28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (4151)

312. mál, endurskoðun fræðslulaganna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Nefnd sú, er í fsp. getur, var skipuð af menntmrn. 4. júlí 1969 til þess að endurskoða gildandi lög um skólakerfi og fræðsluskyldu nr. 22 1946, lög um fræðslu barna nr. 34 1946 og lög um gagnfræðanám nr. 48 1946 á grundvelli athugunar, sem þegar hafði farið fram í menntmrn. Í nefndinni eiga sæti Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, formaður, Andri Ísaksson, forstöðumaður skólarannsóknadeildar menntmrn., Gunnar Guðmundsson, skólastjóri Laugarnesskóla, Helgi Elíasson fræðslumálastjóri, Jónas B. Jónsson fræðslustjóri, Kristján J. Gunnarsson skólastjóri og Sveinbjörn Sigurjónsson skólastjóri. Í fjarveru Andra Ísakssonar veturinn 1969–1970 tók Jóhann S. Hannesson skólameistari sæti í nefndinni í hans stað og hefur síðan starfað áfram í nefndinni, eftir að Andri tók þar sæti að nýju.

Nefndin er nú að ljúka störfum og hefur samið tvö lagafrv., frv. til l. um skólakerfi og fræðsluskyldu og frv. til l. um grunnskóla. Hafa frv. þegar verið sett sem handrit. Þegar ríkisstj. hefur athugað þau, munu þau . verða send ýmsum aðilum til umsagnar, og hef ég hugsað mér að efna til fundar þessara aðila, til þess að þeir geti skipzt á skoðunum um frv. Samtímis munu þingflokkarnir fá þau til athugunar. Síðan verði nefndinni ætlaður ákveðinn tími til þess að athuga ábendingar þær, sem kynnu að berast, og gera till. um, hverjar þeirra beri að taka til greina, áður en frv. verða lögð fyrir Alþ. Stefnt er að því, að unnt verði að leggja frv. fram á fyrri hluta þessa þings, þ.e. í síðasta lagi áður en Alþ. fer í jólaleyfi.