26.11.1970
Neðri deild: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í D-deild Alþingistíðinda. (4057)

100. mál, rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar

Björn Pálsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. vék að afstöðu okkar framsóknarmanna hér og var að tala um ræðu, sem hv. 3. þm. Vesturl. hefði haldið hér í gær, og dró það að mér virtist í efa, að hann hefði talað fyrir munn okkar allra. Ég hygg nú, að hv. 3. þm. Vesturl. hafi fyrst og fremst talað frá eigin brjósti og fyrir sig. Ég veit ekki til, að neinar formlegar samþykktir hafi verið gerðar um afstöðu einstakra manna viðvíkjandi þessu máli, og ég vil taka það fram, að ég ætla að tala fyrir minn reikning hér, en ekki fyrir aðra.

Við búum í lýðræðislandi, og ég álít, að það sé eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins, að flokkar og einstaklingar komi nokkurn veginn drengilega fram hver við annan. Ef við förum að víkja frá þeirri reglu, er lýðræðinu hætt. Ef meiri hl. á hverjum tíma er að misnota aðstöðu sína og níðast á minni hl., þá álít ég, að lýðræðinu sé hætt. Ég álít, að við verðum líka í málflutningi að unna hver öðrum nokkurn veginn sannmælis, bæði persónulega og málefnalega. Gerum við þetta ekki, erum við komnir í hættu með þetta lýðræði. Nú vitum við það, að það er í takmörkuðum hluta af heiminum, sem raunverulega er ráðandi lýðræði, og það er af því, að það er misnotað. Borgararnir hafa ekki þann þroska, sem þarf til þess að geta lotið lýðræðisstjórn. Við vitum það t.d., að í kommúnistaríkjunum er ekki leyfð stjórnarandstaða. Þar fær stjórnarandstaðan ekki að segja meiningu sína og deila á viðkomandi ríkisstj. Ef þeir taka upp á slíku, eru þeir fjarlægðir, settir í fangabúðir eða jafnvel styttur aldur, eins og Stalin sálugi lét sig hafa það. Við viljum ekki svona stjórnarfar. Við viljum njóta þess frelsis, sem við höfum nú, en því aðeins getum við verndað það, að við misnotum það ekki.

Afstaða mín til þessa máls er ekki sú, að ég ætli að sleikja mig upp við einn eða neinn, ég þarf ekki að hafa gott af neinum. Ég á ekki eftir að lifa það lengi, að ég þurfi á neinu að halda. Ég get unnið fyrir mér það, sem ég á eftir ólifað, þannig að afstaða mín til mála hér á þinginu mótast ekkert af því, að ég ætli að sleikja mig upp við neinn. Ég þarf einskis með. Kæmi fram till., sem mér fyndist vera ástæðulaus og snerti hv. 6. þm. Reykv. persónulega, ef mér fyndist hún vera ósanngjörn, mundi ég greiða atkv. á móti, alveg jafnt þó að hann sé ekki í sama flokki og ég. Og ég mundi jafnvel taka málstað hans. Ég get lýst því yfir, að ég hef miklar mætur á gáfum og ræðusnilli hv. 6. þm. Reykv., og ég get viðurkennt allt vel um hann þannig. En ég álít, að með þessari till. hafi þeir skotið yfir markið. Ég sé enga ástæðu til að fara að samþykkja svona till., sem er um persónulega rannsókn á hæstv. forsrh. og jafnvel landsdóm á eftir, sem er eiginlega fáheyrður hlutur hér. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess arna. Þarna er verið að ráðast algerlega persónulega á mann að ósekju. Ég get lýst því yfir sem minni skoðun, að ég álít Jóhann Hafstein vera með mestu drengskaparmönnum, sem ég hef kynnzt, alveg án tillits til þess, þó að hann sé ekki í sama flokki og ég. Það kemur málinu ekkert við. Ég ann mönnum alveg jafnt sannmælis, þó að þeir séu ekki í sama flokki og ég. Og jafnvel þó að ég álíti hæstv. forsrh. slæman mann, sem er alveg hið gagnstæða, þá mundi ég ekki samþykkja till., ef ég áliti, að hún hefði ekki við rök að styðjast.

