25.02.1971
Neðri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í D-deild Alþingistíðinda. (4099)

167. mál, Landssmiðjan

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Meginhlutinn af ræðu hv. 6. þm. Reykv. lá langt fyrir utan það efni, sem felst í þessari till. Skal ég víkja svolítið að því síðar, en byrja á því, sem till. fjallar um, og þeim hluta ræðunnar, sem snerti það mál, eflingu og rekstur Landssmiðjunnar.

Það er mikill misskilningur hjá hv. 6. þm. Reykv., að það sé einhver kredda hjá sjálfstæðismönnum að álíta, að yfirleitt og almennt sé atvinnureksturinn betur kominn í höndum einstaklinga heldur en þess opinbera. Þetta er meginstefna flokksins og hefur verið frá upphafi. Hitt höfum við ævinlega viðurkennt hispurslaust, að í okkar litla þjóðfélagi eru ýmsar aðstæður öðruvísi en í stærri kapítalískum þjóðfélögum, eins og hv. ræðumaður vék að, og þar höfum við ekki hikað við að standa með eðlilegri þátttöku og stuðningi þess opinbera við einkareksturinn. En nú skulum við bara líta á þessa kreddu. Hv. 6. þm. Reykv. segir: Landssmiðjan getur ekki gengið, af því að það er svo mikil óvild í hennar garð hjá ráðamönnum og þá sennilega fyrst og fremst iðnrh., sem hún heyrir undir. Óvildin er nú ekki meiri en það, að ég hef verið, ef segja mætti, eins og útspýtt hundsskinn í minni ráðherratíð sem yfirmaður Landssmiðjunnar til þess að redda þessu fyrirtæki æ ofan í æ. Það hefur verið stöðugt, eins og menn hafa séð, undir hamrinum. Það hefur verið auglýst á uppboðum, og það hefur verið mitt verkefni að forða því frá því að lenda á uppboði með einum eða öðrum hætti, síðast nú í sumar með því að fá peningastofnun hér til þess að lána fyrirtækinu fram að áramótum 3 millj. kr. til þess að reksturinn gæti haldið áfram, en forstjóri Landssmiðjunnar taldi þess ekki kost að fá neins staðar lán. Og ég tók á mig þá skuldbindingu gagnvart þessari peningastofnun að vera búinn að útvega eða skapa verksmiðjunni aðstöðu til þess að fá fast lán fyrir þennan tíma til þess að borga upp þetta bráðabirgðalán. Því miður hef ég nú ekki staðið fyllilega við þetta loforð, en það mun þó næstu daga verða efnt, þó að komið sé nokkuð fram yfir áramót. Þetta er nú eitt sýnishornið af þeirri óvild, sem ég ber til þessarar verksmiðju. En hv. þm. segir: Þetta er bara kredda. Það er enginn vandi að laga þetta, ef hið opinbera hleypur bara undir bagga. En hvað er að segja um hin málmiðnaðarfyrirtækin á Íslandi í dag? Ekki hafa þau beðið það opinbera um neina aðstoð, þvert á móti. Það er svo mikill vöxtur og blómgun í málmiðnaðinum núna, að hann hefur aldrei verið eins. Það, sem háir málmiðnaðinum núna, þar sem hann er rekinn af krafti af duglegum einstaklingum, er það, að það vantar vinnuafl. Það er það, sem fyrst og fremst hefur háð. En úr því er að rætast og þá fyrst og fremst vegna þess, að iðnaðurinn hefur fengið aðstöðu til notkunar á meira fjármagni en áður.

