28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (4153)

312. mál, endurskoðun fræðslulaganna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta örstuttum skýringum við ummæli mín áðan um undirbúning málsins í tilefni af því, sem hv. þm. sagði um það. Ég hafði sagt, að störf þessarar nefndar hefðu hafizt í fyrrasumar, sumarið 1969, á grundvelli athugana, sem gerðar hefðu verið í menntmrn. Hann túlkaði þetta þannig, að áður hefði önnur nefnd starfað að málinu. En sannleikurinn er sá, að embættismenn í menntmrn. — þar tel ég skólarannsóknir með — höfðu um nokkurt skeið áður starfað að mjög ítarlegri athugun á þessu máli og unnið mjög mikið undirbúningsverk. Ég hef ekki viljað og vil ekki enn segja, að hér hafi verið um nefnd að ræða, þar sem hér var um starfsmenn rn. að ræða, sem ég hafði falið þetta. (EÁ: Voru það engir aðrir?) Engir aðrir, eingöngu starfsmenn menntmrn. Þeir hafa eflaust rætt við ýmsa menn um þetta, en þeir voru ekki til þess skipaðir sem formleg nefnd og ekki venjan, að því er ég bezt veit, að tala um nefndarskipun, þegar starfsmenn rn. taka að sér ákveðið verk að ósk ráðh., enda t.d. ekkert fyrir það greitt sérstaklega. Þetta er þeirra verk í rn. og sem þeir unnu með hinni mestu prýði. Og sannleikurinn er sá, að þessi undirbúningsvinna hefur gert það mun auðveldara fyrir nefndina, sem skipuð var ekki aðeins starfsmönnum rn. heldur ýmsum mönnum utan rn., hún hefur gert þeim kleift að inna ótrúlega mikið verk af höndum á aðeins rúmu ári. Án undirbúningsvinnunnar, sem áður hafði verið unnin af embættismönnum sem embættisverk, hefði ekki tekizt að inna þessi störf af hendi af jafnmikilli vandvirkni og átt hefur sér stað, og nægir aðeins í þessu efni að vísa til þess, að þegar slík lagaendurskoðun fór fram síðast, þá tók það miklu lengri tíma, og minni ég í því sambandi t.d. á endurskoðun menntaskólalöggjafarinnar, sem tók mun lengri tíma en nefndarstarfið nú, en heildarvinnan hefur tekið mun lengri tíma en nefndarstarfinu nemur. Það er fullkomlega rétt og ekki að ástæðulausu, þegar það er haft í huga, um hversu geysilega flókið og viðamikið efni hér er að ræða.