28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (4165)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar, sem hann hefur gefið varðandi fsp. mínar, og harma það hins vegar, að enn þá virðist ekki vera komið til framkvæmda að verja þessum 10 millj. kr., sem þó voru veittar á fjárlögum yfirstandandi árs til þess, að svo miklu leyti sem sú fjárhæð gat hrokkið til, að draga úr því misrétti, sem námsfólk á við að búa vegna aðstöðumunar að þessu leyti.

Ég hrekk í raun og veru ekkert við, þó að ég heyri nefndar 48 millj. kr., sem til þess þurfi að jafna þennan aðstöðumun ungs fólks til lærdóms og mennta. Ég bjóst alltaf við, að til þess þyrfti háa upphæð, ef jafna ætti þann aðstöðumismun að nokkru gagni. Þetta var mér ljóst sökum þess, að hér er um átakanlegt og mikið misrétti að ræða. Það er þung byrði á því heimili, sem þarf í fyrsta lagi að koma tveimur til þremur börnum á barnaskólastiginu í skóla til heimavistar eða ráðstöfunar utan heimilis með öðrum hætti. Það nemur tugum þúsunda á hvert barn. Ef svo fer á framhaldsskólastigi, að einn eða tveir nemendur eru frá sömu fjölskyldu, verður þar einnig um að ræða hátt í 100 þús. kr. bara vegna þess, að það þarf að kosta unglingana í skóla fjarri heimili og borga þar heimavistarkostnað eða kostnað á heimili, sem unglingunum yrði komið fyrir á. Þessi mismunur er umfram þann efnahagslega mismun, sem svo getur verið um að ræða, en ég býst við, að okkar þjóðfélag sé nú ekki komið svo langt enn, að það treysti sér fremur á þessu sviði heldur en öðrum til að jafna aðstöðumun vegna efnahags, og væri það þó sannarlega æskilegt, að við værum þar lengra á braut komnir. En þegar hitt bætist við, er sérstök ástæða til þess að gera allt, sem þjóðfélagið getur, til þess að jafna þennan aðstöðumun, sem fsp. mínar og frv. frá því í fyrra miðaðist við.

Það er átakanlegt að vita til þess, að góð mannsefni geti ekki haldið áfram á menntabraut vegna mismunandi efnahags. En það er enn þá átakanlegra, þegar sumir verða einnig að neita sér um menntun og menntunaraðstöðu vegna þess, hvar þeir eru búsettir í landi okkar. Og það var sá aðstöðumunur, sem ég vildi með frv. því, sem ég flutti í fyrra, reyna til að fá jafnaðan að verulegu leyti, svo að viðhlítandi mætti teljast, með fjárframlögum úr ríkissjóði. Þörfin var svo brýn og átakanleg, að hún var viðurkennd með þessari litlu upphæð, 10 millj. kr., og það hefur orðið til þess, að gögn sýna nú, að þá upphæð þyrfti raunar sjálfsagt a.m.k. að fimmfalda.