25.02.1971
Neðri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (4100)

167. mál, Landssmiðjan

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. taldi, að meginhluti ræðu minnar hefði í rauninni ekki komið efninu við. Ég var þó að reyna að gera grein fyrir því, að viðhorf ríkisstj. til Landssmiðjunnar væri þáttur í almennri afstöðu hennar til þess, hvernig ætti að reka atvinnuvegina á Íslandi. Og ég var að sýna fram á það, að þessi stefna hefði engan veginn staðizt í verki. Ríkisstj. og ekki sízt þessi hæstv. ráðh. hefði æ ofan í æ orðið að standa í athöfnum, sem brjóta þverlega í bága við þessa orðuðu stefnu, og það er ekki af óvild til Landssmiðjunnar út af fyrir sig, sem hæstv. ráðh. vill leggja hana niður, heldur er það eitt dæmi um þessa kreddu, sem ég var að lýsa, að ríkið mætti ekki hafa slík afskipti af atvinnumálum.

Hæstv. ráðh. kom hér með þá skemmtilegu lýsingu, að hann hefði verið eins og útspýtt hundsskinn í reddingum fyrir Landssmiðjuna. Þetta er vafalaust alveg rétt. Mér er kunnugt um það, að hæstv. ráðh. hefur staðið í endalausum reddingum af þessu tagi, ekki aðeins fyrir Landssmiðjuna, heldur líka fyrir fjölmörg fyrirtæki önnur. Það var þannig ástatt hér í a.m.k. ein tvö ár, að þessi hæstv. ráðh. stóð í daglegum reddingum fyrir alls konar málmiðnaðarfyrirtæki, í einkaeign líka, í alls konar útvegunum. En þetta er einmitt lýsingin á stefnu ríkisstj. í atvinnumálum og á forustu hennar. Það eru þessar daglegu reddingar, sem ekki hafa neitt stefnumið, sem eiga aðeins að bjarga hlutunum, þegar allt er komið í óefni, og það er þarna, sem hin mikla veila er í atvinnukerfi okkar. Það vantar heildarstefnu, það vantar áætlunargerð, það vantar, að ráðh. viti, hvað þeir vilja. Það er ekki nægilegt, að einhver ráðh. sitji uppi á skrifstofu sinni og svo komi til hans atvinnurekandi og segi: Nú er allt að fara í strand hjá mér, þú verður að redda mér. Það er ekki nóg, að hæstv. ráðh. sé þá bóngóður og reyni að hjálpa honum. Þetta er engin forusta í atvinnumálum. Ríkisstj. verður að hafa markaða stefnu, og hún verður að búa þannig í haginn fyrir atvinnuvegina, að þeir geti þróazt á eðlilegan hátt í stað þess, að ráðh. standi í eilífu smásnatti fyrir einstök fyrirtæki.

Landssmiðjan hefur goldið þess, að hún hefur ekki fengið leyfi til þess að endurnýja sig á eðlilegan hátt. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að hún er á óhentugum stað og vélakostur hennar er orðinn úreltur og það er raunar búið að leggja niður hluta af þessu fyrirtæki, sem hefur takmarkað til mikilla muna, hvað fyrirtækið getur gert. staða fyrirtækisins væri allt önnur, ef það hefði haft heimild til þess að þróa sig á eðlilegan hátt, ef það hefði fengið eðlilega fyrirgreiðslu til þess, ég tala nú ekki um fyrirgreiðslu eins og þá, sem ég var að lýsa, sem ýmsir einkaaðilar hafa notið. En Landssmiðjan hefur ekki átt kost á neinu slíku. Ég er þeirrar skoðunar, að skynsamleg þróun í járniðnaði verði því aðeins, að það verði tekin upp samfelld stefna á því sviði, að við reynum að einbeita getu okkar, fjármagni og getu, til þess að láta þennan atvinnuveg í heild þróast sem bezt. Það dugar ekki að láta eitt fyrirtækið toga gegn öðru. Það dugar ekki að vera með yfirfjárfestingu, þar sem við komum okkur upp kannske allt of mikilli aðstöðu. Þjóðfélag okkar er svo lítið, að við verðum að einbeita okkur, og það hljótum við að geta gert með því að láta þessi fyrirtæki vinna saman. Ég er ekki að leggja það til, að Landssmiðjan eigi að einoka alla málmsmíði á Íslandi, síður en svo. En ég tel, að Landssmiðjan ætti að vera mjög hentugt tæki fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að hafa áhrif á þróunina á þessu sviði. Og Landssmiðjan gæti ekki aðeins verið tæki til þess. Það er einnig hættulegt, við skulum gera okkur það ljóst, ef upp kemur einokunaraðstaða á þessu sviði. Hér eru fáar mjög stórar smiðjur, sem geta drottnað gersamlega yfir þessum atvinnuvegi og geta þá tekið upp einokunarvinnubrögð. Mér er fullkunnugt um það, að menn hafa verið hræddir við þær horfur margsinnis. Og það var hér áður fyrr einmitt ein af röksemdunum fyrir því, að Landssmiðjan yrði að geta staðið fyrir sínu í samkeppni við þessa einkaaðila. Þetta er röksemd, sem við eigum engan veginn að loka augunum fyrir.