Það má vel vera, að sumir séu sannfærðir um, að ummæli hæstv. ráðh. hafi átt þátt í verðhækkunum. Hvers konar verðhækkunum? Geta kaupmennirnir farið og breytt vöruverðinu í búðunum? Er ekki eftirlit með flestum vörutegundum? Er það þá ekki slælegt eftirlit? Er þá ekki fyrst og fremst að biðja um athugun á því hjá þeim mönnum, sem eiga að sjá um það? Ég veit ekki betur en kaupfélögin verzli. Varla hafa þau hækkað vöruverð. Þá geta þau undirboðið, ef þau hafa orðið vör við, að það sé óeðlileg hækkun einhvers staðar. Þau geta auglýst sína vöru. Þetta er frjáls samkeppni að þessu leyti. Það er alveg rétt, að það eru stórhækkanir á þessu tímabili. En er það óeðlilegt? Ég lýsti því yfir hérna um daginn, og þá deildi ég alveg af fullri einurð á efnahagsmálin og talaði um þessa verðstöðvun. Það er allt í lagi, það eigum við að gera, en við getum gert það án persónulegra árása á menn að ósekju.

Nú er eðlilegt, að allt hækki í krónutölu, þegar búið er að lækka verðgildi krónunnar árið 1967 og 1968 um 100%. Ég lýsti því yfir hér um daginn, að þetta væri afleiðing af gengislækkun og ríkisstj. gat aðeins hamlað á móti í 1–2 ár. Þetta vissu allir viti bornir menn, að mundi koma. Samtök launþega gerðu sínar kröfur. Það veit enginn betur en hv. 6. þm. Reykv. og skilur það, að þegar öll þjónusta og öll laun í landinu hækka, þá hlýtur rekstrarkostnaður fyrirtækjanna að hækka. Ég hef ekki sannfærzt um það, að ummæli forsrh. hafi átt neinn þátt í þessum hækkunum, þannig að ég held, að þær hafi að mestu leyti og kannske öllu verið óhjákvæmilegar. Hafi þær ekki verið óhjákvæmilegar, þá er allt í lagi að biðja um athugun á því. Hefur fjhn. ekki aðstöðu til þess að tala við verðgæzlustjóra og fá ítarlegar skýrslur um það, ef eitthvað hefur verið óeðlilega hækkað? Og á það ekki að ganga þannig, að þm. eða þessar nefndir, sem starfa á hverju sviði, hafi aðstöðu til þess að kynna sér þetta hjá ríkisstarfsmönnunum? Ég hef hvergi komið til ríkisstarfsmannanna, þar sem mér hefur ekki verið vel tekið. Og hafi ég beðið um einhverjar upplýsingar, meira að segja niðri í Seðlabanka, þá hef ég ævinlega fengið þær. Ég hef ekkert undan því að kvarta, að þeir sýni ókurteisi eða óliðlegheit. Geta þessir ágætu menn þá ekki fyrst farið og kynnt sér þetta? Ég býst við, að sú hækkun, sem hefur kostað okkur mest, séu flutningsgjöldin. Það má vel vera, að þau hefðu mátt vera lægri. En er þá ekki hægt að athuga það? Það er í raun og veru ekkert óeðlilegt. Þegar kaupgjaldshækkunin varð í vor, hlutu að verða hækkanir á allri þjónustu. Það má vera, að þær hafi orðið of miklar, og þá er að athuga það. En það þarf ekkert að vera að tala um landsdóm eða sérstaklega persónulega árás á forsrh. í því sambandi. Það er gersamlega ómaklegt.

