11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

170. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. um breyt. á vegalögum, hafa þm. haft til athugunar um tveggja vikna skeið. Hv. þm. er því ljóst, hvað hér er um að ræða. Ég hef rætt við þm. um þetta mál, stjórnarflokkana og stjórnarandstöðuna, og hef ástæðu til að ætla, að samkomulag verði um þá tekjuöflun, sem í frv. felst. Gert var ráð fyrir hækkun á benzíni og þungaskatti, þegar verðstöðvunarlögin voru sett, og þeim áhrifum á vísitöluna, sem af hækkuninni leiða. Kom það fram í umr. um verðstöðvunarlögin í hv. Alþ. Tekjuaukinn, sem lagt er til að lögfesta, fer til vegaframkvæmda, þ. e. til nýbygginga hraðbrauta, þjóðbrauta, landsbrauta og til viðhalds vega. Frá því að vegáætlunin var samin, hafa orðið breytingar á verðlagi og kauptöxtum, og er þess vegna ekki við því að búast, að vegáætlunin, eins og hún nú er, geti staðizt, nema auknar tekjur komi til. Tekjur Vegasjóðs hafa reynzt lægri en áætlað var, en útgjöldin aukizt vegna verðbreytinga og kauphækkana. Ástæðurnar til þess, að tekjurnar hafa reynzt minni, eru aðallega þær, að innflutningur bifreiða árið 1969 var miklu minni en áætlað var.

Frv. þetta felur í sér nokkra breytingu á vegáætlunarkerfi því, sem gilt hefur frá 1964, og einnig nokkrar breytingar, sem nauðsynlegt er að gera í sumum tilfellum að fenginni reynslu. Gert er ráð fyrir, að sala á benzíni verði 77.9 millj. lítra á árinu 1971. Er lagt til, að innflutningsgjald af benzíni verði hækkað um 2.20 kr. — úr 5.67 kr. af hverjum lítra í 7.87 kr. Gefur sú hækkun Vegasjóði í auknar tekjur 171.4 millj. kr. Þá er lagt til, að þungaskattur bifreiða verði hækkaður um 50%, og gefur það í auknar tekjur á árinu 1971 65.9 millj. kr. Framlag ríkissjóðs er samkv. frv. 47 millj. kr. Þetta verða samtals 284.3 millj. kr., en það er sú aukna tekjuþörf, sem Vegasjóði er nauðsynlegt að fá til þess, að vegáætlunin standist og unnt verði að láta verulega upphæð til nýbygginga í landsbrautum, hraðbrautum og þjóðbrautum og standa við þær skuldbindingar, sem gerðar hafa verið vegna annarra framkvæmda, sem unnið er að. Samkv. endurskoðaðri tekjuáætlun Vegasjóðs reynast tekjurnar 29 millj. kr. lægri en gildandi vegáætlun segir til um, og er gert ráð fyrir, að tekjurnar samkv. endurskoðaðri áætlun verði 599.5 millj. kr. Verði frv. þetta lögfest og tekjur Vegasjóðs auknar um 284.3 millj. kr., hefur Vegasjóður til ráðstöfunar á árinu 1971 883.8 millj. kr. auk þeirra lána, sem tekin verða. Má því segja, að tekjur Vegasjóðs á einu ári séu auknar allmyndarlega, og gerir það mögulegt að vinna myndarlega í hraðbrautum, þjóðbrautum og landsbrautum auk þess, sem fært er að halda gildandi vegáætlun þrátt fyrir minnkandi tekjur undanfarið samkv. eldri áætlun og hækkanir á verðlagi og kaupgjaldi. Á árinu 1972 er tekjuþörfin nokkru minni en 1971, eins og fram kemur í fskj. með frv., og er gott til þess að vita, að nokkur varasjóður myndast, sem hægt væri að grípa til, ef halli verður á árinu 1970 eða Í971, sem mætti þá ýta á undan sér og greiða með tekjum, sem til falla á árinu 1972.