Við getum athugað fleiri fyrirtæki með hliðsjón af þessari kenningu, að það sé einhver óvild af okkar hálfu og þess vegna gangi ríkisfyrirtækin ekki. Hvað er með Siglósíld? Var það einhver óvild af hálfu ráðh. á s.l. ári og ríkisstj. í heild að lána fyrirtækinu 4 millj. kr. til þess að geta haldið áfram rekstri þá? Þetta átti að borga um haustið, en er allt saman ógreitt enn. Var það af einskærri óvild, að ríkisstj. keypti tiltekið magn af hráefni fyrir þessa verksmiðju, svo að hún hefur nú líklega eitthvað um 8000 tunnur til þess að vinna úr, sem er meira en hún hefur haft um mörg ár? Hitt er svo rétt, að ríkisstj. hefur í miklu minna mæli hlaupið undir bagga hjá einkafyrirtækjum á Akureyri til að tryggja þeim hráefni af sömu tegund. Þetta lýsir ekki neinum kredduskap á einn eða annan hátt eða óvild í garð hinna opinberu fyrirtækja. Við erum að athuga möguleikana á að koma einmitt þessu fyrirtæki, sem er merkilegt fyrirtæki og við höfum tengt miklar vonir við, Siglósíld, á raunverulegan og rekstrarhæfan grundvöll. Það var sett á laggirnar sem opinbert fyrirtæki 1946, að mig minnir, með ákaflega ófullkominni löggjöf. Og það er vel á vegi statt núna með hráefni og annað, og til meðferðar eru í rn. till. um framtíðarskipulag á rekstri þessa fyrirtækis. Nei, það er víst alveg óhætt að sleppa öllum stóryrðum um það, að Landssmiðjan eða önnur ríkisfyrirtæki hafi vegna einhverrar óvildar okkar Sjálfstfl.-ráðherranna fyrst og fremst átt í ýmiss konar örðugleikum.

Auðvitað var eðlilegt, að Landssmiðjan lenti í erfiðleikum eins og mörg önnur fyrirtæki á árunum 1967 og 1968 eða þar á eftir, þegar sjávarútvegurinn átti í sem mestum erfiðleikum. Hún hefur getað sýnt reikningslega jafna, þ.e. hallalausa útkomu, eins og hv. þm. sýndi, en hún hefur ekki getað borgað neina krónu af þessu láni, sem ég var að tala um áðan. Það eru miklar eignir í þessu fyrirtæki. En ég hef borið fram till. um það innan ríkisstj., — og það hefur verið skýrt frá því hér á Alþ. — að þetta ríkisfyrirtæki yrði lagt niður. Það er mín skoðun, og ég mun halda áfram með eðlilegum hætti baráttunni fyrir því, af því að ég tel, að þetta fyrirtæki þjóni ekki þeim tilgangi, sem það upphaflega átti að gera, þegar það var sett á laggirnar. Þetta er mín skoðun, og hún er alveg bjargföst sú skoðun mín. Og það er ekki af neinni óvild við Landssmiðjuna. En eins og sagt var, það var ágreiningsmál innan ríkisstj., og þegar samstjórn er, þá látum við þau mál bíða, komumst kannske í samstjórn við einhverja aðra, sem síðar meir mundu vilja verða með okkur í því að efla einkareksturinn og leggja fyrirtækin niður, sem væru hætt að þjóna tilgangi sínum. Ég skal nú ekki hafa fleiri orð um þetta, því að auðvitað á þessi till. eins og aðrar till. að fá þinglega meðferð og fara til n. og allar upplýsingar um Landssmiðjuna að koma þar fram. En ég sagði það í fyrra, og ég get sagt það í sem fæstum orðum núna, að frá 1966 hefur hver rannsóknin farið fram á fætur annarri á rekstrarmöguleikum Landssmiðjunnar og þeim valkostum, sem um væri að ræða. Og niðurstöðurnar hafa í raun og veru allar verið þær, að það væri ekkert vit að reka þetta fyrirtæki. Þetta er ekki ásökun í garð fyrirtækisins, forstjóranna eða starfsfólksins. Fyrirtækið er illa staðsett og orðið gamaldags. Ef menn vilja á annað borð setja upp ríkisfyrirtæki eins og landssmiðju, þá verður að gera það á eðlilegan og réttan hátt í samræmi við þær tæknikröfur og aðstöðu, sem er í dag. Ég er ekki einn í þeirra hópi, sem það mundi vilja gera. En væri ég í hópi ríkisrekstrarmanna, þá mundi ég auðvitað fyrir löngu vera búinn að gjörbreyta þessu fyrirtæki og byggja það upp á allt öðrum slóðum. Við höfum ekki þörf fyrir það í dag, eins og það var upphaflega hugsað. Þá átti að nota það til þess að þjóna ýmsum öðrum ríkisfyrirtækjum í litlu þjóðfélagi. Hér eru svo breyttar kringumstæður eins og allir vita. M.a. hefur lengi verið talað um, að eitt af verkefnunum væri það að halda uppi einhvers konar samkeppni við önnur íslenzk málmiðnaðarfyrirtæki, þannig að ekki skapaðist einokun. En þau eru orðin svo miklu fleiri en þá var og einnig erlend fyrirtæki, sem hefur þurft að keppa við í sambandi við stórframkvæmdir. Þessi forsenda fyrir því að reka svona landssmiðju er því brostin. Þetta er mín skoðun, hún er sögð alveg illyrðalaust í garð fyrirtækisins. En það er ekkert nýtt, að mig greini á við ýmsa menn úr flokki hv. 6. þm. Reykv. um þessa hluti.

