28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (4158)

313. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Fsp. mín til hæstv. heilbrmrh. er svona:

„Hvaða ráðstafanir hyggst heilbrmrh. gera til þess að ráða bót á þeim skorti hjúkrunarfólks, sem nú veldur því, að nýjar, fullbúnar deildir geta ekki tekið til starfa?“

Tilefni þessarar fsp. er, hvað mig snertir, það, að ég fór í heimsókn á Borgarspítalann í kynnisferð borgarfulltrúa hér í Reykjavík. Þá voru okkur m.a. sýndar tvær nýjar sjúkradeildir, sem voru lokaðar vegna þess, að starfsfólk, hjúkrunarfólk fékkst ekki. Það var annars vegar legudeild við lyflækningadeild spítalans með 18 rúmum og hins vegar svo nefnd gjörgæzludeild, þar sem fyrir hafði verið komið mjög dýrum og fullkomnum tækjum til þess að vaka yfir lífi manna, ef svo mætti segja, eftir uppskurði t.d., svæfingu, eða þegar menn veikjast snögglega af hjartasjúkdómum og ýmsum fleiri alvarlegum sjúkdómstilfellum. Þá var enn fremur upplýst á viðkomandi sjúkrahúsi, að álagið á skurðstofufólkinu væri óheyrilegt. Þar voru aðeins fimm hjúkrunarkonur, sem störfuðu að verkefnum, sem 12 hjúkrunarkonum væru ætluð samkv. fjárhagsáætlun spítalans. Svo koma sumarleyfin, sögðu menn og hugsuðu til þeirra með hryllingi, því að svo erfitt sem það er að halda sjúkrahúsinu gangandi að öllu venjulegu, kastar þó fyrst tólfunum, þegar nokkur hluti sjúkraliðsins þarf að fá sitt venjulega og lögboðna sumarfrí. Mér fór þá að verða hugsað til þess, hvort þetta væri einsdæmi á Borgarsjúkrahúsinu eða hvort ríkissjúkrahúsin væru nokkuð undir sömu sök seld. Og ég hef fengið hér upplýsingar frá skrifstofu ríkisspítalanna. Niðurstöðurnar, — það verður að fara fljótt yfir sögu hér, því að tíminn er naumur, — eru þær, að heimilaður fjöldi samkv. fjárlögum er 1901/2 hjúkrunarkona, en í starfi í dag eru 1551/2. Samkv. þessu vantar því 35 hjúkrunarkonur til þess að fylla upp í fjárlagaheimild, og ég held, að mér sé óhætt að segja það, að fjárlagaheimildin sé ekki of rúm. Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir, kom björgunin, að því er virtist. 39 nýjar hjúkrunarkonur voru útskrifaðar úr Hjúkrunarskólanum, og ég hélt þá, að þar með mundi þetta leysast.

En því miður er fleira að athuga heldur en þetta og þá fyrst það, að 1967 gerði Kjartan Jóhannsson verkfræðingur á vegum fjmrn. athugun á því, hvé margar hjúkrunarkonur væru í starfi, hve margar hefðu horfið frá störfum, athugun á starfsaldri hjúkrunarkvenna og framtíðarhorfum á grundvelli þeirra athugana, eins og þar segir. Rannsókn þessi leiddi í ljós, að 34% útskrifaðra hjúkrunarkvenna hverfa frá starfi sama ár og þær eru brautskráðar. En að tveimur árum liðnum hafa 6056 þessa hóps horfið frá starfi, og aðeins 23% starfa að loknum námstíma, þar til þær hætta sökum aldurs. Þá er enn fremur þess að gæta, að Hjúkrunarskólinn var 1967 stækkaður þannig, að hann getur nú tekið á móti 80–90 nemendum í einu, og samkv. upplýsingum skólastjórans, Þorbjargar Jónsdóttur, sem birtar eru í tímariti Hjúkrunarfélags Íslands, í 2. og 3. hefti þessa árs, þá voru árið 1968 nýir nemendur yfir 80. En svo segir hún, — Þetta er nú því miður á dönsku, en ég hef snúið þessu á íslenzku:

„En á síðasta ári neyddumst við til að skera töluna niður í 60 þrátt fyrir mikla aðsókn. Útskrifaðir nemendur í ár og næsta ár verða ca. 85 og um 80 1971, en tæpast útskrifast fleiri en 50–60 nemendur 1972, og þetta dugar tæpast til að mæta þeirri miklu eftirspurn eftir hjúkrunarkonum, sem nú er fyrir hendi.“

Hún segir í þessari grein, að það sé hægt að kenna 80–90 nemendum í einu og að skólinn hafi nægilegt rými bæði fyrir bóklegu kennsluna og nógu mörg pláss á sjúkrahúsunum fyrir þá verklegu og stóran hóp umsækjenda með betri og samræmdari undirbúningsmenntun en fyrr, sem bíður eftir skólavist. Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir, segir hún, að við verðum í framtíðinni að takmarka nemendafjöldann verulega, kannske jafnvei nú í haust, þar sem gífurlegur skortur er á hjúkrunarkennurum. Fleira er athyglisvert í þessari grein; sem ég hef að sjálfsögðu ekki tíma til að kynna þm. í stuttum ræðutíma í fsp.-formi, en ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri í upphafi, heldur vil ég heyra svör hæstv. heilbrmrh. við því, hvað hann hyggst gera til þess að mæta þessum vanda, en segi kannske nokkur orð hér á eftir.