Fái Vegasjóður þær viðbótartekjur, sem hér er lagt til, mundi þeim verða ráðstafað að mestu leyti, eins og hér er greint:

Stjórn og undirbúningur framkvæmda, þ. e. launagreiðslur, skrifstofukostnaður og annað, mun hækka um 6.3 millj. kr. á árinu frá fyrri áætlun og verða 31.1 millj. kr. Viðhald þjóðvega, þ. á m. rekstur vélar, sem keypt verður til mölunar á efni í ofaníburð, mun hækka um 39.4 millj. kr., og verður viðhaldsfé þá á árinu 1971 354.2 millj. kr. Til nýrra þjóðvega verður hækkunin 25.4 millj. kr., og verður þá sá liður 255.9 millj. kr. Til brúargerða verður hækkunin 8.7 millj. kr., og verður fé til brúa 57.7 millj. kr. Til sýsluvega verður hækkun um 6.7 millj. kr. og framlag til sýsluvega því samtals 25.2 millj. kr. Til vega í kaupstöðum og kauptúnum verður hækkunin 21.6 millj. kr. og fé til kaupstaða og kauptúna því samtals 87.7 millj. kr. Til tilrauna í vegagerð hækkar framlagið um 0.2 millj. kr. og verður því samtals 3.3 millj. kr. Halli á vegáætlun 1969 — 25.2 millj. kr. — verður greiddur á árinu. Auk þess kemur nýtt framlag til þjóðbrauta og landsbrauta samkv. frv. 39.2 millj. kr. Þá er hækkun vegna nýrra skuldbindinga, þ. e. hraðbrautarframkvæmda upp á 73.6 millj. kr., þjóð- og landsbrauta samkv. Vestfjarðaáætlun 2.6 millj. kr., vegna Skeiða- og Þjórsárdalsvegar 1.9 millj. kr. og Landvegar 1.8 millj. kr. Lækkun tekna á vegáætlun samkv. endurskoðun 29 millj. kr. Þegar þetta er upp talið kemur sú upphæð, sem áður er nefnd, þ. e. 883.8 millj. kr., sem verður til ráðstöfunar á árinu 1971.

Till. til vegáætlunar fyrir árið 1971 verður lögð fram, þegar þing kemur saman eftir áramót, til þess að skipta því fé og samþykkja áætlun fyrir það ár miðað við þær tölur, sem hér er um að ræða. Áætlunartekjur Vegasjóðs á árinu 1971–1972 eru byggðar á tekjuspá samkv. bifreiðaeign landsmanna og því, sem áætlað er, að þeim fjölgi á þessum árum. Á árinu 1970 er mjög mikill innflutningur bifreiða, og rennir það stoðum undir það, að tekjur ársins 1970 verði ekki minni eða litlu minni en áætlað hafði verið samkv. gildandi vegáætlun. Þá er einnig reiknað með miklum innflutningi bifreiða á árinu 1971 og 1972. Samkv. útgefinni bifreiðaspá er gert ráð fyrir, að á árinu 1970 séu bifreiðar 45292, 1971 48791 og 1972 52519, og eru þá 190.4 bifreiðar á þúsund íbúa 1970, 204.6 1971 og 219.5 1972. Má þá segja, að Ísland sé komið í tölu þeirra þjóða, sem eiga flestar bifreiðar, og er út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, þar sem engar járnbrautir eru í landinu og bifreiðar svo að segja eina samgöngutækið.

Benzínverð og þungaskattur hækka allmikið samkv. því, sem hér er lagt til. Má reikna með, að eftir hækkunina verði benzínverðið kr. 15.60–15.70 fyrir hvern lítra. Benzínverð hér eftir hækkunina verður þó allmiklu lægra en gerist í nágrannalöndunum. Í Noregi er benzínverð nú sem svarar 18.50 kr., og í Svíþjóð mun það verða sem svarar nærri 19 kr. eftir þá hækkun, sem nú er fyrirhuguð þar. Þannig mætti nefna fleiri nágrannalönd, sem hafa hærra benzínverð en Ísland eftir þá hækkun, sem nú er fyrirhuguð. Það má segja, að það sé ekki ástæða til að vera að bera benzínverð saman við það, sem gildir í nágrannalöndunum. Þess má þó geta, að þar er færð sú ástæða fyrir benzínhækkun, sem einnig hlýtur að verða færð hér, en ástæðan er sú, að til veganna þarf meira fjármagn, til þess að þeir verði í því horfi, sem almenningur óskar eftir, og það er ljóst, að annaðhvort verður að auka tekjur Vegasjóðs og stuðla að því, að vegirnir batni, eða láta framkvæmdir og framfarir í vegagerð í landinu bíða, en njóta lága verðsins á benzíni og þungaskatti áfram. Það munu þó flestir vera sammála um, að sá kosturinn sé betri að borga nokkru meira fyrir benzínið og hærri þungaskatt til þess að fá betri vegi, því að það muni þegar til lengdar lætur borga sig, með því að eldsneytisnotkunin verður minni og minna slit á bílunum, þegar ekið er eftir sæmilegum vegum en mjög lélegum vegum. Sé miðað við, að benzínverðið verði 15.70 kr. eftir hækkunina, þarf jafnmargar mínútur til þess að vinna fyrir benzínlítranum 1971 og fyrri hluta ársins 1970. Má segja, að kaupmáttur til benzínkaupa verði svipaður 1971 og var áður.

