26.03.1971
Efri deild: 76. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í D-deild Alþingistíðinda. (4132)

274. mál, sjúkraflug á Vestfjörðum

Dómsmrh. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Áður en þessi þáltill. fer til n. til athugunar tel ég rétt að upplýsa hér nokkur atriði í sambandi við þyrlumál Landhelgisgæzlunnar. Eins og kunnugt er, þá hefur Landhelgisgæzlan alllengi haft hug á notkun þyrla við sína starfsemi vegna þeirra sérstæðu kosta, sem þyrlur hafa, að geta lent og hafið sig til flugs lóðrétt svo að segja hvar sem er. Þess vegna var það árið 1960, að hafin var þjálfun fyrsta þyrluflugmannsins og æfingar með þyrlum varnarliðsins jafnframt því sem byrjað var að útbúa varðskipin með þilfari til þyrlulendingar. Svo var það árið 1965, að keypt var lítil þyrla, TF Eir, í samvinnu við Slysavarnafélagið til þess að öðlast raunhæfari reynslu á þessu sviði.

Eins og mönnum er kunnugt, hefur þessi þyrla reynzt afburða vel, þó að smá sé, og smæð hennar hlýtur eðlilega að setja henni ákveðin takmörk. Þess vegna var það, að árið 1967 var leitað eftir tilboðum í stærri þyrlu, en vegna fjárhagsörðugleika, sem steðjuðu þá að, var horfið frá því í bili að fara út í kaup á slíku tæki. Svo var það fyrir ári síðan, þá var byrjað aftur að huga að útvegun á stærri þyrlu, og í þeim tilgangi voru ýmsar gerðir þyrla skoðaðar, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og enn fremur voru kannaðir möguleikar á fjármögnun til slíkra kaupa. Athuganir bentu svo til þess, að með tilliti til getu, kaupverðs og rekstrarkostnaðar mundu þyrlur af gerðunum Sikorsky S–62 eða Bell 205 vera heppilegustu vélarnar, þó líklega frekar sú fyrrnefnda. Landhelgisgæzlunni var þá falið að afla endanlegra samanburðarupplýsinga um kostnaðarverð og fleira fyrir þessar tvær tegundir, og þeirri gagnaöflun var svo lokið nú um síðastliðin áramót. Þá kom m.a. í ljós við þessa athugun, að björgunarþyrla af gerðinni Sikorsky 5–62 í fullri skoðun og með öllum nauðsynlegum varahlutum mundi líklega fáanleg til kaups á hagstæðu verði frá bandarísku strandgæzlunni, en strandgæzlan þar hefur notað þessa gerð þyrla með ágætum árangri við almenn gæzlustörf nú undanfarin átta ár. Það hefur nú verið beðið eftir endanlegum upplýsingum um möguleg kaup á slíkri vél ásamt varahlutum svo og um æfingu flugmanna og flugvirkja í meðferð slíks tækis. Jafnframt hefur verið unnið að útvegun á lánum og fé til kaupanna, og það mun verða fáanlegt hér innanlands með aðstoð Seðlabankans. Einnig hefur Landhelgissjóður nokkurt fé aflögu til slíkra kaupa, og enn fremur skal það tekið fram, að Slysavarnafélag Íslands hefur fyrir hönd Björgunarskútusjóðs Austfjarða boðið fram nokkurt framlag til þessara kaupa. Ef úr nefndum kaupum getur orðið, þá ætti slík þyrla að geta komið í notkun hér í sumar eða alla vega á þessu ári. Að sjálfsögðu þarf að senda út flugmenn og tæknimenn til þjálfunar og til að læra meðferð slíks tækis. Strax þegar liggja fyrir endanlegar upplýsingar um söluverð slíks tækis og söluskilmála, mun málið verða tekið til athugunar í ríkisstj.

Rétt er að taka það fram, að með öflun slíks tækis, slíkrar þyrlu af meðalstórri gerð, sem er náttúrlega langtum stærri en litla þyrlan, sem nú er í notkun, er ekki ætlunin að hætta starfrækslu litlu þyrlunnar, heldur mun hún verða rekin áfram með sama hætti. Ég taldi sjálfsagt, að þetta kæmi hér fram, áður en málið færi til n.

Það er auðvitað einhver mesti kostur þyrlu fram yfir flugvélar, að hún getur lent svo að segja hvar sem er. Þó að flugvellir, litlir sjúkraflugvellir, séu víða, þá er samt auðvitað aldrei með flugvélakosti unnt að fyrirbyggja það, að flytja þurfi sjúka menn og slasaða töluverðan veg til þess að komast á slíka flugvelli. Viðhaldskostnaður flugvallanna, þótt smáir séu og einfaldir að allri gerð, verður að sjálfsögðu alltaf nokkur, og verður þá þetta sjálfsagt tekið til athugunar og metið.

Ef við víkjum að þáltill., sem liggur fyrir hv. Nd. og flutt er af tveim þm. þar, þar sem lagt er til, að athuguð sé notkun lítillar þyrlu til sjúkraflutninga, þá finnst mér rétt að rifja aðeins upp, hvaða kosti þessi fyrirhugaða þyrla hefur umfram litlu þyrluna, sem nú er í notkun. Þessi þyrla, Sikorsky S–62, hefur möguleika á blindflugi, sem litla þyrlan, TF Eir, hefur ekki, og það er auðvitað gríðarlega mikið atriði. Þá hefur hún langtum meiri möguleika á flugi yfir sjó, sem eðlilegt er, en lítil þyrla. Þá er á þessari þyrlugerð, sem fyrirhuguð eru kaup á, útbúnaður, sem gefur möguleika á að draga menn upp og slaka niður á flugi með sérstakri vindu. En slíkt björgunartæki hefur litla þyrlan að sjálfsögðu ekki. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði og ekki sízt með tilliti til björgunar yfir sjó. Við kaup þyrlunnar er að sjálfsögðu alveg sérstaklega haft í huga auk landhelgisgæzlu og flutninga björgunarstarf á sjó. Þá hefur þessi stærri þyrla möguleika á að flytja 10–12 farþega, en ég ætla, að það muni vera þrír farþegar, sem TF Eir getur tekið. Möguleikar fyrir sjúklinga á börum eru stórum meiri í þessari stærri þyrlugerð. Í litlu þyrlunni mun vera rúm fyrir einn sjúkling á börum, en í þessari stærri gerð yrði hægt að flytja samtímis sex sjúklinga á sjúkrabörum. Og vegna stærðarmunar hefur þessi Sikorsky-þyrla langtum meiri möguleika til vöruflutninga. Hún hefur tvisvar sinnum meira flugþol en litla þyrlan, og hún hefur einnig möguleika á aukningu flugþols með því að taka eldsneyti úr varðskipi án þess að lenda þar. Að sjálfsögðu mundi hún geta lent á þilfari varðskipanna. Loks hefur hún meiri möguleika til flugs upp á há fjöll. Það eru þessir kostir, er mér tjáð, sem skipta mestu máli í samanburði við smærri þyrlu. En í sambandi við sjúkraflugið er það sjálfsagt meginatriðið, hve skjótt hægt er að bregða við, að hve miklu leyti hægt er að yfirstíga þá erfiðleika, sem veður geta skapað, og svo þetta, að slíkt tæki getur lent svo að segja hvar sem er.

Ég sé enga ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en fannst rétt og raunar sjálfsagt, að þessar upplýsingar lægju fyrir, áður en heilbr: og félmn. tekur þáltill. fyrir til athugunar.