28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í D-deild Alþingistíðinda. (4150)

312. mál, endurskoðun fræðslulaganna

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Fsp. okkar þriggja til hæstv. menntmrh. er þessi:

„Hvenær verða lagðar fyrir Alþ. niðurstöður nefndar þeirrar, er að undanförnu hefur starfað að endurskoðun fræðslulaganna?“

Síðan þessi fsp. var lögð fram, hefur hæstv. forsrh. flutt stefnuyfirlýsingu ríkisstj. sinnar. Þar er frá því greint, að fyrir þetta þing verði lagt frv. til l. um skólakerfi og fræðsluskyldu og frv. til l. um grunnskóla. Þessum fyrirhuguðu lögum er samkv. upplýsingum forsrh. í sömu ræðu ætlað að koma í stað gildandi laga um skólakerfi og fræðsluskyldu nr. 22 frá 1946, laga um fræðslu barna nr. 34 frá sama ári og laga um gagnfræðanám nr. 48 einnig frá 1946. Með þessari yfirlýsingu eru, eins og hv. alþm. sjá, boðuð ný lagafrv. um þá þætti skólamála, sem fyrst og fremst hafa verið verkefni þeirrar nefndar, sem hér er spurt um niðurstöður frá, og að frv. verði lögð fram á þessu þingi. Þar með má vænta, að niðurstöður nefndarinnar sjái loksins dagsins ljós, og mætti kannske segja, að með þessu sé fsp. okkar að nokkru svarað. Engu að síður sjáum við ekki ástæðu til að draga fsp. til baka með því líka, að ekki er einskis vert, hvenær á yfirstandandi þingi frv. verða lögð fram, því að á miklu veltur, að unnt verði að afgreiða þá lagasetningu á þessu þingi annaðhvort í því formi, sem nefndin leggur til, sem ég ætla, að sé grundvöllur þeirra frv., sem hæstv. forsrh. kynnti, eða einhverju öðru formi, eftir því sem alþm. kann að sýnast réttara við frekari skoðun.

Gildandi lög um þessi efni eru öll frá árinu 1946, eins og ég áðan sagði. Með tilliti til þess, að hér er fjallað um hin þýðingarmestu mál, menntun æskufólksins á tímum aukinnar menntunarþarfar og breyttra kringumstæðna, varðar e.t.v. mestu, að skólakerfið sé ekki látið dragast aftur úr, en til þess að einstakir þm. geti hugsanlega komið fram með þarfar ábendingar, er nauðsynlegt, að þeir fái að vita, hvað fyrirhugað sé af yfirvöldum og þeim, sem bezta yfirsýn hafa yfir þessi mál. Sérstök ástæða er til að hraða því að birta umrætt álit, þar sem lengi hefur verið vitað, að nefnd væri starfandi 3 þessum málum, og ýmsir eru satt að segja orðnir ærið langeygðir eftir því að sjá eitthvað frá þessari nefnd. Vitneskjan um tilvist hennar hefur áreiðanlega í mörgum tilfellum dregið úr frumkvæði manna til þess að lýsa hugmyndum sínum um tilhögun ýmissa þátta menntamálanna. Menn hafa hugsað sem svo, að þar sem svo háttaði til, að nefnd færustu sérfræðinga væri alveg að koma með nýjar tillögur um málin, væri ástæðulaust fyrir menn að koma sínum hugleiðingum á framfæri fyrr en niðurstöður nefndarinnar lægju fyrir. En það hefur dregizt æði lengi. Það þýðir ekki, að ekkert hafi verið gert í menntamálum. Ég er ekki að segja það. Það hafa af og til verið að birtast tilkynningar frá yfirvöldum menntamálanna um hinar og þessar breytingar, sem gerðar hafa verið á framkvæmd gildandi laga, og sjálfsagt eru margar þeirra til bóta. Þær ætla ég ekki að ræða hér. En það er mín skoðun, að það sé réttara að byrja á byrjuninni og breyta þeim undirstöðulögum, sem nú eru orðin 25 ára gömul og öll bygging menntamálanna hvílir á. Ég vona þess vegna, að hæstv. menntmrh. sjái sér fært að gefa okkur ákveðin svör við þeirri fsp., sem hér er til umr.