Um efnahagsmálin er hægt að deila óendanlega. Ég er sammála hv. 6. þm. Reykv., að gengislækkanir eru óhentugar og allar þær afleiðingar, sem af þeim leiða. En það er svo mikið mál að fara út í það, og ég hef gert grein fyrir því áður og margendurtekið það, að ég álít, að ríkisbúskapurinn sé orðinn of dýr. Ég álít, að útgjöldin séu orðin of há og það þurfi að reka ríkisbúskapinn af meiri hagsýni heldur en gert er. Ekki það, að mönnum, sem hafa unnið hjá ríkinu, sé of hátt launað. Svo hefur eigi verið. Það má vera, að þeim verði það eftir næstu kaupsamninga, en annars hafa Alþb.- menn ekki gengið fram fyrir skjöldu að fara fram á kauplækkanir. Og einu sinni man ég það, að ég var að tala um laun skipstjóra og var að tala um, að það væri vitleysa að borga orlofsfé nema á venjuleg laun, en ég fékk engar undirtektir um það hjá Alþb.-mönnunum. Þá höfðu þessir síldarskipstjórar á aðra milljón. En það er nú svo, að það er ekki nema takmarkað, sem getur komið til skipta í þjóðfélaginu, og ef einhver stétt manna ber óeðlilega mikið úr býtum, þá hlýtur önnur að fá minna, þannig að það er ekki hægt að gera endalausar kröfur um, að kaup allra hækki. Það er ekki hægt nema að takmörkuðu leyti og oft alls ekki. Það þarf að gera ríkisbúskapinn ódýrari og yfirleitt rekstur atvinnuveganna, þannig að það þurfi ekki alltaf að vera að fella gengið. Stilla þarf vöxtum í hóf. Og þar álít ég, að mistök ríkisstj. hafi verið í efnahagsmálum fyrst og fremst. Of mikil þensla á ríkisbúskapnum og ekki hugsað um að hafa skattana færri og minni hjá atvinnuvegunum. Búa eins vel að atvinnuvegunum og mögulegt er, en reyna að hafa gengið traust. Ég er ekki farinn að sjá, að það hafi verið gróði af gengislækkuninni 1968, þegar öll kurl eru komin til grafar. Ég álít, að við séum jafnvel verr staddir, þegar öll skriðan er komin, heldur en ef við hefðum aldrei fellt þetta gengi, en reynt að gera aðrar ráðstafanir, sem miðuðu að því að halda genginu stöðugu.

Ég get ekki verið með þessari till. hjá þm. Alþb., vegna þess að ég lít á þetta sem persónulega árás og það ómaklega á hæstv. forsrh. Ég vil ekki vinna að því, að neinn verði fyrir ómaklegum árásum. Auðvitað getur hæstv. forsrh. yfirsézt eins og öðrum mönnum, og það má deila um stefnuna, en ég hef ekki sannfærzt um, að þetta hafi á neinn hátt skaðað þjóðfélagið, og er sannfærður um, að þau ummæli voru ekki töluð í illum tilgangi. Hafi eitthvað hækkað of mikið, því í ósköpunum er ekki beðið um athugun á því eða reynt að afla sér upplýsinga um það? Fái skipafélögin of mikið í sinn hlut, er þá ekki hægt að lækka það aftur?

Viðvíkjandi þessari blessaðri verðstöðvun þá vitum við allir, að hún er kosningamál, allir eru að reyna að afla sér atkv., og við vitum það líka, að þessi till. Alþb.-mannanna kom ekki fram af því að þeim sé í nöp við hæstv. forsrh. Þetta er kosningamál, þeir eru að ná í atkv. Þeir þyrla þarna upp ryki, alveg eins og verðstöðvunin hjá ríkisstj. Það er gagnkvæmt. Ég álít bara, að þessir góðvinir mínir hafi þarna skotið yfir markið, þannig að ef þeir kæmu þessu fram, sem þeir gera aldrei, kæmu einhverjum landsdómi fram, þá mundi það ekki vera gott fyrir neinn nema hæstv. forsrh. Hann mundi stórgræða á því í næstu kosningum. Þannig að það er hreinasta hermdarverk fyrir þá sjálfa. (Gripið fram í.) Hún er ekki frá mér. Það getur vel verið, að ég fari að kynna mér það persónulega, hvort þetta er mikið, sem hefur komið í hlut skipafélaganna t.d. Ég fullyrði ekkert um það. Lúðvík Jósefsson, hv. 4. þm. Austf., hann er töluglöggur, hann hefur alveg ágæta aðstöðu til að kynna sér þetta. Hvort skipafélögin fái nógu mikið og hvort það væri ekki hægt að lækka fargjöldin. Hví í ósköpunum kemur hann þá ekki hér með till. um það, að ríkisstj. hlutist til um lækkun á þeim heldur en að fara að setja landsdóm á forsrh:? Mér finnst það ósköp miklu eðlilegra og mannlegra. Nei, við þurfum að kunna drengilegar leikreglur, ef við ætlum að vernda okkar lýðræði. Það er ekki hægt annað. Og ég vil nota þær við Alþb.-mennina. Ég vona, að ef þeir komast hér í meiri hl., þá beiti þeir þeim gagnvart mér, þó vita menn aldrei, hverju má trúa, því það er þannig í þessu kerfi þeirra, að óþokkarnir komast alltaf þar til mestra valda, en það er það, sem ég er fyrst og fremst á móti.