Þungaskattur verður þrátt fyrir þessa hækkun mun lægri en í nágrannalöndunum, en hægast er að bera sig saman við Noreg, sem hefur sams konar gjaldmæla í dísilbifreiðum og við höfum nú upp tekið. Eigi að síður munu margir telja, að þessi hækkun á þungaskatti sýnist vera hlutfallslega mun meiri en benzínhækkunin. En þess ber að geta, að benzínið hefur verið hækkað áður, án þess að þungaskatturinn væri hækkaður, og má segja, að hlutfallið eftir þessa hækkun verði mjög líkt því, sem það var 1963, þegar vegalögin voru sett. Þungaskatturinn er ekki mjög stór hluti af útgerðarkostnaði dísilbifreiða. Við ákvörðun almenns taxta vöru- og sérleyfisbifreiða er þungaskatturinn nú veginn sem 3% í sérleyfisbifreiðataxtanum og 4.55% í vörubifreiðataxtanum. Í sértaxta fyrir vörubifreiðar í samningum Vegagerðarinnar og Landssambands vörubifreiðastjóra vegur þungaskatturinn um 5%. Eftir hækkun verða tilsvarandi tölur 4.5% og 7.5% að öðru óbreyttu. Að öðrum liðum óbreyttum verður þungaskattur á km eftir hækkun: Hjá vörubifreiðum — miðað við 6 tonna hlassþunga — er almennur taxti fyrir breytingu 0.97 kr. á km, en eftir breytingu 1.45 kr. á km, og hjá sérleyfisbifreiðum — 30 sæta og 50% sætanýting — fyrir breytingu 1.50 kr. á km, en eftir breytingu 2.25 kr. á km. Hækkun þungaskatts benzínbifreiða er þannig, að nú eru greiddar 72 kr. fyrir hver full 100 kg, en eftir breytinguna 108 kr. fyrir hver 100 kg. Dísilvörubifreiðar hafa nú fengið gjaldmæla, og var skatturinn á s. l. sumri miðaður við, að tekjur Vegasjóðs í heild yrðu hinar sömu og áður, en þá var miðað við 30 þús. km meðalakstur á ári. Margir töldu sig ekki aka meira en 10–15 þús. km á ári, en urðu eigi að síður að greiða fullan þungaskatt. Með því að hafa gjaldmæla í bifreiðunum er þungaskattur greiddur í réttu hlutfalli við notkun bifreiðanna. Afleiðingin verður sú, að margir greiða mun minni þungaskatt en áður þrátt fyrir þá hækkun, sem hér er gert ráð fyrir að lögfesta, en aðrir, sem aka meira, greiða hærri skatt. Verður það að teljast eðlilegt og í samræmi við það, að þeir, sem aka benzínbifreiðum, borga nú tiltölulega miklu meira til veganna en hinir.

Þungaskattur og benzínskattur eru á lagðir til þess að afla Vegasjóði tekna og til þess ætlazt, að þeir, sem nota vegina mest, greiði hæst gjald til veganna. Samkv. yfirlitsáætlun Efnahagsstofnunarinnar þarf fjáröflun til hraðbrauta að nema 75.5 millj. kr. árið 1971 og 86.5 millj. kr. árið 1972 til þess að greiða að fullu innlendan kostnað á móti láni Alþjóðabankans. Er í þessari áætlun Efnahagsstofnunar gert ráð fyrir því, að það fjármagn, sem á vantar til greiðslu hraðbrautaframkvæmda á árinu 1969 og 1970, verði greitt með innlendu láni til 15 ára að upphæð tæplega 150 millj. kr., og eru greiðslur vaxta og afborgana af því láni teknar með í þeim útreikningum, sem þessi áætlun er byggð á. Lán hafa nú fengizt í Alþjóðabankanum til hraðbrautaframkvæmda og vélakaupa, sem nema 4.2 millj. dollara. Lán þessi eru tekin samkv. heimild í vegáætlun, og verður 320 millj. kr. varið til hraðbrautaframkvæmda og 45 millj. kr. til vélakaupa fyrir Vegagerðina. Lán þessi eru talin hagstæð. Þau eru til 20 ára og afborgunarlaus fjögur fyrstu árin. Áætlað er að ljúka gerð hraðbrauta austur að Selfossi og upp í Kollafjörð á árinu 1972. Það hefur stundum verið talið hæpið að taka erlent lán til vegagerðar, en aðrir telja það mjög hagkvæmt, þar sem arðgjöf af hraðbrautum sé mjög mikil, þar sem umferðin er mest. Þannig er samkv. Hansaáætluninni talið, að á leiðinni Reykjavík-Kollafjörður sé 48% arðgjöf árlega miðað við, að vegurinn verði með varanlegu slitlagi og góður yfirferðar, og vegurinn austur að Selfossi með 28% arðgjöf miðað við, að hann sé með bundnu slitlagi og góður yfirferðar. Það er talið, að sparnaður á eldsneyti, varahlutum og sliti bifreiða sé mjög mikill og það borgi sig því þjóðhagslega að leggja mikið fjármagn til þess að bæta vegina.

