28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (4146)

310. mál, Listasafn Íslands

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Hins vegar urðu mér það býsna mikil vonbrigði, að ekki skuli hafa orðið meira úr framkvæmdum í sambandi við þessa þál., því að eins og fram kom af ræðu hæstv. ráðh., þá hefur ekkert í þessu máli gerzt annað en ýmsar viðræður milli ýmissa aðila, eins og hann greindi frá. Mér kom það dálítið á óvart, þegar hann sagði, að það væru uppi ýmsar kenningar um það, hvar ætti að velja Listasafninu stað, því að listaráð samþykkti einróma snemma árs 1969 að leggja fram ósk sína um að fá lóð í Öskjuhlíðinni, og mér er ekki kunnugt um það, að listaráð hafi breytt þeirri afstöðu, þannig að ég hygg, að það sé einróma afstaða listaráðs. Og mér virðist, að það hefðu átt að vera full tök á því, að sú staðarákvörðun yrði bundin fastmælum á þeim tíma, sem liðinn er síðan þál. var samþ., en það er meira en 11/2 ár. Ég vil einnig benda á, að það er mjög erfitt að gera áætlanir um fyrirkomulag slíkrar byggingar og tilhögun aðra, fyrr en vitað er, hvaða lóð hún getur fengið, því að það getur bæði farið eftir stærð lóðar og lögun lóðar, hvernig húsakynni menn hugsa sér, þannig að ef aðeins hefðu legið fyrir næsta örugg vilyrði um, að Listasafnið hefði getað fengið þá lóð, sem það hefur óskað eftir eða sem listaráðið hefur óskað eftir, þá hefði það auðveldað mjög allan undirbúning.

Mér þótti vænt um að heyra það, að hæstv. ráðh. taldi, að þær lagfæringar, sem gerðar hafa verið á Þjóðminjasafnshúsinu, hefðu reynzt vei og þar væri nú allt fulltryggt, eins og hæstv. ráðh. sagði. Því miður verð ég nú að draga það í efa, að þar sé allt fulltryggt. Hitalögnin er engan veginn þannig, að hún hæfi fyrir listasafn. Þar eru ákaflega miklar sveiflur á hitastigi frá degi til dags, og í sjálfum sýningarsölum Listasafnsins er stundum ákaflega kalt, og það vita allir, að slíkar breytingar á hitastigi eru mjög hættulegar fyrir listaverk og skemma þau á vissu árabili.

Í sambandi við aðstöðu Listasafnsins vil ég einnig minna á það, að þegar við ræddum þetta mál hér fyrir tveimur árum eða svo, skýrði hæstv. menntmrh. frá því, að hann teldi þá vera brýnasta verkefnið að útvega geymslur fyrir þau málverk, sem ekki væru sýnd hverju sinni í safninu og aðstöðu til þess að skoða málverk og pakka þeim inn. Hæstv. ráðh. sagði, að lausn á því máli mætti ekki dragast og það væri verið að fjalla um það einmitt þá dagana, sem hann flutti ræðu sína, og ákvörðun yrði tekin innan örfárra vikna. Ég veit ekki til þess, að í þessu hafi neitt gerzt. Ég veit ekki betur en geymslu safnsins séu enn þá í húsakynnum Þjóðminjasafnsins, og eftir því sem eignir safnsins aukast, þá verður að ganga á sjálfa sýningarsalina. Það verður að taka meira og meira húsnæði undir geymslurnar, og hlutfallið á milli þeirra listaverka, sem eru í geymslum, og hinna, sem hægt er að sýna, er orðið algerlega fráleitt, þannig að það hefur lengi verið býsna mikið álitamál, bæði fyrir listamenn og almenning, hvert keppikefli það væri, að listaverk væru falin í geymslum, eins og þar er gert.

Ég vil minna á það, að á okkur hvílir býsna mikil skylda í sambandi við að hraða þessu máli. Listasafn Íslands hefur notið mikillar velvildar frá fjölmörgum aðilum, og það hefur hlotið mjög góðar gjafir, og með því að taka við þeim gjöfum, þá höfum við tekið á okkur miklar siðferðilegar skuldbindingar. Ég vil minna á það, að byggingarsjóður Listasafnsins var stofnaður með myndarlegri gjöf frá Jóhannesi Kjarval. Ég vil minna á hina miklu gjöf Ásgríms Jónssonar listmálara, sem gaf 400 málverk og mörg hundruð teikningar og ætlaðist að sjálfsögðu til þess, að íslenzka þjóðin, sem tók á móti þeirri gjöf, gerði ráðstafanir til þess, að hægt yrði að koma upp húsi, sem hentaði fyrir slíka eign. Margir aðrir einkaaðilar hafa sýnt safninu mikla vinsemd og fært því stórar gjafir, m.a. húseignir hér í Reykjavík. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef húsbyggingarmáli Listasafnsins væri hrundið af stað, þá mundu margir verða til þess að leggja því máli lið, og þó að sjálfsagt sé, að ríkið hafi þar alla forustu, sjálfsagt og óhjákvæmilegt, þá er sjálfsagt að hagnýta sér þá miklu velvild, sem þetta safn nýtur. En það gerum við því aðeins, að við hrindum þessu máli frekar af stað en gert hefur verið að undanförnu.