Hæstv. ráðh. sagðist segja það af fullri hreinskilni, eins og við vitum áður, að hann teldi, að það ætti að leggja Landssmiðjuna niður. En vill þá ekki hæstv. ráðh. fallast á þá till. mína, að Alþ. verði látið skera úr um það, hvort Landssmiðjan á að starfa áfram eða hvort hún á að hætta? Við skulum gera okkur það fullkomlega ljóst, að það er engin framtíð í því ástandi eins og nú er, að það sé algerlega óljóst, hvað á að verða um þetta fyrirtæki. Ef ekki er vitað, hvað verður um fyrirtæki, þá heldur það áfram að drabbast niður, það verður aumara og skilar minni og minni afköstum, og svo verður þessi niðurlæging að lokum notuð sem röksemd fyrir því, að nú dugi þetta ekki lengur. Þegar upp kemur ágreiningur af þessu tagi, einnig innan ríkisstj. sjálfrar, þá á ríkisstj. hreinlega að bera það undir Alþ., hvaða kosti eigi að velja, og ef meiri hl. Alþ. segir: Við látum Landssmiðjuna starfa áfram, og við tryggjum henni þá aðstöðu, sem dugar til þess, að hún verði eðlilegur samkeppnisaðili í þjóðfélaginu, þá á hæstv. ríkisstj. að fara eftir þeirri stefnu, og þá á hæstv. forsrh. að beygja sig fyrir vilja Alþ., því að hæstv. ráðh. eru ekkert annað en starfsmenn Alþingis. Ef Alþ. markar stefnu, þá verða ráðh. að framfylgja henni. Og þegar kemur upp ágreiningur af þessu tagi, þá á Alþ. að skera úr.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði farið með rangfærslur og hugarburð í frásögnum mínum af ýmsum einkaaðilum, sem notið hafa mikillar opinberrar fyrirgreiðslu á undanförnum árum, og nefndi í því sambandi Álafoss og Slippstöðina á Akureyri. Ekki gat nú hæstv. ráðh. komið með nein dæmi um rangfærslur og hugarburð af minni hálfu. Ég held, að þær staðreyndir, sem ég rakti hér, séu örugglega réttar. Það má vel vera, að þegar búið er að koma fótum undir Álafoss, hækki hlutabréf formlega í verði. En ég vil minna á það, að í þessari undarlegu reddingu, svo að ég noti nú orð hæstv. ráðh., var margt einkennilega gert. T.d. eru nú fimm menn í stjórn félagsins, þar af þrír af hinum upphaflegu eigendum. Þeir eru í meiri hl. í stjórn félagsins enn þá. Hins vegar er til bráðabirgða komið upp framkvæmdanefnd, sem á að annast rekstur fyrirtækisins, þar af einn frá félaginu og fjórir frá Framkvæmdasjóði. En þetta fyrirkomulag á aðeins að standa þangað til búið er að koma lánum fyrirtækisins í full skil. Síðan tekur stjórnin við, þar sem hinir upphaflegu eigendur eru, sem eru í meiri hl. En hvað sem þessu líður, getur það alla vega ekki verið neitt deilumál, að þessi fyrirgreiðsla var öll ákaflega annarleg. Ég veit um fjölmörg fyrirtæki önnur, sem ekki hafa átt kost á slíkri fyrirgreiðslu, vegna þess að eigendur þeirra höfðu ekki rétt sambönd. Það eru til fyrirtæki, t. d. úti um land á smáum stöðum, sem menn hafa lagt í allar eigur sínar og síðan lent í strandi. Og hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að hjálpa þessum fyrirtækjum. Áfallið hefur lent á hinum smáu, sem áttu þau, því að það er ekki sama, hverjir mennirnir eru í okkar þjóðfélagi.