Eins og áður hefur verið getið, munu 45 millj. kr. af því láni, sem tekið verður í Alþjóðabankanum, verða notaðar til kaupa á vinnuvélum til vegaviðhalds. Stærsti liðurinn í þeim vélakaupum er mölunarvélasamstæða til að mala og vinna efni í slitlag á vegum, og mun hún kosta um 15 millj. kr. Samstæða þessi er hliðstæð vélasamstæðu þeirri, sem Vegagerðin keypti fyrir fáum árum og hefur malað efni í slitlög á svæðinu frá Skaftafellssýslu til Húnavatnssýslu. Hin nýja vélasamstæða yrði væntanlega notuð frá Holtavörðuheiði og austur til Vopnafjarðar. Líklegt er, að fleiri slíkar vélar verði keyptar bráðlega. Kostnaður við rekstur slíkrar vélasamstæðu fyrir átta mánaða tímabil nemur 12 millj. kr. á ári. Er enginn vafi á því, að rekstur slíkrar vélar er óumflýjanleg nauðsyn til þess að halda malarvegum í sæmilega akfæru ástandi með vaxandi umferð.

Ýmsar óskir liggja fyrir um endurskoðun á einstökum fjárveitingum á gildandi vegáætlun fyrir árið 1971 og 1972 og eins um það, að teknar verði upp nýjar fjárveitingar á því tímabili. Er gert ráð fyrir því í þessu frv., að allrífleg upphæð verði til ráðstöfunar til nýbygginga landsbrauta og þjóðbrauta og verði þannig hægt að koma til móts við óskir manna í því efni. Mér þykir rétt að taka til umr. hverja gr. þess frv., sem hér um ræðir.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 10. gr. vegalaga, þar sem mælt er svo fyrir, að vegáætlun sé gerð til fjögurra ára, en endurskoðuð, er hún hefur gilt í tvö ár, sbr. 14. gr. vegalaga. Af þessu leiðir, að síðasta áætlunarárið liggur ekkert fyrir um, hvað við tekur næsta ár eða næstu ár. Hefur þetta valdið nokkrum erfiðleikum, sem breytingu þeirri, sem felst í þessari gr., er ætlað að ráða bót á. Samkv. því, sem hér er lagt til, mundi ný vegáætlun til fjögurra ára koma í stað endurskoðaðrar áætlunar til tveggja ára samkv. 14. gr. vegalaga nú. Af þessu mundi leiða, að alltaf væri til áætlun fyrir a. m. k. tvö ár. Telja verður, að slík áætlunargerð verði til þæginda fyrir stjórn vegamála, Alþ. og almenning, því að framkvæmdir hvers árs krefjast tímanlegs undirbúnings. Því er áríðandi að geta ávallt gert nauðsynlegar ráðstafanir, t. d. vegna verkfræðilegs undirbúnings, efnisútvegunar og öflunar vinnuvéla, með góðum fyrirvara, og það er því aðeins unnt, að verkefnin séu ákveðin.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 14. gr. vegalaga, þar sem segir, að vegáætlun skuli lögð fram samtímis frv. til fjárl. Í framkvæmd hefur þetta reynzt miklum erfiðleikum bundið og ekki er talið æskilegt að tengja þetta tvennt fortakslaust saman. Því er lagt til, að orðalagið verði rýmkað nokkuð, þótt að sjálfsögðu sé til þess ætlazt, að till. til þál. um vegáætlun sé lögð fram sem fyrst, eftir að þing hefst.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 15. gr. vegalaga, þar sem kveðið er á um, að ráðh. leggi fyrir Alþ. skýrslu um framkvæmd vegáætlunar við upphaf hvers reglulegs Alþ. Í framkvæmd hefur þetta reynzt ókleift. Alþ. kemur saman fyrir miðjan október, þá er vegaframkvæmdum sama árs víða ólokið og því ekki unnt að gera Alþ. tæmandi grein fyrir því, hvernig framkvæmd vegáætlunar hefur gengið á árinu. Reikningsár Vegagerðar ríkisins fylgir almanaksárinu, og ef gera á skýrslu um framkvæmd vegáætlunar 15. sept. eða 1. okt. miðað við rauntölur fram að þeim tíma og áætlun um það, sem eftir er af árinu, verður ávallt ósamræmi milli slíkrar skýrslu og reikningsins, sem gerður er miðað við áramót. Það leikur vart vafi á, að skýrsla, sem gerð væri nálægt árslokum, mundi gefa Alþ. betri og sannari upplýsingar en skýrsla, sem gerð er, þegar 1/4 hluti ársins er enn eftir.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 17. gr. l. Er hér um samsvarandi breytingu að ræða varðandi sýsluvegaáætlun og lagt er til í 1. gr., að gerð verði á vegáætlun, og þarfnast þessi gr. því ekki sjálfstæðra skýringa.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 23. gr. l. Á næsta ári mun nýtt fasteignamat taka gildi og núgildandi fasteignamat þá tvítugfaldast í flestum tilvikum. Þar sem sá skattgrundvöllur, sem sýsluvegasjóðsgjald samkv. 23. gr. vegalaga miðast við, hækkar þannig stórlega, en ekki er stefnt að auknum álögum, er nauðsynlegt að lækka þá prómilltölu af matsverðinu, sem skattinum nemur. Er lagt til, að talan verði 0.3 af þúsundi af fasteignamatsverði mannvirkja í stað 6, og 0.6 í stað 12 af þúsundi eða 1/20 af því, sem nú er.