Svo skal ég aðeins segja örfá orð um hinn hluta ræðunnar. Ekki er ég að fárast yfir því, þó að hv. 6. þm. Reykv. sé við og við að reyna að minna á það, að hann sé nú aðalmálsvari kommúnista hér í þingsölunum. En öll þau ósköp af ranghermi og hugarburði, sem þessi hv. þm. flutti um fyrirtæki eins og Álafoss og Slippstöðina, gera ekkert annað en staðfesta það, að hann veit ekki, hvað hér hefur verið að gerast, hefur ekki fylgzt með því, kannske ekki heldur hægt að ætlast til þess, að hann hafi aðstöðu til þess. Hann er að tala um, að það hafi verið sett stórfé í Álafoss, 28 millj. kr. í hlutafé til þess að bjarga einstaklingunum í fyrirtækinu. Hvernig var þeim bjargað með þessum hætti? Fyrirtækið átti fyrir skuldum, það var í greiðsluþrotum, greiðsluerfiðleikum, og einstaklingarnir, fjölskyldan, sem átti þetta fyrirtæki, hafði lagt allar sínar eignir, húseignir og annað, að veði fyrir lánum, sem þeir höfðu fengið, og að þeim hafði verið gengið. En hvað þýðir þetta, að það eru komnar 28 millj. inn í fyrirtæki sem hlutafé á móti 2 eða 3 millj. af hálfu einstaklinganna, þegar uppmetið er gamalt hlutafé? Þetta er eitt af elztu fyrirtækjunum, og mig minnir, að þeirra hlutafé hafi verið metið á u.þ.b. 2 millj. Það þýðir það, að fyrirtækið er tekið af einstaklingunum. Svo segir hv. þm.: Ef fyrirtækið gengur vel, þá á að afhenda þeim það aftur. Ef það gengur vel, hvað kosta þá hlutabréfin? Hvað kosta þá hlutabréfin? Þá kosta þau peninga, og þá verður það auðvitað okkar meining, sem hefur verið skýrð í framkvæmdasjóðsstjórninni, þar sem stjórnarandstæðingar einnig eiga fulltrúa, að losna við hlutabréfin. En þá byggist það á því, að það fáist eðlilegt verð fyrir hlutabréfin og samkeppni um kaup á hlutabréfunum á opnum hlutabréfamarkaði, sem unnið er að að koma í gang. En að tala um það, að það sé svo meiningin, ef vei gangi, að afhenda því fólki, sem áður átti þessi fyrirtæki, fyrirtækin eins og bara smágjöf, þetta nær náttúrlega engri átt. Sama má segja um Slippstöðina. Þessir menn, sem á sínum tíma settu upp Slippstöðina og töldu sig eiga hana í einkaeign, — það var ekkert nýtt í slíku fyrirtæki, að hlutaféð væri sára lítið, — þeir hafa misst sitt eignarhald á þessu fyrirtæki. En það er eðlilegt, sem kom fram í Íslendingi, — ég held, að það hafi verið það, sem hv. þm. vitnaði í, — að hugsunin hjá ýmsum aðilum, sem þarna hafa hlaupið undir bagga, væri sú að reyna að ná sínu fé til baka með sölu hlutabréfanna og nota það kannske í eitthvað annað, sem þeim hentaði betur, ef viðunandi boð fengjust fyrir þessi hlutabréf. En það fæst aldrei, nema hlutafélögin sjálf og rekstur þeirra komist á þann grundvöll, að menn meti hlutaféð, sem nú verður allmikið, raunverulega til fjár. En þessi íhlutun af hálfu sjóða, fyrirtækja og félaga eins