Ég minntist áðan á, að það væri kredda hjá Sjálfstfl., að einkaaðilar ættu að starfrækja öll atvinnufyrirtæki á Íslandi, það væri trúaratriði, trúarkredda, sem ekki stæðist í þjóðfélaginu. Og ég held, að þetta sé nú staðreynd, sem menn ættu að vera farnir að viðurkenna. Sjálfstfl. hefur um langt skeið verið langvaldamesti flokkurinn á Íslandi. Hann hefur oftast setið í ríkisstj. og hreinlega haft forustu fyrir þeim, og maður skyldi ætla, að hann hefði tryggt atvinnuþróun af þessu tagi, yfirburði einkarekstursins. Engu að síður er staðreyndin sú, að hvergi í nokkru landi í Vestur-Evrópu er eins mikið um opinbera eign eins og á Íslandi. Ríkið á allar stærstu verksmiðjur á Íslandi og ræður yfir stærstu bönkunum. Eignaraðild bæjarfélaga er miklu meiri en í nokkru öðru landi í Vestur-Evrópu og félagsleg eign á atvinnutækjum miklu, miklu meiri. Þetta er vegna þess, að kredda Sjálfstfl. hefur ekki staðizt. Ef það átti að vera hægt að starfrækja þetta þjóðfélag, þá varð Sjálfstfl. að brjóta gegn þessari kreddu sinni. (PS: Í hlutfalli við verkfallsdaga.) Í hlutfalli við verkfallsdaga jú, ef við eigum að fara að ræða um verkfallsmál, hv. þm. Pétur Sigurðsson, þá er ég gjarnan reiðubúinn til þess. En ég held, að ég haldi mig nú við það efni, sem hér er á dagskrá að þessu sinni.

Þetta er staðreynd, að það er ekki hægt að starfrækja atvinnuvegi á Íslandi, ef við ætlum að gera það sjálfir, án þess að til komi forusta ríkisvaldsins, og Sjálfstfl. hefur viðurkennt þessa staðreynd í verki í ákaflega ríkum mæli. Hæstv. ráðh. minntist hér áðan á togarakaupin, að nú værum við loksins að hefja hér kaup á nýjum togurum. Og hvernig er þeim kaupum háttað? Þeim er þannig háttað, að mikill meiri hluti fjármagnsins er lagður fram fyrir tilstilli hins opinbera. Og þar er bætt við hreinni gjöf til einkaaðila, sem verða skráðir eigendur þessara skipa, hreinni gjöf úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum. Á Akureyri kemur meira að segja til alveg sérstök fyrirgreiðsla til þess að tryggja það, að skipin verði byggð í Slippstöðinni. Þannig er það viðurkennt í verki, að ekki sé hægt að endurnýja togaraflotann nema með félagslegri fyrirgreiðslu, ákaflega víðtækri. Og auðvitað er þetta ekki annað en félagsleg fjárfesting í togaraútgerð á Íslandi. Hlutur einkaaðila er sama og enginn, og trúlega er hann enginn, vegna þess að þeir fara í banka og fá léðan þennan svo kallaða eignarhlut sinn. Þarna er almenningsfé, sem verið er að nota til þess að fjárfesta, til þess að efla atvinnuvegina á Íslandi. En þá eiga menn ekki að vera með neinn leikaraskap. Menn eiga að viðurkenna svona staðreyndir, og menn eiga að hegða sér í samræmi við þær. Það er algerlega ósæmandi fyrir stærsta flokk þjóðarinnar, og það hlýtur að valda annarlegum sálarklofningi hjá forustumönnum hans að segja eitt en gera í sífellu allt annað.

Eins og ég sagði áðan, þá varpar þetta dæmi um Landssmiðjuna mjög skýru ljósi á vandamálin í allri efnahagsþróun okkar, atvinnuþróun okkar, og einmitt þess vegna hef ég gert málið í heild að umtalsefni. Ég tel, að örlög Landssmiðjunnar verði nokkurt dæmi um það, hver þróunin kann að verða á þessu sviði á næstunni. Og ég vil sérstaklega vænta þess, að Alþfl., sem hefur stöðvað í ríkisstj. þá till: forsrh., að Landssmiðjan verði lögð niður, taki þátt í því að beita sér fyrir því, að Alþ. verði látið lýsa afstöðu sinni til málsins, skera úr um það, hvort Landssmiðjan á að lifa eða deyja.