Um 6. og 7. gr. frv. hefur áður verið rætt og fram tekið, hvað í þeim felst í sambandi við hækkun á benzínskatti og þungaskatti.

Það skal fram tekið, að nýtt framlag ríkissjóðs er samkv. þessu frv. 47 millj. kr., en ríkissjóður hefur auk þess greitt á árinu 1970 vexti og afborganir af vegalánum, sem nema 82.7 millj. kr. Afborganir eru af þessari upphæð 56 millj. kr. Vaxtagreiðslur munu lækka á næsta ári, en greiðslur ríkissjóðs munu eigi að síður nema í heild á árinu 1971 um 125 millj. kr. Greiðslur Vegasjóðs af vegalánum 1970 voru vextir 4.4 millj. kr. og afborganir 10.9 millj. kr. Má því segja, að ríkissjóður hafi tekið á sig meginhlutann af þeirri byrði, sem af lánunum leiðir, og auk þess talsvert betur, þegar tekið er tillit til nýja framlagsins. Ég geri ráð fyrir því, að flestir telji eðlilegt, að vegáætlun sú, sem nú er í gildi, geti ekki staðizt eftir þær verðbreytingar og launahækkanir, sem orðið hafa. Útgjöld vegna vegagerðar eru að miklum hluta launagreiðslur, þótt talsverð breyting hafi orðið á því, eftir að vélakostur var aukinn og tæknin varð meiri. En með því að lögfesta þær tekjur til Vegasjóðs, sem hér er lagt til, eru Vegasjóði tryggðar stórum auknar tekjur til framkvæmda — tekjur, sem gera það mögulegt að halda hraðbrautaframkvæmdunum áfram, tekjur, sem gera það mögulegt að standa við vegáætlunina, eins og hún var upphaflega samin, og gera auk þess fært að verja talsverðri upphæð til nýrra framkvæmda í þjóðbrautum og landsbrautum, en þess gerist vitanlega þörf. Stöðugt er óskað eftir betri vegum. Umferðin á vegunum vex, og stöðugt þarf meiri vegaframkvæmdir og aukið vegaviðhald.

Ég vil vænta þess, að samkomulag verði um þetta frv. á hv. Alþ. og það fái afgreiðslu nú fyrir jólin. Ég vil mælast til þess, að samgmn. beggja d. vinni saman við athugun málsins til þess að flýta fyrir afgreiðslu þess. Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið að sinni, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn. að umr. lokinni.