og Eimskipafélagsins, sem nefnt var, og bæjarfélagsins á Akureyri, hún var til þess að bjarga þarna við úr greiðsluerfiðleikum fyrirtæki, sem að öðrum kosti hefði kannske sundrazt og miklir fjármunir farið forgörðum. Fyrir utan það er þetta eitt af stærstu atvinnufyrirtækjunum á Akureyri eins og er í dag. Takist að efla þetta fyrirtæki með þessu móti og aukinni þátttöku almennings, sem ég teldi vera æskilegast, þá er það í raun og veru þannig, að ef hægt væri að fullnýta húsakost, vélar og annað, þá gæti það veitt um 500 manns atvinnu, og það yrði þá eitt af þeim fyrirtækjum á Íslandi, sem hefði flesta menn í sinni þjónustu. Er þetta geysilega þýðingarmikið fyrir atvinnureksturinn á Akureyri. Ríkisstj., þessi illviljaða ríkisstj., sem talað var um, hefur líka lagt sig fram um það, að þetta fyrirtæki fái aðstöðu til þess að taka þátt í þeirri nýbyggingu togaraflotans, sem við Íslendingar stöndum nú í, þ.e. að byggja tvo af 6–8 nýjum togurum af stærstu gerð, sem hugsunin er að byggja. Það er ýmsum erfiðleikum bundið að eiga við þessa hluti. Í öðrum löndum er það svo, að gömul og gróin skipafélög hafa orðið gjaldþrota að undanförnu. Þau hafa ekki getað haldið áfram rekstri sínum nema með ríkisstyrk, vegna harðrar samkeppni í hinum kapítalísku þjóðfélögum. Þessar skipasmíðastöðvar hjá okkur, sem til hafa orðið á síðustu árum, eru yfirleitt allar saman einkafyrirtæki. Stofnað var til þeirra á sínum tíma af einstökum dugnaðar- og framtaksmönnum, en kannske var ekki alltaf mikil fyrirhyggja í fjármálunum, enda hefur það ekki verið sterkasta hlið okkar Íslendinga í uppbyggingu fyrirtækja. Þess vegna hafa þau lent í greiðsluerfiðleikum, og ég hef aldrei talið eftir mér að reyna að beita áhrifum mínum og aðstöðu til þess að greiða úr slíkum flækjum, bæði hjá opinberum fyrirtækjum og einkafyrirtækjum.

Þetta, sem ég hef verið að segja nú, fjallar um þann þátt ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem raunverulega kom þessari till. ekki við. Eins og ég sagði áðan, tel ég eðlilegt, að till. fái sína þinglegu meðferð, en ég kæri mig ekkert um, að mín afstaða í þinginu fari á milli mála, enda er hún mjög ljós til fyrirtækisins Landssmiðjunnar, því að við ræddum þetta, að ég hygg, á síðasta þingi og kannske þinginu þar áður, ég man það ekki. Bæði hef ég svarað fsp. um það og gert grein fyrir því og sífellt verið að láta athuga og fara í gegnum rekstur fyrirtækisins, sem ég held, að geti aldrei orðið til neins gagns, hvorki fyrir það opinbera eða einstaklinga, sem almennt þjónustufyrirtæki, nema menn vilji aðhyllast þá kenningu, sem okkur hv. þm. greinir á um, að það sé réttara að byggja upp ríkisfyrirtækin. En þá verður að byggja þau upp þannig, að þau geti keppt við einkafyrirtækin, hafi bæði aðstöðu og tæki til þess.