28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (4140)

314. mál, Síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins á Siglufirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, ef ég hef farið of fljótt yfir sögu í minni grg. Ég var minnugur orða, sem nýlega voru fallin úr forsetastóli um það, að menn reyndu að stytta sem allra mest mál sitt og verja sem stytztum tíma í fsp. og svör við fsp. Ég skal því alveg leiða hjá mér allt umtal um framtíð verksmiðjunnar og fortið. Ég vil þó segja það, að þann tíma, sem þessi verksmiðja hefur heyrt undir iðnrn., þá hef ég enga ástæðu til þess að áfellast stjórn Síldarverksmiðja ríkisins fyrir stjórn hennar á þessu fyrirtæki og tel þess vegna af þeim ástæðum hnútukast óþarft í hennar garð.

Það hefur verið sagt frá því, held ég, opinberlega, og það kom fram í mínu máli, að unnið er að því að skipa málefnum þessarar verksmiðju til frambúðar, þannig að hún gæti verið sjálfstætt fyrirtæki, þ.e. að atvinnurekstur þessi verði styrktur til þess að vera öruggari vinnugjafi á Siglufirði heldur en ella. En fleiri orðum skal ég ekki um það fara og ekki heldur svara ýmsum ásökunum, sem beint hefur verið í garð ráðh. fyrir það að kaupa ekki síld, sem ég veit ekki, hvað kostar, veit ekki, hvað hægt er að fá mikið af, og veit ekki, á hvað hægt er að selja, eins og málin hafa staðið fram að þessu. Hvernig hún kynni að seljast síðar, vitum við ekki í dag. En ég vil aðeins draga saman til frekari skýringar, svo að það fari ekki á milli mála, sem er aðalefni spurningarinnar, viðbrögð ríkisstj. Þau eru þau í stuttu máli, að þegar var orðið við tilmælum um að ábyrgjast kaup á síld í 4000 tómar tunnur verksmiðjunnar, þegar beðið var um það. Þá var okkur sagt í ríkisstj., að það væri hægt að tryggja kaup á þessu magni fyrir tiltekið verð, sem var mjög hagstætt verð. Svo fór það út um þúfur. Það voru aðeins 565 tunnur, sem þannig var hægt að kaupa. Nokkru síðar kom í ljós, að það voru ekki nema alls 7400 tunnur kryddsíldar í landinu. Þá höfðu þegar, áður en við vissum um, hvað þetta var mikið, verið gerðar ráðstafanir til þess, eins og ég sagði, af hálfu sjútvrh., að ekki yrði seld úr landi kryddsíld, án þess að hagsmunir síldar- og niðurlagningariðnaðarins yrðu tryggðir. Hér verður að hafa í huga, að það eru fleiri verksmiðjur af þessu tagi heldur en verksmiðjan á Siglufirði. En málin hafa aðallega snúizt í kringum hana, og það, sem ég hef svarað, snertir hana. Við erum að reyna að tryggja þessar 7400 tunnur fyrir þennan iðnað í landinu, og til þess þurfum við fyrir mánudaginn kemur að hafa útvegað fyrir fyrirtækið og þá, sem þarna eiga hlut að máli, 18 millj. kr. tryggingu. Af því er gert ráð fyrir, að 2400 tunnur verði sendar strax norður, en að öðru leyti verði beðið samninga um sölu á framleiðslu þessarar verksmiðju og annarra, ef til kemur.

Síðan minntist ég á Svía. Það er ekkert í tilboðum eða skrifum frá þeim, sem bendir til þess, að þeir vilji ásælast þessa verksmiðju, heldur er það að fá verksmiðjuna til þess að vinna fyrir sig úr svo og svo miklu magni af síld, en þeir ætla að leggja til tunnur og annað efni, salt, krydd o.s.frv., ef þeim tækist þá að afla þess, sem við skulum vona, því að þetta er sáralítið magn af kryddsíld, sem saltað hefur verið, en með sæmilegum afla gæti auðvitað við þetta bætzt. Ef af því yrði, óháð því, sem hér hefur verið gert, þá væri þó alltaf með því móti, — sem ég veit ekkert um og skal ekkert fullyrða um, — tryggð 4000 tunna úrvinnsla fyrir verksmiðjuna, úrvinnsla á þessum 2400 tunnum fyrir svo utan 5000 tunnur, sem þá eru eftir af þessum 7400 tunnum, annaðhvort til vinnslu á Siglufirði eða annars staðar, eftir því sem þörf krefur. En hér hefur fyrst og fremst verið höfð í huga þessi niðurlagningarverksmiðja. Við höfum gert það, sem í okkar valdi stendur, til þess að tryggja hráefni í þessa verksmiðju við mjög erfiðar aðstæður. Það er ekki ofmælt, og það er unnið kappsamlega að því að koma þessu fyrirtæki á sjálfstæðan og öruggan rekspöl fjárhagslega í framtíðinni.