28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í D-deild Alþingistíðinda. (4152)

312. mál, endurskoðun fræðslulaganna

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör við fsp. okkar. Samkv. svari hans mætti ætla, að nefnd sú, sem hér um ræðir, hafi ekki haft ýkja langan starfstíma, þar sem hún var skipuð 4. júlí 1969, en þess er þá að gæta, sem einnig kom fram í svari hæstv. ráðh., að nefndin byggði athuganir sínar á grundvelli athugana; sem þegar höfðu farið fram í menntmrn. Þær athuganir hygg ég, að hafi farið fram á þann hátt, að önnur nefnd hafi verið starfandi til endurskoðunar á sama viðfangsefni, og núv. nefnd hafi því tekið við, þar sem hinni sleppti. Sé þetta rangt, bið ég afsökunar á því, og þá verður það eflaust leiðrétt. En ef þetta er svona, sem ég held, að sé, þá sé ég ekki, að þessar upplýsingar breyti því, sem ég sagði hér áðan, að þessi endurskoðun hefur verið furðulengi í fæðingunni.

Að öðru leyti ætla ég ekki að gera hugsanlegar niðurstöður nefndarinnar að umræðuefni. Ég hef ekki skilyrði til þess, ég hef ekki séð þær. Ég fagna því, að nefndin hefur nú lokið störfum og hv. alþm. mega eiga von á því að sjá niðurstöður hennar fyrr heldur en síðar, og sérstaklega tel ég ástæðu til þess að taka vel þeirri nýbreytni, sem hæstv. menntmrh. hyggst viðhafa í þessu sambandi, að senda frv. þingflokkunum til umsagnar, áður en það er lagt fyrir Alþ. Það getur eflaust og mun eflaust greiða fyrir fljótari og heppilegri vinnubrögðum í þessum málum, sem ég endurtek, að eru hin þýðingarmestu. Skal ég svo ekki að öðru leyti gera þau að umtalsefni hér að þessu sinni.