoða vel, hvernig að málinu er staðið. Upplýsingarnar, sem hv. þm. fara fram á að fá með því að skipa sérstaka innandeildarnefnd, getur að sjálfsögðu sú n. fengið, sem fær málið til meðferðar, og hún hefur þegar fengið upplýsingar frá þeim manni, sem gerst þekkir, hvernig verðlagsmálum er háttað hér hjá okkur.