28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (4163)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 44 um úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks. Eins og kunnugt er hv. þm., bar ég fram frv. til l. á síðasta þingi um jöfnun aðstöðu þess fólks, sem sækja þarf skóla frá heimili sínu með ærnum kostnaði, og hins, sem á þess kost að sækja skóla kannske í gegnum allt skólakerfið frá barnaskólum og upp í gegnum öll námsstig frá heimili sínu eða réttara sagt að heiman án sérstaks aukakostnaðar við það. Þetta frv. mitt lá í meðförum þings og n. allan þingtímann í fyrra, en fékk ekki afgreiðslu, en hins vegar voru teknar 10 millj. kr. inn á fjárlög til jöfnunar þessa mismunar, og var með því sýndur litur á því að fullnægja þessu máli á nokkurn hátt, þó með allsendis ófullnægjandi fjárupphæð. Það varð mér ljóst þegar í byrjun. Nú er mér sagt, að rn. hafi sett menn í það að hugleiða, hvernig ætti að skipta þessari 10 millj. kr. upphæð, og muni vera skammt á veg komið með það verk, og svo mikið er vist, að engar styrkveitingar hafa, svo að mér sé kunnugt, átt sér stað til jöfnunar þess misréttis, sem þarna er um að ræða, og veit ég ekki, hversu langt þessu starfi í rn. er komið. Nú er spurningin um það, eftir hvaða reglum þessu fé hafi verið eða verði úthlutað af rn. hendi, og er fyrri liður spurningarinnar um það. En að öðru leyti langar mig til þess að fá að vita, til hvers reynslan af þeim gögnum virðist benda, sem liggja nú fyrir, um fjármagnsþörf til þess að jafna á sómasamlegan hátt það misrétti, sem námsfólk á við að búa vegna þessa aðstöðumunar. Vænti ég góðra og greiðra svara af hendi hæstv. ráðh. um það, því að það gæti gefið nauðsynlegar vísbendingar um það, hvaða tökum verður að taka þetta mál, til þess að misrétti þetta verði úr sögunni að mestu eða helzt öllu leyti.